Færsluflokkur: Ferðalög

Sur une croisière

Lafayette 1930 c

Ritstjóri Fornríms þjónaði sem ungur piltur farþegum af ferðamannaskipum sem vörpuðu akkerum á ytri höfninni sunnan Engeyjar.

Eftir að hafa verið sendill nokkur sumur hjá Ríkisútvarpinu við Skúlagötu, útvegaði afi minn mér nýja vinnu. Hann var besti atvinnumiðlari sem ég hef þekkt.

Nýja sumarstarfið var líkamlega meira krefjandi vinna hjá Reykjavíkurhöfn (sem í dag heitir Faxaflóahafnir). Vinnan var afar fjölbreytileg: Skurðagröftur, málningarvinna, vegagerð, sandblástur, hreinsun á baujum, hreingerningar í Hafnarhúsinu, rif á gömlum bryggjum, steypuvinna alls konar, holræsagerð, aðstoð við trésmiði og bryggjusmiði og bíltúrar með Reyni heitnum Kristinssyni um Reykjavík til að kaupa langloku, kók og horfa á stelpur. Annar bílstjóri vann þarna en hann var mest fyrir stráka. Sem sagt afar fjölbreyttur og nútímalegur vinnustaður. Ég glápti þó ekki á ókunnar stúlkur á ferð í appelsínugulum Kassabenz Reynis, enda fyrir löngu búinn að setja radarinn á eina útvalda, sem ég þó missti ugglaust af vegna algjörrar draumværu. Og "sú útvalda" náði líklega aldrei radarsendingum úr höfði fábjánans - c´est la vie.

Hjá Reykjavíkurhöfn var maður kominn út í hið óvægna líf fullorðinsáranna. Fólk var jafnvel rekið fyrir að neita að vinna við gerð eldhúsinnréttingar heima hjá Hafnarstjóranum í Reykjavík. Stjórinn, sem aldrei lét sjá sig, lét bæjarstarfsmenn einnig þvo bílinn sinn, enda kominn af velmegandi og siðlausu fólki. Við vorum þó heppnir unglingarnir sem þarna höfðum góða vinnu og ágæt laun upp úr krafsinu og vorum tilbúnir að líta til hliðar þegar sjálftaka yfirmanna var annars vega.  Margir gamlir og sumir skemmtilegir karlar unnu þarna með okkur, þar á meðal gamlir sjóarar, einstaka fyllibytta og uppgjafabændur og við lærðum ýmislegt um sögu þessara manna og hvað varast ætti í lífinu. T.d. kenndi Árni gamli, maður um áttrætt, sem var ættaður úr Flóanum, hávaxinn og dökkur eins og Berbi, okkur hvernig við ættum að sýnast vera að vinna, þó við værum ekkert að því - þegar verkstjórann bar að. Þetta trikk Árna gamla reyndist mér þó aldrei gott, enda var eg lengi vel ákafamaður til allrar vinnu, ef ég má sjálfur segja frá.

Stefán Sigmundsson (1912-2006) hét yfirverkstjórinn í bækistöðvum vinnandi manna við Reykjavíkurhöfn. Stebbi var hinn vænsti karl, ættaður frá Neskaupstað ef ég man rétt, en frekar uppstökkur eins og þeir geta verið fyrir austan. Líklegast eru það frönsku genin. Hann var líka stríðinn á sinn undarlega máta. Stefán verkstjóri taldi mig vera vel lesinn og prúðan menntskæling, svo hann setti mig oft í starf sem ég hafði dálítið lúmskt gaman að. Ég var af og til útnefndur gæslumaður án kaskeitis við eystri Verbúðarbryggjuna skáhöllu við Suðurbugt, sem þar voru áður en flotbryggjurnar voru byggðar þar. Enn austar hafði staðið sams konar hallabryggja, hin margfræga Loftsbryggja sem var rifin 1973 og aðrar enn austar (t.d. Grófarbryggja). Upp Loftsbryggju gengu ýmsir frægir menn sem sigldu til Íslands á 20 öld. Hinir hvítu léttabátar sem sigldu fram og til baka með ferðamenn úr ferðamannaskipum sem ekki gátu lagst að í Sundahöfn, lögðust eftir 1973 að við eystri Verbúðarbryggjuna, en lóðsbátar lágu þar við megnið úr árinu þegar engin ferðamannaskip voru á höfninni. Nokkrum árum áður hafði maður stundum farið með vinum í strætó niður í bæ til að dorga við bryggjurnar við Suðurbugt.

Screenshot_2020-10-08 Sarpur is - Bátur, Bíll, Bryggja, Búningur, Karlmað

Sænskum farþegum hjálpað í land árið 1960 við eystri bryggjuna við Suðurbugt, þar sem ég stráði sandi forðum mestmegnis undir þýsk gamalmenni. Mér sýnist að sandari án kaskeitis hafi starfað hjá Reykjavíkurhöfn á undan mér, því það er greinilega sandur á bryggjunni. En hann er þó ekki hvítur. Ægisgarður til vinstri. Ljósmynd Ingimundar Magnússonar sem er varðveitt á Þjóðminjsafni Íslands.

Fyrir neðan eru listagóð mynd sem Vilborg Harðardóttir tók og þar sem sést í sporðinn á bryggjunni sem ég sandaði á sínum tíma. Sú ljósmynd er í vörslu Þjóðminjasafns, sem líkt og Borgarminjasafn hefur ekki sett sig nægilega vel inn í innviði hafnarinnar, nöfn og þess háttar. Eins mikið og ég elskaði þetta svæði á yngri árum, hata ég það álíka mikið í dag, þegar það er orðið að stórri okursölubúllubyggð sem sendir menn slippa og snauða heim eftir heimsókn. Aðeins ein af sölubúllunum þarna og nú við Ægisgarð og vestur úr út á Granda er í sérflokki. Það er bíll, sem úr er seldur Fish and Chips. Afgreiðslumaðurinn þar ber orðið remúlaði fram með einstaklega smekklegum pólskum hreim - og fiskurinn er líka 100%. Það er langt á milli góðra búlla í gömlu Reykjavík.

Screenshot_2020-10-09 Sarpur is - Bátur, Bryggja, Hús, Höfn, Karlmaður, S

Þar sem eystri Verbúðarbryggjan gat verið mjög hál þegar fjaraði út, varð maður að skafa hana alla og strá á hana hvítum skeljasandi sem var tiltækur í tunnu inni í skúr efst á bryggjunni. Þetta stráaldur var bráðnauðsynlegt svo að gamlingjarnir sem komu í land með hvítu léttabátunum dyttu ekki og slösuðu sig. Þarna í gráum skúr gat maður svo að loknum skylduverkum setið og lesið og virt fyrir sér og jafnvel talað við sjóarana af Ferðamannaskipunum sem oft voru Ítalir, Portúgalar og stundum frá Norður-Afríku, Túnis eða Egyptalandi.

Þar sem flestir farþegar sem komu með bátunum í land voru Þjóðverjar og Austurríkismenn, vissi maður að einhver hluti þeirra hafði ugglaust hrifist af Hitler og jafnvel barist og myrt fyrir foringjann. Þegar ég var búinn að strá undir þetta lið hvítum Saga-sandi, sat ég makindalega og starði á þýsku kallana þegar þeir gengu í land á Saga-Insel; Sumir þeirra illa lemstraðir úr stríðinu og margir enn í gamla stílnum í grænum Lodenfrökkum og með svarta Brimarhatta á kollinum.

Fyrsti eyjaskegginn sem þeir sáu svo leit ekki beint út eins og arísku illmennin sem þeir sjálfir voru á yngri árum, og hann hafði fyrir sið að hlaupa fyrir þá og strá sandi undir þá og hrópa að þeim Achtung, Rutschgefähr!

Lafayette á Ytri höfninni

Lafayette á Ytri höfninni. Ljósmynd úr safni French Line. Fyrirtækið upplýsir hins vegar ranglega, að myndin sé tekin í Noregi.

Lafayette

Lafayette 1930 b

Steríoskyggnumynd (gler) úr ferð Lafayette á til Norðurhafa árið 1930.

Það getur verið ansi hált á þiljum minninganna, og nú er ég án þess að vita hvað tímanum leið kominn aftur á 8. áratug síðustu aldar í lystiskipaminningunum. Eiginlega ætlaði ég bara að hafa örlítinn kafla um franska farþegaskipið Lafayette, sem kom nokkru sinnum til Reykjavíkur á 4. áratug síðustu aldar. Í fyrsta sinn  árið 1930, en það ár var skipinu hleypt af stokkunum.

FL006054_web1Steríó (Stereo)-skyggnumyndin efst(sem er hægt að skoða betur hér fyrir ofan) er tekin í þeirri ferð. Ég keypti hana í Þessaloniki í Grikklandi. Skipafélagið franska C.G.T - Compagnie Générale Transatlantique (einnig kallað French Line) sem gerði út Lafayette sendi ávallt ljósmyndara með skipum sínum í ferðirnar (sjá mynd af einum þeirra hér til vinstri) og ljósmyndastúdíó var um borð á skipunum. Farþegar gátu keypt myndir af sjálfum sér og myndir voru teknar fyrir auglýsingavinnu.

Lafayette03

Í ferðinni til Íslands 1930 voru teknar steríóskyggnur og þær skoðaðar í þar til gerðu tæki um borð á Lafayette, þar sem menn fengu einhvers konar þrívíddartilfinningu. Nokkrar myndanna hafa fyrir einhverjar sakir lent á Grikklandi. Enginn veit af hverju; Kannski var hægt að kaupa slíkar myndir.

Á myndinni efst sem tekin var úr turni Landakotskirkju, má sjá ýmislegt áhugavert. Þarna sér maður út yfir Hólavallakirkjugarð, Melavöllinn, Loftskeytastöðina, Grímsstaðaholtið og Skerjafjörðinn. Allt er á sínum stað en Háskólinn var bara kálgarður, eins og hann er víst enn. Nær má sjá Sólvalla-, Ásvalla- og Brávallagötur og hluta af elliheimilinu Grund. Hávallagata virðist ekki vera til þegar myndin var tekin enda nafn hennar ekki samþykkt fyrr en 1934.

FL008225_web Mr Henri yfirbryti á Lafayette

Monsieur Henri var bryti um borð á Lafayette. Með nefið

niður í hvers manns koppi.

FL016433_web

Hárgreiðslustofa Monsieurs Fleury um borð á Lafayatte.

FL016447_web

Skurðstofan á Lafayette.

Lafayette, sem var langt frá því að vera glæsilegasta fley C.G.T. skipafélagsins, varð ekki langlíft skip. Það brann og bókstaflega í brotajárn í höfninni í Le Havre árið 1938.

Notið svo fyrir mig grímuna eins og Kári leggur til. Það er einfaldlega ekki of mikið til af Íslendingum í heiminum.

Kveðja Forngrímur.


Ísland á sýningu í París 1856-1857

1bhbnhi.jpg

Í nóvember 2014 var hér á Fornleifi greint frá sýningunni Musée Islandique, sem haldin var Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn 15. nóvember 2014 til og með 18. janúar 2015. Sýningin og öll vinna Ólafar Nordals listamanns við hana var með miklum ágætum.

Myndlistarverkefnið Musée Islandique eftir Ólöfu Nordal samanstendur af tveimur ljósmyndaröðum sem bera heitið Musée Islandique og Das Experiment Island. Verkin voru sýnd á Listasafni Íslands árið 2012, í Maison d´Art Bernard Anthonioz í París árið 2013 og í Nordatlantens Brygge, þar sem allt of fáir sáu þessa góðu sýningu, þótt gerð hennar á Íslandi hafi verið vel nokkuð vel sótt (1).

Líkt og fram kom í sýningarskrá hinnar frábæru konseptsýningar Ólafar Nordals, heillaðist Ólöf af mannfræðiáhuga 19. og 20. aldar eftir að hún rakst á gifsafsteypur af 19. aldar Íslendingum sem eru flestar varðveittar í frumgerð sinni á Musée de l´Homme í París, utan ein, sem er af Birni Gunnlaugssyni. Hún er varðveitt í afsteypu á Kanaríeyjum, nánar tiltekið á El Museo Canario í Las Palmas, þangað sem myndir var í eina tíð seld af Musée de l´Homme í París. Á sýningu Ólafar voru ljósmyndir, sem hún lét taka á Las Palmas og í París, af þeim afsteypum sem gerðar voru af Íslendingum árið 1856. Afsteypurnar voru af Íslendingum og Grænlendingum og gerðar að mönnum í för með franska prinsinum Jerome Napoleons prins (1822-1891)(2) í merkum vísindaleiðangri sem sumarið 1856 heimsótti meðal annarra landa Ísland og Grænland. Afrakstur þessa opinbera franska leiðangur var sýndur á opinberri sýningu í París þegar í árslok 1856. Sýningin fór fram í Palais-Royal í París. Miðað við hver fljótt var miðlað af söfnun leiðangursins hefði í þá daga sannarleg mátt bæta effectivité við einkunnarorðin Liberté, égalité, fraternité.

Myndir af sýningu árið 1856-57

Fyrir hreina tilviljun fann Fornleifur nýverið blaðsíðu úr franska tímaritinu L´Illustration, sem mér sýnist að hafi ekki komið fyrir augu almennings á Íslandi fyrr en nú. Ekki var greint frá þessari umfjöllun í tengslum við sýningar Ólafar Nordal. Ég uppgötvaði síðuna á netinu og keypti hana á stundinni af manni nokkrum í Frakklandi sem selur úrklippur úr gömlum blöðum og gamlar koparristur.

Fyrstu Íslandssýningunni, sem opnuð var þann 20. desember 1856 í París, voru gerð góð skil þann 10. janúar tímaritinu L´Illustration (bls. 21-22). Höfundurinn var maður er hét Laumé. Greinin bar yfirskriftina Expédition scientifique du prince Napoléon dan les mers du nord [Vísindaleiðangur prins Napóleons til norðurhafa]. Teiknaðar voru myndir á sýningunni og eftir þeim voru síðan gerðar koparstungur sem birtust í L´Illustration. Á einni myndanna má glögglega sjá sýningargripina frá Íslandi og Grænlandi.

Þessar myndir í L´Illustration, sem vantaði tvímælalaust á sýningu Ólafar Nordals, er hér með komið á framfæri. Það er aldrei um seinan. Gaman er að skoða koparristunar í L´Illustration og bera t.d. saman við þær afsteypur sem varðveist hafa á Þjóðminjasafni Kanaríeyja og á Musée de l´Homme.

Íslenskir líkamspartar og bækur

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar nærmyndir af stærstu koparristunni í greininni í L´Illustration í samanburði við þær afsteypur sem finna má á Kanaríeyjum og í París. Sýningin á gripunum frá Íslandi veturinn 1856-57 telst mér til að sé fyrsta sýningin þar sem Íslandi og Íslendingum voru gerð skil.

2bepjda.jpg

10349131_610015819105099_6465160320320399606_n.jpg

Þær voru þarna grænlensku konurnar í París 1856, þótt af einhverjum ástæðum hafi ekki  þótt við hæfi að hafa myndir af þeim frammi á sýningunni í Reykjavík árið 2012.

2cfvhtp.jpg

2dFornleifur.jpg

10295006_584889268284421_8837816064864614898_o.jpg

olofnordal-382x270.jpg

1857_and_now_fornleifur.jpg

Sýningin var heima hjá prinsinum

Hæg voru heimantökin fyrir Napóleon prins. Hann bjó sjálfur ásamt fjölskyldu sinni í höllinni þar sem sýningin á gripum úr leiðangrinum fór fram. Þá sem ekki þekkja vel til í París er hægt að upplýsa, að höllina Palais-Royal er hægt að finna gegnt Louvre-safninu og hýsir höllin í dag m.a. brot af af þjóðarbókhlöðu Frakka.

Á sýningunni í Palais Royale í París árið 1856-57 voru gripir frá öllum þeim löndum sem leiðangurinn hafði heimsótt, þ.e. Íslandi, Grænlandi og Svíþjóð og Færeyjum, Danmörku og Noregi; Ekki einvörðungu afsteypur af Íslendingum og Grænlendingum, heldur einnig mikið steinasafn og uppstoppuð dýr.

Nokkur skip sigldu með leiðangursmenn um Norðurhöfin, en móðurskipin tvö voru La Reine Hortense, sem var gufuskip, og Le Course. Prinsinn heimsótti einnig Jan Mayen og Spitzbergen og sömuleiðis var komið við í Færeyjum,Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Um ferðalagið er hægt að lesa í miklu verki sem fyrst kom út árið 1857 og sem bar titilinn: Voyage Dans Les Mers Du Nord A Bord De La Corvette La Reine Hortense. Höfundurinn var einn leiðangursmanna, einn af riturum Napóleons Prins sem kallaði sig Charles Edmond. Upphaflegt nafn hans var Edmund Franciszek Maurycy Chojecki og var hann ættaður frá Póllandi og talinn einn af fyrstu sósíalistanna í Frakklandi.

3b.jpg

Eins og sjá má hér á einni af koparstungunum sem birtust í L´Illustration þann 10. janúar árið 1857, þá hafa Napóleon prins og ferðafélagar hans einnig krækt sér í langspil, ekki ósvipað því hljóðfæri sem varðveitt er á safni í Brussel (sjá hér). Á Íslandi náðu þeir sér einnig í ask, útskorin tóbaks- og púðurhorn sem og reykjarpípu úr járni. Á annarri mynd má sjá silfurkrús íslenska "fyrir mjólk", grænlenska fiðlu!! og sænska könnu sem er fremst á myndinni.

Einnig höfðu leiðangursmenn með sér margar bækur og handrit frá Íslandi, sem sjást á koparristunni, þar sem þeim var raðað á borðin fyrir framan gifsafsteypurnar. Í greininni í L´Illustration er tekið fram að bækurnar sýni frekar en en glæsileika bókanna, háan aldur þeirra sem og hvernig Íslendingar héldu andlegu atgervi sínu við lestur uppbyggilegra bóka á hjara veraldar, þar sem allur gróður visnar en þar sem mannlegt atgervi hefur haldið áfram að blómstra og vaxa. Höfundur dáðist að því að í Reykjavík var lærður skóli, skóli, bókasafn, þrjú lærdómsfélög og prentsmiðja sem gaf út tvö blöð og prentaði bækur sem stóðust samanburð við það besta í enskri [sic] prentlist.(4)

5byzntd.jpg

4batpwn.jpgLeiðangursmönnum og prins Jerome Napoleon tókst sýnilega mjög léttilega að afklæða sumar íslenskar konur, ekki aðeins til að taka gifsafsteypur af kvið þeirra, stinnum eða lafandi brjóstum, rasskinnum og útstandandi nöflum. Aumingja mennirnir hafa hugsanlega aldrei séð neitt því líkt heima í Frakklandi.

Kannski hafa einhverjar af hinum viljugu, íslensku kvenmódelum þeirra skipt á spaðafaldsbúning þeim sem síðar var sýndur í París og einhverjum nútímalegri flíkum eftir nýjustu Parísartísku. Þannig er faldbúningnum lýst í þýðingu Vieuxsage, en svo er Fornleifur jafnan kallaður á æruverðugan hátt í París:

Í stuttu yfirliti í einu af síðustu tölublöðum okkar ræddum við um framandleika sumra búninga. Á meðal slíkra búninga er íslenski kvenbúningurinn, sem settur hefur verið á gínu, svo laglega að þar sem hún stendur í anddyri sýningarsalarins, er maður eðlilega reiðubúinn að heilsa henni sem væri hún lifandi persóna. Þessi búningur með sínum gífurlega glæsileika, samanstendur af lítilli húfu sem gerð er úr löngum vafningi af svörtu silki. Svartur klútur er um hálsinn sem hvílir á kraga úr flaueli sem er ísaumaður með gullþræði; Einnig er slá með stórum krækjum úr kopar utan yfir ríkulega ísaumað vesti. Um mittið er beltið sem á eru stórir hnappar [stokkar] með opnu verki og niður úr beltinu hangir löng keðja sem endar í hjarta [laufi] úr silfri. Þessi búningur er eina verðmæti fjölskyldunnar og gengur í arf frá móður til dóttur.(4)

1_c_fornleifur_enginn_annar.jpg

Hér má sjá einhvern nærsýnan franskan sjarmör heilsa íslensku maddömunni sem reynist þó vera næsta þögul og fýluleg gína sem stóð rétt innan við anddyri sýningarsalsins.

medaille.jpg

Napóleon prins var sjálfur örlátur á gjafir handa Íslendingum eins og má lesa hér í frábærri grein Kjartans Ólafssonar sagnfræðings í tímaritinu Sögu árið 1986, þar sem Kjartan kemur inn á ferð Napóleons og póltíska þýðingu hennar vegna áhuga Frakka á fiskveiðistöð á Dýrafirði og andstöðu Dana við þau áform. Færði Napóleon prins sumum mektarmönnum á Íslandi minningarpening með mynd af sjálfum sér og með áletrun sem vísaði í ferðina. Prinsinn skildi einnig eftir sig tvö stór málverk af sér og konu sinni í embættisbústað Stiftamtmannsins, og hafa þau málverk líkast til verið tekin traustataki af þjófóttum dönskum embættismönnum. Forleifur væri þakklátur fyrir upplýsingar um örlög málverkanna, sem upphaflega héngu um borð á einu skipa leiðangursins.

 

Neðanmálsgreinar og frekari upplýsingar:

(1) Minna þótti mér aftur á móti koma til greinar Gísla Pálssonar prófessors emeritus í mannfræði við Háskóla Íslands um Jens Pálsson (1926-2002) líkamsmannfræðing sem Gísli ritaði í tengslum við þann hluta sýningar Ólafar sem fékk heitið Das Experiment Island. Grein hans birtist í sýningaskránni með sýningunni. Ástæðuna fyrir skoðun minni á grein Gísla Pálssonar geta menn lesið í langri ádeilu minni hér.

(2) Vegna nokkurs ruglings sem gætt hefur hjá ýmsum íslenskum höfundum skal tekið fram, að sá Naflajón sem heimsótti Ísland með pompi og prakt árið 1856 hét fullu nafni Napoléon Joseph Charles Paul Bonaparte. Hann var fæddur í Trieste og bar m.a. titlana Prince Français, Count de Meudon, Count di Moncalieri ad personam og Þriðji Prince von Montfort. Frá og með 1848 var hann almennt kallaður Prince Napoléon en einnig Prince Jérôme Napoléon og jafnvel uppnefndur Plon-Plon, en þannig mun hann hafa borið fram ættarnafn sitt sem barn. Hann var bróðursonur Napóleons keisara. Naflajón Íslandsfari andaðist í Rómarborg.

napoleon_joseph_charles_paul_bonaparte_painting_1297276.jpg(3) Þannig var Prins Napóleón lýst í Þjóðólfi árið 1856 (sjá hér): Prins Napóleon er hár maður vexti og þrekinn vel að því skapi og hinn karlmannlegasti og höfðinglegasti maður, ljósleitur í andliti en dökkur á hár og dökkeygður og snareygður og mjög fagureygður, ennið mikið og frítt, þykkleitur nokkuð hið neðra um andlitið og mikill um kjálka sem keisarinn mikli var, föðurbróðir hans. Enda er hann að ásjónu og andlitslagi mjög líkur Napóleon hinum I. eftir því sem meistarinn Davíð hefur málað mynd hans, þá bestu sem til er af honum. Myndin hér til vinstri sýnir málverk að fituhlunknum Plon-Plon og að hann var ekki "þykkleitur hið neðra um andlitið", heldur með tvær undirhökur af keisaralegum vellifnaði. 

(4) Parmi les objets rapportés d´Islande, on remarque une magnifique collection de livres, moins remarquables par leur luxe que par leur ancienneté et les idées qu´ils éveeillent Comme le fait remarquer M. Paul de Saint-Victor, l´emotion s´empare de vous a la vue de ces vénérables Bibles qui ont été la force, le vitique, le trésor moral de leur froid désert. A cette extreme limite du mode habitable, la ou la vegétation elle-meme se raréfie et se meurt, l´intelligence humaine n´a pas cessé de murir et de fructifier. Reykjarik, la capital, possede un lycée, des ecoles, une bibliotheque, trois sociétés savantes et littéretaires, et une imprimerie dont les deux journaux et les publications récentes egalent les plus parfaits produits de la typographie anglaise.

(5) Dans le rapide apercu contenu dans un de nos derniers numéros, nous avans parlé de l´etrangeté de cartains costumes. Parmi ceux-ci se trove l´habillement d´une femme islandaise, monte sur mannequin, et si bien monté que, placé a l´entree de la galerie, on est naturellement porte a le saluer comme une personne animée. Ce costume, a la magnificence massive, se compose d´un petit bonnet de drap noir a longue frange de soie, d´une cravate noire autour du cou, retombant sur une collerette de velours brodé d´or, d´un manteau ourlé de larges agrafes de cuivre, encadrant le corsage richement galonné; la taille est serrée dans une ceinture incrustée de gros boutons ciselés, á laquelle pend une longue chaine terminée pa un caeur d´argent. Cet habit est a lui seul l´écrin de la famille, et il reste comme un héritage la mere leque a la fille.


Stórnefjur í Amsturdammi

huge_nose_house_in_amsterdam_2.jpg

Fyrir réttu ári síðan heimsótti ég Holland í rúma tvo daga, m.a. til að skoða sýningu á Gemeendtemuseum í den Haag sem ég hafði lagt til upplýsingar og skrifað örlítið í risavaxna og glæsilega sýningarskrá fyrir sérsýningu. Ég heimsótti daginn áður Amsterdam til að ganga á fund prófessors Joost Schokkenbroeks sem m.a. er forstöðumaður rannsóknardeildar Siglingasögusafns Hollands, en einnig til að hitta Ninu Jaspers fornleifafræðing og sérfræðing í keramík sem ég skrifaði nokkrar línur með í sýningarskrána, sem hún var ein af aðalhöfundunum að. Ninu og prófessor Schokkenbroek hef ég fengið til að vera með í stóru verkefni sem nú er reynt að koma á laggirnar undir yfirstjórn dr. Ragnars Edvardssonar. Meira um það síðar, ef úr verður.

restaurant.jpg

Meðan ég beið eftir því að hitta Ninu og samstarfsmann hennar Sebaastian Ostkamp í litlu sérfræðifyrirtæki sem þau reka í miðborg Amsterdam, fór ég á elsta kínverska veitingastaðinn í Amsterdam, sem ég hef fyrir sið að fara á í hvert skipti sem ég er staddur í borginni. Hann er í dag kallaður Oriental City (sjá mynd hér til hægri). Mér var vísað til borðs við glugga á 2. hæð, þar sem ég hafði aldrei setið áður. Meðan að ég er að bíða eftir matnum, er mér litið yfir síkið (díkið/dijk) og sé léttklædda konu í glugga í húsi á hinum bakkanum. Þótt þessi kínverski staður sé ekki alllangt frá helstu rauðljósgötum Amsterdam, þá var konan í glugganum alveg örugglega ekki ein af þessum léttklæddu portkonum eða dækjum sem baða sig rauðu ljósi til að auglýsa kjöt sitt við díkin (síkin). Hún bjó nefnilega á þriðju hæð. Konan sem ég sá í glugganum var greininga heiðvirð, ung kona sem var nýkomin úr baði.

huge_nose_house_in_amsterdam_1254311.jpg

Ég leit því blygðunarlega undan ofan í matinn sem kominn var á borðið. Hann bragðaðist vel að vanda. En vitaskuld leit maður aftur yfir síkið til að gæta að því, hvort konan væri nokkuð í hættu. Ástríðglæpur, Rear window ... þið vitið hvað ég er að fara. Þannig var því sem betur fer ekki háttað. Engar blóðslettur voru sjáanlegur.

En þá tók ég eftir öðru efst á gafli hússins sem unga, léttklædda konan bjó í. Þar er mikið skjaldamerki, sem mér þótti áhugavert. Þar sem unga, allsbera konan var löngu farin úr glugganum, tók ég upp myndavél mína, Pentax Optio E80 vasamyndavél, og með aðdrætti ríkulegum sá ég betur þetta einstaka skjaldamerki. Á því sjást þrír mjög stórnefjaðir menn og stytta, brjóstmynd af stórnef einum, er efst á mæninum.

Um daginn var ég að skoða myndir ársins 2014 og staldraði aðeins við skjöldinn á húsi nöktu konunnar sem stendur á Oudezijds Voorburgwal númer 232. Eftir örlitla leit á vefnum fann ég skýringuna þessu skjaldamerki. Árið 1625 byggði Pieter nokkur Parys þetta hús, en í byrjun 18. aldar bjó kaupmaðurinn Jan-Frederik Mamouchette (Mamouchet) og spúsa hans Catherina van Heusden í húsinu og settu á það nýjan gafl. Þessi skjöldur á að tákna tengsl ætta þeirra hjónanna.

mamouchette_1254316.jpg

Margar kenningar hafa verið settar fram um "Húsið með stóru nefin" eins og húsið er kallað í daglegu tali. Sumir segja stórnefirnir séu vísun í eftirnafnið Mamouchette, það er "ma mouchette" - stóra trýnið mitt. Það þykir mér sjálfum ólíkleg skýring. Aðrir benda á að myndin sýni múslíma eða Saracena, en Mamouchette verslaði einmitt fyrir botni Miðjarðarhafs. Mouchette getur einnig þýtt neftóbaksdós eða sá sem tekur í nefið en sá siður ruddi sér til rúms í byrjun 17. aldar (Sjá hér). Þá eru þetta kannski bara neftóbakskarlar. Hver veit? Líka má ímynda sér að þetta séu gyðingar, en stór nef hafa löngum loðað við þá, segja fróðir menn.

Kannski veit nakta konan í húsinu eitthvað meira. Hér kemur svo myndin af henni. ........

........

Æi nú, hún reyndist ekki alveg í fókus. Ég spyr hana um sögu hússins þegar ég er næst í Amsturdammi. Vona ég að hún stökkvi ekki upp á ættarnefið, en sannast sagna tók ég ekkert eftir nefinu á henni. Svona í bakspeglinum minnir mig að hún hafi verið snoppufríð stúlkan sú. En þegar maður er bara með Pentax Optio E80 í vasanum, er ekki hægt að búast við góðu minni og smáatriðum.

_gugavert.jpg


Ferðasögur fyrirmenna

melavollur_1936.jpg

Heyrt hefi ég, að verið sé að skrifa sögu konungsheimsóknanna á Íslandi. Það er afar merkileg saga og verður gaman að sjá hvernig það verk verður leyst.

Saga íslenskra ráherra- og forsetaferða gæti einnig orðið hin skemmtilegasta lesning. Áhugi manna á tímabundnu hvarfi núverandi forsætisráðherra sýnir mikinn áhuga á slíku efni. Eitt sinn fóru íslenskir forsetar ekki eins víða og ferðalangarnir Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson hafa gert. Flugferðir voru dýrar og forseti eins og Kristján Eldjárn var aldrei eins mikið partýljón og eftirmenn hans.

Þegar Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra komst hann oft aðeins í opinberar utanlandsferðir vegna þess að velunnari Íslendinga, C.A.C. Brun ráðuneytisstjóri í Danska utanríkisráðuneytinu og fyrrum sendiráðsritari í Reykjavík, sá til þess að hann gleymdist ekki. Þetta gerðist til dæmis árið 1948 í janúar á ráðstefnu norrænna utanríkisráðherra. Brun reit: "Vi tog imod paa Bristol. Dagen igennem ordinært nordisk Udenrigsministermøde, Island inkluderet. Bjarni Benediktsson spiller, imidlertid som sædvanlig, en aldeles ynkelig Rolle..." . C.A.C. Brun bjóst við meiru af embættismönnum unga lýðveldisins, sem hann hafði stutt manna mest í fæðingarhríðunum. En þar er saga sem nú er verið að vinna í.

Sveinn Björnsson í Kaupmannahöfn 1947

Sveinn Björnsson forseti átti í stökustu erfiðleikum með sjálfan sig þegar Kristján síðasti konungur Íslendinga (1918-47) andaðist vorið 1947 og honum var boðið í útförina. Sveinn hafði m.a. áhyggjur á viðhorfum Dana til sín vegna sonarins, sem var svæsinn nasisti og SS-liði í Danmörku á stríðsárunum. Sveinn hafði því samband við gamlan vin sinn, C.A.C. Brun. Brun sagði honum að koma og sá persónulega til þess að dagblöð eins og Information héldu sig á mottunni og væru ekki með neitt skítkast á meðan Sveinn var í Danmörku.

Síðdegis þann 28. apríl 1947 ók Brun út á flugvöll með J.R. Dahl, sem var hásettur í danska hernum og átti að fylgja Sveini Björnssyni við hvert fótmál. Dahl þessi var hins vegar ekki eins háttsettur og generalmajorinn sem fylgja átti Hákoni Noregskonungi. Einhverjar rökræður höfðu spunnist í utanríkisráðuneyti Dana um hvort hægt væri að senda lágsettan mann eins og J.R. Dahl til móts við Svein. Brun lýsti svo því sem gerðist á flugvellinum, hér í þýðingu minni:

"Á flugvellinum var okkur vísað inn á skrifstofu flugvallastjórans, þar sem Prins Knud var þegar mættur. Þarna var kræsilegt rækjusmurbrauðsborð með bjór og snaps, sem Prinsinn var þegar búinn að gera sig ríkulega heimakominn í. Hann hagaði sér eins og trúður. Friðrik Konungur vildi gjarnan hafa tekið á móti forsetanum, en þar sem ekki hafði verið gefinn upp nákvæmur lendingartíma um hádegi, hafði hann sent erfðaprinsinn í sínu umboði.

Mér kveið örlítið fyrir því, hvernig það myndi fara og .... Þegar prinsinn segir við mig:

„Heyrðu, hvað vill þessi forseti eiginlega hingað niður?"

Ég: „Já það er eðlilegt að hann mæti"

Pr: "Núú, eftir allt sem hefur gerst!"

Ég: „Hvað er hans konunglega hátign að gefa í skyn?"

Pr: "Þér vitið alveg eins vel og ég. Hann fór bara til Íslands bara til að ræna krónunni af Pabba!"

Ég: "Ég held, að yðar konunglega hátign hafi fengið rangar upplýsingar. Sv. Bj. gerði alveg öfugt allt til að seinka málinu og setti alla sína pólitísku framtíð og politískan orðstír undir (o.s.fr.)".

Pr: "Já, en það var akkúrat það, sem Þér áttuð að segja maður! Þess vegna gaf ég boltann upp. Ég hef heyrt eitthvað um það, en aðrir segja að það sé rangt. En ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að honum líkaði við pabba minn og vildi halda í Konungsdæmið. Segðu bróður mínum þetta, heyrið Þér, það er mjög mikilvægt, hann hefur gott að því að heyra það"!. "

Þá vitum við það.

Knútur prins (f. 27.7. 1900 - d. 14.6. 1976) var reyndar hið mesta flón, og vegna gáfnabrests var rétturinn til að erfa krúnuna eftir eldri bróður hans, Friðrik 10., tekinn af honum og gefinn Margréti Þórhildi árið 1953. Orðatiltækið "En gang til for Prins Knud" er enn notað þegar einhver "fattar" ekki hlutina nógu fljótt.

En gang til for prins Knud  

Þessi barnsungi matrós skemmti sér konunglega með Knúti. Takið eftir háðskunni í svip þess litla.

Hvað varðar Knút er grein Glücksborgarættarinnar út frá honum dálítið veik að líkamlegu og andlegu atgervi og var greinilega lengi hornkerling í höllum Margrétar Danadrottningar. Frænka Margrétar, Elisabeth prinsessa, dóttir Knúts, heldur nú orðið jólin ein og yfirgefin með eldabusku sinni og sagði frá því í Søndagsavisen árið 2005.

Það sem Knútur prins sagði við Brun yfir smurbrauðinu á flugvellinum í Kastrup endurspeglaði viðhorf bróður hans, Friðriks 9, sem var óþreyttur að segja C.A.C. Brun neikvæða skoðun sína á fyrsta íslenska forsetanum, en Friðrik rómaði hins vegar jafnan aðra Íslendinga.

Sveinn Björnsson kom til Kaupmannahafnar og tók þátt í útför Kristjáns 10. á tilheyrilegan hátt og enginn angraði hann opinberlega.

Á myndinni efst eru nokkrar söguhetjanna saman komnar á Íþróttavellinum í Reykjavík (Melavellinum) þann 18. júní 1936. Knútur prins (1), Kristján 10. (2), C.A.C. Brun sendiráðsritari (3), Hermann Jónasson (4) og óþekk(t)ur drengur (5). Ef einhver þekki drenginn þætti mér vænt um að fá upplýsingar.

strakur_kikir.jpg


Mínir bræður, víðar er fátæktin en á Íslandi

ferdinand_medici_mauri_livornese.jpg

 

Síra Ólafur Egilsson prestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum (1564-1639) var einn þeirra Íslendinga sem mannræningjar námu á brott á hinn hrottalegasta hátt árið 1627. Mannrán sjóræningja frá Alsírsborg var ekki aðeins aðferð til að ná í þræla og ambáttir. Leikurinn var einnig gerður til þess að reyna að krefjast lausnargjalds. Þetta var ekkert annað en fjárkúgun á fólki sem þótti vænna um mannslíf en mönnum þótti í Norður-Afríku. Sumir sjóræningjanna voru Norðurevrópumenn, t.d. Hollendingar sem sjálfum hafði verið rænt og sem höfðu snúist/eða verið beygðir til Íslam. Þess vegna var síra Ólafur settur á skipsfjöl í Salé, ári eftir að hann kom í Barabaríið. Skipið sigldi  til hafnarborgarinnar Livorno í Toscana á Norður-Ítalíu. Ólafur var talin vænlegastur Íslendinganna til að koma skilaboðum um lausnargjaldskröfu til réttra aðila.

jan_luykens_slaves.jpg
Hluti af ristu eftir Jan Luykens í bók Pierre Dans Pierre. Historie van Barbaryen, en des zelfs zee-roovers, 2 delen. Amsterdam: Jan Claesz ten Hoorn, 1684. Hægt er að stækka myndina mikið með því að klikka á hana, og sjá hana alla hér í boði Fornleifs.

 

Reisubók Séra Ólafs var gefin var út í danskri þýðingu árið 1741 og síðar á íslensku í Höfn. Hún er til í fjölmörgum afritum og er frábær heimild um mannránin á Íslandi, dvöl Íslendinganna í Barabaríinu, en sömuleiðis vitnisburður af ferð Ólafs frá Salé til Íslands, sem og af gífurlega glöggu auga prestsins. Ég hef margoft lesið bókina í ágætri útgáfu Sverris Kristjánssonar sem kom út hjá AB árið 1969, sömuleiðis sum handritin, og dönsku útgáfuna frá 1651. Sumar lýsingar síra Ólafs eru mér eftirminnilegri en aðrar. Þótt Reisubókin sé stutt finnst mér ég alltaf vera að uppgötva nýja hluti í hvert sinn sem ég les frásögnina.

Livorno

Ég held mikið upp á lýsingunni á ferð hans frá Salé (nú í Marokkó), sem tók lengri tíma en ætlað varð þar sem sjóræningjar eltu skipið og skipstjórnaði hörfaði allt austur til Möltu. Áhöfn og farþegar urðu vatnslausir og urðu að leita lands til að finna sér vatn.Ólafur lýsir ferðafélögum sínum þannig:

Fyrst voru þar á þeir Italiani vij, Gyðingar iiij, hverjir mér gáfu nokkra brauðmola stundum, item iiij Engelskir, iiij Spanskir, v Franskir, og þá óttaðist eg, því þeir sáu jafnan súrt upp á mig, item v Þýskir með mínum förunaut. 

Það bætti enn í hræðsluna og hremmingar síra Ólafs, þó svo að súrir Frakkar væru alveg nóg. Skipið var einnig sett í sóttkví og er lýsing Ólafs sú fyrsta sem til er af þeirri aðgerð í sögu Evrópu. Íslendingar eru alltaf á staðnum. Loks komst Ólafur í land í fríföninni Livorno, sem hann kallaði Legor (þ.e. Leghorn sem var annað nafn borgarinnar sem Norðurevrópumenn kölluðu hana). Honum þótti mikið til borgarinnar koma, og fékk glorsoltinn vín epli og ost þegar hann komst í land eftir 6 daga á ytri höfninni í Livorno. Hann lýsir borginni vel, m.a. miklu "meistaraverki" sem fyrir augun bar: ­­

Þessu framar sá eg þar það meistaraverk, sem eg sá hvergi slíkt, hvað að voru iiij mannsmyndir steyptar af eiri, sem að svo sátu við einn stólpa af hvítum marmarasteini. Þær myndir voru í fjötrum af eyri. Stólpinn var ferskeyttur og sat einn við hvern flöt, og sáu því nær út sem lifandi menn, eftirmynd eins Tyrkja og þriggja hans sona, hverir eð kristninni höfðu stóran skaða gert, þeir eð voru að vexti sem risar, en sá hertogi sem þann stað byggði, vann þá í stríði, og lét svo steypa þeirra myndir til minningar, og hans mynd stendur upp yfir þeim með stóru sverði í hendi, og þar á múrnum eru settir Tyrkja hausar í kring, og svo rekinn stór gaddur í gegnum þau ofan í múrinn. Nú hljóðar ritningin, að ólukkan sú kom i yfir þá óguðlegu, sem þeir fyrirbúa þeim.livorno_lille.jpg

Stytta þessi stendur enn í dag í Livorno. Hún var gerð af Giovanni Bandini og Pietro Tacca á árunum 1617-1626 og sýnir Ferdinand I Medici greifa sem gerði Livorno af fríhöfn árið 1595. Gyðingar borgarinnar sem voru fjölmargir þökkuðu fyrir borgararéttindi sín með því að borga fyrir þetta mikla verk. Koparristan er eftir Stefano della Bella og er frá 1655.

 

Marseille

Ólafur ferðaðist frá Livorno til Marsaille og aftur var Ólafur í vanda:

Um kvöldið þess sama daga fékk eg hvergi hús í þeim stað allt til dagseturs. En eg bað með grátandi tárum vel í 20 stöðum. Á móti sjálfu dagsetri þá kom að mér ein kvinna, sem til mín talaði í réttri íslensku, þar eg sat með harmi hugar, sú sem sagðir: "Hvað ertú fyrir einn?". Eg ansaði og sagði: "Einn aumur Íslendur" Ertu Íslendur?" sagði hún, "svo kom með mér. Ég skal ljá þér hús í nótt. Eg er og svo íslend kvinna og svo herleidd." En þá ég kom í hennar hús, þá voru þar bæðir þýskir menn og engelskir, hverir að undirstóðu mín orð, og einn af þeim engelsku þekkti mig, sá eð var einn brillumakari. Þessi sagði, eg væri einn prestur af Íslandi. Þá skipaði hún mér strax út áf húsinu. Í því bili, þá hún tók til mín og vildi hrinda mér út af húsinu, þá uppvakti guð minn góður einn þýskan kaupmann. Sá gekk strax fram og upp frá drykkjuborðinu - því það var víndrykkjarhús - og lofaði að bítala fyrir mig mat og drykk, hús og sæng svo lengi sem ég væri í þeim stað.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort kráarmúttan íslenska hafi ekki í raun verið táknmál hjá síra Ólafi fyrir sjálfan djöfulinn, sem reyndi að lokka hann. Líklegast hefur hann í veruleikanum látið lokkast af portkonu og lent á porthúsi þar sem hann var ekki borgunarmaður fyrir neinu.

Þá má furðu sæta að Ólafi hafi tekist að ná til Íslands, aura- og allslausum, en á einhvern yfirnáttúrulegan hátt hitti hann ávallt gott fólk og gjafmilt sem hjálpaði honum í nauð og áfram áfram á ferð sinni. T.d. hinn hollenski kapteinn Caritas Hardspenner sem tók hann upp á arma sína í Marseille og sigldi með hann til Hollands á aðfangadag jóla 1628. Ferðin tók rúman mánuð. Ólafur segir frá:  

11 dögum fyrir Pálsdag missti ég um nóttina mína nærpeysu, hverja ég hafði þvegið  og upp í togin fest, hverja bátsfólkið niður sté um nóttina, þó óviljandi, svo eg þá ekki hefi eftir á mínum kropp, nema skyrtu gamla og lífstykki gamalt, í hverju ég var með fyrstu fangaður. Og strax þar eftir missti eg af hattinn af veðri. Þá gaf mér aftur annan hatt lítinn og gamlan minn frómi Caritas, og einn stýrimaður hálfa peysu gamla, en eg keypti hálfa sjálfur.

Í Kaupmannahöfn vildi Kristján 4. engu spandera á herleidda þegna frá Íslandi, sem nú voru fangar í Barbaríinu. Hann þurfti að nota hvern dúkat og eyri í hallir sínar og stríð. Hann fyrirskipaði því söfnun í kirkjum á Sjálandi og henni lauk ekki fyrr en 1635. Fé það sem þar safnaðist, sem og gjafir af Íslandi, voru sendar til mannræningjanna, sem að öllum líkindum hafa verið með vafasama umboðsmenn í Hollandi og Livorno sem tóku sér ríflega prósentu. Íslendingar voru leystir úr haldi fyrir um 4000 kýrverð eða 16.687 dali. Hinir útleystu voru þó aðeins 37 að tölu, en talið er að 300 Íslendingar hafi ekki snúið heim úr ánauðinni. Sumir vildu reyndar ekki snúa aftur, voru líklega af því kyni sem þykir allt betra annars staðar, sumir voru of dýrir, enn aðrir dauðir og snúnir til Íslam.  

Fyrir hina 300 Íslendinga voru aldrei manngjöld greidd. Þeir lágu óbættir hjá garði. Líkt og þeir rauðhæru kynlífþrælar sem hnepptar voru í þrældóm og fluttar til Íslands af norskum höldum, ef trúa skal DNA-fræðingum (sem ég geri aðeins mátulega). Konu sína, Ástu Þorsteinsdóttur, prests á Mosfelli, fékk Ólafur aftur úr Barbaríinu árið 1637, en þrjú börn þeirra urðu eftir. Síra Ólafur hefur örugglega andast í mikilli sorg. Ásta lifði mann sinn fram í háa elli. Ekki hefur sorgin verið henni minni.

Fleygust athugasemda síra Ólafs þykir mér: Mínir bræður, víðar er fátæktin en á Íslandi, sem hann lét flakka um lífið í Marseille. Þetta er eru orð sem enn eiga við og sem margir hálærðir prófessorar og herrar landsins hafa ekki skilið.

luykens_detail.jpg

Lausn á 3. getraun Fornleifs

Hæstikaupstaður lille

Sigurvegari 3. getraunar Fornleifs heitir Tumi Þór Jóhannsson og býr á Ísafirði. Hann þekkti greinilega heimaslóðirnar, því myndin sýnir Hæstakaupstað árið 1877. Þá var Tumi ekki fæddur og því var mér spurn, hvernig hann sá að þetta var á Ísafirði? Tumi svaraði, að það væru fjöllin, enda eru þau vel teiknuð. Jón Steinar hefði nú átt að þekkja þetta líka.

Myndin í þriðju gátu Fornleifs sýndi þá félaga Gerrit Verschuur (1840-1906) og J.C. Greive (1837-1891) frá Hollandi, sem komu til Íslands í maí 1877, eins og greint var frá í blöðum þess tíma. Þeir ferðuðust um landið í mánaðartíma. Myndin sem spurt var um sýnir þá á Ísafirði, kappklædda, líklega nokkrum klukkustundum áður en þeir stigu á skipsfjöl og sneru aftur til síns heima.

p_Verschuur
Gerrit Verschuur

Gerrit Verschuur  var þekktur ferðalangur, sem skrifaði m.a. frægar bækur um ferðir sínar til Asíu og Ástralíu.  J.C. Greive var þekktur listamaður sem sérhæfði sig í að teikna myndir við ferðalýsingar í myndríkum vikublöðum sem urðu algeng afþreying fyrir borgarstéttina í Evrópu um miðja 19. öldina. Ljósmyndin var dauði listamanna eins og Greive. 

Greive
J.C. Greive

Á myndinni, sem spurt var um, sjáum við þá félaga í Hæstakaupstað (Ísafirði) í júní 1877, en frá Ísafirði sigldu þeir til Bretlandseyja á leið heim til sín. Það er Gerrit Verschuur sem stendur með kúluhatt (stækkið myndina með því að klikka á hana) og talar við karl og konu í söðli, og J.C. Greive stendur og teiknar og vekur það verðskuldaða athygli einhverra karla.

Greive teiknar
J.C. Greive teiknar sjálfan sig?

Myndin bitist í 2. tölublaði hollenska vikuritsins EigenHaard árið 1870. Rit þetta kom út í borginni Haarlem á síðari hluta 19. aldar og var lesið víða í Hollandi og Belgíu. Gerrit Verschuur birti ferðalýsingu sína frá Íslandi með titlinum Ultima Thule, of Eene maand op Ijsland

Teikningar J.C. Greive höfðu verið sendar þeim félögum Joseph Burn-Smeeton og Auguste Tilly,   Breta og Frakka, sem ráku saman fyrirtæki sem vann málmstungur úr teikningum listamanna til nota í myndablöðum margra landa Evrópu.

Ýmsar skemmtilegar teikningar aðrar eru við Íslandslýsingu Verschuurs í nokkrum fyrstu heftunum af vikublaðinu EigenHaard árið 1878, t.d af torfbæ á Seyðisfirði með einkennilegt strýtulaga hornherbergi. Falleg mynd er frá Flateyri af lýsisbræðslu, mynd af konum í skautbúningi fyrir utan Dómkirkjuna í Reykjavík (sjá neðar) og af þeim félögum Verschuur og Greive úti í Engey svo eitthvað sé upp talið. Mynd af þeim félögum, þar sem þeir gistu í kirkjunni á Mosfelli í Mosfellsdal birtist fyrir allmörgum árum í Lesbók Morgunblaðsins. Karl faðir minn, sem átti þessar myndir, gaf eina þeirra, og líklega þá skemmtilegustu, Sigurjóni Sigurðssyni sem lengi var kaupmaður á Snorrabraut, og skrifaði Sigurjón heitinn smá grein um Mosfell og myndina sem má lesa hér.  Ég birti kannski síðar einhverjar af öðrum myndum Greive frá Íslandi.

Greive Dómkirkjan 2
Við tröppur Dómkirkjunnar í Reykjavík áður en kirkjan var tekin í gegn og lagfærð árið 1878.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband