Dýr er Drottinn

soluro_a.jpg

Nú er frekar ólögulegur, skagfirskur Jesús til fals fyrir 4,6 milljónir króna og hefur Þjóðminjasafnið forkaupsrétt. Mér finnst þessi Kristur nokkuð dýr miðað við gæði. En hvað veit ég?

Safnaramiðstöðin heitir fyrirtækið sem er með róðuna til sölu fyrir einhverja afkomendur bændakirkjueigenda sem geymt hafa þennan kross og þurfa nú líklega að kaupa sér betri bíl eða búa til sólstofu, frekar en að horfa á óvinsælan mann hanga á veggnum hjá sér.

Rómverkur stíll?

Safnamiðstöðin upplýsir þetta á smettiskruddu sinni:

"Einstakur róðukross úr Reykjakirkju í Rómverskum stíl.

Hann heldur sér vel þrátt fyrir að vera orðinn nokkurhundruð ára, róðukrossinn úr Reykjakirkju í Tungusveit. Gripurinn er frá 13.-15. öld, er 80 cm á hæð og 55 á breidd. Þessi einstaki gripur er nú til sölu hjá okkur og bíður nýs eiganda sem tekur að sér það verkefni að varðveita hann fyrir næstu kynslóðir."

Aðstandendur Safnaramiðstöðvarinnar vita greinilega ekkert hvað þeir eru að selja og eru búnir að búa til nýjan stíl. Listasagan mun vart þakka þeim fyrir það klámhögg. Vitanlega er átt við rómanskan stíl, en krossinn er reyndar alls ekki í rómönskum stíl, frekar en "rómantískum". En svona fágætur stíll gæti hins vegar verið ástæðan til þess að menn vilja fá heilar 4,6 milljónir króna fyrir Krist sinn. 

Það er gaman að skoða. hvernig þessi róða hefur þróast, því að Jesús úr Tungusveit er frá mismunandi tímum og er mismunandi vel byggður, sem og í misgóðum holdum.

Samsettur Kristur

Greinilegt er, að frá hálsi niður á tær er Kristur í gotneskum stíl þegar sá stíll var ungur. Þessi hluti Kristmyndarinnar er frá 13. öld og er listilega útskorin. Enn eru báðir fætur negldir hver fyrir sig líkt og var venjan í rómönskum stíl en þetta hélst stundum þegar gotnesk list var að ryðja sér til rúms. Engin sveigja er þó komin í hina mjóu fótleggi Krists, en lendarklæðið er farið að falla samkvæmt hinum nýja stíl. Brjóstkassi Guðssonarins er ber og magur,  og það sést sérhvert rifbein og þjáningin þar á milli. Þarna er kominn hin gotneska líkamsbygging hins líðandi Krists.

Svo gerist eitthvað furðulegt. Handleggirnir á hinum mjóleggjaða og mergsogna Kristi fyrir neðan háls eru eins og handleggir líkamsræktarmanns og nærri því eins langir og fótleggirnir. Ljóst er að þessu armar eru ekki frá 13. öld, en öllu heldur frá 16. eða jafnvel 17. öld. Lúkurnar eru lokaðar en það sést sjaldan á Kristi á miðaldakrossum. Á 17. öld hefur einhver snikkari líklegast splæst saman handleggjalausum Miðaldakristi og þessum stæltu, heimasmíðuðu handleggjum sem hann hefur tálgað til, og ugglaust haft vel vaxinn Skagfirðing sem fyrirmynd og líklegast sjálfan sig.

Miðað við stærð höfuðsins á þessum Skagfirska Kristi þykir mér líklegt að það það sé einnig frá 16. eða 17. öld.  Sjálfur Krossinn er hugsanlega frá sama tíma og Jesúslíkneskið fyrir neðan háls, en krossinn er hins vegar of stuttur.

Ég hef litað krossinn, svo menn geri sér grein fyrir hinum mismunandi hlutum hans.

Fyrst þegar ég sá þennan samsetta Krist hugsaði ég, að kannski væru einhver brögð í tafli. Það er hins vegar erfitt fyrir mig að segja til um það án þess að sjá krossinn með eigin augum.  Ég vil ekki gefa 4,6. milljónir til þess, og ekki fyrir nokkurn kross. Ég set ekki verð á slík verkfæri, enda bannar siðfræði fornleifafræðingsins mér slíkt.

Gripurinn er að mínu mati gott dæmi um nýtni manna fyrr á öldum og fátækt. Miðaldalíkneski sem hefur verið í lamasessi hefur verið að mínu mati verið lagfært og notað áfram í lúterskum sið. Þess vegna hefur þessi róða menningarsögulegt gildi og ætti að vera á safni.

En dýr þykir mér þessi samsetti Jesús. Kannski getur seljandi fengið meira í Evrópu, þar sem menn gefa góðar evrur fyrir allt og selja jafnvel ömmu sína.

Michelangelo á 500 milljónir, íslenskur Sveitakristur á 4,6 millur

Árið 2008 keypti ítalska ríkið útskorna Kristsmynd eftir Michelangelo fyrir hálfan milljarð króna. Miðað við að listamennirnir á bak við Krist frá Reykjum í Tungusveit voru þrír óþekktir menn, er verðlagið á Hverfisgötunni kannski heldur dýrara en í stórborgum Evrópu. 

Verðlag á krossum á Íslandi hefur verið sett mjög hátt. Lesendur mínir muna kannski eftir "krossinum", eða réttara sagt ólögulegum sandsteinshnullung sem sendur var á Kristnisýningu í Þýskalandi, þótt alls endis væri óvisst hvort um kross væri að ræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Mér sýnist handleggirnir bera vott um að eigandinn hafi mikið verið í verum og stundað róður, hægri handleggur er mun sverari en sá vinstri og gæti verið að þegar haldið er um árina hafi hann snúið hægri handlegg upp og setið á bakborða en það áttu menn til að gera, eftirvill hefur sá hin sami skorið út eftir sínu handleggjum .http://www.grindavik.is/img/2010/sjomanna11.jpg
Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 25.4.2014 kl. 22:30

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Vel athugað Sigurjón. Fyrirmyndin var Skagfirðingur sem stundaði róðra, og voru sumir þeirra vitanlega forfeður mínir, sjá hér. En líklega hefur Kristur aldrei róið fiskikerjum.

FORNLEIFUR, 25.4.2014 kl. 22:39

3 identicon

Frábær lesning og mjög fræðandi. Það væri gaman að fá þig í búðina til að skoða krossin og fræðast meir um hann.

kær Kveðja

Siggi

Sigurður Pálmason (IP-tala skráð) 25.4.2014 kl. 23:17

4 identicon

Hvað var það sem fékk þig til að segja: "..og þurfa nú líklega að kaupa sér betri bíl eða búa til sólstofu,.." frekar en: "..og þurfa nú líklega að bjarga heimilinu undan hamrinum eða standa straum af krabbameinsmeðferð einkabarnsins,.." ?

Jós.T. (IP-tala skráð) 26.4.2014 kl. 02:48

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Jú, eða það Jós. T. Ég biðst forláts ef svo er, og þá þýðir víst ekki að biðja til Mannssonarins á krossinum lengur.

FORNLEIFUR, 26.4.2014 kl. 06:41

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Siggi, Sigurður í Safnamiðstöðinni. Ég kæmi ef ég væri á landinu, en vorskipin eru þegar sigld frá Höfn. Eigum við ekki að láta þessa auglýsingu hjá Fornleifi nægja, þó hún sé ekki alveg jákvæð. Væntanlega hafa sérfræðingar þjóðminjavörslunnar líka haft vit á kostum og göllum róðunnar þegar þeir heimsóttu þig.

Samsettur gripur eins og þessi róðukross er, eins og ég segi, mjög skemmtilegt dæmi um hvernig Íslendingar gátu nýtt sér hlutina í aldaraðir, list sem þeir eru búnir að gleyma, eða eiginleiki sem þeir þyrftu að læra aftur - í hófi vitanlega.

FORNLEIFUR, 26.4.2014 kl. 06:50

7 identicon

Góðan og blessaðan.  Það hefði verið gaman að fá þig í búðina til að skoða hann nánar.  Enn svona þér til skemmtunar þá er hausinn og búkurinn sama smíði. 

Kær Kveðja

Siggi  

Sigurður Pálmason (IP-tala skráð) 26.4.2014 kl. 14:15

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll aftur Sigurður. Ég er ekki kúnni, svo þú verður að þræta við aðra en mig. Ef það er svo sem þú segir, þá er gripurinn stílfræðilegt einsdæmi. Gaman væri að sjá röntgenmynd af krossinum, til að sjá hvernig viðurinn í búknum er í tengslum við viðinn í höfðinu. Ef þetta er sami trjábolurinn, þá er höfuðið á Jesú óvenjustórt fyrir búkinn, líkt og armarnir eru það.

FORNLEIFUR, 26.4.2014 kl. 14:37

9 identicon

Ég er alls ekki að þræta við þig.  Ég hef áhuga á því sem þú skrifar hér og ég var aðeins að benda á það sem þú getur ekki séð á ljósmynd. Sem þú réttilega bendir á sjálfur. 

Kær Kveðja

Siggi  

Sigurður Pálmason (IP-tala skráð) 26.4.2014 kl. 15:02

10 Smámynd: FORNLEIFUR

Vandamálið hér er að þyrnikrónan ryður sér ekki til rúms í gotíkinni fyrr en fæturnir á Kristi er einnegldur á krossinn og beygja er komin á hnén. Örfá dæmi eru til um Krist með þyrnikórónu þar sem fæturnir eru negldir hver fyrir sig (t.d. í St. Denis dómkirkjunni í Frakklandi). Andlitið og hártískan á þeim Kristi sem þú ert að selja er afar líkur 14. aldar list (að mínu mati).

En ef hausinn og búkurinn er úr sömu spýtunni, hangir ekkert á henni. Þá er væntanlega um 13. aldar mynd með haus. En ef höfuðið er tappað á, leyfi ég mér að efast um að það sé frá sama tíma og búkurinn og fæturnir.

Handleggirnir eru hins vegar alveg örugglega ekki frá sama tíma og búkurinn lappirnar.

FORNLEIFUR, 26.4.2014 kl. 15:28

11 identicon

Takk fyrir þetta.  Þetta er allt saman mjög athyglisvert og spennandi.

Kær Kveðja

Siggi  

Sigurður Pálmason (IP-tala skráð) 26.4.2014 kl. 15:43

12 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Fornleifur sendir reikninginn síðar Siggi... Góða sölu!

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.4.2014 kl. 16:47

13 Smámynd: Hörður Þórðarson

Hægri höndin er virkilega öflug... Ef ég ætti gripinn myndi ég líklega stinga honum ofan í skúffu og reyna að gleima honum.

Hvað er annars rétt verð hluta? Einfaldlega sú upphæð sem einhver er tilbúinn að reiða af hendi fyrir hlutinn. Kannski vill einhver borga 100 milljónir fyrir gripinn, hvað veit ég. Verði þeim að góðu sem eru að selja þetta.

Hörður Þórðarson, 26.4.2014 kl. 19:29

14 identicon

Sæll Fornleifur.

Bestu þökk fyrir þennan fróðlega og skemmtilega texta.

Auglýsingin sjálf minnir mig á svokallaðan varphænutexta
í Guðsgjafaþulu Laxness.

"Hann heldur sér vel þrátt fyrir að vera orðinn nokkurhundruð ára...".

Er fulldjarft af mér að halda því fram að varla geti um
þvílíkt undur á þessum síðustu dögum og að þessi uppfylling
spádómanna um endurkomu Krists hafi farið framhjá velflestum
og gangi því fetinu framar að aldrei hafi verið um neina himnaför
að ræða?

Húsari. (IP-tala skráð) 29.4.2014 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband