Færsluflokkur: Kvikmyndafornleifafræði

Vegir liggja til allra átta

GirlGoGo1-1600x900-c-default

  Vissuð þið lesendur góðir, að tveir bandarískir hermenn á Keflavíkurflugvelli lentu í miklu basli vegna þess að þeir léku í kvikmyndinni 79 af stöðinni árið 1962? Líf hermannanna var að ákveðnu marki lagt í rúst. -

  Nei, auðvitað vitið þið ekkert um það; Og hvernig ættuð þið svo sem að vita það? Nöfn þeirra eru meira að segja enn rituð rangt á öllum listum yfir leikara myndarinnar, þótt einn þeirra hafi sannast sagna verið mun betri leikari en Gunnar Eyjólfsson.

Hér verður borin fram stór og mikil kvikmyndfornleifafræði-langloka. Fyrir þá sem eru fyrir litlar og lummulega samlokur með miklu gumsi og stóryrðasalati, þá gæti þetta orðið erfið lesning. Það verður farið vítt og breitt og til allra átta.

Þessi lestur er því ekki fyrir óþolinmótt fólk sem ekki getur lesið nema eina málsgrein án þess að leggjast í rúmið af kvölum. Reynt hefur verið að létta lesturinn með mörgum myndum og tónlist.

Sagan byrjar í Árósum

Sagan byrjar fyrir minna en mánuði síðan, í lok júlímánaðar 2020 í Árósum, næststærstu borg Danmerkur.

Árósar voru þá ekki búnir að hljóta hina vafasömu útnefningu Smittens By í stað gamla gælunafnsins Smilets By sem bærinn gengur jafnan undir, án þess að nokkur viti af hverju.

Ég og litla fjölskyldan mín vorum í heimsókn í Árósum hjá mágkonu minni, sem býr í gömlu húsi í miðbæ Árósa, rétt norðan við árósinn (sem er reyndar aðeins einn), sem bærinn hefur hlotið nafn sitt af.

Snemma morguns læddist ég og kona mín út til að ná í morgunbrauð í góðu bakaríi á horni Badstuegade og Rosengade, þar sem á okkar skólaárum var ágætt missjónskaffihús, þar sem áfengi var úthýst og jafnvel heiðingjum líka.

Þegar ég sit á dyrapallinum og er að fara í skó, heyri ég einhvern opna hurðina á hæðinni fyrir ofan og ganga niður. Ég vík vel fyrir eldri manni á tröppunni til að halda allar COVID-19 siðareglur. Maðurinn var að fara út eins og við og líklega til að kaupa inn eða ná sér í dagblað.

Ég virði manninn aðeins fyrir mér og heilsa honum fyrir kurteisi sakir. Þegar konan og ég erum líka komin út, hef ég strax á orði að maðurinn komu kunnuglega fyrir sjónir. Ég taldi mig muna andlit hans frá Árósaárum mínum (1980-1993). Frú Irene fussaði og tók þessu fálega eins og einhverju karlagorti.

Þegar við snúum aftur úr verslunarferðinni er mér litið á nafnskiltið á jarðhæðinni. Þar sé ég, að á hæðinni fyrir ofan systur konu minnar, býr maður maður sem heitir Arne Abrahamsen. Það kveikir strax á perunni, því hann hef ég hitt og vissi hver hann var.

Abrahamsen kom við á Stöng í Þjórsárdal í ágúst 1984, þegar ég og aðstoðarmaður minn Einar Jónsson, vorum að grafa nokkur snið í skálarústirnar þar. Hann kom í fjögurra manna hópi sem var að gera sjónvarpsmynd fyrir DR (Danmarks Radio) sem er systurstofnun RÚV í Danmörku.

Vinna á Stöng b

Einar Jónsson við teikningu um það leyti sem Arne Abrahamsen kom í heimssókn á Stöng. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Titill myndarinnar, sem var sýnd um haustið árið 1984, var En rejse til Island i Martin A. Hansen og Sven Havsteen-Mikkelsens Hjulspor. RÚV hafði útvegað danska liðinu stóran Land-Rover jeppa gegn því að myndin yrði síðar send að kostnaðarlausu í íslenska sjónvarpinu.

Abrahamsen og co 1984Ég sá aðeins lítið brot af þættinum haustið 1984 í litlu svart-hvítu sjónvarpi sem ég átti á þeim tíma, er ég bjó í lítilli einstaklingsíbúð á stúdentagarði í úthverfi Árósa.

Þegar kona Arne Abrahamsens hafði verið mikið veik á sjúkrahúsi í vetur, færði mágkona mín honum mat, og fyrir það var hann henni mjög þakklátur. Þegar við vorum komin heim eftir Árósaför setti Birgitte mágkona mín mig strax í samband við Abrahamsen.

Arne varð ekki lítið glaður yfir því að ég hefði þekkt hann eftir 35 ár eða tengt hlutina svona hratt saman. Hann skrifaði mér strax þegar hann hafði heyrt söguna frá Birgitte, og minningarnar voru margar.

Hann sendi mér handrit að tillögu að þættinum sem hópurinn hafði notað árið 1984 og ég er búinn að lofa að sækja hann heim næst þegar ég kem til Árósa, til að sjá með honum þáttinn, sem hann á diski.

Arne og 79 af Stöðinni

Fyrir utan ferðalög danska þáttargerðafólksins á Íslandi árið 1984, langaði Abrahamsen greinilega að segja mér frá frægðarför sinni til Íslands á yngri árum sínum.

Ég varð aðeins á undan, þar sem ég var búinn að njósna um hann á Google. Þar hafði ég þegar séð að hann hafði einnig verið 2. ljósmyndari við kvikmyndatökur á 79 af Stöðinni, skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, sem var kvikmynduð eftir handriti Guðlaugs Rósinkranz, sem var í forsvari fyrir íslenska kvikmyndafélaginu Saga-Film. Myndinni var leikstýrt af Erik Balling, sem síðar var meðal fremstu kvikmyndaleikstjóra Dana.

1962 .08.20, 79 af stödinni-holdetLjósmynd sem Arne Abrahamsen sendi mér og sem sýnir hluta af teyminu sem vann við tökur á 79 af Stöðinni. Abrahamsen situr í neðstu röð lengst til hægri.

Gamla manninum líka gott að sjá, að hann væri ekki alveg gleymdur í tengslum við 79 á stöðinni. Erik Abrahamsen var vinnan í tengslum við myndina á Íslandi greinilega mjög minnisstæð og nefndi hann í því samhengi í tölvupósti sínum að í myndinni hefðu leikið tveir Bandaríkjamenn af Vellinum, sem hefðu verið látnir fjúka úr flotanum fyrir að hafa tekið þátt í gerð myndarinnar. Það voru fréttir fyrir mig. Nú kviknaði áhugi yfirritstjóra Fornleifs, sem aldrei þótti mikið til 79 af stöðinni eða Indriða G. Þorsteinsson koma. Ég man þegar ég sá myndina fyrst í Sjónvarpinu árið 1970. Mér þótti hún leiðinleg og langdregin.

Pigen Gogo var kanamella

Fyrst verður að minna á að Gógó Faxen, sem Kritbjörg Kjeld lék, var ekki beint nein óspjölluð jómfrú, heldur vel þroskuð kona sem samkvæmt íslenskum lýð hafði framið einn versta glæp sem sögur fóru af á Íslandi, áður en Íslendingar uppgötvuðuð barnaníðinga, rotna útrásavíkinga og fóru að sýkna morðingja í löngum bunum í hreinum leiðindum sínum.

Kvikmyndin 79 af stöðinni var fyrsta alvöru kvikmyndin sem alfarið var kvikmynduð á Ísland, fyrir íslenskt fé, var eins og áður segir framleidd í Danmörku af danska leikstjóranum Erik Balling. Félagið Saga-Film var stofnað til að halda utan um myndina og til að kría fé út úr íslenskum fjárfestum. Fyrir því félagi fór Gunnlaugur Rósinkranz.

1962 07.05. 79 af Stödinni, ørkensekvens 08

Greint var frá myndinni í dönskum vikublöðum sumarið 1962. Myndin er vinsamlegast send mér af Arne Abrahamsen

Indriði G. Þorsteinsson var höfundur bókarinnar sem verkið byggði á, en hann lét að Gunnlaug Rósinkrans um að útbúa leikbúning þess. Hinn nýlátni tónlistastjóri Bent Fabricius-Bjerre, sem þekktastur mun vera fyrir titillagið í Olsen Banden myndunum, stjórnaði hljómsveitinni dönsku sem lék tónlist Jóns Sigurðssonar og Sigfúss Halldórsson með glæsibrag. Þetta var á Íslandi talin vera "alíslensk" klassamynd fullsett fyrirtaks dönsku kvikmyndafólki sem eftir var að gera það gott í Danmörku og DDR. Á dönsku fékk myndin heitið Pigen Gogo. Hún var sýnd í Danmörku, en aldrei fyrir fullum sölum þar frekar en í Svíþjóð þar sem hún var einnig á prógramminu.

Ég man helst hve leiðinlegur eltihrellir Gunnar Eyjólfs (Ragnar á leigubílnum) var; Og svo man ég að Ómar Ragnarsson var statisti í myndinni eins og Dr. Gunni hefur svo smekklega bent á í einni af doktorsritgerðum sínum:

Þetta er annars nokkuð fyndin mynd, þá aðallega því það er svo gaman að sjá allt í gamla daga. Flosi og Bessi Bjarnason eru þarna ungir og hressir í leigubíl og Ómar Ragnarsson sést snarvitlaus í nokkrar sekúndur káfa á brjóstunum á einhverri dömu á leigubílastöðinni.

Að sögn Ómars sjálfs tók um tvo tíma að taka leik hans upp, en mestmegnið af því var klippt í burtu. Súrt sjóv það

Ommi 1962

Tvö af tíu andlitum Ómars, sem hann sýndi þjóðinni í Fálkanum árið 1962. Hann var hins vegar eins og hvutti í 79 á stöðinni.

Ómar sem nasi

Ég verð líklega einnig að láta Dr. Gunna lífga upp á minni mitt og neytenda langloku Fornleifs, hvað innihald myndarinnar varðar - þó svo að Dr. Gunni sé merkilegt nokk mér miklu yngri maður. Hann gerir það alveg listavel og nú man ég allt um 79 af Stöðinni og meira til.

Dunhagi 19 bDunhagi 19 nú á tímum - og sumarið 1962. Arne Abrahamsen sendi mér neðri myndina sem birtist í B.T.

1962 07.15. 79 af Stödinni, BilledBladet , s.2n 01

Svo segir Dr. Gunni: Horfði aftur á 79 af stöðinni til að endurnýja kynnin við fræga nágrannahurð mína hér á Dunhaganum [Viðb. Fornleifur: umræddar dyr voru á íbúð Gunnlaugs Þórðarsonar og frú Herdísar Þorvaldsdóttur]. Þetta er sögulega mikilvæg hurð því Ragnar á leigubílastöðinni hangir á henni lon og don til að komast inn til Gógó Faxen sem býr fyrir innan.

Gunni á Gógó

Gógó er í ástandinu og þegar Ragnar kemst að því verður hann brjálaður sem von er og ekur til mömmu sinnar í sveitinni (því þar er lífið, ekki í solli borgarinnar, skv. gildum myndarinnar og Indriða). Það endar ekki betur en svo að hann keyrir út af og deyr. Sem betur fer hafði Ragnari tekist að njóta ástarmaka við Gógó nokkrum sinnum áður. Kynlífsatriðin hafa eflaust valdið umtali 1963, en virka í dag ísköld og máttlaus, enda liggur Gunnar Eyjólfsson hreyfingarlaus ofan á Kristbjörgu Kjeld eins og hraðfrystur nautaskrokkur. 

Yndislegt. Dr. Gunni má eiga það, að hann getur peppað upp óáhugaverðugustu söguþræði, en hann gerir sér þó ekki grein fyrir því að "ástandið" var aðeins í gangi á stríðsárunum. Áður en menn gera allar konur að "Kanamellum" í ástandi, er vert að muna að eftir stríð völdu margar íslenskar konur Bandaríkjamenn fram yfir Íslendinga. Af hverju voru þær afgreiddar sem billegar dræsur af Íslendingum? Hrokakarlar telja sig eiga konur og eru því alltaf hræddir við útlendinga.

Um Kanamellur

En samúð Fornleifs er hins vegar öll hjá dátum og meintum "Kanamellum", en ekki hjá herforingjum, vængbrotnum íslenskum sveitarasistum og heimalningum, eða þeim Íslendingum sem fengið höfðu þá flugu í hausinn að Bandaríkjamenn væru á Íslandi til frambúðar fyrir Íslendinga - þeim sem fengu áfall hér um árið þegar Verndarinn fór bara!

Ég kenni þó alltaf dálítið til með Ómari R, sem notaði svo mikinn tíma í upptökur á 79 af Stöðinni við að gramsa á brjóstum kvenna suður á Velli.

En það er að "Kanamellur" hafa verið krossfestar af skyldleikaræktuðum lýð, sem ekki gerðu sér grein fyrir að konur sem "fóru í Kanann" voru ósjálfrátt að reyna að flikka upp á illa slitið genamengi Íslendinga.

2-79-SP01-3

Mannaval á Íslandi leiddi meðal annars til "ástands".

Kanarnir í 79 á Stöðinni og hefnd Sáms frænda

Þeir léku Alþýðublaðið

Á lista yfir leikara kvikmyndarinnar kemur fram að í henni hafi leikið tveir Bandaríkjamenn, John Tasie og Lawrence Schnepf.

Við vinnslu myndarinnar í Kaupmannahöfn, eða jafnvel fyrr, hefur einhverjum orðið á í messunni. Eftir þó nokkra leit mína að þessum mönnum og örlögum þeirra í BNA kom í ljós að þeir hétu í raun John D. Tacy (1926-1984) frá Lawrence í Massachussets og Lawrence (Larry) Win Schneph frá bænum le Mars i Iowa.

John Tacy lék byttuna Bob með miklum tilþrifum í 79 af Stöðinni. Svo góður þótti leikur Tacys, sem ranglega var kallaður Tasie, að tekið var við hann hann viðtal í gamla Vísi í águst 1962, sjá hér.

Tacy Mbl

John Tacy

Myndin sem hafði fengið metaðsókn á Íslandi, spilaði sig inn á nokkrum vikum á Íslandi, þar sem þúsundir manna sáu hana í Háskólabíó og Austurbæjarbíói. Í Danmörku gekk hún ekki eins vel.

En mesta athygli hlaut myndin væntanlega í Bandaríkjunum. Það var greint frá efni hennar í tímaritinu Variety. Endursögn á innihaldi greinarinnar var t.d. í Daily News í New York 26. apríl 1963:

Becker i New York

Umsögn Variety, og jafnvel kvikmyndin sjálf, hleyptu illu blóði þingmann fulltrúardeildar bandaríska þingsins, Frank J. Becker frá New York, sem var harðkristinn repúblíkani af þýskum ættum. Eftir síðara stríð létu slíkir menn góð bandarísk gildi og ameríska þjóðerniskennd mjög til sín taka. Greinin í dagblaðinu Daily News í New York þann 26. apríl 1963, lýsir vel hvernig Becker og skoðanabræður hans á hægri vængnum í BNA litu á myndina, þó þeir hefðu örugglega aldrei séð hana. Becker hunsaði líka upplýsingar flotans sem komu frá manni sem varð heimsfrægur sem talsmaður hers BNA í Víetnam:

The Variety review said the movie was lousy anyhow but that the appearance of the American ”officers” had made the front pages in the Swedish Press. The Navy reexamination of the affair followed receipt of Becker´s letter.

Assistant Defense Secretary Arthur Sylvester said that he did not have the name of the information officer who asked for, but never received a copy of the script. But Sylvester said Lt. (j.g) Lawrence W. Schnepf, then an ensign, and Electrician’s Mate 1 Cl. John Tracy had obtained permission and appeared as actors in the film.

Schnepf, a reservist, will complete his active duty tour in June, Sylvester said, while Tacy is a career enlisted man. Sylveser said the information officer had been assured there was nothing derogatory in the script.

Becker, sem eins og margir kanar ruglaðist á Svíþjóð og Danmörku, taldi hins vegar myndina koma ljótu orði á Bandaríska herinn og að hermennirnir væru eins konar föðurlandssvikarar þar sem þeir hefðu leikið erindreka lands síns í einskennisbúningi sem fyllibyttur (Tacy) og kvennaflagara sem eltust við íslenskar stúlkur og jafnvel eiginkonur (Larry).

Becker þessi var maður sem var vanur að taka til sinna ráða. Hann kom því til leiðar að bandarísku hermennirnir sem léku með í 79 af Stöðinni (Gogo the girl) var úthýst úr bandaríska hernum. Gaman væri að fá frekari upplýsingar um það. Sjá frekar um málið hér.

Danska blaði BT og sænsk blöð greindu frá þessum snörpu viðbrögðum í Bandaríkjunum, sem ritað var þó nokkuð um í BNA. Í kjölfarið voru Morgunblaðið og Alþýðublaðið með fréttir af málinu.

Viðbrögð Indriða G. Þorsteinssonar

Miðað við þá þekkingu sem maður hefur á framsóknarmanninum Indriða, sem fæddur var árið 1926 og sem síðar á ævinni var mjög utarlega til hægri í skoðunum, þá sýnist mér að Indriði hafi samt, líkt og margir Íslendingar haft frekar loðnar kenndir til erlends hers á Íslandi. Þó voru viðbrögð Indriða nokkuð sérstök. Í nýrri blokkíbúð sinni norðarlega í Stóragerði í Reykjavík tók hann sig til og ritaði Frank J. Becker þingmanni. Það kom fram í Mbl. 27. apríl 1963.

Ummæli Indriða

Þessu skrif Indriða til repúblikanans Becker lýsa hugsanlega manngerð Indriða, sem var blanda af rithöfundi, ritstjóra, leigubílstjóra, sveitapilti sem varð að götustrák sem vildi áfram í heiminum, til að verða milljón dala ríkur og frægur - eins og Björk varð síðar, og Arnaldur sonur hans enn síðar.

 

Ekki aðeins Bandaríkjamenn gerðu ráðstafanir

Íslensk yfirvöld (eða ákveðinn flokkur) töldu að 79 á Stöðinni væri einfaldlega of djörf fyrir landsbyggðina. Þau eintök sem sýnd voru utan Reykjavíkur höfðu verið ritskoðuð. Einum þóttu bólferðir Gunnars Eyjólfs og Kristbjargar Kjeld vera hættulegar landbyggðarfólki. Ímyndið ykkur hve hátt hefði verið hlegið ef menn hefðu séð hve líflaust kynlífið var fyrir Sunnan.

Skorið af úti á landi

Örlög vegna kvikmyndar

Ég hafði samband við góðvini mína hjá CIA og FBI (sem Indriði G. sá í hverju horni á Keflavíkurflugvelli og var oft tíðrætt um er hann var við skál eða þurfti að láta á sér bera á Hressó).

Ég fékk upplýst að Tacy hafi lengst af búið í N-Karólínu og Virginíu, þar sem hann andaðist 2. maí 1984 - aðeins 58 ára að aldri.

Tacy var samkynhneigður (jamm, allt er FBI með nefið í), og hafði hann haldið áfram að starfa a fjölum leikhúsanna. Hann vann/lék um tíma með leikhópi sem var undir stjórn þekktra og hálfþekktra leikara frá New York, m.a. Donald Renshaw, sem lék í einhverjum kvikmyndum áður en hann leikstýrði í London og Þýskalandi. Þessi leikhópur ferðaðist um Virginíu og víðar. Tacy hafði einnig greint frá því árið 1962 í viðtali sínu við Vísi að hann hefði starfað við leikhús í Memphis í Tennessee.

Vonandi hafa endaloks hans sem sjónvarpsmanns, og eins og frumkvöðlum Kanasjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli, ekki haft of slæm áhrif á líf hans.  Hann andaðist í borginni Alexandríu í Virginíu.

Íslendingar mærðu sjálfa sig meðan að Tacy og Schneph gleymdust

19621031i1p19-hq

Hvorugum leikaranna af Vellinum var boðið í frumsýningarveislu Saga-film árið 1962. Larry var um það leyti að fara aftur til síns heima og John hafði verið settur í "sóttkví" uppi á velli, þar sem hann vann nokkra mánuði, enn sem þulur á Channel 8, Kanasjónvarpinu.

Við börnin á Reykvískum menningarheimilum, þar sem ekki var alið á sjúklegu Kanahatri og fordómum um börn sem "fæðast dökk með snúinn fót" suður á Velli, horfðu á Roy Rogers, Trigger og týnda kjötfarsið á þeirri stöð, nærri því frá blautu barnsbeini. Afi minn, Vilhelm Kristinsson, sem var Reykvískur heiðurskrati, fékk sér sjónvarp til að horfa á Kanana árið 1963 og ári síðar foreldrar mínir. Á Kanasjónvarpið var mikið horft þangað til mild ásjóna Vilhjálms Þ. Gíslasonar birtist á alíslenskum skjá. Ríkisjónvarpið kom þó aldrei í veg fyrir að amerísk menning flæddi áfram út í Reykvískar stofur á sjónvarpslausum fimmtudögum, og heldur ekki teiknimyndirnar sem sýndar voru alla laugardagsmorgna. Teiknimyndirnar urðu örugglega til þess að maður talar síður enskuna með íslenskum fjárhúsahreim. 

Þess ber að lokum að geta, að fyrir utan starf sitt við sjónvarpsstöðina á Keflavíkurflugvelli var John Lacy mikið partýljón og með í country-western hljómsveitinni Eagle Westerners sem tróð upp á Keflavíkurstöðinni.

Þið sjáið gripinn hér fyrir neðan á ljósri treyju, þar sem hann virðist klípa í rassinn á Lovísu Bílddal (síðar Reusch) söngkonu frá Siglufirði, sem andaðist í Orlando í Florida árið 2003 eftir að hafa búið lengst af búið í Illinois (Chicago-svæðinu). Til vinstri við hana sést gríðarlega kanalegur gæi. Það var þó enginn annar en bassaleikarinn Erlingur Jónsson, síðar þekktur sem myndhöggvari. Hann var að Vestan og var faðir Ásgeirs Erlingssonar sem las latínu í MH með ritstjóra Fornleifs. Ásgeir, sem kallaði sig löngum Rossó Greifa, lék einnig listavel á bassa. Þó ekki sveitarokk.The Eagle Westerners

Heimurinn er lítill - og margir verða útundan - en allir skipta þó máli. Einnig útlendingarnir sem Íslendingar fyrirlitu, nema einna síst ef þeir voru Þjóðverjar eða gyðingamorðingjar á flótta, og viðurkennið það nú - Íslendingar eru ekkert betri en aðrar þjóðir. Og þegar vantar einhverja til að hatast út í á Íslandi, t.d. dauða útlenska presta, er hatur lagt á þjóðir við botn Miðjarðarhafs.

Ég er nokkuð viss um að Indriði G. Þorsteinsson, og margir íslenskir karlmenn á hans aldri, hafi séð sjálfa sig í sveitamanninum sem gerðist leigubílstjóri og dó vegna (fjall)konu sem hafði "fallið". Indriði sýndi okkur birtingarmynd fordóma í garð kvenna og útlendinga. Persónulega tel ég að bréf hans til Frank J. Beckers þingmanns í Bandaríkjunum hafi verið hreinn og beinn tvískinnungur.  


Baltageymslan á Horni

Það leiðinlegasta og ömurlegasta sem til er, eru Víkingakvikmyndir. Þær gefa nær alltaf ranga og ógeðfellda mynd af "víkingum", nema þetta skot Monty Pythons.

Sumt fólk dáist að ribböldum og morðingjum og vilja að þeir fái uppreist æru nokkrum árum eftir að þeir fremja morð og annan skunda. Áhuginn á Barbara-víkingum eins og þeir eru sýndir í þessum soðmyndum, sem flestar eru nú framleiddar í hinum menningarsnauðu Bna, á skylt við áhugann sem sumar konur sýna fjöldamorðingjum sem þær vilja ólmast giftast. Kafbátaperrinn í Danmörku var ekki fyrr kominn undir lás og slá en að fangavörður í fangelsinu vildi búa með honum. Víkingamyndir eru sem sagt viðfangsefni fyrir sálfræðinga. Ef maður hefur áhuga á þeim, er best að panta sér tíma sem fyrst hjá hnetubrjótnum.

Myndir eftir Kormák eru heldur ekki nein upplifun. Víkingakvikmyndir eru flestar subbulegar og þeim fylgir sóðaskapur. Hrafn inn limaskorni skildi einnig eftir rusl í Drangshlíð þar sem forfeður mínir bjuggu á 18. öld, fyrir löngu þegar nafni hans fór á flug undir klettunum. Maður hafði þó lúmskt gaman af Krummamyndunum. Danska myndin Rauða skikkjan, sem að hluta til var tekin upp á Íslandi, var einnig óborganleg fyrir þá sem stúdera vildu rennilása á leikbúningum og víkinga með úr.

Á Íslandi bjuggu reyndar aldrei neinir víkingar að ráði, hvorki með eða án "þrælageymslu". Kvikmyndaheimurinn er búinn að búa til einhvern bjórdrukkinn, síðnauðgandi sadista með húðflúr, tíkarspennur eða fléttur í skegginu - sem höfðar til  nútímafólks, sem er ekki lengur með það á hreinu hvort það sé karl eða kona. Það er kallað gender-óöryggi.

Vonandi verður hægt að rústa þessu setti sem fyrst og að landeigandi fái ríflegar bætur fyrir misnotkun á velvilja hans. Ef ekki, er ljóst að þetta hrynur allt, og þá þarf að láta fornleifafræðinga grafa það upp - sem er fokdýr andskoti og setur fljótt skitin kvikmyndafyrirtæki í Hollywood og Sánkti Barbara á hausinn, ef þau eru þá ekki þegar farin á hausinn.

Nú verður El Balto að standa sig. It´s clean-up-time - Es hora de limpiar la mierda.

Annars lendir Kormack í þrælageymslunni úti á Horni fyrir verstu landspjöll sem unnin hafa verið síðan að víkingar komu til Íslands árið 801 og byggðu sér svo kallaða Stöð, til að geta flutt ósaltaðan og ófreðin fisk, (þ.e. er skreið), til landa sem fluttu út skreið. Svo iðkuðu þeir afbrigðilegt kynlíf með 79 stellingunni á Stöðinni. Ágæt kvikmynd var reyndar búin til um það á síðustu öld, og lék Pétur Gautur aðalhlutverkið.


mbl.is Víkingaþorpið staðið autt í níu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandskvikmynd Evu Braun og aðrar minna þekktar Íslandskvikmyndir úr ferðum KdF

 

Forðum er Eva Braun og Hitler sátu í byrginu í Berlín, horfðu þau kannski á síðustu dögum sínum á minningar úr ferð Evu til draumalandsins Íslands. Hvað gera samlynd hjón þegar þau eiga ekki sjónvarp og stunda ekkert kynlíf? Adolf og Eva horfðu á kvikmyndir Evu langt undir strætum Berlínar. Þau Eva og Adolf náðu að vera hjón í tæpar 40 klukkustundir í apríl 1945. Um leið og þau átu Sauerkraut (pizzur voru ekki til og Adolf var vitaskuld grænmetisæta) dáðust þau af Gullfossi og Geysi og miklum fjölda langferðabíla á Ísland.

Íslandsferð Evu í júlí 1939 með þýska farþegaskipinu Milwaukee þekkja Íslendingar orðið harla vel síðan að Hörður Geirsson á Akureyri greindi fyrst frá henni á 10. áratug síðustu aldar.

Eva Braun sigldi með skipinu Milwaukee og ferðin var skipulögð af "menningar"- samtökum nasista sem kölluð voru Kraft durch Freude, og var skammstafað KdF.

Kvikmynd Evu má sjá hér fyrir ofan (íslenskt efni hefst 3 mín. og 14 sek. inn í myndina).

Til eru tvö önnur kvikmyndabrot frá Íslandi, sem tekin voru í ferðum KdF. Ég hef hvorki heyrt um þau eða séð þau áður, þó vera kunni að þau séu vel þekkt á Íslandi. En ég læt þau samt flakka hér. Myndbrotunum hefur verið safnað af AKH (Agentur Karl Höffkes) í bænum Gescher í Þýskalandi og má sjá á vefsíðu fyrirtækisins.

Hér er fyrst samansafn myndbrota. Fremst er brot sem sagt er vera frá sumrinu 1936. Það er tekið á siglingu Milwaukees með félaga nasistahreyfingarinnar KdF. Ef litmyndin á eftir Íslandsmyndinni er frá sama ári og Íslandsferðin fremst á syrpunni, hefur AKH orðið á í messunni, því hún sýnir Heimssýninguna í New York sumarið 1939. Það útilokar þó ekki að myndbrotið frá Íslandi sé frá 1936.

Eftirfarandi kvikmyndabrot er hins vegar ekki dagsett, en er líklega hvorki úr ferðinni sem Eva Braun fór sumarið 1939, né þeirri ferð árið 1936 sem kvikmyndin hér að ofan var tekin í. Brotið frá Íslandi hefst 3,36 mínútur inn í myndasyrpuna. Síðar í syrpunni eru myndir frá Ísafirði, að því er ég best fæ séð.


Íslandskvikmynd Franz Antons Nöggeraths hins yngri 1901

cameramand_b.jpg

Er ekki hreint bölvanlegt til þess að hugsa, að fyrsta kvikmyndin sem tekin var á Íslandi árið 1901 sé nú týnd og tröllum gefin? Kvikmyndin hefur að minnsta kosti enn ekki fundist. Lengi töldu menn að kvikmynd frá konungskomunni árið 1907 (sjá hér) væri fyrsta kvikmyndin sem tekin var á Íslandi. Síðar kom í ljós að árið áður hafði verið tekin kvikmynd sem sýndi slökkvilið Reykjavíkur við æfingar. Miklu síðar upplýsti Eggert Þór heitinn Bernharðsson okkur fyrstur um elstu kvikmyndir útlendinga á Íslandi í Lesbókargrein. Eggert skrifaði m.a.:

"Sumir útlendinganna komu jafnvel gagngert í þeim tilgangi að kvikmynda á Íslandi. Svo var t.d. árið 1901, en þá kom maður að nafni M [Leiðrétting Fornleifs: Rétt fornöfn eru Franz Anton]. Noggerath [Rétt eftirnafn er Nöggerath], útsendari breska myndasýningarfélagsins Gibbons and Co. í Lundúnum. Hlutverk hans var að taka myndir sem félagið ætlaði sér að sýna víðs vegar um heim með fyrirlestrum um einstakar myndir. Ætlunin var að ná myndum af fossaföllum, hveragosum, vinnubrögðum, íþróttum o.fl., en þó sérstaklega af hvalveiðum Norðmanna við landið. Tökumaðurinn kom hins vegar of seint til þess að geta tekið myndir af þeim veiðiskap. Einnig var hann full seint á ferð til þess að geta tekið myndir af ferðamannaflokkum. Það þótti miður því slíkar myndir voru taldar geta haft mikla þýðingu í þá átt að draga útlendinga að landinu enda voru lifandi myndir sagðar eitt öflugasta meðalið til þess að vekja athygli þeirra á Íslandi, náttúrufegurð þess, sögu og þjóðlífi. "

f_a_noggerath_b.jpg

Í Þjóðólfi var þannig 20. september 1901 greint frá komu Nöggeraths (mynd til vinstri) á þennan hátt: „Það er enginn efi á því, að væru slíkar myndasýningar frá Íslandi haldnar almennt og víðs vegar um heim, myndu þær stórum geta stuðlað að því, að ferðamannastraumurinn til landsins ykist, og gæti þá verið umtalsmál, að landsmenn sjálfir styddu að því á einhvern hátt, að myndir af þessu tagi gætu komið fram sem fjölhæfilegastar og best valdar.“ (Sjá hér). Og ef menn halda að ferðamannaástríðan í nútímanum sé ný af nálinni, þá skjátlast þeim illilega.

Sá sem tók Íslandskvikmyndina árið 1901 hét Franz Anton Nöggerath yngri (1880-1947). Hann var af þýskum ættum. Faðir hans og alnafni (1859-1908), sjá ljósmynd hér neðar, fæddist í Noordrijn-Westfalen í Þýskalandi, en fluttist ungur til Hollands með fjölskyldu sína og tók þar þátt í skemmtanaiðnaðinum í den Haag og síðar í Amsterdam. Nöggerath eldri átti og rak t.d. revíuleikhúsið Flora í Amstelstraat í Amsterdam, þar hófust fyrstu kvikmyndasýningarnar í Hollandi árið 1896, þar sem hin dularfulla Madame Olinka, sem ættuð var frá Póllandi, sýndi kvikmynd í október 1896.

Nöggerath eldri sá þegar hvaða möguleikar kvikmyndin gat gefið og komst í samband við Warwick Trading Company í London og gerðist árið 1897 umboðsmaður þeirra í Hollandi, Danmörku og Noregi. Hann flutti inn sýningarvélar og tæki til kvikmyndagerðar, og lét gera fyrstu kvikmyndina í Hollandi. Í september 1898 fékk hann enskan tökumann frá Warwick Trading Company i London og lók upp ásamt honum mynd af herlegheitunum kringum krýningu Wilhelmínu drottningar (sjá hér og hér). Sýning myndarinnar varð fastur liður í öllum revíusýningum á Flora til margra ára. Nöggerath tók einnig aðrar myndir fyrir aldamótin 1900 og eru sumar þeirra enn til. Leikhúsið Flora brann til kaldra kola árið 1902, en þá hóf Nöggerath eldri að sýna kvikmyndir í Bioscope-Theater í Amsterdam, sem var fyrsti salurinn sem gagngert var byggður til kvikmyndasýninga í Hollandi.franz_anton_noggerath_sr_1859-1908_-_dutch_film_pioneer_1279557.jpg

Franz Anton Nöggerath yngri var sendur til náms í kvikmyndagerð á Bretlandseyjum. Vitað er að hann tók kvikmynd sem fjallaði um 80 ára afmæli Viktoríu drottningar í Windsor árið 1899 og vann við gerð kvikmyndarinnar The Great Millionaire árið 1901, áður en hann hélt til Íslands til að gera Íslandskvikmynd sína. Anton yfirtók bíóiðnað föður síns að honum látum, og áður en yfir lauk voru kvikmyndahús fjölskyldunnar orðin mörg nokkrum borgum Hollands. Bróðir Franz Antons jr., Theodor að nafni (1882-1961), starfaði einnig lengi vel sem kvikmyndatökumaður.

Þar sem myndin með slökkviliðinu í Reykjavík fannst hér um árið, verður það að teljast fræðilegur möguleiki, sem reyndar eru ávallt litlir á Íslandi, að kvikmynd Franz Antons Nöggeraths, sem hann tók á Íslandi sumarið 1901, finnist. Það yrði örugglega saga til næsta bæjar - að minnsta kosti til Hafnarfjarðar, þar sem kvikmyndasafn Íslands er til húsa. Á vefsíðu þess safns er ekki að finna eitt einasta orð um Nöggerath. En það verður kannski að teljast eðlilegt, þar sem enginn hefur séð myndina nýlega.

Þökk sé hollenska kvikmyndasögusérfræðingnum Ivo Blom, þá þekkjum við sögu Nöggeraths og þó nokkuð um kvikmynd þá sem hann tók á Íslandi sumarið 1901. Blom hefur m.a. gefið út grein sem hann kallar The First Cameraman in Iceland; Travel Film and Travel Literature (sjá hér), þar sem hann greinir frá fjórum greinum sem Nöggerath yngri birti árið 1918, í apríl og maí, um ferð sína til Íslands sumarið 1901. Greinar Nöggeraths birtust í hollensku fagblaði um kvikmyndir, sem kallað var De Kinematograaf. Nöggerath hélt til Íslands á breskum togara, Nile frá Hull. Hann kom til landsins í september og líklega of seint til að hitta fyrir þá ferðamenn sem hann langaði að kvikmynda á Íslandi, þar sem þeir spókuðu sig á Þingvöllum og við Geysi, sem Nöggerath hafði lesið sér ítarlega til um. Nöggerath sótti heim ýmsa staði á Íslandi.

rb_england_to_iceland_29_geysir_copyright_v_v.jpg

Þannig greinir Nöggerath frá Geysi í Haukadal í íslenskri þýðingu:

Við létum nærri því lífið sökum forvitni okkar. Í því að við vorum að kvikmynda gíginn og miðju hans, heyrðum við skyndilega hræðilegan skruðning, og leiðsögumaðurinn minn hrópaði, 'Fljótt, í burtu héðan'. Ég bar myndavél mína á herðunum, og við hlupum eins hratt og við gátum og björguðum okkur tímanlega. En allt í einu þaut Geysir upp aftur af fullum krafti, og gaus; við höfðum ekki horfið of fljótt af vettvangi. Þannig eru hætturnar sem verða á vegi kvikmyndatökumanna ....En ég hafði náð markmiði mínu: Hinn mikli Geysir hafði verið kvikmyndaður!

_ingvellir_wood_1882_d_copyright_v_v.jpg

Þingvellir fengu ekki eins háa einkunn hjá Nöggerath:

Kirkjan á Þingvölum var sú aumasta af þeim kirkjum sem við höfðum heimsótt áður á Íslandi; fyrir utan kirkjuna í Krísuvík. Kirkjan er mjög lítil, mjög óhrein og gólfið illa lagt hrjúfum hraunhellum ... Þingvellir hafa hlotið frægð fyrir að vera staðurinn þar sem þing og aðrar samkomur Íslendinga fóru fram forðum daga. Fáar minjar hafa hins vegar varðveist sem sýna þann stað sem var svo mikilvægur fyrir sögu Íslands.

rb_england_to_iceland_34_hekla_copyright_v_v.jpg

Hekla olli einnig Nöggerath vonbrigðum. Halda mætti að hann hafi viljað fá túristagos:

Þegar við komum til Heklu, varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Fjallið var friðsælt og hljóðlaust. Ég fékk þegar þá tilfinningu að ferð mín hefði verið til einskis. Þegar ég klifraði upp að tindi Heklu með myndavél mína, var snjór það eina sem sjá mátti í gíg fjallsins. Við tjölduðum nærri fjallinu, og næsta dag héldum við áfram ferð okkar án þess hafa séð nokkuð fréttnæmt.

Kvikmynd Nöggeraths frá Íslandi var í apríl 1902 fáanleg til sýninga hjá kvikmyndafélaginu Warwick Trading Company. Myndinni fylgdu þessar yfirskriftir:

Hauling the Nets and Landing the Catch on an Iceland Trawler; Fun on an Iceland Trawler, Landing and Cleaning of a Catch on an Iceland Trawler, C!eaning the Fish and Landing a Shark, Gathering Sheep, Women Cleaning Fish for Curing and Women Washing Clothes in Hot Wells.

Í myndinni var sena, þar sem íslenskir sjómenn spúluðu hvern annan til þess að losna við slor og hreistur. Samkvæmt minningum Nöggeraths árið 1918 höfðu áhorfendur einstaklega gaman af þeim hluta myndarinnar og að sögn hans seldist fjöldi eintaka af myndinni.

Við getum látið okkur dreyma um að þessir vatnsleikir íslenskra sjómanna séu einhvers staðar til og að þeir hafi ekki fuðrað upp.

Ítarefni:

Ivo Blom 1999. 'Chapters from the Life of a Camera-Operator: The Recollections of Anton Nbggerath-Filming News and Non-Fiction, 1897-1908'. Film History, 3 (1999), pp. 262-81. [Minningar Nöggeraths voru upphaflega birtar í Hollenska fagblaðinu De Kinematograaf. Greinar Nöggeraths um Ísland birtust í eftirfarandi tölublöðum De Kinematograaf:  9 (12 Apríl 1918); 10 (19 Apríl 1918);11(26 Apríl 1918); 12 (3 Maí 1918)].

Ivo Blom 2007. The First Cameraman In Iceland: Travel Film and Travel Literature‘, in: Laraine Porter/ Briony Dixon (eds.), Picture Perfect. Landscape, Place and Travel in British Cinema before 1930 (Exeter: The Exeter Press 2007), pp. 68-81. 

Kvikmyndagerð á Íslandi; grein á Wikipedia ; Bók um elstu bíóin í Hollandi; Sjá einnig hér;

Grein á bloggi Ivo Bloms árið 2010; Grein um Nöggerath yngri á vef kvikmyndasafns Hollands.

Ath.

Myndin efst er gerð til gamans og skreytingar samansett úr breskri Laterna Magica skyggnu frá 9. áratug 19. aldar og kvikmyndatökumyndamanni sem leikur í einni af myndum meistara Charlie Chaplins frá 1914. Þetta er því ekki mynd af Franz Anton Nöggerath við tökur í Haukadal.

Ljósmyndirnar af Þingvallabænum, Heklu og Geysi síðar í greininni eru úr tveimur mismunandi röðum af glerskyggnum sem gefnar voru út á Englandi með ljósmyndum mismunandi ljósmyndara á 9. og 10 áratug 19. aldar. Fornleifur festi nýlega kaup á þessum og fleirum mjög sjaldgæfu skyggnum sem helstu sérfræðingar og safnarar Laterna Magica skyggna þekktu aðeins úr söluskrám fyrir skyggnurnar. Sagt verður meira af þeim von bráðar.

ibl259.jpg

Franz Anton Nöggerath jr. til hægri við tökur í Þrándheimi í Noregi árið 1906 er Hákon konungur var krýndur.


Gamlar kvikmyndir: Flugsaga

faxi.jpg

Danir líta á þennan kvikmyndabút, sem lýsir flugvélakosti Íslendinga árið 1958, sem danskan menningararf. Kannski hefur skrásetjari ekki frétt af sambands- slitum ríkjanna og stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944.

ar-120529658.jpg

Myndbúturinn, sem hægt er að sjá hér, var tekinn af Frank Poulsen og er úr safni DR (Danmarks Radio). Hugsanlega hefur þessi mynd verið sýnd í danska sjónvarpinu.

Frábært er að sjá lendingu Catalinu flugbátsins TF-Skýfaxa á Skutulsfirði og farþega að fara um borð á Gunnfaxa TF-ISB, DC-3 flugvél FÍ á Egilsstöðum. Það er ekki langt síðan þetta var, en samt virkar þetta eins og svipmynd aftan úr fornöld.

faxi_3.jpg

Stoltur faðir gengur um borð á Reykjavíkurflugvelli, og efst má sjá farþegum hjálpað í bát sem sigldi með þá í land á Ísafirði.

Takið eftir að blessaður Mogginn var helsta róandi meðalið um borð líkt og í dag. En hvað var fólk að lesa? Greinilegt er að þetta var í miðju þorskastríðinu árið 1958. Þegar Íslendingar hótuðu t.d. að fara úr NATO og fengu styrki frá Moskvu. Ugglaust hafa blaðamenn frá Danmarks Radio verið sendir til að fylgjast með málinu. faxi4.jpg

Maðurinn hér á myndinni til hægri er að lesa Morgunblaðið þann 26. nóvember 1958, þegar landhelgismálið var í algleymingi. Bretar voru auðvitað ósvífnir og ruddalegir að vanda.

Fyrirsögnin var svo eftir því í Mogganum: "Afsýra verður voðanum að ofbeldi Breta".

faxi2.jpgMisfínir karlar fljúga frá Egilsstöðum.


Gamlar Ljósmyndir: Konungssýningin 1921

konungssyningin_fyrir_fornleif.jpg

Því miður var maðurinn sem hefur höndina inni í fingrabrúðunni Fornleifi, settur út af sakramentinu á smettiskruddubók "Gamalla Ljósmynda", því hann birti "ljótar" myndir af Gunnari Gunnarssyni í nasistastellingum. Gunnar er sumum Íslendingum eins og Múhameð spámaður er flestum múslímum. Höfuð fljúga ef maður leyfir sér að birta myndir af Gunnari eins og hann var. Gömlum ljósmyndum er sýnilega stjórnað af einhverjum gömlum DDR-kommum eða framsóknardraugum sem þykjast vera kratar.

Frá Konungskomunni 1926

konungskoman_1921.jpg

Áður en mér var mjög ódrenglega varpað út af glansmyndafeisbókinni Gamlar Ljósmyndir, sem er undir stjórn Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings og kynlegra kvista Þormars ættarinnar, sem seldi Gunnari Gunnarssyni Skriðuklaustur, leitaði ég þar upplýsinga um kvikmynd Bíó-Petersens og Magnúsar Ólafssonar, sem þeir tóku við konungskomuna árið 1921.

Mig langar mjög að sjá kvikmyndina, til að athuga hvort ég gæti séð afa minn sýna fimi sína fyrir konung og frítt föruneyti hans. Afi minn var í fimleikaflokki ÍR sem gerði æfingar við Konungssýninguna árið 1921.

1921_konungssyningin_2_1254174.jpg

Afi stökk yfir hest og sýndi listilegar sveiflur á tvíslá. Fyrir það fékk hann medalíu sem afi gaf mér þegar ég var um það bil 12 ára gamall. Medalían hafði verið útbúin úr dönskum silfurpening frá 1916. Á myndinni efst er fimleikahópur ÍR og afi, Vilhelm Kristinsson er sá lágvaxni og sæti, 4. frá vinstri í efri röðinni.

vilhelm_afi_vilhjalms.jpg

Afi varð síðar einn elsti kratinn á Íslandi og keypti manna lengst bleðil þann sem bar nafnið Alþýðublaðið. Honum leist ekkert á þá krata sem komu fram á sjónarsviðið eftir Eið Guðnason. Hálfsystur hans, Sigríði Jensen í Kaupmannhöfn, tókst einnig það afrek að verða krati lengst allra í Danmörku. Kratar í Danmörku urðu ekki gamlir, því þeir reyktu allir. Tante Sigga, eins og Sigríður frænka var kölluð í fjölskyldunni á Íslandi, varð hins vegar 102 ára, ef ég man rétt. Ég og kona mín heimsóttum hana stuttu eftir 100 ára afmælið. Kratar í Danmörku böðuðu hana blómum, svo hún gat vart verið í litlu íbúðinni sinni í Gladsaxe. Mektarmenn á við Anker Jørgensen heimsóttu hana á afmælisdaginn, sem tók tvo daga.

Ef einhver getur útvegað mér kvikmynd Bíó-Petersens og Magnúsar Ólafssonar, eða hefur vitneskju um ljósmyndir frá Konungssýningunni árið 1921, þá þætti mér vænt um að heyra frá ykkur.

Morgunblaðið fjallaði um komuna og upplýsir að fimleikasýningin hafi farið fram á íþróttavellinum (Melavellinum).


Possible, but not positive

Richard the guy in the parking lot
 

Nú telja menn að víst sé, að það hafi verið beinagrind Ríkharðs þriðja Englandskonungs, sem menn fundu undið bílastæði í Leicester i fyrra. Fornleifur greindi frá þeim fundi í september í fyrra. Breskir fjölmiðlar og heimsfjölmiðlar eru í dag með fréttir um krypplinginn og orkar þar margt tvímælis að mínu mati. Best þykir mér ein athugasemdin á the Guardian um að það kosti  £18.50 á sólahring, að hafa bílinn sinn í stæði í miðborg Leicester. Ef þetta er Ríkharður 3., þá hefur hann legið þarna í 192.649 daga og það gera hvorki meira né minna en 3.564.006 sterlingspunda. Kannski er afsláttur fyrir krypplinga og líklegast hefur Ríkharður verið með bláa skiltið, fyrir utan bláa blóðið? Það síðastnefnda hleypir fólki oft ókeypis inn.

En best er nú að fara á heimasíðu háskólans í Leicester og lesa um niðurstöðurnar þar. Niðurstöður kolefnisgreininganna eru ekki eins einfaldar og fjölmiðlar segja frá og vísindamenn háskólans, sem hafa látið greina beinin á tveimur mismundandi stöðum, greina ekki rétt frá niðurstöðunni eins og á að gera. Talningaraldurinn er t.d. ekki birtur en aðeins umreiknaður, leiðréttur aldur. Það get ég sem fornleifafræðingur ekki notað til neins, og verð því að draga aldursgreininguna í efa þangað til að betri fréttir fást. Á heimasíðu háskólans er reyndar skrifað: This does not, of course, prove that the bones are those of Richard III. What it does is remove one possibility which could have proved that these are not Richard's remains, en þessa setningu fundu blaðamenn auðvitað ekki eða birtu, því þeir þurfa að selja blöð og sensasjónin blindar þá alltaf. Kolefnisaldursgreiningin segir sem sagt akkúrat ekki neitt neitt sem sannar að það sé Ríkharður III sem sé fundinn undir bílastæðinu í Leicester.

dnaresults of whomever ever you want
 

Furðuleg birting DNA-rannsóknar

Þar að auki er sagt í fjölmiðlum, að DNA rannsóknin staðfesti skyldleika beinanna við meinta afkomendur ættingja Ríkharðs III sem sýni voru tekin úr, eins og lýst er hér.  Satt best að segja þykir mér greinagerðin fyrir niðurstöðunum nú afar þunnur þrettándi. Maður myndi ætla, að þúsundir Breta væru með sams konar mítókondríal genamengi og beinin í gröfinni og bein hugsanlegra ættingja.

Þetta er afar lélega framreidd niðurstaða. Maður vonar bara að DNA-niðurstöðurnar séu ekki mengaðar af Dr. Turi King sem framkvæmdi hluta þeirra. Þá væri það allt annar "konungur" sem menn eru að skoða. Slíkar varúðarráðstafanir hafa svo sem gerst áður í öðrum rannsóknarstofum, og þess vegna væri við hæfi að Dr. King birti líka niðurstöður DNA rannsókna á þeim sem framkvæmdu rannsóknina. Þann sið tóku danskir vísindamenn t.d. upp fyrir skömmu til að útiloka allan grun um mengun sýna.

Í því sem birt er á heimasíðu háskólans í Leicester, sé ég engin haldbær rök fyrir því að maðurinn í gröfinni hafi verið með hræðilega hryggskekkju. Hér eru nærmyndir af breytingum í hryggjarliðum, en er þetta nóg til að sýna fram á að einstaklingurinn sem fannst hafi verið krypplingur?

The-skeleton-of-Richard-I-013

Glataði sonurinn er fundinn

Drengur 
Annasmali

Leiklistarsaga og saga kvikmynda eiga náð fyrir ásjónu Fornleifs, enda hvortveggja búið að gerjast á meðal okkar í meira en 100 ár. 

Hér skal greint frá búningum sem teiknaðir voru fyrir leiksýningu í Drury Lane Royal Theatre í Lundúnum árið 1905, og sem verður að telja hluta af íslenskri leiklistarsögu, þótt Íslendingar hafi lítið komið þar nærri, en leikritið gerðist reyndar á Íslandi - eða einhvers konar Íslandi.

Hall_Caine_Vanity_Fair_2_July_1896
Hall Caine (1853-1931) þótti maður einkennilegur í útliti, og átti kynhylli jafnt kvenna sem karla að því er talið er. Fyrir utan að vera mikið Íslandsvinur, var hann vinur gyðinga og hafði mikla ímugust á gyðingafordómum samtímamanna sinni. Hann skrifað m.a. verkið Syndahafurinn (The Scapegoat) um gyðinga.

 

Um aldamótin 1900 heimsótti breski rithöfundurinn Hall Caine Ísland og heillaðist af þjóð og landi. Hann ferðaðist eitthvað um Ísland. Er heim var komið, hóf hann að rita sígilda sögu um glataða soninn, sem hann staðsetti á íslensku sviði og í þeirri náttúru sem heillaði hann. Verk hans The Prodigal Son kom út árið 1904 hjá Heinemann forlaginu og seldist vel í hinum enskumælandi heimi. Hall Caine, sem hafði alist upp á eyjunni Man, var einn af vinsælustu höfundum síns tíma, en í dag telst hann ekki lengur til sígildra höfunda, enda var hann uppi á tímaskeiði er leiklistarleg melódramatík og væmnisviðkvæmni voru í tísku.

Fljótlega var tekin ákvörðun um að setja verk Hall Caines á svið í Lundúnum. The Prodigal Son var sýnt við sæmilegar undirtektir, en ekki fyrir fullum húsum á fjölum Drury Lane Royal Theatre i Lundúnum. Handlitaða ljósmyndin hér fyrir neðan er einmitt tekin árið 1905 og sést skilti á leikhúsinu í Covent Garden sem auglýsir Glataða soninn.

Drury Lane 1905

Drury Lane Royal Theatre 1905

Hall Caine hafði þegar árið 1890 gefið út aðra sögu sem að hluta til gerðist á Íslandi og bar hún titilinn The Bondman: A new Saga (Leiguliðinn). Það leikrit var einnig sett á svið í Drury Lane Theatre árið 1906, en þá hafði atburðarásin, sem var sú sama og á Íslandi, verið flutt yfir á aðra eyju, allfjarri Ísalandi. Sikiley varð nú sögusviðið og í lok sýninganna, sem voru fáar, gaus Etna í stað Heklu. Sagan var kvikmynduð í Bandaríkjunum árið 1916.

PhotoComelli
Leikbúningahönnuðurinn Comelli
 

Lítið er varðveitt frá sýningunni á Glataða syninum í Lundúnum nema frábærar vatnslitateikningar Attilio Comelli sem var einn fremsti leikbúningahönnuður í Lundúnum á þessum tíma. Fyrir fáeinum árum voru teikningar hans fyrir búninga sýningarinnar gefnar á V&A Museum (Victoria & Albert safnið), sem um sinn þjónar hlutverki leiklistasafns Breta, sem mun opna síðar í Covent Garden.

Skoðið svo teikningar Comellis hér (kvenbúningar) og hér (karlabúningar).

Ekki er gott að segja til um, hvort leikhúsið hafi fylgt öllum stúdíum Comellis, sem greinilega hefur leitað grasa í ýmsum verkum um Ísland. Ein mynd, sem Fornleifur hefur keypt vestur í Bandaríkjunum, af leikaranum Frank Cooper í hlutverki Magnús Stephensson á Drury Lane ári 1905, sýnir hann í búningi, kápu, sem svipar mjög til þess búnings sem Attilio Comelli teiknaði fyrir hlutverkið.

Frank Cooper

 Frank Cooper i The Prodigal Son og teikning Comellis af frakkanum

Magnus Stehpensson

 

MBL 16. ágúst 1922

Sumarið 1922 hélt 14 manna hópur frá Lundúnum til Íslands til að taka upp hluta af kvikmyndinni The Prodigal Son sem byggði á bók Hall Caines. Kvikmyndaleikstjórinn hét A.E. Coleby og var nokkuð vel þekktur á sínum tíma. Meðal leikaranna var ef til vill einn leikari sem var þekktur og lék í yfir 150 breskum kvikmyndum, en það var Stewart Rome (Wernham Ryott Gifford), sem lék eitt aðalhlutverkið, Magnús Stephensson. Kvikmyndin var m.a. tekin upp í húsi Ólafs Davíðssonar í Hafnafirði, sem varð að húsi Oscars Nielsens faktors í sögunni/myndinni, sem og á Þingvöllum. Filmur voru flestar framkallaðar á Íslandi. Heimsókn breska kvikmyndahópsins vakti töluverða athygli og var skrifað um hann í dagblöðum. The Prodigal Son var önnur leikna erlenda kvikmyndin sem tekin var á Íslandi.

Morgunbaðið birti mynd af hluta breska hópsins þann 16. ágúst 1922 (sjá ofar). og 30. júlí 1922 greindi blaði frá því að breskur læknir hafi slegist í för með hópnum sér til upplyftingar og hvíldar, eftir að hafa verið á vígstöðvunum í stríðinu. Læknirin hét dr. Moriarty  ???FootinMouth. Hópurinn lenti m.a. í aftakaveðri. Skoðið það á timarit.is

3398766748_07ea02305b_b

Stewart Rome var mikill sjarmör

Stoll Theatre

Stoll Picture Theatre, sem var fullbyggt árið 1911 og var tónleikahöllin m.a. framkvæmd Rogers Hammerstein hins bandaríska sjóvmanns, sem langaði að leggja Lundúnir undir fót. Það tókst ekki betur en svo, að hann tapaði 1/4 hluta þess fjár sem hann setti í verkefnið og tók þá Oswald Stoll (f. Grey) við taumunum. Þessi glæsilega höll var því miður rifin árið 1958. Mikil bíósaga fór þar forgörðum.

Kvikmyndin The Prodigal Son, sem frumsýnd var 1923, var löng og var sýnd í tveimur hlutum, og urðu sýningargestir því að fara tvisvar í bíó til að sjá hana til enda. Hún var frumsýnd í hinu risastóra Stoll Picture Theatre i Lundúnum. Gekk myndin fyrir fullu húsi í 6 vikur og einnig í öðrum kvikmyndahúsum í London. 

Til Íslands kom kvikmyndin ekki fyrr en árið 1929, og var sýnd undir heitinu "Glataði sonurinn" og var svo að segja engin aðsókn að henni í Nýja Bíói, þar sem hún var aðeins auglýst í viku. Löngu áður en myndin kom til Íslands, var hún sýnd í Vesturheimi:

prodigal_son2

Þótt nokkuð hafi verið skrifað um sögur Hall Caines sem gerast á Íslandi í íslenskum dagblöðum, kom bókin ekki út á Íslandi fyrr en 1927 í þýðingu Guðna Jónssonar. 1971-72 var hún framhaldssaga í Tímanum. Það eru því ekki nema von að Framsóknarmenn komnir yfir fimmtug séu jarmandi væmnir og sentímental. Lesið bók Hall Caines á frummálinu hér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband