Einstök fornleifarannsókn á Seyðisfirði

Vefnaður Seyðisfjörður

Mönnum er enn í fersku minni skriðuhamfarirnar á Seyðisfirði 18. desember 2020, þegar skálin í fjallinu utanvert í byggðinni á Seyðisfirði sunnanverðum tæmdi sig að hluta eftir fordæmalausar rigningar - sem væntanlega má tengja heimshitnun.

Miklar eyðileggingar urðu á mannvirkjum og menningarverðmætum, en mikil ólýsanleg mildi var að ekki varð manntjón. Þrátt fyrir margir íbúar hafi verið fluttir frá hættusvæði sem skilgreint var, voru á þriðja tug manna á svæðinu þegar aurskriðurnar féllu. Má segja að tilviljun og Guðs mildi (ef hann má yfirleitt nefna) hafi orðið þeim til bjargar.

Vegna ráðstafanna til að hamla frekari skriðuföllum, var svæðið rannsakað af fornleifafræðingum undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur frá fornleifafræðistofunni Antikva ehf. Undir aurnum komu fljótt í ljós gamlar bæjarrústir frá því á  landnámsöld fram til 1100, sem og frá yngri tíma, t.d. mylla og í kaupbæti happaþrennuvinningur fornleifafræðingsins sem á þessu verstu og hættulegustu tímum er forn kumlateigur; fjögur kuml þar með talið bátskuml. 

Sumrin 2021 og 22 hefur Ragnheiður rannsakað svæðið með dugmiklum hóp. Frábærir fundir hafa komið í ljós undir skriðunni miklu sem féll þ. 18. desember 2020. Rannsóknin og aðferðir Ragnheiðar eru til fyrirmyndar og gerir gamla fornleifafræðinga sem ekki grafa nema hér á Fornleifi græna af öfund.

Fornleifur kallinn hefur haft tök á því að fylgjast með á FB síðu rannsóknarinnar og FB Ragnheiðar, sem hann réði til starfa til Þjóðminjasafns sem verkefnasérfræðing. Þar ílentist hún ekki frekar en svo margt annað gott fólk.

Ekki síst hafa þrívíddarmyndir af fornleifunum sem gerðar voru með aðstoð sambýlismanns Ragnheiðar, dr. Knut Paasche, sem er fornleifafræðingur og vinnur í rannsóknarstöðu hjá NIKU (Norsk Institutt for Kulturminneforskning) vakið verðskuldaða athygli. Skoðið þær á FB rannsóknarinnar.

Næla Seydisfj

Mesta athygli forstöðumanns Fornleifs vakti þó spennandi haugfé kumlverjanna. Ragnheiður sýndi alþjóð meðal annars forláta tungunælu úr gröf konu og gat sendisveinn Fornleifssafns fljótt sagt að hún væri í Borre-stíl (sem Kristján Eldjárn kallaði Borró-stíl), einum af stílbrigðum sögualdar (víkingaaldar), og sýnt að álíka eintak er til á British Museum (sjá frekar hér)  sem safnið keypti árið 1990 af Lord Alistair McAlpine heitnum (síðar Baron of West Green, sem um tíma aðstoðarmaður Margaret Thatcher), sem og önnur (eftirlíking) til sölu á netmarkaðinum ETSY.  

Næla Alistair McAlpines

Nælan, sem British Museum keypti af aðstoðarmanni Margaret Thatcher (verð er ekki gefið upp). Hún virðist steypt í nær sams konar mót og nælan frá Seyðisfirði og festingar aftan á eru á sama stað á báðum gripunum. Nælan er 9,7 sm. að lengd. Mynd British Museum. Fyrir neðan: Eftirlíking seld á netinu.

316203999_2689161991217958_6006833648923082009_n

Merkar perlur, ásamt nælunni sýna í fljótu bragði svipaða mynd og Bjarni Einarsson dregur úr jörð á Stöðvarfirði, en líkt og þar hefur ekki komið upp einn einasti gripur undan skriðunni sem er eldra en um 850 e.Kr. Það er því varla nokkuð landnám fyrir landnám á Seyðisfirði frekar en á Stöð Bjarna Einarssonar, enda það fyrirbæri hálfgert skriðufall og grillufang í íslenskri fornleifafræði eins og Keltafárið sem Fornleifur hefur ritað um í tveimur nýlegum færslum.

Brot úr forláta silfurhring er einnig meðal haugfjár og forláta perla með gullþynnu sem verið er að greina af færustu sérfræðingum Norðurlanda. Jafnvel held ég að þarna sé "Auga Allah perla",  sem voru komnar í umferð á Íslandi og fannst ein slík í Stöðvarfirði. En sú perla kemur hvorki Allah né Arabíu við líkt Stöðvarmenn ímynda sér (sjá hér). Handverksmenn víkingaaldar kunnu ýmislegt fyrir sér í perlugerð og sörvin voru ekki aðeins borin að konum. Karlar á Íslandi báru mjög gjarnan perlur og hana nú.

245636665_172913585041735_4676844868672351315_n

perlekjede-scaled

Perla með gullívafi

Úrval af perlum frá Seyðisfirði. Neðsta perlan, sem er sýnd hér mikið stækkuð, er melónulaga perla með innlagðri gullþynnu. Ljósmynd. Antikva ehf./Fjörður-Seyðisfjörður fornleifar (FB).

Aðaldýrgripurinn (sjá myndina efst við þessa grein), sem fundist hefur við rannsóknir Ragnheiðar Traustadóttur og hennar hóps eru vefnaðarleifar sem fundust í einu kumlanna undir aurnum. Það er einstakur fundur á Íslandi, og þó víðar væri leitað. Enn er verið að rannsaka þær leifar og sér Ulla Mannering textílfræðingur við Þjóðminjasafn Dana m.a. um þær rannsóknir og ætla ég því lítið frekar að tjá mig um vefnaðinn. Ulla Mannering gat varla með orðum lýst ánægju sinni með að vera með í verkefninu á Íslandi er ég hringdi í hana í gær. 

Ein af þeim eðalpjötlum sem fundist hafa í einum af kumblunum eru leifar af ofinni flík (kyrtli?) sem greinilega hefur verið blár upphaflega. Fagur spjaldofinn renningur  gulum og rauðum lit er saumaður á kant klæðisins. Mynstrið minnir á norskan spjaldvefnað frá víkingaöld og mynstur á t.d. kúrdískum teppum síðar meir.

315963809_20fiördur hluti af vefnadi

Betra getur það því ekki orðið, og fornleifafræðingur vart orðið heppnari en Ragnheiður Traustadóttir - þó fornleifafræðin fjalli ekki um að detta í lukkupottinn og finna fjársjóði, líkt og halda mætti að hafi í raun og veru gerst þegar þessi rannsókn vindur upp á sig. Ragnheiður er vel að þessari lukku kominn, enda dugnaðarforkur hinn mesti. Engin yfirnáttúruleg fjölkynngi eða dómadags rugl einkennir fornleifafræðistörf hennar. Ég óska henni farnaðar við áframhaldandi rannsóknir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Þetta er frábær grein hjá þér. Takk fyrir.

Birgir Loftsson, 16.12.2022 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband