Færsluflokkur: Minjavernd

Skálholtsskemmdarverkið

Fornleifavernd Amen

Í mikilli langloku um Þorláksbúð á Vísis.is, lýsir Bjarni Faust Einarsson kollega minn yfir skoðun sinni á Þorláksbúð hinni nýju. Enginn þarf að vaða í villu um, að flestir fornleifafræðingar á Íslandi, sem bera virðingu fyrir fræðunum sínum, líst illa á Þorláksbúð. Það á svo sannarlega við um Bjarna Einarsson, þó hann tjái sig seint um málið og þekki greinilega ekki alla enda þess. Ekki hafa nú samt margir fornleifafræðingar, aðrir en við Bjarni, lýst skoðun okkar opinberlega, nema ef vera skyldi Þjóðminjavörður. Hinir eru auðvitað allir lafhræddir við vald Fornleifaverndar Ríkisins, sem er hin eini sanni sökudólgur, því Fornleifavernd gaf leyfi til að viðundrið í Skálholti yrði byggt.

Bjarni Einarsson

Í grein Bjarna á visir.is er greint frá fundi sem Fornleifavernd Ríkisins boðaði til í ársbyrjun 2012. Þann fund skrifaði ég um og hvatti menn til að fjölmenna á hann. Þá skrifaði ég mikið um Þorláksbúð og sýndi fram á hver tók ákvörðunina um bygginguna og hvar ábyrgðin lægi. Hún liggur algjörlega hjá Fornleifavernd ríkisins. Það hefur Menntamálaráðuneytið staðfest. Ég sendi ráðuneytinu fyrirspurn (sjá hér), henni var svarað á þennan hátt.

Bjarni (sjá mynd) greinir frá því að starfsmenn Fornleifaverndar Ríkisins hafi á fundinum ekki litið svo á að Þorláksbúð væri tilgátuhús, heldur eins konar skýli líkt og skýli það sem reist var á Stöng í Þjórsárdal árið 1957. Sú upplýsing stangst svo um munar á við þær upplýsingar sem fornminjavörður Suðurlands gaf við leyfisveitinguna. Uggi Ævarsson, skrifar ekkert slíkt í leyfisveitingu sinni eftir að hann hafði  greinilega fengið skipun frá yfirmanni sínum Kristínu Sigurðardóttur um hvað hann ætti að gera. Sjá einnig hér. Þetta sýnir greinilega, að fyrir utan að vera ekki starfi sínu vaxnir, þá þekkja starfsmenn Fornleifaverndar ekki sögu minjaverndar sem skyldi.

Skýlið sem reist var yfir Stöng árið 1957 er allt annars eðlis en smekkleysan í Skálholti. Það var m.a. reist fyrir tilstuðlan dr. Kristjáns Eldjárns yfir rústir sem voru rannsakaðar að hluta til (Þótt sumir teldu þær fullrannsakaða); til að koma í veg fyrir algjöra eyðileggingu þeirra. Þorláksbúð er hins vegar eyðilegging, sögufölsun úr gerviefnum, tímaskekkja, eyðsla á almannafé og smekkleysa í einni og sömu byggingunni. Hún er bautasteinn yfir póltíska spillingu og andlegan vanmátt íslenskrar minjavörslu.

Miðað við þann óskunda sem Fornleifavernd Ríkisins hefur haft í frammi varðandi Stöng sjá hér, hér og hér, þá ætti sú stofnun að hafa hægt um sig að nota skýlið á Stöng til að afsaka sig út úr fyrirbærinu við kirkjumúrinn í Skálholti. Þetta er ein lélegasta afsökun sem komið hefur frá Fornleifavernd Ríkisins.

Kjarni málslins er sá, að Þorláksbúð var reist í trássi við skýr ákvæði í lögum, en með leyfi frá Fornleifaverndar Ríkisins, sem á að fylgja þeim lögum en ekki að brjóta þau.

Þorláksbúð er ólögleg framkvæmd og hana þarf að fjarlægja, samkvæmt lögum og í leiðinni yfirmann fornminjavörslunnar sem einn bar ábyrgð á þessu ömurlega lögbroti.

Sjá einnig færslu hér í dag um spillinguna í fornleifavörslunni á síðasta áratug 20. aldar. Össur Skarphéðinsson umhverfisráðherra hringdi í Þjóðminjavörð og Náttúrvernd Ríkisins til að þjösna í gegn sumarbústað lyfsala nokkurs. Bústaðurinn var reistur ólöglega í Berufirði á Barðaströnd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband