Mikilvæg verðmæti

handritin_heim_1971.jpg

Fornleifur er sammála Guðrúnu Nordal. Þegar handritin byrjuðu að koma heim á sínum tíma, hafði í flýti verið reist frekar léleg bygging, sem er í dag er lítið meira varið í en flekablokk í Grafarvogi. Þeir sem biðu eftir handritunum bjuggust við meiru.

Ég heyrði um daginn, að ferðamannaiðnaðurinn hefði nýlega farið fram úr fiskveiðum og -vinnslu hvað varðar verðmætasköpun. Fólk verður að gera sér grein fyrir því, að þegar ríkisstjórnin telur sig hjálpa fólki með lánabyrðarnar, þá heggur hún á lífvænlega undirstöðu þeirrar menningar sem margir ferðalangar koma til að sjá. Peningarnir eru teknir frá menningararfleifðinni og settir í dalla fólks sem sumt var í græðgikasti er það setti sig í skuldir. Handritið og annar menningararfur eru mikilvægar grunnstoðir "ferðamannaiðnaðarins" sem hefur eina mestu verðmætasköpun í landinu. 

Skammtímavermir fyrir fólk, sem flest mun hvort sem ekki er kjósa ríkistjórnina aftur, veldur því að stóra menningarholan hennar Guðrúnar Nordal við Hótel Sögu (sjá hér) verður ekki fyllt með menningarmiðstöð fyrir ritaðan menningararf þjóðarinnar. En ef Íslendingar geta ekki sýnt það glæsilega sem þeir eru frægastir fyrir utan bankahruns og Bjarkar, og byggt upp nútímalegar sýningar á hinum ritaða arfi sem og á fornminjum, þá eykst ekki þessi blómlega verðmætasköpun sem nú keppir við fiskinn. Gestirnir sem færa peninga í búið þurfa í staðinn að horfa niður í stóra gryfju við Hótel Sögu, holu þar sem átti að rísa Hús Íslenskra Fræða. Þar er nú stór ómenningarhylur.

Forsætisráðherra hefur eins og kunnugt er hertekið menningararfinn og ætlar að liggja á honum eins og Miðgarðsormurinn. En hann gerir ekkert að ráði fyrir arfinn. Fornleifafræðingar örvænta. Ráðherrann hefur látið smáskildinga af hendi rakna sem runnið hafa í framkvæmdir á gömlum húsum í kjördæmi hans. Greinilegt er að hann ætlar sér í sparnað á menningararfinum, sem nota á til þess að fjármagna kosningarloforðin. Þetta má einnig sjá á vali hans á embættismanni, Margréti Hallgrímsdóttur, sem var þjóðminjavörður fram til 1. febrúar. Menning er bara í munninum á Sigmundi.

Hvergi í löndum sem við líkjum okkur við, myndi kona með eins litla grunnmenntun og Margrét fá stöðu Þjóðminjavarðar. Hún hefur hins vegar sýnt frábæra takta í að spara, skera niður, reka fólk og loka öðrum söfnum. Margrét situr eins og Neró við hlið Miðgarðsormsins til þess að stjórna niðurrifi, og mikilvæg verðmæti "fuðra upp" í óvissunni og "gætu orðið að engu" eins og Guðrún Nordal orðar það.

Reyndar er ljótt að líkja Neró við Margréti, því nú vita menn að orðspor Nerós hefur verið svert af samtímamönnum hans og sagnfræðingum um aldaraðir. Hann var ekki einu sinni í Róm þegar borgin brann. En flestir muna ef til vill eftir því, að Guðrún Nordal sótti handrit í Þjóðmenningarhúsið, vegna þess að þessi óábyrgi þjóðminjaneró vildi ekki hafa næturvaktmann í húsinu (sjá hér). Færri vita að aðkomu hennar í lokun Náttúrminjasafns Íslands og er það hin ljótasta saga.

simmi_et_nero.jpg
Neró og Sigmundur
 

Ef taka á Sigmund Davíð alvarlega og þennan rómaða "menningaráhuga" hans, verður að efla það hugvit og þær stofnanir sem margir ferðamenn hafa áhuga á. Margréti Hallgrímsdóttur hefur ekki tekist það, þótt hún hafi fengið nýtt safn upp í hendurnar eftir að Þór Magnússon var látinn fara fyrir áratuga skussahátt og óreiðu. Þjóðminjasafnið er enn statísk stofnun með storknaða sýningu, og er starfsólkið í fræðilega hlutanum fátt og ekki eins vel menntað og það ætti að vera. Þjóðminjasafnið er með ómögulega safnastefnu. Gæslufólk á ekki að vera í meirihluta starfsmanna á safni og kökubakstur í anddyrinu á ekki að vera helsti reksturinn, þótt kaka sé vissulega líka mikil menning. En það sýnir vel forgangsröðunina að skrifstofustjóri safnsins gengur í starf Margrétar á meðan hún er í sérverkefnum fyrir Sigmund.

Sigmundur verður nú að sýna hinn mikla áhuga sinn fyrir öllu fornu og fallegu sem fyrst. Annars er ljóst að hann er bara áhugamaður um gerviantik eins og þá sem hægt er að kaupa í of dýrum skranbúðum. Það er ekki nóg að segja túristunum frá handritunum í rútunni, og miðað við staðnaða menningarmiðlun Þjóðminjasafnsins og svöðusárið hjá Bændahöllinni, þá er Sigmundur ekki í verðmætasköpun. Hann er bara að borga fyrir gömul kosningarloforð og gerir það á kostnað menningararfsins í landinu.


mbl.is Mikilvæg verðmæti gætu orðið að engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband