Færsluflokkur: Biblíufornleifafræði

Jesús Jósefsson ... og brjóstin í lífi hans

Screenshot-2020-09-04-at-17.10.43-1280x640

Það vekur furðu Fornleifs, að fólk kippi sér upp við það að Jesús hafi verið með brjóst. Það verður að skoðast í sögulegu samhengi.

Mörgum íslenskum mektarmanninum hefur vaxið álitleg brjóst á ákveðnum aldri og sýnast þeir þá um leið fremur óléttir. Jesús var ávallt mikill brjóstakarl allt frá fornu fari. Móðir hans er sýnd rekandi tútturnar framan í hann í kirkjulistinni, og stundum heldur harkalega. Og var ekki einu sinni sungið Mjólk er góð á Íslandi?

uglybaby

Fornleif, sem man allt aftur fyrir Krists burð, langar að benda mönnum á að Jesús Jósefsson rak einhverskonar klúbb karlmanna, svo kallaðra lærisveina, og einu konurnar sem fengu að koma á fundi í þeim félagsskap voru útskúfaðar úr þjóðfélaginu. Bara það eitt hljómar eins og fornt LGBT-félag.

Er ekki alveg sama HVAÐ karlinn var, fyrst ekki er hægt að sanna HVER hann var? Það skiptir líklegast mestu máli að á hann sé trúað. Birtingarmyndir hans hafa verið margar í listaverkum síðustu 1800 árin, enda ekki bannað að sýna hann opinberlega eins og aðrar helgar verur.

Hinn brjóstagóði Jesús sem á að lokka börn í sunnudagaskóla er í takt við tímann. Munið, að fyrir 40 árum síðan var hann Maóisti með hliðatösku og sænskt passíuhár. Ekki var það miklu betra. Þjónar hans hafa líka tekið töluverðum hamskiptum á síðustu áratugum. Biskup einn var helgimynd utan á úlfi og yfirpreláti í Reykjavík nauðgaði börnum á yngri árum. Kirkjan er auðvitað í sjálfsmyndarkrísu.

Ef ég væri kristinn, þá myndi ég líka sýna Jesús allsberan og til að sanna að hann hann hafi verið rækilega umskorinn á 8. degi lífs síns. En þar sem sumir af hinum nýfrelsuðu með brjóstafíkn eru fordómafyllri en flestir og hatrammir í afstöðu sinni gegn umskurði, hefur víst ekki tekist að ota typpinu á Kristi að börnunum í þetta sinn.

Og þökk sé föður hans fyrir það.

Nú, benda má svo sem á í lokin, að Búddistar hafa ekkert á móti bobbingum á sínum meistara sem og að múslímar velta þessum brjóstum Jesús fyrir sér líka af miklum áhuga, sjá hér.

Hafa menn ekkert annað að gera?

AMEN


Baltageymslan á Horni

Það leiðinlegasta og ömurlegasta sem til er, eru Víkingakvikmyndir. Þær gefa nær alltaf ranga og ógeðfellda mynd af "víkingum", nema þetta skot Monty Pythons.

Sumt fólk dáist að ribböldum og morðingjum og vilja að þeir fái uppreist æru nokkrum árum eftir að þeir fremja morð og annan skunda. Áhuginn á Barbara-víkingum eins og þeir eru sýndir í þessum soðmyndum, sem flestar eru nú framleiddar í hinum menningarsnauðu Bna, á skylt við áhugann sem sumar konur sýna fjöldamorðingjum sem þær vilja ólmast giftast. Kafbátaperrinn í Danmörku var ekki fyrr kominn undir lás og slá en að fangavörður í fangelsinu vildi búa með honum. Víkingamyndir eru sem sagt viðfangsefni fyrir sálfræðinga. Ef maður hefur áhuga á þeim, er best að panta sér tíma sem fyrst hjá hnetubrjótnum.

Myndir eftir Kormák eru heldur ekki nein upplifun. Víkingakvikmyndir eru flestar subbulegar og þeim fylgir sóðaskapur. Hrafn inn limaskorni skildi einnig eftir rusl í Drangshlíð þar sem forfeður mínir bjuggu á 18. öld, fyrir löngu þegar nafni hans fór á flug undir klettunum. Maður hafði þó lúmskt gaman af Krummamyndunum. Danska myndin Rauða skikkjan, sem að hluta til var tekin upp á Íslandi, var einnig óborganleg fyrir þá sem stúdera vildu rennilása á leikbúningum og víkinga með úr.

Á Íslandi bjuggu reyndar aldrei neinir víkingar að ráði, hvorki með eða án "þrælageymslu". Kvikmyndaheimurinn er búinn að búa til einhvern bjórdrukkinn, síðnauðgandi sadista með húðflúr, tíkarspennur eða fléttur í skegginu - sem höfðar til  nútímafólks, sem er ekki lengur með það á hreinu hvort það sé karl eða kona. Það er kallað gender-óöryggi.

Vonandi verður hægt að rústa þessu setti sem fyrst og að landeigandi fái ríflegar bætur fyrir misnotkun á velvilja hans. Ef ekki, er ljóst að þetta hrynur allt, og þá þarf að láta fornleifafræðinga grafa það upp - sem er fokdýr andskoti og setur fljótt skitin kvikmyndafyrirtæki í Hollywood og Sánkti Barbara á hausinn, ef þau eru þá ekki þegar farin á hausinn.

Nú verður El Balto að standa sig. It´s clean-up-time - Es hora de limpiar la mierda.

Annars lendir Kormack í þrælageymslunni úti á Horni fyrir verstu landspjöll sem unnin hafa verið síðan að víkingar komu til Íslands árið 801 og byggðu sér svo kallaða Stöð, til að geta flutt ósaltaðan og ófreðin fisk, (þ.e. er skreið), til landa sem fluttu út skreið. Svo iðkuðu þeir afbrigðilegt kynlíf með 79 stellingunni á Stöðinni. Ágæt kvikmynd var reyndar búin til um það á síðustu öld, og lék Pétur Gautur aðalhlutverkið.


mbl.is Víkingaþorpið staðið autt í níu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óska þeim Svartadauða sem fyrst

Langa fornleifagúrkan

Nú er fornleifagúrkan 2018 búin að taka gríðarkipp í gróðurhúsum vitleysunnar. Gerður  A. Gúrkan garðyrkjubóndi á Grund (sjá mynd) hefur ekki séð annan eins vöxt í gúrkum sínum í mörg ár.

Steinunn abbadís á Þingeyrum sér líka mikinn ofvöxt í gúrkunni og er nú þegar farin að nálgast "jarðlög sem geyma Svartadauða". Svo segir að minnsta kosti Mogginn og hann lýgur aldrei. Vonandi finnur hún klausturkirkjuna á Þingeyrum og nokkra munka með svartadauðabakteríuna í glerungi tanna sína líkt og sumir vísindamenn halda að þeir hafi fundið.

Fréttastofa Fornleifs vonar það besta og helst að pestin sé þarna af hreinni og ómengaðri, íslenskri gerð undir næstu hellu - og að það finnist til vara eins og einn eskimói eða fjallamaður einn kveifarlegur í fullum drag fyrir 17. júní. Fílamenn voru aldrei til í Húnaþingi, svo þeir finnast ekki á Þingeyrum. DNA sauða og hrossaþjófa er heldur til gruggugt, svo þótt þeir finnist í garðinum á Þingeyrum er ekkert á því að græða. Það voru örugglega kynóðir Skagfirðingar sem myrtir voru í Húnaþingi.

Hafa verður þó í huga, að Svartidauði á Íslandi var ekki nauðsynlega það sama og sá Svartidauði sem geisaði á 14 öld í Evrópu eða síðari pestin í Evrópu (t.d. Great Plague í London) um miðbik 17. aldar. Þó einhverjir hallist að því að cokkobacillan sem veldur Yersinia pestis, hafi verið völd að Svartadauða miðalda í Evrópu, þá eru enn vert að gæta að því sem breski DNA-sérfræðingurinn Thomas Gilbert við háskólann í Kaupmannahöfn hefur sagt og skrifað um aðferðir til að leita uppi DNA úr bakteríu Svartadauða og annarra útbrota af Yersinia pestis. Hægt er að lesa sér til.

Eins ber fornleifafræðingi, sem er að grafa niður á "jarðlög sem geyma Svartadauða", að vera kunnugt um að yfirlýsingar um að pestir hafi geisað á Englandi árið 1401 sem borist hafi til Íslands og orði að Svartadauða Íslands, eigi ekki við rök að styðjast. Yfirlýsingin er vitaskuld alveg út í hött og má skrifa á reikning lélegs norsk sagnfræðings. Annar norskur sagnfræðingur, Ole Jørgen Benedictow, hefur sýnt fram á að það var ekki pest á Englandi árið 1401, né heldur á Norðurlöndum, sem valdið gat Svartadauða á Íslandi árið 1402. Vandast því málin. Hvaða sjúkdómur geisaði á Íslandi og á Þingeyrum? Bendi ég mönnum á að lesa bók hans The Black Death and Later Plague Epidemics in the Scandinavian Countries sem út kom árið 2016.
Blackdeath2

Fyrst Svartidauði náði til Englands og Noregs, því kom hann ekki til Íslands? Vildi hann ekki með? Var farið allt fútt úr honum eða allir dauðir sem ætluðu til Íslands með hann? Gæti hugsast að heimildir hafi ekki varðveist um viðkomu hans á Íslandi?

Pestin á Íslandi gæti hafa verið allt annars eðlis. Íslendingar voru heldur einangraðir á þessum tíma og sömuleiðis var oft langt á milli komu erlendra manna og Íslendingar byggðu því ekki upp mótefni við tilfallandi sjúkdómum sem bárust að utan, flensu og öðru sem gat hæglega orðið mönnum að bana á Íslandi, þótt slíkar farsóttir væru vægari við fólk annars staðar.

Ef Ole Jørgen Benedictow hefur á réttu að standa er lítil ástæða til að halda að merki um Svartadauða finnist í glerungi tanna munkanna á Þingeyrum og að Steinunn Kristjánsdóttir sé að alveg að komast niður á jarðlög með Svartadauða.

Getur nú ekki einhver góðhjartaður maður í sveitinni, sem les þetta, gefið Steinunni og starfsliði hennar flösku af Svarta Dauða. Bokkuna ætti grafararnir á Þingeyrum að drekka sem meðal. Þegar það er farið að virka, hefst kvöldlestur upp úr bók Ole Jørgen Benedictows. Eitthvað sterkt þarf víst til svo að sumir kollegar mínir á Íslandi fari að verða læsir á ritheimildir og fái lágmarksþekkingu á þeim. Sá sem skrifað hefur á íslensku um Svartadauða á Wikipedia ætti líklega að fá sér eitthvað ögn sterkara, jafnvel unglingabóluefni, því í unggæðingshætti sínum er hann um það bil hálfri öld á eftir því sem er að gerast í fræðunum.

Gerður A. Gúrkan er fyrsti intersexbóndinn á Íslandi, ef einhver furðar sig á myndinni efst. Enga fordóma héér.


mbl.is Nálgast jarðlög svartadauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn á kjammann II

Jaaaaw

Kjálkar eru ein af sérgreinum Fornleifs, enda eru kjálkaliðir Íslendinga þeir einu sem ekki eru hrjáðir af gigt og eymslum og oftast léttir og liðugir fram í rauðan dauðann og jafnvel lengur hjá sumum.

Brot úr kjamma forföður míns, sem talaði yfir sig, fannst nýlega við hellismunna í Misliya (Müsli?) í Ísrael. Greint var frá þessu í grein í Times of Israel í gær. Telja sérfræðingar að þar sé komið elsta dæmi um að menn hafi verið að rífa kjaft eftir að vitsmunaveran Homo Sapiens fór í ferðalag sitt frá Afríku. Brotið sem er úr efri kjálka er talið vera vera um 177.000 til 194.000 ára gamalt.

Ef það er rétt (og leyfist manni að efast að vanda) er ljóst að Ingólfur Sapiens hjá Útsýn í Eþíópíu fór með hópa fólks til Landsins Helga. Sapiens ættbálkur hómóanna í Afríku varð víst fyrst til í Eþíópíu fyrir um 160.000 til 200.000 árum síðan. Sapiens ættin hafði því vart verið til í meira en 17.000 ár, þegar en hún fór að álpast í utanlandsferðir. Eru sumir afkomendanna á leiðarlokum ferðarinnar (Íslandi) enn með ferðafiðringinn í genamenginu - og nú eru þeir sem urðu of seinir til fyrir um það bil 170.000 árum að leggja líf og limi sína í hættu til að komast norður á bóginn í kuldann og sæluna.

Engar holur, eða eins og sagt var í Golgata-auglýsingunni hér um árið "tannlæknirinn þurfti bara ekkert að bora".

Elsti Homo Sapiens utan Afriku

Fyrri grein Fornleifs um kjálka.


Boðunarkirkjan í Cori

cori_1244517.jpg

Sistínsku kapelluna í Vatíkaninu í Róm þekkja flestir. Ekki ætla ég að eyða tíma mínum í umfjöllun um slíka síðpápísku, enda var nokkurra kílómetra biðröð fyrir framan Vatíkanið í Róm í gær. Ég hef líka séð herlegheitin áður og það nægir í þessu lífi. Ég setti mér líka annað fyrir en að heimsækja Páfagarð í suðurgöngunni nú. Við létum því nægja að aka um í opnum Lundúnastrætó og komum þannig tvisvar við í Páfagarði. En ég tók þessa mynd handa Jóni Vali Jenssyni af Páfanum Rómi í sjoppu nærri aðalsamkunduhúsi gyðinga í sömu borg.

papa_per_jon_valur_1244570.jpg
Papá 1€ ódýr

Til er önnur kirkja á Ítalíu með freskum (veggmálverkum) sem er engu síðri en sú Sistínska. Það er boðunarkirkjan (Chiesa della Santissima Annunziata) í Cori við rætur bæjarhæðarinnar í Cori  í Lepinifjöllum í Latínu, suðaustur af Róm, þar sem ég hef aðsetur ásamt fjölskyldu minni meðan á Ítalíudvölinni stendur. Konan bauð mér í þetta stórfenglega ferðalag. Ég er bara bílstjóri og kokkur.

Við vorum búin að koma nokkru sinnum við hjá kirkju hinnar allraheilögustu Boðunar, en stundum hafði gamla gæslukonan verið búinn að loka áður en þörf var á og hafið síestuna fyrr en gefið var til kynna á skilti við tröppurnar upp að kirkjunni. Morguninn sem við loksins komust inn vorum við einu gestirnir. Gæslukonan tjáði mér, að því miður kæmu ekki margir ferðamenn á þennan fallega stað.

Freskurnar í Boðunarkirkjunni Cori sýna helstu biblíusögurnar í 14. aldar stíl.  Hér er síðan hægt að komast inn í kirkjuna í þrívídd án þess að vera í Cori og njóta lystisemda ítalskra þjóðminja sem eru engu síðri en Sistínska kapellan í Vatíkaninu - og maður þarf ekki að bíða í fimm klukkustundir með heilagandann hangandi yfir höfðinu til að komast inn.

gamli_noi.jpg
Gamli Nói í örkinni (sáttmálsörkinni)
cori_fra_norbavej2_1244529.jpg
Cori di Latina, gula örin sýnir staðsetningu Fornleifs um þessar mundir. Bílnum er lagt við hlið Herkúleshofsins (2200 ára gamalt) rétt ofan við húsið. Smellið á með músinni til að sjá Arnarhreiðrið.

Yam Suf

Til eru menn sem halda því fram, að engin fornleifafræðileg sönnun sé til fyrir því að Ísraelsþjóðin hafi verið þrælar í Egyptalandi. Vissulega er ekki um auðugan garð að gresja. En þessi afneitun er farin að nálgast trúarbrögð, ekki ósvipað því þegar sumir fornleifafræðingar á Íslandi afneita rituðum heimildum og aðrir vilja helst finna bein Egils Skallagrímssonar með grafskeið í einni hendi og Eglu í hinni. Þar eru öfgar á báðum vígstöðvum. Fornleifafræði er ekki grein sem er hentug til að sanna eitt eða neitt í einum grænum hvelli. Ef menn læra fornleifafræði með þeim hugsunarhætti, læra þeir röng fræði, eða eru jafnvel ekki fræðilega þenkjandi manneskjur. Fréttamennska væri ef til vill betra fag fyrir slíkt fólk, þá geta menn líka orðið forsetar með tíð og tíma.

Ég fékk snemma áhuga á dvöl Ísraelsþjóðarinnar í Egyptalandi. Faðir minn heitinn keypti handa mér fræðibækur um efnið í útlöndum og ég keypti allt sem ég fann í bókabúð Snæbjarnar. Þegar ég byrjaði í menntaskóla (MH), fór ég á fyrstu önn beint í hugmyndasögu (Sögu 15) sem Jón Hnefill Aðalsteinsson kenndi. Menn fóru venjulega ekki í þennan áfanga fyrr en undir lok náms síns i MH. Í Sögu 15 skrifaði ég fyrstu lengri ritgerð mína í menntaskóla og Jón gaf mér meira að segja einkunina A fyrir ritgerðina og áfangann, meðan flestir fengu C og B, því áhuginn var lítill hjá flestum á viðfangsefninu og tímarnir hjá Jóni hreint kaos og rugl. Ritgerð mín hét Dvöl Ísraelsmanna í Egyptalandi og á ég hana enn, sjá mynd neðst.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég skrifaði ritgerð mína um vandamálið varðandi brottför gyðinga úr Egyptalandi. Mig langaði um tíma að leggja stund á klassíska fornleifafræði og fornleifafræði Miðausturlanda, en svo varð ekki. Margir stunda þau fræði og mun ég ekki blanda mér háfræðilega í þau en vildi gjarna komast í uppgröft á Sinaískaga. 

Prófessor James K. Hoffmeier er í miklu uppáhaldi hjá mér, því aðferðafræði hans er skynsamleg, en ekki forstokkuð trú eins og hjá þeim sem trúa blint á orð biblíunnar og sjá Charlton Heston í hlutverki Móses og Yul Brynner í hlutverki Ramsesar - eða hjá fornleifafræðingum sem telja afneitun mikilvægari en leit og yfirlýsingar farsælli en ígrundun.

Moses with rifle

Það er langt frá því að ferð Móses og þjóðar hans yfir Sefhafið, Yam Suf (Supf), og aðrar upplýsingar um dvöl Ísraelsmanna í Egyptalandi standist ekki. Hlustið hér á mjög skemmtilegan fyrirlestur James K. Hoffmeier eða kynnið ykkur bækur hans um efnið. Fornleifafræði tekur tíma, eins og Hoffmeier bendir á, og er ekki hjálpargrein fyrir fólk sem vill finna hinn eina heilaga sannleika hér og nú eða afneita öllu. Það er enginn svo vís að hann geti gerð slíkt, þó sumir halda að þeir séu það.

Dvöl Ísraelsmanna í Egyptalandi

Forsíða rigterðar minnar í MH haustið 1976


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband