Þorláksbúð stendur ekki á lagalegum grunni

Lögbrot
 

Fornleifur hefur látið rannsaka, hvernig staðið var að leyfisveitingu, þegar endanlega var leyft að reisa "tilgátuhús" með þakpappa og steinull á tóftum Þorláksbúðar í Skálholti. Ég hafði samband við yfirmann Fornleifaverndar Ríkisins, Kristínu Sigurðardóttur, og hún sendi mér þetta leyfisbréf frá fornminjaverði Suðurlands, Ugga Ævarssyni.

Það sem maður heggur eftir í þessu makalausa bréfi, sem er í andstöðu við allt er reynt var að efla vægi þjóðminjalaga á 10. áratug síðustu aldar, er þessi setning:

"Að öllu jöfnu leyfir FVR ekki að byggt sé ofan í tóftir en eins og málum er háttað í Skálholti hefur verið gefið leyfi til að byggja ofan í tóft Þorláksbúðar. Sú ákvörðun stendur á gömlum grunni, hefur sinn aðdraganda sem ekki verður tíundaður hér."

Þegar ég grennslaðist fyrir um, hver hafði "gefið leyfi áður en að leyfi var gefið" og á hvaða "gamla grunni" sú ákvörðun stóð, sem "hafði sinn aðdraganda sem ekki varð tíundaður" í leyfisveitingunni, fékk ég þetta svar frá Ugga Ævarssyni, sem nú þvær greinilega hendur sínar af þessu einstæða leyfi með því að fullyrða að: Ég sá aldrei formlegt leyfi til þess arna en á 10. áratugnum var rætt við Þjóðminjasafnið um slíka framkvæmd og þar á bæ voru  framkvæmdirnar ekki blásnar af þó svo að skriflegt leyfi hafi ekki endilega verið veitt. Eins og gengur þá eru slíkar ákvarðanir ekki alltaf rekjanlegar í kerfinu og satt best að segja veit ég ekki í smáatriðum hvernig á málum var haldið áður en málið kom inn á borð til mín 2009."

Þetta er með endemum og ungur embættismaður hefur hér greinilega lent í miklum vandræðum og verið undir mikilli pressu frá aðilum sem sitja honum hærra í kerfinu. Þeir bera ábyrgð á vandalismanum, ekki hann.

Mér er ekki kunnugt um að ákvörðun eins og sú sem ýjað er að í leyfisveitingunni hafi verið tekin á Þjóðminjasafni Íslands, í fornleifanefnd eða Þjóðminjaráði á tímabilinu 1992-1996. Þetta var ekki stefna safnsins og fornleifavörslunnar, þegar ég vann þar. Þjóðminjasafnið eða þjóðminjavörður hefur heldur ekkert með að ákveða svona framkvæmdir. Ákvarðanir á skjön við lög í kerfinu er satt best að segja vel hægt að rekja til upphafsins. Legg ég því til að Menntamálaráðherra geri það nú þegar, og láti fjarlægja Þorláksbúð við fyrsta tækifæri, því bygging hennar er greinilega lögbrot og afleiðingar vamms í starfi þeirra sem eiga að vernda fornleifar í landinu.

Einnig er ljóst, að gefið var leyfi til að reisa tilgátuhús sem byggði á gamalli hefð. Þakpappi og steinull voru ekki í húsum á 16. öld. Leyfið hefur því verið misnotað.

Greinilega má lesa bréf fornminjavarðar Suðurlands þannig, að Þjóðminjasafn Íslands beri ábyrgð á því hvernig leyfisveiting hans var úr garði gerð árið 2010. Hvernig sem því líður, þá verður hið rétta að koma fram í máli þessu, og Þorláksbúð þarf að finna annan stað, þannig að geðþóttaákvarðanir ráði ekki ríkjum og lögbrot séu ekki framin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessu þarf að svara:

Hvers konar félag er "Þorláksbúðarfélagið'"?  Er það skráð?  Með kennitölu? VSK númer?  Hverjir eru félagar í þessu félagi, aðrir en Árni nokkur Johnsen sem jafnan kemur fram sem "forsvarsmaður" félagsins?

Fékk "félagið" (eða bara Árni Johnsen) peninga í þetta byggingarverkefni á fjárlögum?  Hve mikið?  Hver er fjárhagslegur ábyrgðarmaður félagsins? 

Það kæmi ekki mjög á óvart þótt í "félaginu" væri bara einn félagi. Sem er ekki hæfur til meðferðar á opinberu fé, eins og alkunna er.  En kemst upp með ótrúlegustu hluti á frekjunni einni saman.

Hvernig er það hægt í þjóðfélagi með lög og reglur sem á að fara eftir, að svona verkefni komist í framkvæmd, alla leið, án þess að nokkur hugsandi aðili í kerfinu stoppi það????  Er kannski enginn opinber starfsmaður í "kerfinu" vakandi í vinnunni????

Rex (IP-tala skráð) 16.12.2011 kl. 14:37

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Rex, ég hef ekkert velt fyrir mér fjárhagslegu hlið þessa skrýtna verkefnis. Ég hef fyrst og fremst áhuga á því sem að fornleifavernd lýtur.

Það hefur hins vegar vakið undran mína, að ráðherra og yfirmenn fornleifavörslunnar hafi ekki látið meira heyra í sér í þessu máli. En þeir síðarnefndu hafa greinilega farið út fyrir sitt verksvið og eru ekki að hafa fyrir því að upplýsa ráðherrann.

FORNLEIFUR, 16.12.2011 kl. 16:00

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ekki vera að ergjast út í Árna Johnsen. Hann er hreinn eins og púðraður barnsrass. Honum voru gefnar upp sakir af handhafa forsetavalds í fjarveru forsetans. Vald sem handhafi hefur þegar mikla neyð eða vá ber að dyrum eins og segir í lögum. Ég sagði allavega vá! þegar enginn sagði neitt.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.12.2011 kl. 05:16

4 Smámynd: FORNLEIFUR

ATHUGASEMD: 

Við frekari eftirgrennslan, fæ ég ekki fundið neinar sannanir eða líkur fyrir því að Þjóðminjasafni Íslands hafi nokkuð með ákvörðun um byggingu Þorláksbúðar að gera.

Getur verið að embættismaður Fornleifaverndar sé að búa til sögur þegar hann skýrði út fyrir mér að ávörðun hans um að veita leyfi fyrir byggingu tilgátuhúss ofan á rúst Þorláksbúðar byggði á gamalli ákvörðun einhvers á Þjóðminjasafni Íslands?

Fornleifavarslan verður að svara fyrir sig. Ég mun spyrja hana strax á næstkomandi mánudagsmorgni.

FORNLEIFUR, 18.12.2011 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband