Tvær falsanir af 900 ?

766301.jpg

Fyrr í ár var samþykkt þingsályktunartillaga um ráðstafanir gegn málverkafölsunum. Ég skrifaði skömmu áður lítillega um málið hér á Fornleifi.

Í fyrradag kom svo upp enn eitt fölsunarmálið. Forvörðurinn Ólafur Ingi Jónsson hafði frétt af tveimur málverkum eftir Svavar Guðnason á uppboði hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Hann taldi sig þegar sjá, að um falsanir væri að ræða. Hann sendi um það greinargerð eða eitthvað þvíumlíkt til embættis Ríkissaksóknara, sem svo glæsilega tókst að klúðra fyrri fölsunarmálum með lagatæknilegu rugli. En nú átti greinilega að sýna röggsemi svo embættið sendi lögreglunni í Kaupmannhöfn tafarlaust beiðni um að koma í veg fyrir sölu málverkanna, því þau voru talin fölsuð.

Að morgni þess dags sem uppboðið átti að vera hafði lögreglan í Kaupmannahöfn samband við uppboðsfyrirtækið sem tók myndirnar af skrá, allt fyrir orð sérfræðings sem aðeins hafði séð ljósmyndir af málverkunum en ekki skoðað þær hjá uppboðsfyrirtækinu eða rannsakað. Þess verður þó að geta, að danska lögreglan vildi ekki gefa Bruun Rasmussen upp, hverjir hefði kært í málinu og hver héldi því fram að málverkin væru fölsuð. 

_lafur_forvor_u.jpg
Ólafur Ingi Jónsson forvörður Listasafns Íslands.

 

Íslenskir fjölmiðlar hafa nokkrir greint frá málinu og út frá þeim fréttaflutningi má ætla að málverkin séu m.a. talin fölsuð, þar sem þau eru máluð með alkyd litum (akryl) og er því haldið fram í fjölmiðlum að slík málning hafi ekki verið framleidd fyrr en eftir dauða listamannsins, Svavars Guðnasonar (1934-1988).  Í fyrri málum hefur einnig verið haldið fram að undirskriftin, signatúrinn, sé ekki Svavars sjálfs og að myndirnar séu viðvaningslegar. Þar að auki var því fleygt fram í fjölmiðlum nú að málverkin sem síðast voru á uppboði Bruun Rasmussens væru líklega máluð eftir fyrirmyndum.

Málverkin keypt árið 1994

Af uppboðsgögnum, sem því miður voru dregin til baka, má sjá úr hvaða safni ein myndanna var. Það voru hjón á Jótlandi sem voru þekkt fyrir listaverkasafn sitt. Dönsk listasöfn höfðu haldið sér sýningar á hlutum þess safns.  Sonur þeirra erfði öll listaverkin að þeim látnum. Eins og einn sýnandi verka foreldra hans sagði, þá var hann dreginn með á sýningar og listasöfn allan sinn barndóm, settur á baksætið í bílnum með bunka af Andrés Andarblöðum, meðan foreldrarnir keyptu inn listaverk og þræddi öll listsöfn hins siðmenntaða heims með hann á aftursætinu. Hann selur nú þessi verk sem hann hefur engan persónulegan áhuga á.  

Ég hafði samband við K.O. son hjónanna og hann var undrandi að heyra að mynd hans hefði verið tekin af uppboðinu og að hún væri nú í vörslu lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Hann á kvittun fyrir kaupum málverkanna og voru þau keypt af foreldrum hans af galleríi í Grønnegade í Árósum 1994.

Vilhjálmur Bjarnason veit eitthvað sem Bruun Rasmussen veit ekki

Vilhjálmur Bjarnarson alþingismaður, einn þeirra sem setti fram þingsályktunartillöguna sem fyrr er nefnd, hélt því fram við RÚV í gær (24.9.2014) að honum væri "kunnugt um það að Bruun Rasmussen hafði vísbendingar um það áður að verkin væru fölsuð. Þannig að það var ósköp einfalt að leita þessara leiða. " Þetta bar ég í morgun undir Niels Raben hjá Bruun Rasmussen, sem sagði það af og frá. Hann hefði ekki vitað né haft neinar vísbendingar um að verkin væru hugsanlega fölsuð fyrr en hann fékk erindi frá Kaupmannahafnarlögreglunni, sem ekki vildi gefa upp hver á Íslandi kærði myndirnar sem falsanir.

Vilhjálmur Bjarnarson verður að skýra þessi orð sín, og nú er líklega komið að því að framkvæma aðrar "rannsóknir" en að dæma út frá ljósmyndum á vefsíðum. Það stenst einfaldlega ekki fræðilega og maður leyfir sér að lýsa furðu á vinnubrögðum Ríkissaksóknara, þó það sé greinilega komið í tísku af öðrum sökum.

Þáttur Ríkissaksóknara

Ég á mjög erfitt með að skilja, hvernig hægt er að fá Ríkissaksóknara að aðhafast nokkuð í máli nema að fyrir liggi einhvers konar rannsókn, t.d. ferð Ólafs Inga til Uppboðshúss Bruun Rasmussens í Bredgade í Kóngsins Kaupmannahöfn, þar sem hann hefð getað skoðað myndirnar gaumgæfilega. En það eru greinilega ekki venjulegar aðferðir Ólafs Inga eða stofnunar þeirrar sem hann vinnur fyrir. Eins má furðu sæta, að sú deild lögreglunnar í Kaupmannahöfn sem gerði verkin upptæk sl. þriðjudag hafi ekki viljað upplýsa hver hafi sett fram ákæru og á hvaða grundvelli. Þar með hefur danska lögreglan líklegast brotið dönsk lög segir mér lögfróður vinur minn.

Lesendur Fornleifs muna kannski eftir furðumyndunum 24 sem Ólafur Ingi sagði hollenskar og frá 17. öld. Þær voru nú ekki hollenskar og eru frá 18. öld og eru líklegast málaðar af Sæmundi Hólm, fyrsta Íslendingnum sem gekk á listaakademíu. Ólafur hélt meira að segja lærðan fyrirlestur á Listasafni Íslands um hollensku málverkin áður en ég sýndi fram á annað og meira, sjá hér og hér.

Enn er ég ekki búinn að sjá neinn rökstuðning frá Ólafi Inga Jónssyni fyrir yfirlýsingum hans um að 900 falsanir séu í umferð. Vissulega hafa verið falsanir í umferð á Íslandi, og dreg ég það ekki í vafa, en það gefur mönnum ekki "veiðileyfi" á listaverkasala og uppboðshús ef haldbærar sannanir liggja ekki fyrir. Enn hef ég ekki séð efnagreiningar eða lærðar greinar eftir Ólaf forvörð. Er ekki komin tími til fyrir Listasafn Íslands að gefa það út?  Er hægt að tjá sig um málverkafalsanir án þess? Er nóg að mæta með sjónvarpsmenn í gallerí, eins og Ólafur hefur gert í Reykjavík, og heimta að fá að rannsaka verk í beinni útsendingu. Hvað varð um hinn undirbyggða grun, svo ekki sé talað um grunninn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband