Birtir nú til á Stöng? Eg er mjög efins

1204093 Stöng breytingar árið 2020

Mikið er nú hægt að koma mörgu röngu frá sér í einni frétt. En ég veit vitaskuld ekki, hvort það er við blaðamanninn að sakast, eða þá sem ætla nú að reisa einhvers konar gróðurhús yfir skálarústir á Stöng.

Tveir skálar, en ekki einn líkt og segir í fréttinni, eru undir núverandi þaki yfir rústum á Stöng í Þjórsárdal. Ég hef rannsakað báðar rústir að hluta til með góðu aðstoðarfólki og þekki því manna best ástand rústanna. Þriðji skálinn, sá elsti, liggur að hluta til undir skýlinu frá 1957, og nær undir rústir smiðju og kirkju sem eru austan við skálann.

Lenging byggingarinnar frá 1957 til austurs kemur hugsanlega í veg veg fyrir vatnsstraum inn í aðalrústina. Vandamálið með vatnslekann inn í rústina er að austurgaflinn á skýlinu hefur verið óþéttur, gluggar opnir og brotnir af mönnum og öðrum skepnum, og þekjan lek. Þar sem Þjóðminjasafnið ákvað á síðustu árum Þórs Magnússonar, með beinni fyrirskipun hans, að hætta við viðgerðir á skálunum og verndun á rústunum sem þó skiluðu góðum árangri, hefur ástandi ekki batnað. Aldrei var lokið við viðgerð austurgaflsins, sem þó var búið að gefa velyrði fyrir árið 1994. Þess vegna lekur þar enn inn, meðan að vandamálið hefur stórbatnað annars staðar eftir endurbætur undir stjórn minni og Guðmundar Lúters Hafsteinssonar arkitekts. Hér má lesa um viðgerðir á Stöng 1994 og 1996.

Bærinn á Stöng lagðist ekki í eyði árið 1104

Fréttin upplýsir að bærinn á Stöng hafi farið undir ösku árið 1104. Þetta er alrangt. Minjastofnun fer með rangt mál. Askan, eða réttara sagt vikurinn út 1104-gosinu hefur verið talsverður en íbúar fjarlægðu hann. Búið var áfram á Stöng fram yfir aldamótin 1200. Yngstur skálanna tveggja, sem undir skýlinu eru, var reistur eftir gos í Heklu árið 1104. Vikur og gjóska úr gosinu finnst í veggjum og í gólfi skálans. Furðu má sæta að Minjastofnun viti aðeins um einn skála.

Ágætt er að lokið sé við aðhlynningu á rústunum sem hófst árið 1992, en hugmyndin um að setja plast á þakið er út í hött. Ég veit ekki hvort að nægilega sterkt bylgjuplast sé til, til að halda snjóþunga sem oft gat verið nokkuð mikill áður heimshlýnun varð. En ég vona að yfirmaður Minjastofnunar sé ekki farin að hugsa og sjá eins og Greta litla Thunberg. Veðrið er ekki orðið svo miklu betra en fyrir 25 árum síðan. Plastþak mun hins vegar örugglega skapa gróðurhúsaáhrif á Stöng og öll fræ munu spíra vel undir gegnsæju plastþaki. Skýlið yrði að eins konar gróðurhúsi.  Minjastofnun yrðu öll að fara í árlegan burknaskurð. Það verður að halda jafnvægi í raka rústarinnar og það gerist ekki með plastþaki. Á mjög heitum sumrum munu (æ færri) ferðamenn sjá hálfskrælnaðar rústirnar á Stöng undir gegnsæju plastþaki.

Myndin sem útbúin hefur verið með framkvæmdaáætlun er með bakgrunn úr Google Earth. Gróðurfar á Stöng í dag er allt annað en sést á hugmyndinni. Allt er að kafna birkihríslum, sem menn hafa verið að planta alveg upp að hlaði á Stöng í Þjórsárdal, meðan þeir beita sauðfé og hestum á laun á uppgræðslu Landgræðslunnar, sem tugmilljónir króna hafa verið settar í, m.a.flugsáningu og áburðardreifingu.

94643070_10222132050068427_5190437272494800896_n

Stöng er að hverfa í haf af gróðursetningarátaki heimamanna, sem hefur farið algjörlega úr böndunum. Plantað hefur verið í rústir umhverfis bæjarhólinn og lög því brotin. Ljósm. Hulda Björk Guðmundsdóttir fornleifafræðingur og drónaflugkappi (2018).

95151639_10222132050868447_7637207148056805376_n

Ósamræmi og rangfærslur eru í skilti Minjastofnunar við rústir á Stöng. Ljósm. Hulda Björk Guðmundsdóttir fornleifafræðingur og drónaflugkappi (2018).

Ljósi punkturinn

Það ánægjulegasta fyrir þessa nýju viðleitni Minjastofnunar fyrir Stöng, nú þegar ferðamannaiðnaðurinn er dáinn af Kórónaveiru, er að stofnunin hefur greinilega slakað á draumsýnum sínum. Árið  voru menn í taumlausu fyrirhrunsæði og ætluðu að reisa Snobbhillvillu ofan á rústunum. Það var stórkostuleg skemmtisaga sem lesa má um hér og hér Efnt var til samkeppni og kostnaðurinn var áætlaður - haldið ykkur reipfast: 700.000.000 krónur. Ef þjóðin hefði verið rukkuð fyrir þá arfavitleysu, átti að standa sjöhundruðmilljónkróna á ávísuninni frá íslenskum skattgreiðendum, sjá hér. Mér var sagt að það ætti ekki að vera ferðamannaiðnaðurinn sem borgaði fyrir þær framkvæmdir. Sá iðnaður verður væntanlega heldur ekki aflögufær við bætur á Stöng nú, þó þangað sé beitt tugþúsundum ferðamanna, í rútu eftir rútu eftir rútu eftir rútu...

Vonandi kemst framkvæmdaráætlunin nú fyrir á stærri pappír en þá tvo pappírsmiða sem áætlunin fyrir 700.000.000 króna framkvæmdinni var skrifuð á. Og vonandi get ég fengið að sjá nýju áætlunina svo ekki verði úr því ný upplýsingamálskæra eins og síðast þegar mér var synjað um aðgang að framkvæmdaráætlun (sjá hér og hér)

horft_til_nor_urs

Sólin skein úr norðri á ákveðnu tímabili á Íslandi. Hér sést vinningstillagan að viðgerðum á Stöng. Hvergi er minnst á hana lengur, en fyrir verðlaunin hefði reyndar verið hægt að gera ýmislegt fyrir rústir á Stöng.

Að lokum tvær spurningar sem mig langar að fá svör við:

Hvað mikið borgar hinn blómlegi ferðamanniðnaður fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir á Stöng nú? Fer ekki mest af arði í þeim iðnaði í eigin vasa sem líklega tæmast ört nú? Jú, kæru landar - hvorki Ísland né Íslendingar taka breytingum frekar blessuð sauðkindin. Minjastofnun jarmar eins og aðrar stofnanir á beit og hugsar ekki langt fram í tímann.


mbl.is Endurbyggja á Stangarskálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér verður fyrst hugsað til þess, hvernig þeir ætla að forðast raka, sem kemur úr jarðvegi og lokast þarna inni og myndar hættulega myglu á skömmum tíma. Af sömu sökum mun verða móða innan á þessu, Sem sýndarveruleiki arkitektanna sýnir ekki.

Ef verkfræðin kemur að því að koma í veg fyrir svoleiðis smáatriði er víst að 700 milljóna framkvæmddin fari yfir í braggaskandal og gott betur. Það þarf jafnvel að fjarlægja bæinn á meðan þetta er gert. 

Upphæðin er ekki nema þriðjungi hærri en bragginn góði endaði í. Það þarf enginn að segja mér að það standist. Ég tippa á milljarð í viðbót og þá er ég ekki að taka með kostnað við æskilega verkfræði. 

Spurning hvort þetta verður gert á blankó ríkistékka eða boðið út og setji einhverja verktaka á hausinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.4.2020 kl. 13:07

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þó segir ýmislegt, Jón Steinar að vanda. Kannski væri þörf á því að fjölmiðlar bori í þetta við tækifæri. Nú rennur vatn mjög vel frá rústunum. Skýlið frá 1957, eða réttara sagt viðhaldsleysið, hefur sett strik í reikninginn. Viðgerðir sem duga þurfa ekki að vera dýrar. En gæsla, sem m.a. felst í því að stóð nútímaþjórsdælinga er ekki látið brjóta sér leið inn í skálann er framtíðarverkefni. Sá sem greiðir það á vitaskuld að leita eftir fjárhæðum úr aðalatvinnugreininni, sem einhvern tíman er eftir að rétta úr kútnum, vonandi.

FORNLEIFUR, 30.4.2020 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband