Hinn heilagi íslenski þjóðfáni
14.9.2015 | 09:00
Hér hefst röð nokkurra greina um merki Íslands, skjaldamerki fyrr og síðar, fána þjóðarinnar og skildi riddara hennar.
Ekki alls fyrir löngu sá ég í fréttum RÚV, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlaði að setja fram fjölda mála á þingi, þó engin stórpólitísk eða vitsmunaleg (sjá hér, 8:50 inni í fréttatímanum). Eitt að af keppikeflum hins landsföðurlega unglings er að leggja fram breytingar á lögum á þjóðfánanum til að leyfa notkun fánans á verslunarvörum sem framleiddar eru á íslandi; sem og í vörumerkjum og umbúðum (á það líka við list, sem líka er verslunarvara?). Hann boðið slíkt lagafrumvarp í fyrra en kannski var það eitthvað annað?
Ljósmynd Haraldur Jónasson. Myndin efst er skönnuð af höfundi og er af safni hans af íslenskum fánum úr Turmac sígarettupökkum. Slík merki myndu ekki fá náð fyrir lögum Sigmundar Davíðs í dag.
Fáninn er sameign landsmanna. Frjálsa þjóðin í vestri er búin að nota Stars and Stripes í alls kyns tilbrigðum og Union Jack Breta hefur t.d. verið settur á kitlara (titrara/gervilimi) sem seldir eru í Soho, án þess að menn kippi sér hið minnsta upp við það. Það kemur því ekki á óvart að Sigmundur Davíð leikmyndahönnuður á Selfossi, maður með ríka fortíðarást gerist fánahyllir og leyfi fánann á hvað sem er, að því tilskyldu að framleiðslan sé alíslenskt og framleidd í landinu sjálfu undir strangri umsjón fánaeftirlitsmanna og fánalögreglunnar.
Þetta er auðvitað leynd aðför að minjagripasölumönnum á Íslandi, sem selja alls kyns rusl í fánalitunum og umvafið í þjóðfánann, búið til af börnum í Kína og Laos. Íslenskir minjagripir eiga að vera íslenskir og hráefnið í þá líka!
Rís þú upp unga Íslands merki
Þetta minnir mig allt á umbrot í MH á árum mínu þar (1976-79), þegar hópur kristinna í skólanum bað samnema sínu um að teikna Guð og þá var þjóðfáninn mönnum hugleikinn. Niðurstöðurnar voru birtar á sýningu og meðal þess kom í sarpinn var reður í reisn litað með fánalitunum. Einnig var teikning af Hallgrímskirkjunni sem portkona svört og mikið í netsokkum sat klofvega yfir og gerði síg líklega til að gleypa turninn. Síðastnefnd teikning var gerð af guðsdreng einum í skólanum, drátthögum mjög í erótískri list. Þessir draumórar hans spurðust þó ekki vel fyrir hjá rektor Guðmundi Arnlaugssyni sem var alveg mát, og lét banna sýninguna. Flestir nemar skólans hlógu sig máttlausa enda komnir tíma þar sem menn tóku merki lýðveldisins ekki eins alvarlega og lýðveldið sjálft, sem er miklu mikilvægara en merki þess.
Sifjarspell
Ósk Sigmundar um að hafa fánann einvörðungu á höndum íslenskra framleiðenda, minnir mig á frekjudrós að Norðan, fyrrverandi fegurðardís úr Sjallanum, sem fyrir nokkrum árum reyndi með lögfræðingaaðstoð að banna konu sem í mörg ár hafði rekið fyrirtæki undir nafninu SIF að nota það nafn, vegna þess að hún væri sjálf farin að nota nafnið í sínum atvinnurekstri og væri hin eina og sanna SIF JAKOBS alþjóðlegur skartgripahönnuður, lærð í Svíþjóð: "Einnig kemur fram að hún sé aðalhönnuður eins af stærstu skartgripafyrirtækjunum í Kína og sömuleiðis séu skartgripir hennar seldir í Leonard hér á landi. Þá hafi hún hannað skartgripi sem seldir hafa verið til styrktar góðum málefnum, svo sem til styrktar Neistanum (styrktarfélagi hjartveikra barna), blindum börnum og Krabbameinsfélaginu. Af þessu hafi hróður hennar sem skartgripahönnuðar spurst út og hún orðin þekkt hér á landi sem og erlendis fyrrverandi hönnuður hjá stærsta skartgripafyrirtæki Kína" . Málatilbúningur var allur hinn hjákátlegasti (sjá hér), enda tapaði Sif (sem reyndar heitir Guðný Sif) máli sínu með glæsibrag í úrskurði Einkaleyfisstofnunar. Skartgripir hennar minna mig á hundaólar með "blingi" og glerdemöntum, og virðast fjöldaframleiddir af börnum í Kína á ómannsæmandi launum. Þess vegna er ég búinn að hafa samband við Marc Jacobs og hef sagt honum frá Guðnýu sem sumir halda að sé systir hans. Frekja Sifjar minnir mig á vissan hátt á Sigmund Davíð, sem ætlar að banna öðrum mönnum en íslenskum að nýta sér íslenska fánann. Nú á þetta að verða Íslenski fáninn by David Gunlogs. Hefur ráðherrann ekkert betra við tímann að gera?
Þegar faðir minn vanvirti íslenska fánann.
Faðir minn var erlendur maður að uppruna og kaupahéðinn. Þetta er hann á myndinni í æsku sinni. Eitt sinn fékk hann þá hugmynd snemma á 7. áratug 20. aldar að fá framleidd þjóðleg gluggamerki fyrir íslenskar bifreiðar, enda sá hann það greinilega fyrstur manna fyrir að Íslendingar myndu síðar flykkjast i ferjum til erlendra landa á drossíum sínum. Var þessu framtaki ekki tekið vel upp í ráðuneytum landsins þótt að merkin rokseldust. Faðir minn fékk bréf frá tveimur ráðuneytum og það í hótunarstíl. Honum var greint frá því að hann notaði skjaldamerki og fána Íslands í leyfisleysi.
Faðir minn, sem hafði í nær áratug verið íslenskur ríkisborgari hafði strax samband við Gunnlaug Þórðarson, sem oft hafði verið honum innan handa með lögfræðileg vandamál og var einnig um skeið endurskoðandi föður míns. Gunnlaugur sagði það af og frá að faðir minn væri að brjóta nokkur lög. Pabbi andaði léttar. En þá barst hótunarbréf um sektir og fangelsisvist og hvað eina, sem ég á því miður ekki búinn að finna. Hætti þá faðir minn sölu á þessum bílamerkjum og sneri sér að ermamerkjum með fána og skjaldamerki og lyklakippum með skjaldamerki Íslands sem aldrei var fett fingur út í og sem rokseldust í Rammagerðinni og í öðrum minjagripaverslunum, jafnvel á Langanesi.
Tel ég víst að einhver stór smásál að Norðan í íslenska stjórnkerfinu hafi ekki þolað að útlendingur væri að selja hinn heilaga íslenska fána. Gunnlaugur Þórðarson taldi hins vegar víst, að það hefðu hleypt galli í blóð stjórnvalda að faðir minn lét setja myndir af ýmsum opinberum byggingum á rúðumerkin, þannig að útlendingar sæju á bifreiðum Íslendinga hve kotungsleg dómkirkja, þinghús og forsætisráðuneyti landsins væru. Gunnlaugur taldi, sem sagt, að þetta kæmi við minnimáttarkenndina í sumum Íslendingum.
Fyrir nokkrum árum tókst mér að bjarga nokkrum gluggamerkjum, svokölluðum decals, sem faðir minn lét framleiða í Hollandi hjá fyrirtæki í Amsterdam sem bar heitið ALIMEX. Fleiri gerðir voru til en þessar. Ein var t.d. með íslenska fánanum á skildi og önnum með íslenska skjaldamerkinu. Mig minnir einnig að Leifsstyttan á Skóavörðuholtinu væri á einu merkjanna.
Þessi merki rokseldust, en voru í óþökk verndara hins heilaga, unga, íslenska fána, sem hins vegar var stundum hylltur á afar sérstakan hátt (sjá hér), líkt og í Kaldárseli árið 1989, þar sem sannkristnir menn hylltu fánann með "rómverska" laginu. Ekkert var sagt við því í ráðuneytunum. Myndin er fengin úr Barnablaðinu 2.tölublaði, 1989.
Heil eða Saluto Romano, sem er seinni alda tilbúningur og á ekkert skylt við Rómverja.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Gervimenning, Merki, fánar, skjaldamerki | Breytt 19.8.2020 kl. 16:13 | Facebook
Athugasemdir
Þætti mér nú vænt um að lesendur mínir sendu mér ljótustu dæmin sem þeir þekkja af túristahroða, það sem íslenski fáninn hefur verið tekinn í gíslingu af íslenskum kaupmönnum sem láta börn í fjarlægum löndum búa til glingrið fyrir okkur.
FORNLEIFUR, 14.9.2015 kl. 09:08
Sæll Fornleifur.
Er þér kunnugt um nokkra lýðræðisþjóð
í víðri veröld sem 'skartar'
skjaldarmerki erlends valds, sbr.
Alþingishúsið?
Húsari. (IP-tala skráð) 15.9.2015 kl. 09:36
Húsari enn að auglýsa fáfræði sína - á þaki þinghússins er ekkert skjaldarmerki eins og flestir vita, heldur er þar „monogram“ eða fangamark eins og það er kalað á íslensku með kórónu fyrir ofan. Það er ekki skjaldarmerki og hefur aldrei verið.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 20.9.2015 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.