Hvalveiðimenn á Seyðisfirði

sey_isfjor_ur.jpg

Myndin efst er brot úr frábærri ljósmynd Frederick W.W. Howells frá Seyðisfirði (sjá myndina í heild sinni neðst). Myndin er líklega tekin aldamótaárið 1900. Tveir strákar standa í fjörunni og saltfisksverkunarkonur sitja og hvílast í bakgrunninum. Allt umhverfis strákana liggja skjannahvítir hryggjaliðir úr stórhveli.

Spurningin til lesenda: Getur einhver fyrir austan sagt mér hvar myndin er tekin?

Eftir miðja 19. öld voru bandarískir hval- og selveiðimenn með stöð á Seyðisfirði. Um skeið ráku Bandaríkjamennirnir Thomas Welcome Roys (1816-1877) og Gustavus A. Lilliendahl stöð á Seyðisfirði. Þeir fóru illa út úr selveiðivertíð árið 1867 er skip þeirra brotnaði, en einnig kom hækkun olíuverðs og borgarastríðið í Bandaríkjunum í veg fyrir frekari ævintýr þeirra við Íslandsstrendur. Þá tók við stöð þeirra danskur maður O.C. Hammer að nafni, en hann stundaði víst aldrei neinar hvalveiðar að ráði.

bottemanne_2.jpg

Til Íslands kom einnig Hollendingurinn Caspar Josephus Bottemanne (1829-1872).

Hann landaði á Seyðisfirði og vann með Roys og Lilliendahl. Bottmanne er lítt nefndur í samtímaheimildum íslenskum, nema einu sinni í Þjóðólfi árið 1871, þegar greint er frá því að ekki hafi verið hægt að færa honum tvö bréf er hann sigldi á skipi sínu Noordkaper, sem landspósturinn les sem "Norðkoper".

Bottemanne þessi hafði afgerandi áhrif á hvalveiðisöguna með þróun ákveðinnar gerðar af skutli sem Welcome Roys og Lilliendahl fá þó oftast heiðurinn fyrir. Prófessor Joost Schokkenbroek við Vrije Universiteit í Amsterdam og rannsóknarstjóri Scheepvartmuseums (Siglingasögusafns Hollands) í Amsterdam hefur skrifað mjög merkilega doktorsritgerð um hvalveiðar Hollendinga á árunum 1815-1885. Þar kemur fram hin rétta saga flugeldaskutuls Bottemannes og athafna hans á Íslandi.     

Hvort beinin í fjörunni á mynd Howells eru leifar eftir athafnasemi Roys, Lilliendahls ellegar Bottemannes hins hollenska er erfitt að fullyrða, en það er vel hugsanlegt.

Samkvæmt sumum heimildum var hvalveiðistöð Roys og Lilliendahls á Vestdalseyri sem Howell ljósmyndaði einnig, en tengist staðurinn á efstu myndinni á einhvern hátt Vestdalseyri? Hvaða fjall sést í bakgrunninum?

vestdalseyri_1262912.jpg

Vestdalseyri

1923_4_14.jpg

fjall_1.jpg

Ef þetta er tindurinn á myndinni (myndin er tekin um hádegi), þá eru drengirnir á syðri strönd fjarðarins víðs fjarri Vestdalseyri. Getur þetta verið Hákarlshaus eða Sandhólatindur?

Heimildir:

Schokkenbroek, Joost C.A. 2008. Trying-out: An Anatomy of Dutch Whaling and Sealing in the Nineteenth Century, 1815-1885. Aksant Academic Publishers, Amsterdam.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef þið hafið ekki fengið svar við fyrirspurnum um þessar myndir F. Howells, þá er það að segja að myndum af strákunum í fjörunni er tekin norðan megin fjarðar, við útendann á svæðinu þar sem síldarbræðslan Hafsíld var byggð og stóð framundir 1995, en þá ruddi snjóflóð mjölskemmunni í sjóinn, en hún stóð á uppfyllingu sem sett var þarna í fjöruna. Fjallið í baksýn er Sandhólatindur og hæðarbrúnin sem sést fyrir neðan fjallið er Hrútahjallinn. Frá þessum stað og út á Vestdalseyrina, þar sem umrædd hvalstöð á að hafa staðið, er frekar stutt, eða ca. rúmur kílómeter.

Hin myndin sem tekin er niður yfir Vestdalseyrina af Gránufélags húsunum er hægt að segja að þar á móti blasir við Strandartindur (eða neðri hluti hans) en þessi 2 fjöll ásamt Bjólfinum sem gnæfir yfir Seyðisfjarðarkaupstað, eru hæstu fjöllinn við fjörðinn :)

Sólveig Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 3.8.2015 kl. 13:07

2 identicon

Ég gleymdi litmyndinni, en hún er af Sandhólatindi, en hin fjöllin sem þið nefnið eru mikið utar við fjörðinn og að sunnanverðu.

Hrútahjallainn sem ég nefndi áðan er neðsti hluti Bjólfsins sem er til vinstri á fjörumyndinni. En Strandartindur er fjallið sem er vinstra megin á hinni Vestdalsmyndinni.

Vonandi veldur þetta engum misskilningi :)

Sólveig Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 3.8.2015 kl. 13:11

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Bestu þakkir Sólveig. Gott er að fá svona staðkunnugan sérfræðing í heimsókn hjá Fornleifi til að fá staðfestingu á hlutina. Nú vitum við hvar þessir strákar voru að leika sér. Verst að ég get ekki boðið þér í kaffi fyrir upplýsingarnar.

FORNLEIFUR, 20.5.2016 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband