Kattarslagurinn um þjóðmenninguna og þjóðararfinn
16.10.2013 | 11:49
Furðulegt var að sjá og heyra (og lesa), hvað mikið bar á milli í frásögnum forstöðumanna Þjóðminjasafnsins og Árnastofnunar á framtíð handritasýningarinnar í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu, sem heyrir undir stjórn Þjóðminjasafns. Guðrún Nordal hefur nú tekið handritin heim í vel varið Árnavirki. Hún gerði það um helgina, þar sem ekki er tryggð viðsættanleg gæsla í Þjóðmenningarhúsinu.
Margréti Hallgrímsdóttir lætur sem að ekkert sé að, og eins og bruna- og innbústrygging á diskótekstaxta væri nægileg til að vernda þjóðararfinn. Bakkar hún ekki með það. Guðrún sýnir hins vegar ekkert kálfskinn fyrr en fyllt hefur verið í botnlausa Menningarholuna við Hótel Sögu. Margrét ætlar hins vegar að sýna Brennu-Njálssögu in originalis á næsta ári, en það er vitaskuld í óþökk Guðrúnar.
Hvor maddaman er frekust á eftir að koma í ljós. Guðrún vinnur eftir reglum (þó hún láti dagsbirtu gægjast inn í stofuna með prismakrónuna á Árnastofnun, en slík birta mun ekki vera góð fyrir handrit frekar en tröll), en Margrét virðist ávallt vinna eftir skipunum og að geðþótta, eins og hún væri á fullu í pólitík.
Margrét telur ekki ástæðu til að hafa sólarhringsvakt á menningararfinum. Ætli sé nokkur vakt á Þjóðminjasafni Íslands? Hún talaði í fréttum eins og hún hefði umboð frá hærri stöðum, og það hefur hún kannski. Kannski beint úr fornminjaráðuneytinu.
Fyrir allnokkrum árum fór ég og skoðaði nýjar sýningar Þjóðminjasafnsins. Þar uppgötvaði ég m.a. að það lak frekar mikið meðfram nokkrum gífurlega löngum gluggum í nýrri viðbyggingu, sem sett var á suðurgafl safnsins (undir yfirstjórn eiginmanns Guðrúnar Nordal). Ég tók eftir því að ung gæslukona gaf mér óhýrt auga, þar sem ég gerði mig líklegan til að ljósmynda lekann og fór að tala í eitthvað tæki. Tæpum tveimur mínútum síðar kom Margrét Hallgrímsdóttir út á tröppurnar. Hún þekkti mig greinilega ekki, enda ég með hatt og skegg, en var greinilega mikið niðri fyrir vegna þess að ég var að ljósmynda galla á nýlegri viðbyggingu hússins og spurði mig af hverju ég væri að ljósmynda gluggana. Ég gekk svo framhjá henni efst á tröppunum og lét þau orð falla að húsið læki. Margrét gerði sér alls ekki grein fyrir því hver ljósmyndarinn var því hún bauð mér fáeinum árum síðar, og það margoft, að skoða sýningarnar ókeypis þegar ég væri á landinu, þar sem hún taldi að ég hefði aldrei séð nýopnaða sýningu safnsins í endurbættum húsakynnum. Gaman væri hins vegar að sjá reikninga fyrir viðgerðum á nýjum gluggum í viðbyggingunni.
Lengi var það svo, að minnst mátti tala um hrikalegt ástand byggingar Þjóðminjasafnsins og hvað þá endalausa óráðsíu í tíð Þórs Magnússonar. Eftir miklar og kostnaðarsamar lagfæringar og breytingar var þó mjög fljótt greinilegt, að húsið var enn ekki hæft undir sýningar á þjóðararfinum. Lengi hefur það verið svo á Íslandi, að mönnum þætti vænst um það sem nýtt var og sárast að missa það. Þjóðararfur sumra nær ekki út fyrir ást á steypu, járni, gleri og plasti í þjóðar-Hörpum og almúga-Kringlum.
Áhugi Guðrúnar Nordal á þvi að koma handritum sínum í Hús íslenskra Fræða, sem nú er stór hola sem Katrín Jakobsdóttir hóf gröft á rétt áður en hún hvarf úr embætti ráðherra, er líka skiljanlegur. Hafa ber í huga, að arkitektastofan Hornsteinar, sem rekin er af eiginmanni Guðrúnar Nordal hefur teiknað "fjöreggið" og mun sjá þar um hönnunarvinnu. Lag steinsteypunnar sver sig í ætt við kórinn á Þjóðminjasafninu sem ég skoðaði hriplekan skömmu eftir að sá bakhluti Þjóðminjasafnsins var vígður. En í holunni við Hótel Sögu er allt í stáli,
Við erum hér að tala um fólk sem er vant að fá allt sem það bendir á og sem gerir sér ekki grein fyrir að það gerðust voveiflegir hlutir á Íslandi árið 2008. Næturvakt í Þjóðmenningarhúsinu getur vart kostað mikið, meðan þjóðin er að safna í baukinn til að byggja enn einn minnisvarðann yfir arkitekta landsins. Margrét er nýbúinn að setja deildarstjóra á Þjóðminjasafninu í rannsóknarstöðu, meðan staða deildarstjórans er ekki auglýst. Ef ekki er verið að spara með því að setja starfsmenn safnsins í rannsóknarstöðu, þá ætti að vera til skildingur til að borga fyrir næturvakt.
Þjóðararfsuppgröftur í eyðsluvímu fyrir kosningar. Þetta er fínni tegund af fornleifafræði. Þarna yfir holunni á í framtíðinni að hýsa miklu merkilegri hluti en forngripina handan við Suðurgötuna.
Hætt hefur verið við stærsta fornleifauppgröft landsins og lokað á 800 millur, sem ekki eru til.
Auðvitað er ekki í mál takandi, að ekki sé sólarhringsgæsla á handritaarfi þjóðarinnar í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Þar hafa lengi ríkt mjög strangar reglur, og til dæmis hefur það verið vonlaust mál fyrir forstöðumenn hússins að ráða fjölskyldumeðlimi í hreingerningar. Nú er, sem sagt, líka bannað að hafa sólahringsvakt. Hvort þetta er kreppan, eða bara andleg kreppa hjá stjórnanda Þjóðminjasafni Íslands eða eiginhagsmunapot hjá Guðrúnu Nordal, læt ég lesendur mína sjálfa dæma. En vitaskuld á einnig að vera sólarhringsgæsla á menningararfinum í Þjóðminjasafni Íslands, því ekki er hann minna verður en bókfellið.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Handritin, "Menningararfurinn", Þjóðminjasafn Íslands | Breytt 22.2.2022 kl. 07:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.