Færsluflokkur: Þjóðbúningar
Blingið hennar Hólmfríðar Þorvaldsdóttur
9.7.2019 | 07:19
Önnur tilraun og fræðilegri:
Því betra er að hafa það sem sannara reynist.
Um daginn fór ég heldur betur kvennavillt og ályktaðir rangt um mynd þessa. Þessar hefðarkonur, sem stóðu og sátu fyrir á ljósmynd í Reykjavík árið 1860, eru móðir, ein dætra hennar og uppeldisdóttir. Ljósmyndarinn upplýsti að þær væru kona og dætur "forsetans" (president of Reykjavík), sem var Jón Guðmundsson forseti Alþingis, einnig þekktur sem Jón ritstjóri (1807-1875).
Þær eru blessaðar, með fúlustu fyrirsætum Íslands sem ég hef séð - en gætu þó vel hafa verið óttaslegnar við þennan undarlega áhuga útlendinga á þeim. En þrátt fyrir óróa ungu kvennanna og illt augnaráð móðurinnar tókst sem betur fór að ná einni af elstu hópljósmyndum sem er til af Íslendingum. Myndin var tekin þann 25. ágúst árið 1860.
Mér þótti í fyrstu tilraun líklegt að konan, sem situr og heldur á bókinni, væri Sigríður Bogadóttir (1818-1903) kona Pétur Péturssonar síðar biskups. Mér varð þar heldur betur á í messuvíninu og var mér vinsamlegast bent á það.
Myndin er hins vegar með vissu af Hólmfríði Þorvaldsdóttur (1812-1876) dóttur hennar Kristínu Jónsdóttir og uppeldisdóttur, Hólmfríði Björnsdóttur, sem var bróðurdóttir Hólmfríðar Þorvaldsdóttur. Hafði gamall samstarfsmaður minn á Þjóðminjasafni Íslands, Halldór Jónsson, skrifað um konurnar og Einar heitinn Laxness, sem kenndi mér eins konar dönsku í MH fyrir 43 árum síðan, hafði skrifað grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997 um myndina og meira.
Fox-leiðangurinn 1860
Árið 1860 í ágústmánuði, heimsótti leiðangur manna Ísland, eftir dvöl á Grænlandi. Ferðinni var fyrst og fremst heitið til Grænlands, en komið var við í Færeyjum og á Íslandi á bakaleiðinni. Tilgangurinn með Grænlandsleiðangrinum var hin endalausa leit að örlögum Sir John Franklins og leiðangurs hans á tveimur skipum, HMS Terror og Erebus, en þau fórust með mönnum og mús við Grænland árið 1845.
Fjöldi leiðangra hafa verið gerðir til að leita uppi skip Franklins og rannsaka örlög skipsverja. Þeim leiðöngrum lauk væntanlega endanlega árið 2016 er flök skipanna fundust. Flak HMS Terror reyndist vel varðveitt á 25 metra dýpi. Leitarleiðangurinn árið 1860 var einn af mörgum sem var kostaður af ekkju John Franklins og var fley leitarmanna Fox og kapteinn um borð var þekktur flotaforingi, Allen Young (1827-1915)að nafni. Fox-leiðangrinum 1859-60, voru gerð ágæt skil af danska flotaforingjanum Theodor von Zeilau í bók sem út kom í Kaupmannahöfn árið 1861 og bar titilinn Fox-Ekspeditionen 1860.
Þegar leiðangursmenn á Fox, sem var gufuskip, kom við í Reykjavík síðsumars 1860 voru teknar ljósmyndir og eru nokkrar þeirra varðveittar sem stereómyndir, sem seldar voru þeim sem höfðu áhuga á því að fá dálitla dýpt í myndaskoðun sína á konum, sem var með öðrum hætti og menn skoða myndir í dag - verður víst að segja.
Ljósmyndarinn var kaþólski paterinn Julian Edmund Tenison-Woods (1832-1889), og eru nokkrar mynda hans frá Íslandi varðveittar (sjá t.d. eina þeirra hér).
Tau-kross Hólmfríðar Þorvaldsdóttur
Fornleifur borar hér fyrst og fremst í eitt atriði. Það er smáatriði á spaðafaldsbúningi frú Hólmfríðar. Um háls hennar hangir festi með Tau-krossi (borið fram Tá, sem er gríska heitið fyrir t). Tau-kross er einnig kallaður Sankti Andrésarkross, því hann munn hafa verið krossfestur á T-laga krossi. Krossinn, sem Hólmfríður ber um hálsinn, er að öllum líkindum frá fyrri hluta 16. aldar eða lokum 15. aldar. Neðan úr krossinum hanga þrjú A með þverstriki yfir (líkt og A-in voru oft sýnd í epígrafíu (áletrunum) á 15. öld) og tvö A að auki héngu neðan úr þvertrénu. Þessi 5 A voru að öllum líkindum vísun til nafns heilags Andrésar.
Þannig var nú blingið á 16. og 15. öldinni og sumar af þessum þungu festum urðu ættargripir hjá velmegandi fjölskyldum.
Sannast sagna minnir mig að ég hafi séð slíkan grip á Þjóminjasafninu þegar ég var á unga aldri (8-12 ára), en það var ég eins og grár köttur. Í þá daga var öllu búningasilfri slengt í tvö sýningarpúlt inni í bændasalnum. Mig minnir að þar hafi legið svona T-kross, en er ekki lengur viss. Þrátt fyrir nokkra leit hef ég ekkert fundið því til stuðnings á Sarpi. Kannski er ekki búið að melta gripinn nógu vel í Sarpi og ef til vill er ekki til mynd af honum á Þjóðminjasafninu. Ef það er tilfellið, er safnið beðið um að bæta úr því.
Til var í einkaeigu teikning eftir Sigurð Guðmundsson málara af Hólmfríði, en sú mynd eyðilagðist því miður í bruna árið 1934. Ljósmyndir höfðu hins vegar varðveist af teikningu Sigurðar Málara, einni þeirri bestu frá hans hendi, og þar má glögglega sjá Tau-kross Hólmfríðar.
Upphaflega hélt Fornleifur í fljótfærniskasti, að konan á ljósmynd Tennison-Woods væri Sigríður Bogadóttir. Myndin hér til hægri var tekin af henni árið 1903, sem var árið sem hún andaðist í Kaupmannahöfn. Líklegast voru margar konur nokkuð þungbrýndar á þessum árum í Reykjavík.
Annar möguleiki er sá, að þetta listaverk um hálsinn á fýldri maddömunni hafi verið brætt og málmurinn endurnotaður. Og svo er alltaf sá möguleiki að þetta djásn, sem fer Lady T í Reykjavík svo vel, hafi gengið í arf og sé Téið enn notað af langalangalangaömmubarni hennar, plötusnúðnum Alli T. Maður leyfir sér að dreyma og vona. En vonin er samt afar lítil.
Látið nú Fornleifi í té aðstoð yðar.
Mynd þessi, sýnir dóttur Hólmfríðar Þorvaldsdóttur, Kristínu Jónsdóttur og Hólmfríði Björnsdóttur, sem var bróðurdóttur Hólmfríðar Þorvaldsdóttur. Ljósmyndin var tekin á sama stað og myndin efst, og var einnig tekin af pater Tenison-Woods og hefur hann merkt hana "21. ágúst 1860 kl. 5 síðdegis". Frummyndin er varðveitt hjá Royal Geographic Society í London. Ljósmyndin er líklega tekin til norðurs við horn Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Skugginn passar vel við að klukkan sé 5, 21. ágúst.
Þjóðbúningar | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Meira um garðahúfuna
2.11.2018 | 10:13
Hér á Fornleifi hefur áður verið skrifað um garðahúfuna (sem einnig var kölluð kjólhúfa og tyrknesk húfa). Það var gert út frá myndskyggnu frá lokum 18. aldar í safni hans sem sýnir slíka húfu borna af Reykjavíkurmeyju.
Þetta höfuðfat fær ekki náð fyrir tískudrósunum í Þjóðbúningaráði, sem er vitaskuld mjög mikilvægt fyrirbæri í landi þar sem fólk segist ekki vera þjóðernissinnað.
Í byrjun þessa árs uppgötvaði ég fleiri heimildir um garðahúfuna, sem aldrei fékk náð fyrir sjónum þjóðbúningasérfræðinga á Íslandi.
Danski liðsforinginn, landkönnuðurinn, fornfræðingurinn og Íslandsáhugamaðurinn Daniel Bruun sýndi þessari húfu nokkurn áhuga og teiknaði hana í þrígang. Teikningar hans eru varðveittar í Danska Þjóðminjasafninu. Ég birti þessar myndir hér í von um að einhverjar þjóðernissinnaðar konur geri þessu pottloki hærra undir höfði, því það getur allt eins verið eldri hefð fyrir en t.d. skúfhúfunni. Garðahúfan gæti jafnvel haft miðaldarætur (sjá hér).
Fornleifur er á því að menn hafi hugsanlega farið að kalla húfu þessa garðahúfu, eftir garderhue, dönskum hermannahúfum í lífvarðaliði konungs.
Bjarnarskinnshúfur voru ekki einu höfuðföt lífvarðar konungs. Teikningin er frá 1886.
Þjóðbúningar | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)