Stiklur úr sögu fornleifafræðinnar á Íslandi - 1. hluti
21.9.2011 | 06:52
Saga fornleifafræðinnar á Íslandi hefur óneitanlega stundum verið mjög átakasöm á síðustu áratugum og mun víst vera það enn. Margir fornleifafræðingar "börðust" um þau fáu störf sem í boði voru á Íslandi. Í eina tíð var víst nóg að það væri einn fornleifafræðingur (sjá mynd), þó svo að hann væri ekki einu sinni fullmenntaður í greininni. Hann bauð fyrirmönnum með sér ofan í kuml og það var talin vera ágætis fornleifafræði.
Enn fleiri fornleifafræðingar eru nú á markaðinum, en lítið er að gera hjá flestum eftir hið íslenska efnahagshrun, nema kannski hjá prófessornum í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann er ekki einu sinni fornleifafræðingur, heldur sagnfræðingur. Kannski var kennsla í greininni við Háskóla á Íslandi tákn um aðvífandi vanda eins og í þjóðfélaginu öllu.
Hér fylgir fyrsta umfjöllun mín með sönnum sögum úr fornleifafræðinni á Íslandi, og fjallar hún mest um ráðningar manna, en einnig um klíkuskap, ættartengsl og kannski öfund og illgirni.
Sumir erlendir fornleifafræðingar hafa haldið því fram, að íslenskir starfsbræður þeirra leiki Sturlungaöld í frístundum sínum, og jafnvel öllum stundum. Ekki hafa menn þó farið varkosta af því, að erlendir aðilar, sem hafa komið með hendur fullar fjár til landsins og settu í fornleifarannsóknir sem nýst gátu þeim sjálfum, hafi leikið lykilhlutverk í skálmöldinni. Saklausir af deilum í stétt fornleifafræðinga eru heldur ekki kindugir karlar í öðrum greinum á Íslandi, sem sáu uppgang fornleifafræðinnar sem samkeppni og hótun. Síðar mun ég greina frá Bandaríkjamanni nokkrum, sem hafði í hótunum við íslenska fornleifafræðinga. Það er heldur ódæll fursti, sem sumir kollega minna eru enn í vasanum á.
Vegna hefðar á Íslandi, þótti lengi vel ekkert því til fyrirstöðu að ráða menn fyrir ættartengsl, klíku, flokkatengsl og jafnvel vegna útlits, frekar en af verðleikum og verkum. Lengi vel var hægt að fá vinnu við Þjóðminjasafn Íslands án þess að hafa lokið prófum, og jafnvel með því að kalla sig eitthvað sem maður gat ekki staðfest með vísun til prófgráða eða rannsókna við háskóla.
Er ég hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands árið 1993 fékk ég stöðu mína vegna tilskilinnar menntunar og reynslu. Afhenti ég prófskírteini og var dæmdur hæfastur umsækjenda. Ég var glaður og hinir umsækjendurnir leiðir eins og gengur. Enginn klíkuskapur eða pólitík var með í spilunum og fríðleiki minn er svo takmarkaður, að hann hefur örugglega ekki haft áhrif á stöðuveitinguna.
En eftir nokkra mánuði í starfi var ég búinn að fá rækilega nasaþefinn af þeim hörmungum sem riðið höfðu yfir vegna þess að ég var ráðinn, en ekki einhver annar gæðingur einhverrar klíku út í bæ, og var það ekki síst vegna þess að ég var ráðinn í tíð Guðmundar Magnússonar, sem á tímabili var settur Þjóðminjavörður vegna vandamála við rekstur og stjórnun Þjóðminjasafns undir fyrri þjóðminjaverði. Hann átti að endurreisa safnið, það vildu margir þeirra sem unnu þar ekki, og hann fékk heldur aldrei að ljúka starfi sínu vegna pólitísks baktjaldamakks og einhvers innra óeðlis í Sjálfstæðisflokknum.
Háskóli Íslands átti sæti í Þjóðminjaráði, þegar ég var beðinn um að setjast í fornleifanefnd. Maður nokkur í úr háskólanum, sem kominn var út af hreinskyldleikaræktuðu slekti Hriflu Jónasar, þótti auðvitað mesta óhæfa að vera að setja vel menntaðan fornleifafræðing í Fornleifanefnd og vildi fá annan umsækjanda, sem ekki hafði lokið sérlega löngu námi frá Svíþjóð, þó það væri ekki í réttri grein. Samt varð nú ofan á, að ég varð nefndarmaður, en fannst ég ekki sérlega velkominn, því formaðurinn, prófessor í lögfræði við HÍ, var ekki vanur því að menn spyrðu erfiðara spurninga í opinberum nefndum. Það átti ég nefnilega til.
16. janúar árið 1995 rennur í gegnum faxvél Þjóðminjasafnsins póstfax frá Póst og Símastöð 1 í miðbæ Reykjavíkur. Faxið var frá NN og innihaldið sést hér. Þarna voru komnar tregafullar vísur og hálfkveðnar, þar sem ýmislegt var gefið í skyn, og töldu fróðir menn þessu vera beint að minni persónu. Mér var mikið skemmt.
Töldu enn fróðari menn, að NN væri maður, sem enn væri ekki búinn að ná sér eftir ráðningu mína við Þjóðminjasafn Íslands. Ég skildi ekkert í þessum æsingi manna. NN, sendi m.a. þetta
Gott er að toga titla
Sem telja menn kannski fulllitla
Ég veit fyrir satt
að þeir vaxa mjög hratt
ef farið er við þá að fitla
höfundur er óþekkur
Þarna var verið að gefa í skyn að einhver starfsmaður Þjóðminjasafnsins væri með falsaða pappíra upp á vasann, sem er auðvitað mjög alvarleg ásökun, enda þorði NN ekki að koma fram undir nafni.
Þó fornleifanefndin sé fyllt hef ég séð
Fjölmargan á henni galla
Einkum þann helstan að ekki er hún með
öllum Mjalla
höfundur er óþekkjanlegur
Þegar farið var að rannsaka, hver þessi tregafulli maður, NN , var, kom fljótlega í ljós, að rithönd mannsins væri sú sama og arkitekts nokkurs sem hafði starfað mikið fyrir Þjóðminjasafnið og þegið þaðan stóran hluta af lífsviðurværi sínu. Borin var saman skrift þess manns og NN, og kom í ljós að þetta var einn og sami maðurinn. Vísurnar töldu sumir, að mágur hans hefði samið, enda er hann þjóðfrægt skáld, sem meira að segja ólst upp í Þjóðminjasafninu. Fyrrum íbúar safnsins voru enn að skipta sér að ráðningum manna þar á bæ.
Þar sem fornleifafræðingar á Íslandi kalla ekki allt ömmu sína, gleymdi ég þessu fljótlega, enda starf mitt mikið og enga hafði ég fengið starfslýsingu, vegna deilna um það á efri hæðum samfélagsins. Ég vissi einnig, að í þessu máli gilti það fornkveðna: Margur heldur mig sig, og skal það skýrt hér:
NN, og kona hans, unnu nefnilega árið 1994 til verðlauna fyrir handverk sem þau afhentu reynsluverkefni sem bar einmitt nafnið Handverk. Þau hjónin fegnu verðlaunin fyrir þjóðlegasta hlutinn, og Vigdís Finnbogadóttir forseti afhenti þeim þau með mikilli viðhöfn. Handverksstykki þeirra hjóna bar heitið Amma æsku minnar, og var það peysufatakerling með spangargleraugu og prjónaða vettlinga. Sú gamla hékk í gormi. Þegar var togað í pilsfaldfaldinn á henni, sveiflaðu hún englavængjum sínum. Samkvæmt verðlaunatilkynningu var hún úr íslensku birki, roðskinni, ull, endurnýttum pappír og o.fl.
Einn galli var bara á gjöf Njarðar, en hann var sá, að amma æsku þeirra var ekki eins frumleg og þjóðleg hugmynd og dómnefndin áleit, því þetta var stolin hugmynd. Frekar þjófleg en þjóðleg.
Á verkstæði fyrir fatlaða í Wuppertal í Þýskalandi hafði í nokkur ár verið framleiddur Dragenflieger, sem kunni sams konar kúnstir og amma herra og frú NN. Fyrirtækið Wupper Exquisit Betrieb í Wuppertal var að vonum ekki ánægt með þennan hugmyndastuld, og aldrei varð neitt úr framleiðslu ömmunnar, þó svo það hafi staðið til. Pappírarnir voru nefnilega ekki í lagi, skírteinin ekki rétt útfyllt, fjölmargir voru á málinu gallar og virtist sem einhver hefði verið að fitla. Lögfræðingur taldi öruggt að Íslendingar væru að ræna hugmynd verndaðs verkstæðis í Þýskalandi.
Skáldmæltur maður í stétt fornleifafræðinga, sem er hið mesta hrákaskáld að mínu mati, sendi mér eftirfarandi ambögu, þegar hann frétti af umbreytingu Herr Dragenfliegers í norðlenskt kerlingarhró af Svarfdælakyni:
Af hverju þetta pískur
þótt afi hann sé þýskur.
Hann fer oft í schkúf og peysu,
vekur með því mikla hneisu.
Um daginn fékk hann prísa
fyrir að vera schkvísa,
hann var algjört Favorít
enda ein bischen Transvestit
Flokkur: Fornleifafræði | Breytt 12.6.2022 kl. 14:45 | Facebook
Athugasemdir
Saell Vilhjalmur. Flott vefsida hja per og pad verdur an efa frodlegt og gaman ad lesa pistla pina her eins og annars stadar. Hlakka til ad lesa framhaldid af pessum pistli. Kvedja fra Vesturheimi.
Jakob Valsson (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 15:05
Er þetta ný vefsíða. Ég er áhugafornleifafræðingur eins og þeir kalla það í vesturheimi. Þar er það viðurkennt þótt það sé ekki hér. Er hægt að koma inn með greinar hér þótt ég viti að þær verða níddar af nokkuð mörgum hrokafullum fornleifafræðingum um allt sem finnst sem getur sannað að saga okkar var lengri í Norður Ameríku en menn hér vilja viðurkenna.
Valdimar Samúelsson, 21.9.2011 kl. 15:51
Spurninguni minni svarað þegar ég klikkaði á forngripinn. :-)
Valdimar Samúelsson, 21.9.2011 kl. 15:53
Án þess að vita það. dettur mér í hug, þegar þú talar um „prófessorinn“ að hér komi við sögu minn gamli bekkjarfélagi úr MR og samtímamaður í Lundi, Sveinbjörn Rafnsson. Annars er þessi síða skemmtilegt framtak, ekki síst fyrir okkur, sem höfum áhuga á sögu og fornleifafræði.
Vilhjálmur Eyþórsson, 21.9.2011 kl. 17:21
Valdimar, nú er að sjá, að hvort einhverjir fornleifafræðingar og aðrir fræðingar vilji skrifa á Fornleif. Kannski hafa þeir ekki tíma, kannski eru þeir með krampa, kannski eru þeir í deyfð? En nú er þetta svo nýbyrjað, svo menn hafa líklega vart tekið eftir því þessu bloggi. Ég þekki fornleifafræðinga, sem vita ekki hvað blogg er.
Hrokafullur vill ég ekki vera, og þess vegna máttu segja mér hvaða sannanir þú hefur fyrir þessari sögu "okkar" í Norður-Ameríku. Þó ég sé auðvitað svolítill hrokagikkur eins og flestir sem hafa látið mala vitneskjuna í hausinn á sér á annan áratug í háskóla, þá er ég forvitinn eins og skrattinn. Lát heyra!
FORNLEIFUR, 21.9.2011 kl. 18:22
Var þér aldrei kennt í uppeldinu, Vilhjálmur, að mannasiðir hefðu merkingu? Margt kann ég að meta sem þú skrifar, en þú gætir alveg látið ógert að drulla yfir fólk, sem þér hættir til að gera. Það er engin ástæða til þess að þú skulir vera utangarðsmaður. Viltu vera eins konar Grettir Ásmundarson íslenskra fræða?
Gústaf Níelsson, 22.9.2011 kl. 02:06
Gústaf Adolf Níelsson, sagnfræðingur, hvern drulla ég yfir? Þig? Viljirðu ekki lesa blogg mitt er þér það í sjálfsvald sett. Menn mega lifa í ostaklukkum fyrir mér. Ef þetta er ekki nógu pent blogg fyrir þig, þá lestu eitthvað annað.
Í þessari færslu, sem fer fyrir brjóstið á þér, sagði ég frá ráðningum í fornleifafræði, og er vissulega hægt að skrifa miklu meira um það. Þar sem ég þekki mín ráðningarmál í fornleifageiranum best, tók ég dæmið úr þeim, en ég gæti einnig hafa greint frá ráðningum í stöður við Fornleifadeild HÍ, mál sem fór fyrir dómstóla. Ráðningarmál á Íslandi eru vonandi ekki öll eins dramatísk og mín. Fólk sendir vonandi ekki ljóð og níðvísur út um víðan völl, eins og ástsjúkir unglingar. Ég bara spyr? Gera sagnfræðingar það?
Þeir sem verst létu, þegar ég var ráðinn, var fólk sem að mínu mati er ekki eins vandað og vera er látið, og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að skrifa um það. Menn skrifa um svindlara í bönkum. Ég skrifa um kollega þeirra í minjagripaframleiðslunni og minjavörslunni. Það er hluti af sögu fornleifafræðinnar.
Grettir Ásmundsson íslenskra fræða, mér lýst vel á það, eða Eiríkur Rauði. Nóg er af Mörðunum.
FORNLEIFUR, 22.9.2011 kl. 05:30
Jakob, þakka þér fyrir innlitið, gott að vita að bloggið verður líka lesið fyrir Vestan.
Nafni, Sveinbjörn Rafnsson, sá góði maður, var ekki lengur í fornleifanefnd þegar ég sat í henni um tíma. Hann stóð sig vel meðan hann var fyrir henni og fylgdi lögum og reglum. Þess vegna var hann óvinsæll í því starfi. En af einhverjum furðulegum ástæðum var það skoðun manna að ný Þjóðminjalög væru eitthvað sem menn hefðu en þyrftu ekki að fylgja.
Mun ég segja frá því síðar, um hvernig erlendir fornvistfræðingar byrjuðu rannsóknir án þess að hafa leyfi og hvernig hvernig hægt var að byggja sumarbústað ofan í kumlateig, vegna þess að Össur Skarphéðinsson ærðist fyrir hönd fuglaskoðarans sem byggði bústaðinn.
FORNLEIFUR, 22.9.2011 kl. 05:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.