Kirkjugarðspistill

Dómkirkjan Mackenzie

Svo allur dagurinn í dag fari ekki í fótboltamikilmennskukjaftæði og kosningageðklofa langar mig að benda mönnum á að lesa góða fréttaskýringu eftir Guðmund Magnússon fyrrv. settan þjóðminjavörð í Morgunblaðinu (bls. 15). Þar greinir Guðmundur frá þeim athugasemdum sem bárust við deiliskipulag vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar í Víkurgarði hinum forna.

Besta röksemdin fyrir því, að ekki sé mögulegt að byggja hótel á því svæði sem hinn forni kirkjugarður var á, er bann ríkistjórnar Íslands árið 1966 við að stækka hús og raska garðinum. Það bann var sett árið 1966. Það fylgir þó ekki sögunni, hvort ríkisstjórnin hafi þá vitað hve stór reiturinn var. En það skiptir sennilega engu máli. Það bann er enn í gildi nema að finnist skjal sem sýni að ákvörðunin hafi verið dregin til baka.

Allir heilvita menn þurfa ekki að heyra frekari rök. Ekkert hótel getur risið á þessum stað, ef farið er að landsins lögum. En það er nú farið að verða æ sjaldgæfara - líkt og þegar siðareglur á Íslandi virðast ekki gilda fyrir þá sem þær búa til.

Í fréttadálk við hliðina á skýringu Guðmundar Magnússonar er haft eftir síra Þóri Stephensen, að "kirkjugarðar séu bænastaðir" og að "helgi grafreita sé alþekkt í flestum trúarbrögðum og á öllum tímum." Vafalust er það rétt, nema það sem menn bera lík út á stikur og bíða þess að illfygli kroppi í sig leifarnar sem ekki fara til guðs/-a. Hrægammarnir sjá víst líka um að fljúga með sálina til guðanna. Það er því ekki bara á Íslandi að hrægammar eru taldir gera gagn.

IMG_8433

Ónákvæm rista af fyrstu dómkirkjunni í Reykjavík. Kirkjan var vígð var árið 1796. Teikningin birtist hugsanlega fyrst í dagblaðinu Daily Mirror í Lundúnum, en þessi rista er gerð eftir henni og birtist í hollenskri bók sem kom út árið 1848 og sem  langalangafi minn átti. Kirkja þessi, sem var mjög illa byggð, var rifin þegar núverandi dómkirkja var byggð árið 1848. Áður en þessi kirkja var reist var lítil kirkja í miðjum Víkurkirkjugarði. Hún var rifin árið 1789. Þessi mynd  er líklega gerð með hliðsjón af eldri ristu, líklega þeirri sem fremst er í þessari grein. Hún birtist í bók Georges Steuarts Mckenzies, Travels in the Island of Iceland, in the Year of 1810, sem út kom árið 1814.

Lítið fer nú fyrir þeirri helgi nú orðið t.d. í lútherskum löndum, t.d. Norðurlöndunum, þar sem heilu kirkjugarðarnir eru ruddir í burtu og leiði afhelguð og nýtt fyrir nýja "kúnna" þegar þeir deyja Drottni sínum.

"Character indelebilis" sem á Íslensku þýðir "óafmáanlegt kennileiti" er nú fyrst og frem kaþólska, sem meira segja kaþólikkar fylgja ekki að fullu. Því meðal kaþólikka ríkir tvískinnungurinn um grafarhelgi einnig. Meðal eingyðismanna framfylgja gyðingar einir helgi grafreita 100% með örfáum undantekningum. Þeir líta á grafreiti sína sem Beit Chaim, hús lífsins, að eilífu. Fólk sem tilheyrir öðrum trúarbrögðum í Evrópu hefur hins vegar verið iðið við að eyðileggja grafreiti gyðinga. Í Litáen vilja yfirvöld byggja mikla Evrópu-ráðstefnuhöll ofan á helsta grafreit gyðinga í Vilníus og brjóta þannig helgan grafarrétt gyðinga. En þeir keyptu sér afnot af á grafreitnum til eilífðarnóns. Litáar, sem margir eru kaþólikkar, vita greinilega ekki hvað character indelebilis er.

Reykjavík 1801Reykjavík sýnd á korti Ohlsens og Aanums. Dómkirkjan fyrri er lituð rauð efst á myndinni og merkt með sem númer 1. Víkurgarð sjá menn í sinni stærð árið 1801 á ljósgræna reitnum sem ber númerið 26. Þó hann virðist ekki stór þarna miðað við stærð frekar lítillar 1. dómkirkju er ekki útilokað að hann hafi verið stærri á fyrra stigi.

Character indelebilis var á Miðöldum fyrst og fremst kaþólska í reynd, og getur því vissulega átt við marga þá einstaklinga sem grafnir eru í Víkurgarði sem greftraðir voru fyrir siðbót. Samt finnst mér að íslenska þjóðkirkjan eða prestar hennar ættu nú síst að vera að gera sig að siðapostulum hvað varðar kirkjugarða og grafarhelgi, meðan þeir hafa til fjölda ára staðið í því að slétta kirkjugarða, þannig að íslenskir garða minna einna mest á kirkjgarða við bænahús ofsatrúarmanna á sléttum Bandaríkjanna. Með þeirri sléttunarherferð sem farið hefur fram með blessun fjölda biskupa og annarra innvígðra klíkukalla og kvenna á Ísland er í raun verið að trufla hinn heilaga grafarfrið. Character indelebilis er því ekki við lýði á Íslandi eins og sr. Þórir Stephensen álítur.

Þótt fornleifafræðingar hafi grafið í kirkjugarðinn og fjarlægt þaðan  bein, er ekkert því til fyrirstöðu  að þau verði grafin þar aftur að lokinni ítarlegri rannsókn á beinunum , sem yfirvöld verða að framfylgja hið fyrsta með tilheyrandi kostnaði. Þess var t.d. krafist í York á Englandi þar sem fannst grafreitur gyðinga frá miðöldum. Gyðingar mótmæltu strax rannsókninnir og truflun grafarfriðarins. Því var ekki sinnt og olli það miklu fjaðrafoki. Að lokum var beinunum komið aftur fyrir í gröfunum, en þau voru rannsökuð mjög ítarlega en ekki tókst að fá leyfi fyrir DNA-rannsóknum. Að kvöldi þess dags sem beinin voru aftur lög til hinstu legu, undir bílastæðahúsi sem þar átti að rísa, varð eldsvoði í Dómkirkjunni í Jórvík sem olli þó nokkrum skemmdum. Hafði breski fornleifafræðingur Philip Ratz það á orði að "þar hefðu sumir talið að hefnd gyðinganna í garðinu vegnar röskunar á friði þeirra hafi brotist út í ljósum logum ".

Sömuleiðis er frekar fyndið að sjá að á meðal andmælanda hótelbyggingarinnar er einn af helstu framleiðendum gervihúsa í "gömlum stíl", Hjörleifur Stefánsson. Í túristaklondæk miðborgar Reykjavíkur, þar sem annað hvert hús er hótel, eru til mörg slys eftir hann. Það eru húsaskrípi sem minna á endurgerðir húsa í DDR eftri Síðara stríð. Þjóðverjar endurreistu gjarna mjög groddalega það sem þeir áttu fyrir stríð. Íslendingar hafa nú byggt svo mörg gervifortíðarhús að halda mætti að hér hefði nýlega geisað borgarstyrjöld.

Sama hvað örlögum Reykjavíkur líður og nauðgun miðbæjarins. Þá er ekki hægt að fara fram hjá ákvörðun Ríkisstjórnarinnar frá 1966 sem bannar frekari byggingar í Víkurgarðsreit.

Þar fyrir utan verður að teljast eðlilegt að íslenskir arkitektar fari að nú að læra listræna sýn, æstetik, og fá auga fyrir sjónsköðum sem margar byggingar þeirra valda. Þessi hótelfjandi  sem sumir vilja troða niður við Austurvöll eins og of stórum Legó-kubbi sem ekki kemst fyrir, svo og aðrir hótelkassar sem er verið að reisa út um allan bæ, eru úr ALGJÖRU samhengi við það sem fyrir er.  Gervihús endurreisnar-Hjörleifs falla að minnsta kosti oft að heildarmynd bæjarins, en  glerhallirnar eru aðskotahlutir, sem er mjög sárt að sjá eyðileggja sál hins litla miðbæjar Reykjavíkur og jafnvel skyggja á útsýnið til Esju.

Svo er það Grágás

Að lokum langar ritstjórn Fornleifs að benda mönnum sem takast á um Víkurgarð, á þá staðreynd að Grágásarákvæði um flutning beina eiga víst einnig enn við að vissu marki þó smalar séu nú í ráðhúsi Reykjavíkur en ekki að grafa upp mannabein til flutnings, enda voru ekki til hótel eða japanskir ferðamenn þegar Kristinna Laga þáttur Grágásar var tekinn saman:

Þar er maður vill bein færa, og skal landeigandi kveðja til búa níu og húskarla þeirra, svo sem til skipsdráttar, að færa bein. Þeir skulu hafa með sér pála og rekur. Hann skal sjálfur fá húðir til að bera bein í, og eyki til að færa. Þá búa skal kveðja er næstir eru þeim stað er bein skal upp grafa, og hafa kvatt sjö nóttum fyrr enn til þarf að koma, eða meira mæli. Þeir skulu koma til í miðjan morgun. Búandi á að fara og húskarlar hans þeir er heilindi hafa til, allir nema smalamaður. Þeir skulu hefja gröft upp í kirkjugarði utanverðum, og leita svo beina sem þeir mundu fjár ef von væri í garðinum. Prestur er skyldur að fara til að vígja vatn og syngja yfir beinum, sá er bændur er til. Til þeirrar kirkju skal bein færa sem biskup lofar gröft að. Það er rétt hvort vill að gera eina gröf að beinum eða fleiri...(Byggt á Grágásarútgáfu Vilhjálms Finsens 1852). (sjá meira hér).

Deginum ljósara er, að gleymst hefur að stenkja vígðu vatni á beinin sem flutt voru úr Víkurgarði af fornleifafræðingum. - Hver skrambinn? Vonandi verður sá tæknilegi galli ekki til þess að hótelspekúlantar misnoti Grágás í röksemdafærslum sínum við borgaryfirvöld.

Nei, ætli það?? Peningarnir hafa þegar talað og Dagur Draumur er löngu orðinn að nátttrölli peningaaflanna eins og aðrir íslenskir vinstrismenn? Ég hugsa oft til græðginnar í þeim arkitektum sem teikna hús í gömlum stíl á þremur hæðum með tvöföldu gleri. Í höfði þeirra er listin að græða hærri öllum kúnstum. Ást þeirra á þeim dauðu er þó athyglisverð þegar haft er í huga að flestir eru þessir pótentátar algjörlega gvöðlausir svona dags daglega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband