Ísland brýtur gegn Kúrdum í nauð

Sabre family

Ég hef sent þetta erindi til Sigríðar Á Andersen og afrit til ráðuneytis hennar og útlendingastofnunar. Ég hvet lesendur Fornleifs að skrifa eða hringja og biðja ráðherrann að snúa við ákvörðun um að reka úr landi kúrdíska fjölskyldu. Þið getið ritað til þessara aðila,

Útlendingastofnun 4440900 - email utl@utl.is .
Dómsmálaráðuneyti 5459000 postur@dmr.is.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, saa@althingi.is or

Sjá frekar hér:

Sigríður Á. Andersen

Dómsmálaráðherra

Erindi varðandi fyrirhugaða brottvísun Sabre fjölskyldunnar 17. júlí 2017

Virðulegi dómsmálaráðherra

Ég frétti af því að nú hefðu íslensk yfirvöld ákveðið að vísa úr landi fjórum Kúrdum, Fjölskyldunni Sabre, hjónum komnum yfir miðjan aldur og tveimur dætrum þeirra sem eru 17 og 20 ára.

Um leið og ég minni á að Kúrdar eru ofsótt þjóð, m.a. af Tyrklandi, fasistaríki undir harðri stjórn Receps Erdogans, sem Ísland er í mjög góðri samvinnu við í t.d. NATO, langar mig að láta í ljós þá skoðun mína í ljós að þessi brottvísun Sabre hjónanna og dætra þeirra er fyrir mig að sjá óeðlilega grimm og ómannúðleg aðgerð og minnir á brottvísanir gyðinga frá Íslandi í lok 4. áratugar 20. aldar. Um þær aðgerðir forvera þinna í Dómsmálaráðuneytinu hef ég m.a. skrifað um í bók minni Medaljens Bagside sem olli því árið 2005 að þáverandi forsætisráðherra Dana og síðar framkvæmdastjóri NATO, Anders Fogh Rasmussen, baðst afsökunar á aðgerðum fyrri ríkistjórna í Danmörku gagnvart gyðingum og öðrum sem vísað var frá Danmörku af dönskum yfirvöldum á tímabilinu 1936-1943.

Ég vona að þú hafir það náðugt í kvöld með fjölskyldu þinni og verðir ekki ein af þessum ráðherrum sem einhver þarf að biðjast afsökunar fyrir eftir nokkra áratugi, þegar upp rennur fyrir arftökum þínum í embætti að þú og ráðuneyti þitt komuð ekki í veg fyrir reginskyssu í meðferð kúrdískra flóttamanna sem leituðu ásjár hjá Íslendingum. Kúrdar eru ofsóttir af mörgum öfgafullum ríkjum og hópum í Miðausturlöndum, sem ekki virða lágmarksmannréttindi. Það er því afar sorglegt að sjá að þú og ríkisstjórn þín verðið völd að brottvísun kúrdískra flóttamanna um leið og Ísland er í stjórnmálasambandi við suma af verstu ofsækjendum Kúrda. Það er ámælisvert og verður að koma til kasta alþjóðlegra stofnanna, ef íslensk yfirvöld sjá ekki neina galla í slíkum tvískinnungi.

Bestu kveðjur,

Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
 
----
 
assadasaassadcanbe
 
Á þetta að verða þekktasta aðgerð íslensks utanríkisráðherra? Þarna var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að reyna að koma Íslandi í Öryggisráð SÞ til að geta gerst helsti stuðningsmaður hryðjuverkasamtaka. Til þess taldi hún hentugt að ræða við einn helsta ofsækjanda Kúrda.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Merkileg lesning og trúverðug um Hjört Hjartarson kaupmann í Lækjargötu. Hjörtur var skemmtilegur kaupmaður og ræðinn. Áttum við ágætis samræður. Tel að hann hafi selt meir af ávöxtum en tóbaki. Þá er ekki skrýtið þótt hann sem ungur maður í Þýskalandi hafi unnið ýmis störf, 20-25 ára. Borist með straumnum án þess að vera bendlaður við nasista. Fjölskylda hans gæti líka verið of fordómafull í hans garð. Eins finnst mér mynd þín af Ingibjörgu Sólrúnu með Sýrlandsforseta pínleg en sönn. Þarna í embættiserindum og í baráttu um sæti í Öryggisráðinu fyrir Ísland. Hrifin af "vitundarbylgju", þegar Íslendingar komust á lista Economist, meðal stærri landa um efnahagshreyfingar. 

Danir rísa hátt þegar þeir biðjast afsökunar á framferði sínu gagnvart gyðingum á árunum 1936-1943. Meira en við höfum gert. Hérlend stjórnvöld sendu gyðinga í gap nasista í byrjun stríðsins. Snéru flóttamönnum við sem voru komnir á Ytrihöfnina. 

Andrers Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra og Nato framkvæmdastjói hefur árið 2005 sýnt gyðingum virðingu og samúð. Efast ég ekki um þátt þinn í þeirri í þeim gjörningi, eins nákvæmt og þú lýsir vel æviskeiði Hjartar Hjartarsonar kaupmanns. 

Návígi við stór stríðsátök eru hrikaleg. Erfitt að sjá hlutina í réttu ljósi þegar þeir eiga sér stað. Betra að vera vitur eftir á og biðjast afsökunar. Tyrkland hefur í mínum augum alla tíð verið ógnvekjandi í stríði og nú einræðisríki. Að senda fjölskyldur sem hingað hafa leitað aftur á vit óhugnanlegra stríðsátaka er alltaf slæm ákvörðun. Kúrdar og Sýrlendingar eiga að fá allan þann stuðning sem við getum mögulega veitt. Efast ég ekki um að dómsmálráðherra gerir allt sem hún getur í þeim efnum.

Sigurður Antonsson, 17.7.2017 kl. 06:39

2 identicon

Sæll

Mér finnst ótrúlegt að jafan saman stöðu Kúrda nú og gyðinga þriðja ríkinu. Vandi Afríku og vandi arabalandanna verður ekki leystur með að íbúarnir flytji þjóðflutningum og Evrópa hææti að vera til í núverandi mynd.

Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 23.7.2017 kl. 11:30

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Einar,

Ég skrifaði að brottvísun þeirra minnti á brottvísanir gyðinga frá Íslandi. Ég minntist ekkert á stöðu gyðinga í Evrópu. Einar S. Hálfdánarson, hvernig væri að læra að lesa án þess að taka hlutina úr samhengi. Það getur verið erfitt þegar maður er með lélegan málstað. Kúrdar eru ofsóttir af þjóðum "arabaheimsins" sem verstu einræðisherranna hafa. Íslendingar hjálpa Palestínumönnum með vafasama fortíð, en ekki Kúrdum. Það er óskiljanleg smekkleysa.

FORNLEIFUR, 1.8.2017 kl. 06:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband