Þingsályktunartillaga fyrir þá sem veggfóðra með Kjarval?
24.1.2014 | 15:52
Nýverið var sett fram þingsályktunartillaga http://www.althingi.is/altext/143/s/0499.html sem er ætlað að stefna stigu við málverkafölsunum.
Gott og vel. Ég þurfti ekki að lesa tillöguna lengi til að sjá, að hún ber fyrst og fremst hag þeirra fyrir brjósti sem hafa látið snuða sig með því að kaupa fölsuð málverk. Á annarri blaðsíðu tillögunnar kemur þessi setning eins og skrattinn úr sauðaleggnum, en hún skýrir nú margt:
"Nokkrir einstaklingar urðu og fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á fölsuðum myndverkum. Þessari þingsályktunartillögu er stefnt gegn slíkum svikum og því leggja flutningsmenn áherslu á að embætti sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, taki þátt í þeirri vinnu sem tillagan mælir fyrir um."
Einn af þeim sem ber fram tillöguna er Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir og fjármálasérfræðingur. Það leitar vissulega að manni sú spurning, hvort Vilhjálmur hafi talist til þeirra mörgu vel stæðu Íslendinga sem ekkert vit höfðu á list, en sem keyptu hana í metravís í góðærinu til að betrekkja stofuveggina hjá sér. Ég læt spurningunni ósvarað, því mér finnst tillagan öll full af ósvöruðum spurningum.
Eins finnast mér kjánar, sem í einhverjum snobbeffekt keyptu allt sem þá langaði í, án þess að hafa nokkurt vit á því sem þeir keyptu, sjálfir bera ábyrgð á slíkum mistökum. Slíkir einstaklingar eru ekki listasöfn. Aðalatriðið er að listasöfn landsins séu ekki að sýna falsaðan menningararf, alveg sama hvað hann er gamall.
Þessu er t.d. haldið fram í þingsályktunartillögunni:
" Ótvírætt virðist að á 10. áratug síðustu aldar hafi talsverður fjöldi falsaðra myndverka verið í umferð á Íslandi og gengið þar kaupum og sölum. Hefur verið sett fram sú tilgáta af fagmanni, sem þekkir vel til íslenskrar myndlistar og myndlistarmarkaðarins hér, að allt að 900 fölsuð myndverk (málverk og teikningar) muni hafa verið á sveimi hérlendis á þessum tíma."
Ég tel víst að fagmaðurinn sem nefndur er hér sé Ólafur Ingi Jónsson forvörður (sjá hér og hér). Þó svo að ég trúi því fastlega að fölsuð málverk hafi verið í umferð og sannanir séu fyrir því, þá hef ég því miður enn ekki séð neitt birt á riti eftir Ólaf, t.d. ítarlegar rannsóknir hans, sem rennt get stoðum undir þá skoðun hans að 900 fölsuð myndverk hafi verið á sveimi.
Mér þykir einfaldlega ekki nægilega undirbyggð hin fræðilega hlið þessarar þingsályktunartillögu, sem mest ber keim af því, að þeir sem keypt hafa svikna list vilji fá hið opinbera til að setja gæðastimpla á verkin. Að mínu mati á slíkt aðeins við um verk í opinberri eigu. Ríkisbubbarnir, sem jafnvel höfðu Kjarval á klósettinu heima hjá sér, verða sjálfir að bera ábyrgð á gerðum sínum og fjárfestingum.
Hins vegar er það hlutverk lögregluyfirvalda og hugsanlega nefndar sérfræðinga að rannsaka mál sem koma upp um falsanir. Meira er ekki hægt að gera. Og svo mætti Ólafur forvörður birta rannsóknir sínar, svo fólk í kaupshugleiðingum geti hugsanlega varað sig, ef það hefur aðeins peningavit en enga þekkingu á list eða annarri menningu.
Lokaorð tillögunnar eru: "Hin mikla áhersla á þekktan og ósvikinn uppruna menningarminja er tiltölulega ný í sögunni en nýtur engu síður víðtækrar viðurkenningar sem ein af höfuðforsendum þess að slíkar minjar þyki tækar til varðveislu. Skal í því sambandi nefnt að Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, gerir það að ófrávíkjanlegri kröfu fyrir því að menningarminjar fái sæti á heimsminjaskrá að þær séu ófalsaðar og sömu kröfu gera lista- og minjasöfn á Vesturlöndum til safnkosts síns."
Þetta er greinilega skrifað af einhverjum, sem ekkert þekkir til heimsminja (ég hélt nú annars að Katrín Jakobsdóttir vissi meira í sinn haus). Heimsminjaskrá telja ekki einstök málverk eða einstaka gripi. Heimsminjar, menningarlegar eða náttúruminjar, eru heildir. Vissulega verða söfn að gera þá kröfu að safnkostur þeirra sé ófalsaður. En á Íslandi hefur það því miður ekki talist nauðsynlegt. Þrátt fyrir að fleiri rannsóknir og álit sérfræðinga sýni að það séu falsaðir gripir í silfursjóði í Þjóðminjasafni Íslands, heldur safnið áfram að sýna sjóðinn sem silfursjóð frá Víkingaöld, eins og ekkert hafi í skorist, jafnvel þrátt fyrir alvarleg vandamál í danskri skýrslu um sjóðinn og þrátt fyrir sérfræðiálit í nýlegri útgáfu með greinum frá Víkingaráðstefnunni sem haldin var á Íslandi sumarið 2011.
Í einni af bókum langalangafa míns sáluga, Iszëks, sem ég nefndi um daginn, fann ég þessa frábæru mynd frá Louvre frá miðri 18. öld sem er efst í þessari grein. Einu sinni var sumt af því sem þar fór fram ekki talið til falsanna. Þarna voru menn bara að kópíera. Síðar uppgötvuðu óprúttnir náungar að hægt var að plata peninga út úr þeim sem vildu eiga da Vinci, Gainsborough eða jafnvel Kjarval. Þetta er spurning um framboð og eftirspurn. Því fleiri vitleysingar, því betri sala.Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Listasaga, Málverk, Minjavernd | Breytt 25.1.2014 kl. 07:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.