Færsluflokkur: Hvalveiðar
Pípusaga úr Strákey
30.9.2016 | 14:45
Hér kemur góð blanda úr tóbakspung Fornleifs, blanda af sterku tóbaki sem ýmsir hafa hjálpað til með að rækta.
Verkefnið Allen die willen naar IJsland gaan, eða Allir vildu þeir til Íslands fara, er komið á fulla ferð. Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á tengsl og verslun Íslendinga við Hollendinga á 17. og 18. öld. Ég er einn þátttakenda í verkefninu, en aðrir þátttakendur koma bæði frá Íslandi og Hollandi. Verkefnið er styrkt af RANNÍS.
Meðal þess sem gerst hefur í lok sumars er að dr. Ragnar Edvardsson, sem fer fyrir verkefninu, fór við annan mann út í Strákey á Ströndum (Strákey er ásamt Kóngsey úti fyrir Eyjafjalli milli Bjarnarfjarðar og Kaldbaksvíkur) til að gera forrannsókn á meintri hvalveiðistöð. Eftir nokkrar skóflustungur og örlítið skaf og krukk var ljóst að Ragnar hafði reiknað það rétt út líkt og oft áður, enda er Ragnar aðalsérfræðingur landsins í hvalveiðistöðvum á Íslandi á 17. öld. Leifar eftir Hollendinga fundust í eyjunni.
Meðal þeirra forngripa sem komu upp á yfirborðið í Strákey í september voru tvö krítapípubrot (A og B hér fyrri neðan), sem Ragnar sendi mér myndir af. Brotin er ég nú búinn að láta hollenska sérfræðinga greina og niðurstöðurnar eru einstaklega skemmtilegar og áhugaverðar. Þær koma sömuleiðis heim og saman við ritheimildir um hvalveiðarnar við Ísland á því tímabili sem pípurnar eru frá.
A) Pípuhaus
Þetta er lítill haus og tunnulaga, sem er lögun sem bendir til fyrri hluta 17 aldar. Á hælnum er merki : A sem standandi róðukross gengur í gegnum. Hægra megin við A-krossinn virðist einnig vera bókstafurinn A, en minni en sá sem ber krossinn. Bókstafurinn I á einnig að vera til vinstri við A-Krossinn, en sést illa.
Samkvæmt einum fremsta sérfræðingi Hollendinga í pípum, Don Duco við Pípusafnið í Amsterdam, sem ég hafði samband við, er pípuhausinn af gerð og lögun sem bendir til þess að pípan sé frá því 1630-40 og að hausinn gæti verið af pípu sem gerður var í Amsterdam eða Gouda. Nánari athugun og eftir að ég hafði samband við Jan van Oostveen fornleifafræðing og sérfræðing í krítarpípum gaf betri árangur.
Van Oostveen gat upplýst að stimpillinn á hæl pípunnar væri búmark pípugerðarmanns sem bar nafnið IA. Bókstafurinn I hefur ekki stimplast vel á hæl pípunnar í Strákey. IA gætu hugsanlega verið annað hvort Jacob Adams eða Jan Atfoort, sem framleiddu pípur í Amsterdam ca. 1630-40. Jan van Oostveen tekur fram að ekki sé fullvisst hvort þessara tveggja manna hafi framleitt pípuna.
Flestir tóbakspípugerðarmenn í Amsterdam, sem á annað borð merktu sér pípur sínar í byrjun 17 aldar, voru aðfluttir og erlendir að uppruna og flestir fluttir þangað frá Lundúnum og nánustu sveitum ensku höfuðborgarinnar. Jan Atvoort hét upprunalega John Atford (eða Hatford) og var ættaður frá "Sitnecoortne" (sem er mjög líklega þorpið Sutton Courtenay suður af Oxford). Í Amsturdammi bjó hann við Heiligeweg í hjarta borgarinnar, þar sem hann framleiddi pípur á tímabilinu 1625-1640. Jacob Adams kemur einnig til greina sem maðurinn sem bjó til pípuna sem fannst í Strákey fyrr í september. Hvor þeirra var framleiðandinn verður ekki skorið úr um að svo stöddu.
Teikning af sams konar pípu og fannst í Strákey árið 2016. Teikning Amsterdam Pipe Museum.
Brot af krítarpípuleggur, sem fannst í september 2016 í Strákey á Ströndum. Ljósm. Ragnar Edvardsson
Er ég hafði samband við Jan van Oostveen fornleifafræðing, sem er m.a. sérfræðingur í krítapípum, gat hann hann frætt mig um að pípuleggurinn sem fannst nýlega í Strákey væri frekar frá Gouda svæðinu og væri frá tímabilinu 1630-40. Hann upplýsir að skreytið sé óalgengt á pípum framleiddum í Amsterdam, en hins vegar að sama skapi algengt kringum Rotterdam og Gouda. Að sömu niðurstöðu komst Don Duco er upplýsti stutt og laggott: "The pipe stem is Gouda make, c. 1630-1635".
Einnig bar ég undir Jan van Oostveen brot af pípulegg sem fannst á Strákatanga árið 2007 (sjá mynd). Á Strákatanga á Ströndum(sem liggur á tanga við Hveravík sem áður hét Reykjarvík við norðanverðan Steingrímsfjörð) var einnig hvalveiðistöð sem Ragnar Edvardsson hefur rannsakað. Ég hafði fundið brot með sams konar skreyti og á pípuleggnum frá Strákatanga. Ég fann hliðstæðuna í skýrslu frá rannsókn í bænum Gorinchem sem ekki er allfjarri Rotterdam. Skýrsluna hafði Jan van Oostveen ritað. Mikið rétt, pípur með sama skreytinu og á leggnum sem fannst á Strákatanga árið 2007 hafa samkvæmt Jan von Oostveen fundist í bæjunum Rotterdam, Gorinchem, Breda, Den Bosch og Roermond og er hægt að aldursgreina þær til 1630-1645. Jan van Oostveen telur að pípur þessar séu framleiddar í Rotterdam og hafi haus pípunnar verið án skreytis. Hann hefur skrifað um þessar pípur (Sjá Oostveen, J. van (2015), s.77).
Ritheimildir
Nú vill svo til að á þeim árum sem ofangreindar pípur í Strákey og Strákatanga voru búnar til voru Hollendingar við hvalveiðar á Íslandi. Ekki þó í leyfisleysi og í trássi við reglur einokunarverslunarinnar. Verð á hvalalýsi hækkaði um 1630 eftir mikla lægð sem dregið hafði úr hvalveiðum við Ísland um tíma. En nú hafði Islands Kompagnie verslunarfélagið (stofnað 1619, sjá t.d. hér) sem hafði töglin og hagldirnar í versluninni á Íslandi, orðið þess vísari hve arðbærar hvalveiðar væru. Félagið vildi fara út í hvalveiðar og koma í veg fyrir hvalveiðar annarra. Því var haft samband við krúnuna og konungur veitti félaginu einkarétt á hvalveiðum við Ísland með konungsbréfi dagsettu 16. desember 1631. En félagsmenn höfðu hins vegar litla sem enga reynslu af hvalveiðum og vantaði skip til slíkra veiða. Þess vegna var haft samband við mann í Kaupmannahöfn, Jan Ettersen að nafni, sem hafði reynslu af slíku. Öll skip sem stunduðu hvalveiðar fyrir Islands Kompagnie við Ísland á 4. áratug 17. aldar voru því hollensk sem og áhafnir þeirra. Skip Íslenska kompanísins voru tekin á leigu í Rotterdam og Delfshaven, sem lá nærri Rotterdam og er í dag hluti af Rotterdam.
Jan Ettersen var tengdasonur Christoffers Iversens sem var rentuskrifari (fjármálaráðherra). Iversen var vellauðugur og stundaði við hlið embættisgjörða sinna í fjálmálunum mikla verslun við Holland. Gegnum sambönd Iversens komst Ettersen í samvinnu við kaupmanninn Harmen Bos og bróðurson hans Pelgrum Bos í Amsterdam. Þeir voru báðir ættaðir frá bænum Delfshaven við Rotterdam og áttu þar skip með öðrum kaupmönnum. Þeir Bossarnir í Amsterdam sköffuðu skipin og áhafnir. Forstjóri hvalveiða Islandske kompagnie var Jacob Sebastiansz Coel, sem búsettur var í Kaupmannahöfn en átti einnig ættir að rekja til Delfshaven nærri Rotterdam.
Meðal þeirra skilyrða sem konungur setti fyrir leyfisveitingunni til handa Islands Kompagnie i Kaupmannahöfn árið 1631 var, að mannað yrði skip, eins konar birgðaskip og flutningaskip, sem einnig var hugsað sem landhelgisskip, sem með vopnum ef nauðsyn var, kæmu í veg fyrir hvalveiðar annarra, Dana eða Hollendinga, sem í leyfisleysi veiddu hval við Ísland.
Skipið de Jager (Veiðimaðurinn) að minnsta kosti 150 lesta skip frá fra Delftshaven var sent með hvalveiðiskipunum til að þjóna þeim skilyrðum sem kóngur setti. Um borð voru:
14 gotlingar (fallstykki), 2 stenstykker (fallbyssur fyrir steinkúlur), 6 "donder bussen" (dúndurbyssur) og 12 muskettur (rifflar) með tilheyrandi skotfærum.
Áður en de Jager var sent til Íslands til að vernda "hollenskar" hvalveiðar Islands Kompagnie á Ströndum, hafði það og skipstjóri þessi til margra ára, Dirch Cornelisz (Cornelíusarson) t'Kint siglt á Frakkland og suðlægari lönd til að ná í vín fyrir Hollandsmarkað.
Hvort það var t'Kint sem tottaði pípurnar í Strákey og á Strákatanga skal ósagt látið, en þar sem pípurnar voru frá heimaslóðum hans og faktoranna sem útveguðu skipið, og meðan að engir aðrir máttu veið hval við Ísland á þeim árum sem pípurnar eru tímasettar til, er varla nokkur vafi á því að pípurnar eru komnar í Strákey og á Strákatanga úr þeim flota hvalveiðiskipa sem skipið de Jager fylgdi til Íslandsmiða á 4. áratug 17. aldar.
Hér sjáum við ljóslega hve ritheimildirnar og fornleifafræðin geta leikið léttilega saman, þó menn séu ekki að skálda á kjánalega hátt eins og oft hefur hent í íslenskri fornleifafræði á síðari árum. Fornleifafræðingar sem hafna ritheimildum vaða einfaldlega í villu og vita ekki hvers þeir fara á mis. Hinir sem búa svo til góðar sögur, t.d. um eskimóa og fílamen á Skriðuklaustri eða stærsta klaustur í Evrópu á Suðurlandi fyrir sjónvarpið og aðra miðla eru einnig í einhverju fræðilegu hallæri.
Ekki þurfti nema tvö pípubrot sem fundust við frumrannsókn og vandlega rannsókn á brotunum til að sýna okkur og staðfesta hve merkileg tengsl Íslands við Holland voru fyrr á öldum.
Að mati Fornleifs eru pípubrotin úr Strákey með merkari fundum fornleifavertíðarinnar árið 2016, þó þau hafi ekki enn komist í sjónvarpið. En ekki er að spyrja af því. Áhuginn á Vestfjörðum er í takt við vitsmuni þeirra sem starfa á RÚV.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson/Í verkefninu Allen die willen naar IJsland gaan (2016)
Heimildir:
Dalgård, Sune 1962. Dansk-Norsk Hvalfangst 1615-1660: En studie over Danmark-Norges Stilling i europæisk merkantil Expnasion. C.E.C. Gads Forlag.
de Bruyn Kops, Henriette 2007. A spirited Exchange:The Wine and Brandy Trade beteen France and the Dutch Republic in its Atlantic Framework, 1600-1650. Brill, Leiden-Boston., s. 161.
Duco, Don 1981. De kleipijp in de 17e eeuwse Nederlanden. BAR V 1981.
Friederich F.H.W. 1975. Pijpelogie. A.W.N.-mnonografie no.2, 1975.
Oostveen, J. van, 2015. Tabak, tabakspijpenmakers en hun producten in Rotterdam (1600-1675). BOOR notitie 19, Rotterdam, (sjá síðu 77, mynd 100).
Paulsen Caroline Paulsen, Magnús Rafnsson og Ragnar Edvardsson, 2008. Foreign Whaling in Iceland: Archaeological Excavations at Strákatangi in Hveravík, Kaldrananeshreppi 2007. Data Structure Report. NV nr. 5-08. Bolungarvík: Náttúrustofa Vestfjarða.
Rafnsson, Magnús og Ragnar Edvardsson 2011. Foreign Whaling in Iceland: Archaeological Excavations at Strákatangi in Hveravík, Kaldrananeshreppi 2010. Field Report. NV nr. 5-11. Bolungarvík: Náttúrustofa Vestfjarða.
Simon Thomas, Marie 1935. Onze IJslandsvaarders in de 17de en 18de Eeuw: Bijdrage tot de Geschiedenis van de Nederlandsche Handel en Visscherij. N.V. Uitgevers-Maatschappij ENUM, Amsterdam.
Upplýsingar vinsamlegast veittar í tölvupóstum af Don Duco 15.9.2016 og Jan van Oostveen 29. og 30. 9. 2016.
Hvalveiðar | Breytt 10.1.2020 kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvalveiðimenn á Seyðisfirði
21.6.2015 | 22:33
Myndin efst er brot úr frábærri ljósmynd Frederick W.W. Howells frá Seyðisfirði (sjá myndina í heild sinni neðst). Myndin er líklega tekin aldamótaárið 1900. Tveir strákar standa í fjörunni og saltfisksverkunarkonur sitja og hvílast í bakgrunninum. Allt umhverfis strákana liggja skjannahvítir hryggjaliðir úr stórhveli.
Spurningin til lesenda: Getur einhver fyrir austan sagt mér hvar myndin er tekin?
Eftir miðja 19. öld voru bandarískir hval- og selveiðimenn með stöð á Seyðisfirði. Um skeið ráku Bandaríkjamennirnir Thomas Welcome Roys (1816-1877) og Gustavus A. Lilliendahl stöð á Seyðisfirði. Þeir fóru illa út úr selveiðivertíð árið 1867 er skip þeirra brotnaði, en einnig kom hækkun olíuverðs og borgarastríðið í Bandaríkjunum í veg fyrir frekari ævintýr þeirra við Íslandsstrendur. Þá tók við stöð þeirra danskur maður O.C. Hammer að nafni, en hann stundaði víst aldrei neinar hvalveiðar að ráði.
Til Íslands kom einnig Hollendingurinn Caspar Josephus Bottemanne (1829-1872).
Hann landaði á Seyðisfirði og vann með Roys og Lilliendahl. Bottmanne er lítt nefndur í samtímaheimildum íslenskum, nema einu sinni í Þjóðólfi árið 1871, þegar greint er frá því að ekki hafi verið hægt að færa honum tvö bréf er hann sigldi á skipi sínu Noordkaper, sem landspósturinn les sem "Norðkoper".
Bottemanne þessi hafði afgerandi áhrif á hvalveiðisöguna með þróun ákveðinnar gerðar af skutli sem Welcome Roys og Lilliendahl fá þó oftast heiðurinn fyrir. Prófessor Joost Schokkenbroek við Vrije Universiteit í Amsterdam og rannsóknarstjóri Scheepvartmuseums (Siglingasögusafns Hollands) í Amsterdam hefur skrifað mjög merkilega doktorsritgerð um hvalveiðar Hollendinga á árunum 1815-1885. Þar kemur fram hin rétta saga flugeldaskutuls Bottemannes og athafna hans á Íslandi.
Hvort beinin í fjörunni á mynd Howells eru leifar eftir athafnasemi Roys, Lilliendahls ellegar Bottemannes hins hollenska er erfitt að fullyrða, en það er vel hugsanlegt.
Samkvæmt sumum heimildum var hvalveiðistöð Roys og Lilliendahls á Vestdalseyri sem Howell ljósmyndaði einnig, en tengist staðurinn á efstu myndinni á einhvern hátt Vestdalseyri? Hvaða fjall sést í bakgrunninum?
Vestdalseyri
Ef þetta er tindurinn á myndinni (myndin er tekin um hádegi), þá eru drengirnir á syðri strönd fjarðarins víðs fjarri Vestdalseyri. Getur þetta verið Hákarlshaus eða Sandhólatindur?
Heimildir:
Schokkenbroek, Joost C.A. 2008. Trying-out: An Anatomy of Dutch Whaling and Sealing in the Nineteenth Century, 1815-1885. Aksant Academic Publishers, Amsterdam.
Hvalveiðar | Breytt 20.5.2016 kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvalbein í og á húsum
24.5.2015 | 20:17
Alls staðar í heiminum, þar sem menning tengdist áður fyrr hvölum, hvalreka eða hvalveiðum, hafa menn nýtt afurðir hvalsins til hins ýtrasta. Þar með talið til húsbygginga.
Íslendingar, norrænir menn á Grænlandi, Inúítar, Indíánar, Hollendingar, Bretar, Þjóðverjar (aðallega í Brimum), Maóríar, Japanir ásamt öðrum þjóðum hafa allir nýtt hvalakjálka, rifbein, hryggjaliði og önnur bein í byggingar, sem sperrur, rafta og jafnvel sem stoðir. Hryggjarliðir hafa orðið að stólum og hnöllum og þannig mæti lengi telja.
Þegar á 17. öld veiddu Hollendingar manna mest hval. Það þekktist í Hollandi að hvalbein væru notuð í girðingar eða hlið, líkt og síðar á Holtsetalandi (Holstein). Hvalbein, nánar tiltekið kjálkar, voru mikið notuð í hlið og gerði í Brimum (Bremen).
Olaus Magnus sýnir á ristum í verki sínu Historia de gentibus septentrionalibus frá 1555 hús byggð úr hvalbeinum.
I Whitby Norður-Jórvíkurskíri á Englandi var þessi hlaða eða skemma rifin á 4. áratug síðustu aldar. Kjálkabein úr stórum skíðishvölum hafa verið nýtt sem sperrur í braggann. Ekki er húsið mikið frábrugðið kjálkahúsinu í verki Olaus Magnusar (Sjá frekar hér).
Sá siður Hollendinga að hengja neðri kjálka úr stórhvelum, sér í lagi skíðishvölum, utan á hús er vel þekktur, og við þekkjum þessa notkun hvalbein einna best vegna hins mikla myndlistaarfs þeirra frá 17. og 18. öld.
Utan á gamla ráðhúsinu í Amsterdam, sem brann til kaldra kola árið 1651, héngu mikil kjálkabörð í járnkeðju. Málarinn Pieter Janszoon Saenredam málaði olíumálverk af húsinu árið 1657 eftir minni eða eldra verki) (stækkið myndina efst til að sjá smáatriðin eða farið hingað til að láta heillast).
Riddarasalurinn (Ridderzaal) í Haag í Hollandi var miðaldabygging sem byggður var á miðöldum. Í dag er hann hluti af svokölluðum Binnenhof (Innri Garði), þar sem hollenska þinghúsið er er í dag. Um miðja 17. öld máluðu tveir listamenn bygginguna og tvö kjálkabein úr skíðishval sem hengd voru á bygginguna árið 1619. Seinni tíma listfræðingar hafa kallað þetta bein búrhvals, sem er tannhvalur, en greinilegt er að þarna hanga kjálkabörð skíðishvals. Aftaka fór fram við húsið árið 1619 og mynd stungin í kopar af þeim viðburði. Þar sjást hvalbeinin ekki, þannig að þau hljóta að hafa verið hengd á bygginguna síðar en 1619.
Í ráðhússal í Haarlem í Hollandi hanga þessir veglegu hvalskjálkar. Þau voru flutt til Hollands frá eyjunni Waiigat (Vindrassgati), sem Jan Huyghen frá Linschoten tók með sér til Hollands úr merkri ferð sem hann fór með Willem Barentsz til Novu Zemblu árið 1595. Í miklu yngri ráðhúsum í Norður-Þýskalandi héngu einnig hvalbein og voru t.d. notuð sem ljósakrónur (sjá hér).
Víða í Hollandi hefur það lengi tíðkast að menn settu fallega úthöggna steina á gafl húsa sinna. Gaflsteinar þessir báru gjarna nafn eiganda eða einhverja mynd sem lýsti eigandanum eða starfi hans. Á pakkhúsi frá 18. öld í Amsterdam, sem því miður var rifið árið 1973, hékk þessi steinn : með áletruninni : HET WALVIS BEEN IS NU STEEN. Síðar var steininum komið fyrir á öðru húsi. Kannski hafa hvalaafurðir einhverju sinni verið geymdar í pakkhúsinu á Haarlemmer Houttuinen númer 195-99 (sjá myndina hér fyrir neðan). Gatan fékk nafn sitt af tréverslunum og viðargeymslum Amsterdamborgar sem voru staðsettar þarna frá því á 17. öld, þegar svæðið lá í útjaðri borgarinnar. þar sem minnst eldhætta var af byggingaefninu sem þar var geymt.
Hvalbeinin sem héngu á húsum í Hollandi hafa að öllum líkindum átt að sýna fólki stærð sköpunarverka Guðs. Þau sýndu einnig mátt og megin verslunar og umsvifa Hollendinga á gullöld lýðveldis þeirra á 17. öld, þegar hvalaafurðir voru sóttar til fjarlægra slóða. Beinin voru líklegast til vitnis um þá mikilvægu verslun sem Hollendingar stunduðu og þann iðnað sem tengdist henni. En alltaf var trúarlegur grunnur. Alli könnuðust við söguna af Jónasi í hvalnum. Í beinunum sáu menn einnig sönnun þess að hvalir gætu hæglega gleypt menn.
Jónas stígur út úr hval í þorsklíki. Málverk frá 1595 eftir Jan Breughel eldri. Málverkið hangir í Gamla Pinachotekinu í München.
Annars staðar gerðist það að hvalbein voru hengd upp vegna þess að hvalreki varð. Það gerðist t.d við Litla Belti í Danmörku, þegar stórhveli rak þar á land þann 30. apríl árið 1603. Hvalbein, kjálki og voru hengd upp í kirkjunni í Middelfart og eru þar enn.
Í borginni Verona á Ítalíu hangir rifbein úr litlum hval yfir borgarhliðinu.
Hvalveiðar | Breytt 25.5.2015 kl. 05:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Penis destitutus in litore
1.4.2014 | 14:49
Sigurður Hjartarson kenndi mér í MH á sínum tíma (sjá hér) og var meðal bestu kennara sem ég hef haft. Sigurður hefur síðar orðið þekktastur fyrir reðursafn sitt, Reðurstofuna sem varð að Hinu Íslenzka Reðasafni, sem fyrst var til húsa í Reykjavík, svo á tímabilinu 2004-2011 á Húsavík og nú í furðulegu samlífi með Tryggingastofnuninni á Laugavegi. Fornleifur er á því að það sé hvergi meiri reisn á nokkru safni á Íslandi, nema ef vera skyldi á Skógasafni, hjá fremsta fornfræðingi þjóðarinnar Þórði Tómassyni.
Þessi myndasyrpa er tileinkuð Sigurði Hjartarsyni. Hvalveiðasýning sjóferðasafns Hollendinga, Scheepvaartmuseum, í Amsterdam, sem ég heimsótti nýverið, espaði mig upp í þetta typpa-show. Pennateikningin efst blasti við flennistór, þegar inn í sýninguna var komið. Börn hlupu út af hræðslu.
Ég segi síðar frá sýningunni en þessi röð mynda af strönduðum hvölum með skaufann úti, fínu fólk og phallólógum? að mæla lengd hans, deili ég hér með lesendum mínum. Hægt er að stækka hverja mynd með því að þukla með músinni á hval reðrið (ekki klikka).
Árið 1598 strandaði hvalur á ströndinni við Berckhey í Hollandi, þar sem einnig heitir Katwijk nærri Scheveningen, þar sem ég baðaði á ströndinni sem barn. Hvalrekinn og teikningar ýmissa listamanna af honum frá 17. og 18. öld er gaman að skoða og sér í lagi þann gífurlega áhuga sem menn sýndu hvalreðrunum. Upplýsingar um myndirnar er hægt að sækja á RijksStudio Rijksmuseums.
Hvalreki varð nærri Ancona á Ítalíu árið 1601. Notuðust Ítalir við hollenska list til að lýsa þeim atburði. Einu sinni rak ítalskan mann að Íslandsströndum, Paolo Turchi að nafni og var hann frá Ancona ef ég man rétt, en við æfðum einu sinni og stæltum vöðva okkar hjá Hrafni heitnum og Ágústu Johnsson.
Hvalveiðar | Breytt 6.4.2014 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvalasaga - 2. hluti
6.2.2014 | 10:17
Ýmis konar heimildir um hvalveiðar fyrri alda á Norðurslóðum eru til. Nú fleygir fornleifafræðinni fram og fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á Spitsbergen, Íslandi og Nýfundnalandi veita okkur haf af upplýsingum sem ekki voru áður þekktar.
Á okkar tímum má finna öfgafyllstu hvalavinina á meðal Hollendinga. Um tíma hélt ég að annar hver Hollendingur væri annað hvort öfgafullur ESB sinni eða haldinn enn öfgafyllri hvalaþrá. Fyrr á öldum voru Hollendingar aftur á móti ein stórtækasta hvalveiðiþjóð í heiminum. Þess vegna er til margar heimildir um iðnvæddar hvalveiðar Hollendinga, og sumar ritheimildir um það efni eru enn órannsakaðar. Hugsanlega kann eitt og annað að finnast þar um hvalveiðar við Íslands. Við Íslendingar höfum varðveitt annála frá 17. öld sem upplýsa um upphaf þessara mikilvægu veiða við Ísland, en nú bæta frábærar fornleifarannsóknir í eyðurnar. Enn hafa ekki fundist leifar eftir hvalveiðiútgerðir Baska við Íslandsstrendur, en það er aðeins tímaspursmál, hvenær slíkar minjar finnast.
Hvalveiðar og lýsi í list
Eitt skemmtilegasta heimildasafn um hvalveiðar á 17. og 18. öld er að finna í alls kyns myndefni, sér í lagi frá Hollandi, hvort sem það eru málverk, prentverk, teikningar eða annað. Áhugi Hollendinga á hval var gríðarlegur, eins og öllu sem þeir sáu arð í á gullöld sinni á tíma hollenska lýðveldisins.
Myndirnar sýndu mikilvægan iðnað, sem gaf af sér mikilvæga vörur, t.d. hvalalýsið, sem notað var til götulýsinga og vinnslu á brennisteini til púðurgerðar. Dýrasta lýsið var hins vegar höfuðlýsi, einnig kallaður hvalsauki. Það var unnið úr fitu úr höfði búrhvala og annarra hvala. Hvalsaukinn varð fljótandi við 37°C en storknaði við 29 °. Talið er að þessi olía stýri flothæfni hvala. Fyrrum óðu menn í villu um eðli olíunnar og töldu hana vera sæði, þar sem hún þótti minna á sæði karla og var kalla spermaceti (dregir af sperma og ceti, sem er latneskt orð fyrir hvali). Úr stórum búrhval gátu menn fengið um 3-5 tonn af þessari merku olíu, sem var notuð í snyrtivörur smyrsl, kerti og margt annað.
Ríkir útgerðamenn í hollenskum bæjum þar sem hvalaútgerðin hafði heimahöfn létu útbúa fyrir sig skápa með myndum af hvalveiðum. Húsgaflar hvalveiðiskipstjóra voru skreyttir með lagmyndum af hvalveiðum og ýmsir smærri gripir voru skreyttir með myndum af hvalveiðum. Hvalskíði voru notuð í alls kyns vöru, t.d. regnhlífar, en einnig í ramma utan um myndir, í öskjur og mismunandi heimilisiðnað.Skoði maður málverk og myndir af hvalveiðum Hollendinga á 17. öld, er oft hægt að finna hafsjó af upplýsingum, þó svo að myndirnar hafi ekki verið málaðar af mönnum sem sjálfir ferðuðust til Spitsbergen, Jan Mayen, Grænlands og Íslands. Áður hef ég greint frá málverki Cornelis de Man af Smeerenburg (sem yfir á íslensku er hægt að þýða Spikbær) á Spitsbergen (sjá enn fremur hér). Þar er mikið um að vera og stórir brennsluofnar í notkun. Leifar af ofnum í líkingu við þá sem sjást á málverkinu hafa ekki verið rannsakaðir á Spitsbergen, og hafa ekki fundist. Prentmyndir (ristur) annarra listamanna myndir sýna ef til vill raunsærri mynd af vinnu við hvalinn í landi og ofna sem líkjast meira þeim sem rannsakaðir hafa verið, t.d. á Strákatanga og á Spitsbergen. Þeir eru af sömu stærð (sjá fyrri færslu). Listamaðurinn de Man hefur líklega sett spikofna eins og hann þekkti þá frá Hollandi inn á mynd sína, eins og svo margt annað.
Málverk eftir Abraham Storck. á Rijksmuseum het Zuiderzeemuseum, Enkhuizen. Klikkið nokkrum sinnum með músinni á myndina til að sjá smáatriðin.
Tvö málverk Abrahams Storcks (1644-1708) sýna úrval að því sem gerist við hvalveiðar og hvalavinnslu á norðurslóðum. Þó að allt sem á myndunum sjáist sé ekki nákvæmt, eru þær frábær heimild, jafnvel þó svo að listamaðurinn hafi aldrei sett færu á Spitsbergen. Hann hafði heimildarmenn, og notaðist við teikningar annarra listamanna og safaríkar frásögur hvalveiðimanna sjálfra.
Skoðið þennan hluta málverksins efst, og klikkið á myndina til að skoða smáatrið. Er þetta er miklu skemmtilegra en sjóræningjamynd? Málverkið tilheyrir Rijksmuseum í Amsterdam.
Föt hvalveiðimanna
Gaman er bera saman hinar mismunandi heimildir um hvalveiðar á 17. öld. Skoðar maður til dæmis vel föt og flíkur hvalveiðimanna á málverkum hollenskrar gullaldar, er ævintýri líkast að sjá þau föt sem fundust við fornleifarannsóknir á gröfum hvalveiðimanna á Smeerenburg. Stækkar maður brotið úr mynd Abrahams Storcks hér fyrir ofan mætti halda að þarna væru þeir komnir sem létust við störf sín þegar þeir dvöldu á Spitsbergen.
Tengd efni:
Kaptajn, Købmand og Helligmand
Allen die willen naar Island gaan
Hvalveiðar | Breytt 7.2.2014 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvalasaga - 1. hluti
3.2.2014 | 14:46
Einn af merkari fornleifauppgröftrum síðari ára á Íslandi eru rannsóknir dr. Ragnars Edvardssonar á rústum hvalveiðistöðvar frá 17. öld á Ströndum. Ragnar hefur rannsakað rústir hvalveiðiverstöðvar og lýsisbræðslu á Strákatanga í Steingrímsfirði, (sem er að finna í Hveravík í norðanverðum firðinum gegnt Hólmavík). Ragnar hefur sömuleiðis unnið frumrannsókn á rústum hvalveiðistöðva í Strákey og í Kóngsey, sem eru norður af Steingrímsfirði. Rannsóknirnar varpa skíru ljósi á verslunar- og iðnaðarsögu Íslands. Sögu hvalveiða er einnig mikill akkur af rannsóknum Ragnars.
Ég set hér hlekki í rannsóknarskýrslur Ragnars svo menn geti kynnt sér þessar merku rannsóknir hans og félaga hans árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2012.
Lýsisbræðsla á Strákatanga
Á Strákatanga fundust vel vaðveittar rústir lýsisbræðsluofns. Engum vafa er undirorpið að hann er byggður af hollenskum hvalföngurum. Tígulsteinninn í honum er greinilega hollenskur, einnig minni forngripir sem fundust þeim húsarústum sem rannsakaðar voru. Reyndar telur Ragnar að mögulegt sé að Baskar hafi einnig verið þarna á ferðinni. Það þykir mér frekar ólíklegt út frá þeim forngripum sem fundist hafa á Stráka. En ekki ætla ég að útiloka ég það, þar sem baskneskir hvalveiðimenn kenndu Hollendingum hvalveiðar og hollenskar útgerðir höfðu í byrjun 17. aldar oft baskneskar áhafnir eða baskneska sjómenn um borð á skipum sínum. Íslenskir annálar greina hins vegar frá hvalveiðum Baska frá Spáni við Íslandsstrendur upp úr 1610 og frá baskneskum hvalveiðiskipum. Önnur heimild, Íslandskort frá 1706 (í útgáfu á Blefken sem prentuð var í Leyden í Hollandi), upplýsir að Baskar hafi verið við hvalveiðar við Ísland árið 1613. Það hefur verið til umræðu áður á Fornleifi.
Bræðsluofninum á Strákatanga svipar mjög til bræðsluofns sem rannsakaður var á 8. áratug síðustu aldar á Spitzbergen. Í Gautavík í Berufirði hefur einnig verið rannsakaður hollenskur lýsisbræðsluofn. Óvíst er þó hvort hann hefur verið notaður til bræðslu á hvalspiki.
Þessi ofn var rannsakaður af hollenskum fornleifafræðingum á Smeerenburg-tanga á Amsterdameyju á Spitzbergen á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Hann er sömu gerðar og ofninn sem rannsakaður var á Strákatanga. Úr gein Louwrens Hacquebords um rústirnar í bókinni Walvisvaart in de Gouden Eeuw (Amsterdam 1988). Hvalveiðistöðin á Strákatanga var lítil miðað við stöðina á Spitzbergen.
Fornleifafræðingarnir hollensku, sem rannsökuðu hvalveiðistöðina í Smeerenburg á Spitzbergen á 8. áratug síðustu aldar, gerðu sér í hugarlund að brennsluofninn sem þeir rannsökuðu við erfiðar aðstæður hefði verið byggður upp á þennan hátt:
Svona ímynda menn sér að ofninn á Smeerenberg hafi verið byggður. Úr grein Louwrens Hacquebords um rústirnar í bókinni Walvisvaart in de Gouden Eeuw (Amsterdam 1988). Eins og sjá má voru þetta stórar hlóðir sem á var sett stór ketill, þar sem spikið bar brætt. Eldsneytinu var ýtt inn um bogamynduð göng, sem mér sýnist vera samanfallin, en annars vel varðveitt á ofninum á Strákatanga.
Einnig er til fjöldi málverka og prentmynda frá 17. og 18. öld sem sýnir spikbræðslu Hollendinga, annars vegar í Hollandi og hins vegar í Norðurhöfum.
Þar að auki eru húsin á Strákatanga sem Ragnar og samstarfsmenn hans hafa rannsakað mjög svipuð húsakynnum Hollendinga á hvalveiðistöðvum þeirra í Norðuríshafinu. Gólf sumra húsanna í hvalverstöðvum Hollendinga voru lögð tígulsteinum.
Leifar eftir baskneskar hvalveiðar hafa enn ekki fundist á Íslandi
Hugsanlega má vera að bræðsluofn að gerð Baska sé að finna undir hollenska ofninum á Strákatanga. Hann væri þá meira í líkingu við þá ofna sem fundist hafa á Penny Island í Red Bay á Nýfundnalandi, þar sem Baskar höfðu hvalstöðvar þegar á 16 öld. Kanadamenn hafa gert hvalveiðiminjum Baska í Rauðuvík hátt undir höfði og voru minjarnar og staðurinn settar á heimsminjaskrá UNESCOs árið 2013. Hugsanlega gera Íslendingar sögu annarra þjóða við Ísland eins vel, en miðað við þær heimalningslegu áherslur sem Íslendingar hafa lagt áherslu á til útnefningar á Heimsminjaskrá er ólíklegt að hinn merki minjastaður Strákatangi fari á þá skrá í bráð, þó svo að hvalveiðar Baska og Hollendinga hafi verið ein mesta byltingin í veiðum við Strendur Íslands.
Lýsisbræðsluofnar Baska á Penny Island voru miklu minni en ofnar Hollendinga og af annarri gerð. Ef þannig ofnar finnast einhvern tíman á Íslandi, höfum við fornleifar sem styðja ritheimildir um Baska. Enn sem komið er sýna fornleifar ekki þau tengsl. Það er hins vegar aðeins tímaspursmál að slíka minjar finnist.
Svona ímynda menn sér að basknesku ofnarnir á Penny Islands hafa litið út, en miðað við upplýsingar af fundarstað, er þetta oftúlkun.
Til þess að ég sé sæmilega fullviss um að hvalveiðistöð sem grafin er upp á Íslandi hafi verið undir stjórn Baska, verða forngripirnir að vera frá Baskalandi, þ.e. Spáni eða t.d. Frakklandi. Í því forngripameni sem fundist hefur á Strákatanga er ekkert sem bendir til Baksa, hvorki leirker né aðrir gripir. Á Spitzbergen, hafa hins vegar fundist spænskir diskar og krukkur, en það er hins vegar ekki mjög óeðlilegt, því hollendingar fluttu unn leirker frá Spáni.
Þessa færslu er vart hægt að enda nema með tilvitnun í meistaralegt en hvalræðislegt prumpurraggae eftir Ómar Ragnarsson, föðurbróður Ragnars Edvardssonar. Ómar lýsir þar raunum sínum eftir kynni sín af hinum umdeilda bjór Hvalnum, sem mun innihalda vel soðnar iðraleifar. Pempíur og nöldurkerlingar nútímans, sem fárast yfir hvaða bakteríu sem er, ættu þá að vita hvað sett er í ostinn sem þær borða svo ekki sé talað um jógúrtina, sem byggð er upp af bakteríum sem danskt fyrirtæki ræktar eftir að hafa safnað þeim úr bleyjum kornabarna á dönskum spítölum:
Kvalinn eftir Hvalinn
Hvalaiðra beiskan bjór
í bland með skötu kæstri
ákaft bergði og svo fór
með útkomunni glæstri
á klósett eftir þetta þjór
með þarmalúðrablæstri.
Vínþolið, það var að bila, -
veifað gulu spjaldi, -
orðið nærri að aldurtila
og gegn dýru gjaldi,
þarmabjór hann þurfti að skila
í þarmainnihaldi.
(Ómar Ragnarsson, 2014)
Hvalveiðar | Breytt 4.2.2014 kl. 03:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)