Íslandskvikmynd Evu Braun og aðrar minna þekktar Íslandskvikmyndir úr ferðum KdF

 

Forðum er Eva Braun og Hitler sátu í byrginu í Berlín, horfðu þau kannski á síðustu dögum sínum á minningar úr ferð Evu til draumalandsins Íslands. Hvað gera samlynd hjón þegar þau eiga ekki sjónvarp og stunda ekkert kynlíf? Adolf og Eva horfðu á kvikmyndir Evu langt undir strætum Berlínar. Þau Eva og Adolf náðu að vera hjón í tæpar 40 klukkustundir í apríl 1945. Um leið og þau átu Sauerkraut (pizzur voru ekki til og Adolf var vitaskuld grænmetisæta) dáðust þau af Gullfossi og Geysi og miklum fjölda langferðabíla á Ísland.

Íslandsferð Evu í júlí 1939 með þýska farþegaskipinu Milwaukee þekkja Íslendingar orðið harla vel síðan að Hörður Geirsson á Akureyri greindi fyrst frá henni á 10. áratug síðustu aldar.

Eva Braun sigldi með skipinu Milwaukee og ferðin var skipulögð af "menningar"- samtökum nasista sem kölluð voru Kraft durch Freude, og var skammstafað KdF.

Kvikmynd Evu má sjá hér fyrir ofan (íslenskt efni hefst 3 mín. og 14 sek. inn í myndina).

Til eru tvö önnur kvikmyndabrot frá Íslandi, sem tekin voru í ferðum KdF. Ég hef hvorki heyrt um þau eða séð þau áður, þó vera kunni að þau séu vel þekkt á Íslandi. En ég læt þau samt flakka hér. Myndbrotunum hefur verið safnað af AKH (Agentur Karl Höffkes) í bænum Gescher í Þýskalandi og má sjá á vefsíðu fyrirtækisins.

Hér er fyrst samansafn myndbrota. Fremst er brot sem sagt er vera frá sumrinu 1936. Það er tekið á siglingu Milwaukees með félaga nasistahreyfingarinnar KdF. Ef litmyndin á eftir Íslandsmyndinni er frá sama ári og Íslandsferðin fremst á syrpunni, hefur AKH orðið á í messunni, því hún sýnir Heimssýninguna í New York sumarið 1939. Það útilokar þó ekki að myndbrotið frá Íslandi sé frá 1936.

Eftirfarandi kvikmyndabrot er hins vegar ekki dagsett, en er líklega hvorki úr ferðinni sem Eva Braun fór sumarið 1939, né þeirri ferð árið 1936 sem kvikmyndin hér að ofan var tekin í. Brotið frá Íslandi hefst 3,36 mínútur inn í myndasyrpuna. Síðar í syrpunni eru myndir frá Ísafirði, að því er ég best fæ séð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband