Gamli golfvöllurinn við Minni Öskjuhlíð og Mjóumýri ... og Hvassaleiti

i-Tc7hdRJ-X2

depositphotos_2829666-stock-photo-golf-ball  Nýlega rakst ég á þessa frábæru mynd hér fyrir ofna á vefsíðunni Golfmyndir.is. Hún var á meðal mynda úr safni feðganna Ingólfs og Hans Isebarn.

Kylfingur, (sem mér finnst afar ljótt orð), er að fara að munda kylfuna í pútt á þeim hluta vallarins sem var enn fyrir framan nýbyggð raðhús í Hvassaleiti. Myndin sýnist mér að sé tekin kringum 1962, en þá voru foreldrar mínir (og ég og systur mínar) enn ekki flutt í eitt af húsunum þarna að baki kylfingsins. Foreldrarnir keyptu húsið fokhelt af föðurbróður Björgvins Halldórssonar, sem ekki réð við kostnaðinn. Björgvin mun hafa búið þarna hjá föðurbróður sínum í einhverja mánuði. Sá hét Ásgeir og móðir mín kallaði því ávallt eitt herbergja hússins Ásgeirsherbergi, og þar mun alþýðudrengurinn Bjöggi "Bó Hall" hafa sofið. Síðar var þetta herbergi mitt í um 14 ár, eða þar til ég flutti utan til náms árið 1980. Enn mun vera reimt þarna í herberginu. Annað hvort syngur Bó Hall, eða ég leik á langspil - eða við tökum lagið saman.

Screenshot 2023-02-14 at 09-29-56 Kylfingur - 1. tölublað (01.09.1938) - Tímarit.is b

Til er minjaskráningarskýrsla, þar sem fjallað er um gamla golfskálann, sem var nærri Háuhlíð, þar sem grá bygging Veðurstofunnar var reist margt síðar. Skýrslan fjallar einnig um aðrar minjar í Minni Öskjuhlíð. Golfskáli Golfklúbbs Íslands, sem var vígður af Ingrid prinsessu og Friðriki erfðaprinsi 1. ágúst árið 1938, er nú löngu horfinn, en ég man vel eftir húsinu.

Screenshot 2023-02-14 at 09-30-40 Kylfingur - 1. tölublað (01.09.1938) - Tímarit.is

Ingrid prinsessa kemur til vígslu skála Golfklúbbs Íslands árið 1938. Ljósmyndirnar tvær hér ofar eru úr félagsblaðinu Kylfingi 1938.

Minjaskráningarskýrslan inniheldur ýmsar leiðar villur. T.d. er því haldið fram að Borgarleikhúsið hafi verið þar sem golfvöllurinn var. Svo var ekki. Bæði Kringlan og Borgarleikhúsið risu úti í mýrinni eða efnisnámu sem þar hafði orðið til. Þar sem leikhúsið er var ágæt mýrarmoldarnáma. Líkast til er verslunarskólinn þar sem hægt var að ná sér í góða mýrarmold.

Merkur höldur einn danskur, Søren M. Bøgeskov að nafni, sem var enn með smábýli vel fram á 7. áratuginn þar sem Rauðakross-húsið er nú og lítið eitt austan við það og sunnan, nýtti sér þessa mold, sem og faðir minn sem sótti þar mold í garðinn okkar, þegar hann varð til um 1966-67. Fékk hann m.a. hjálp til þess af Frits (Frederik) Haverkamp garðyrkjumanni í Hveragerði, sem var heitttrúaðasti gyðingur Íslands á þeim árum.

Leifar golfvallarins voru enn nýttar af mönnum sem púttuðu fram á 8. áratuginn og í lok þess 7. æfði frægur kringlukastari þar köst sín. Eitt sinn týndi hann einni kringlunni sinni og var hún í vörslu minni sumarlangt þangað til móðir mín skilaði henni til réttra aðila. Kúlukastari, hreinn sveinn, æfði þarna köst síðar á 8 áratugnum, þegar hann var ekki að aka strætisvagni. Ég er alveg viss um að ég hafi séð hann kasta yfir 20 m. og jafnvel að setja heimsmet þarna á síðustu holum gamla golfvallarins.  

Við krakkarnir í Hvassaleitinu, sem bjuggum í borgaralegum raðhúsum, með útsýni yfir "grín" Golfklúbbs Íslands, notuðum þetta svæði mikið til leikja. Synir smáborgaranna sem áttu golfútbúnað léku þarna golf þegar grasið hafði verið slegið. Við sem áttum feður sem ekki hugnaðist slík letingjaíþrótt, fengum stundum allranáðugast að prufa nokkur högg og pútt. Þar með lauk þeirri dellu og hafði ég aldrei síðan hina minnstu löngun til að "leika" golf. Fyrr hefði ég þegið nám í sekkjapíku, en boð um að stunda golf með heildsölum og smásálum.

Síðar í lok 8. áratugarins arkaði maður yfir mýrina og yfir tvíspora Kringlumýrarbrautina í alls kyns veðrum og færð til að komast í MH. Stundum var fært á hjóli. Vetur voru ekki eins snjóléttir þá og á 9. áratugnum og reið ég þá í menntaskólann með latínustílana handa Teiti Ben á Apachehjólinu mínu (sjá hér).

gamla hjólið

Þess ber að geta, að minningarfærsla þessi varð til þökk sé Eflingu og lögmanni samtakanna. Hann er Isebarn að ætt. Þegar ég ætlaði að grafast fyrir um ættir hans (sem að hluta til koma frá Noregi), þá rakst ég á golfmyndina efst, þar sem ættingi hans er að pútta snemma á 7. áratugnum.

Einhvern tímann munu Eflingarliðar hugsanlega hafa efni á að leika golf, en ekki fyrr en þeim verða greidd mannsæmandi laun. Má ég frekar mæla með kringlukasti. Þess ber að geta að verslunarmiðstöðin Kringlan ber ekki nafn eftir fyrrnefndri kringlu kringlukastarans, sem átti gamlan táfýlu-Skoda, heldur hét mýrin að hluta til Kringlumýri, og brautin þar vestan við varð náttúrulega að Kringlumýrarbraut.

Þar sem Morgunblaðið var um tíma til húsa í Kringlumýrinni,  áður en flutt var allt austur í Hádegismóa, var oftast nær stærsta áramótabrenna borgarinnar. Sagt er að menn hafi oft fundið reykjarlykt neðan úr neðsta kjallara á Moggahúsinu við götuna Kringlu. Eitthvað var að minnsta kosti að brenna við. Önnur merkari brenna var einnig á gamla golfvellinum, rétt norðan við þann stað, þar sem Listabraut og Efstaleiti skerast í dag, ekki nema langt pútt suðaustur af þeim stað sem Isebarn á myndinni efst er við það að slá kúluna.

Eitt sinn reiknaði ég út, hvert Mogginn væri kominn árið 2121 ef alltaf skyldi horfið til austurs með sama hraða og gerðist á 20. og snemma á 21. öld. Mér reiknaðist svo til, að blaðið hefði þá herstöðvar sínar undir Eyjafjöllum eða í Þórsmörk. Það verður ekki dónaleg að birta smásálarlegar árásir á vinnandi fólk á þrælakaupi undan Eyjafjöllum.

Áfram Efling, þar var fallegt að sjá lögmanninn Isebarn fara holu í höggi fyrir Eflingu. Kallast það ekki fara á pari yfir fálka?

Screenshot 2023-02-15 at 06-23-46 Íslandsmót 1944

Benedikt Bjarklind og Robert Waara í Skagafirði 1944. Myndin er fengin að láni á Golfmyndir.is

Það er athyglisvert að skoða blaðið Kylfing á fyrstu árum þess og sjá alla smákaupmennina og heildsalana með "handycap" og ættarnöfn sem stunduðu þessa íþrótt í árdaga hennar á Íslandi. Þarna voru Kjaran, Bernhöft, Kvaran, Fjeldsted og Bjarklind.

Bandaríkjamaður, sem kom með hernum, finnskur gyðingur að uppruna frá Michigan, Robert Otto Waara (að nafni, rak á fjörur félagsins og hann kenndi mönnum eitt og annað nytsamlegt. Waara var skrifstofublók í hernum og hafði augljóslega tíma aflögu til að kenna Íslendingum eitt og annað í þessari merku íþrótt sem Skotar halda fram að sé fundinn upp af þeim, þó svo að elstu golfkylfurnar hafi nefnilega fundist í Hollandi. Waara tók meðal annar þátt í gólfmóti í Skagafirði árið 1944. Það var þó ekki hans vegna að í kjallaranum í golfskálanum í Minni Öskjuhlíð var útbúið finnskt sauna. Ýmsar "safaríkar" sögur fóru af finnsku baði golfklúbbsins, allt þangað til að sú baðmenning komst víðar í notið á Íslandi. En áhugi á félaginu og golfíþróttinni var að sögn fróðra manna óneitanlega þessu baðhúsi félagsins að þakka.

Waara kvæntist íslenskri konu Ólafíu Sigurveigu Sigurbjörnsdóttur (1916-2004). Saman ráku þau golfvöll og svokallaðan country-club í Falmouth. Afkomendur þeirra búa vítt og breitt um Bandaríkin.

Ola Waara

Ola (Ólafía) Waara

Waara

Waara með tveimur börnum sínum

Braggabyggingar Breta og Bandaríkjamanna, í og við golfvöllinn í Reykjavík, var Golfklúbbi Íslands greinilega mikið áhyggjuefni árið 1944 eins og sjá má í þessu bréfi. Sumir þessara bragga, og rústir annarra, voru enn uppistandandi í minni æsku á svæðum kringum golfvöllinn. Bøgeskov bóndi hafði nýtt sér einn þeirra eða endurbyggt, en flestir stóðu þeir úti í móa eins og við strákarnir í Hvassaleitinu kölluðum það svæði sem þeir voru á sunnan við hitaveitustokkinn. Þar hefði þurft að rækta upp land til að hafa þar golfvöll. Ég man að einum bragganna var bílaverkstæði.

Hér var ekki farin hola í höggi eins og í finnsku baðstofunni forðum, enda frá mörgu að segja.

Rannsóknir mínar á golfkúlum um 1971

Mig langar þó að ljúka þessu golfhjali mínu með skýrslu um rannsóknir mínar á golfkúlum sem ég fann á víðavangi á Gamla golfvellinum í Reykjavík. Mig langaði að vita, hvernig þessar kúlur voru búnar til. Ég skar nokkrar þeirra upp eins og fornleifafræðinga er siður. Sumar sprungu hálfgert með einhverju púðri sem var innan í þeim, en aðra þeyttu af sér lögum af gúmmíteygjum með mikilli ákefð, þegar ytri skelin var farinn af og þrýstingur leystist úr læðingi. Undust þá tægjurnar af með frethljóði og eftir var að lokum ómerkilegur, lítill gúmmíbolti innst í kúlunni. Ég er ekki viss um að allir kylfingar viti þetta, en því má bæta við að kúlurnar eru gerðar á annan hátt í dag.

Farið nú ekki að skera kúlurnar ykkar nema að þið hafið forgjöf eða að þið hafið rekist á lítinn birdie úti í móa.

Screenshot 2023-02-15 at 08-50-00 Öskjuhlíðarvöllur

Hér sést gamli golfvöllurinn árið 1962 og raðhúsin í Hvassaleiti sjást í bakgrunninum. Kylfingar eru sagðir vera á fyrsta teig en Fornleifur telur að hann hafi verið nokkru vestar. Mynd úr safni Arnkels Bergmanns Guðmundssonar á Golfmyndir.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan dag Fornleifur. Ég les oftast pistlana þína mér til fróðleiks. Hér rek ég augun í Benedikt Bjarklind föðurbróður minn. Hann var nú reyndar hvorki smákaupmaður né heildsali heldur var hann fulltrúi borgarfógeta og stórtemplar. Og jafnframt var hann hinn mætasti maður og góður við smælingja. En við Bjarklindar verðum að bera þann bagga að hafa þetta ættarnafn þökk sé ömmu sem var Hulda skáldkona. Hún lék aldrei golf.

Með kveðju.

Sigurður Bjarklind.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 19.2.2023 kl. 13:50

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Sigurður, það fengu svo sem aðrir að vera með í golfi, upp á náð. Ég kynntist annarri Bjarklind, en það var ekki í golfi. Ég var sendisveinn hjá RÚV og hún var þulur. Eitt sinn lenti ég í lyftunni með frú Bjarklind og móður Sólveigar Jónsdóttur Eflingarleiðtoga,Ragnheiði Ástu heitinni. Þær voru mjög kátar á leið úr vinnu. Gerður Bjarklind spyr mig, hvar ég fái svona gott permanent um leið og hún stakk vísifingri upp í einn slöngulökk minn - sem var 100 % ekta. Þá var vitaskuld ekkert MeToo kjaftæði og nú er málið fyrnt. En ég var í alvarlegu sjokki, ungsveinninn - í einn dag eða svo, eftir þetta áreiti gegn mér af hendi töluvert eldri konu í sívölu lyftunni á Skúlagötu 4.

FORNLEIFUR, 19.2.2023 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband