Færsluflokkur: Fornleifavernd
Birtir nú til á Stöng? Eg er mjög efins
29.4.2020 | 18:27
Mikið er nú hægt að koma mörgu röngu frá sér í einni frétt. En ég veit vitaskuld ekki, hvort það er við blaðamanninn að sakast, eða þá sem ætla nú að reisa einhvers konar gróðurhús yfir skálarústir á Stöng.
Tveir skálar, en ekki einn líkt og segir í fréttinni, eru undir núverandi þaki yfir rústum á Stöng í Þjórsárdal. Ég hef rannsakað báðar rústir að hluta til með góðu aðstoðarfólki og þekki því manna best ástand rústanna. Þriðji skálinn, sá elsti, liggur að hluta til undir skýlinu frá 1957, og nær undir rústir smiðju og kirkju sem eru austan við skálann.
Lenging byggingarinnar frá 1957 til austurs kemur hugsanlega í veg veg fyrir vatnsstraum inn í aðalrústina. Vandamálið með vatnslekann inn í rústina er að austurgaflinn á skýlinu hefur verið óþéttur, gluggar opnir og brotnir af mönnum og öðrum skepnum, og þekjan lek. Þar sem Þjóðminjasafnið ákvað á síðustu árum Þórs Magnússonar, með beinni fyrirskipun hans, að hætta við viðgerðir á skálunum og verndun á rústunum sem þó skiluðu góðum árangri, hefur ástandi ekki batnað. Aldrei var lokið við viðgerð austurgaflsins, sem þó var búið að gefa velyrði fyrir árið 1994. Þess vegna lekur þar enn inn, meðan að vandamálið hefur stórbatnað annars staðar eftir endurbætur undir stjórn minni og Guðmundar Lúters Hafsteinssonar arkitekts. Hér má lesa um viðgerðir á Stöng 1994 og 1996.
Bærinn á Stöng lagðist ekki í eyði árið 1104
Fréttin upplýsir að bærinn á Stöng hafi farið undir ösku árið 1104. Þetta er alrangt. Minjastofnun fer með rangt mál. Askan, eða réttara sagt vikurinn út 1104-gosinu hefur verið talsverður en íbúar fjarlægðu hann. Búið var áfram á Stöng fram yfir aldamótin 1200. Yngstur skálanna tveggja, sem undir skýlinu eru, var reistur eftir gos í Heklu árið 1104. Vikur og gjóska úr gosinu finnst í veggjum og í gólfi skálans. Furðu má sæta að Minjastofnun viti aðeins um einn skála.
Ágætt er að lokið sé við aðhlynningu á rústunum sem hófst árið 1992, en hugmyndin um að setja plast á þakið er út í hött. Ég veit ekki hvort að nægilega sterkt bylgjuplast sé til, til að halda snjóþunga sem oft gat verið nokkuð mikill áður heimshlýnun varð. En ég vona að yfirmaður Minjastofnunar sé ekki farin að hugsa og sjá eins og Greta litla Thunberg. Veðrið er ekki orðið svo miklu betra en fyrir 25 árum síðan. Plastþak mun hins vegar örugglega skapa gróðurhúsaáhrif á Stöng og öll fræ munu spíra vel undir gegnsæju plastþaki. Skýlið yrði að eins konar gróðurhúsi. Minjastofnun yrðu öll að fara í árlegan burknaskurð. Það verður að halda jafnvægi í raka rústarinnar og það gerist ekki með plastþaki. Á mjög heitum sumrum munu (æ færri) ferðamenn sjá hálfskrælnaðar rústirnar á Stöng undir gegnsæju plastþaki.
Myndin sem útbúin hefur verið með framkvæmdaáætlun er með bakgrunn úr Google Earth. Gróðurfar á Stöng í dag er allt annað en sést á hugmyndinni. Allt er að kafna birkihríslum, sem menn hafa verið að planta alveg upp að hlaði á Stöng í Þjórsárdal, meðan þeir beita sauðfé og hestum á laun á uppgræðslu Landgræðslunnar, sem tugmilljónir króna hafa verið settar í, m.a.flugsáningu og áburðardreifingu.
Stöng er að hverfa í haf af gróðursetningarátaki heimamanna, sem hefur farið algjörlega úr böndunum. Plantað hefur verið í rústir umhverfis bæjarhólinn og lög því brotin. Ljósm. Hulda Björk Guðmundsdóttir fornleifafræðingur og drónaflugkappi (2018).
Ósamræmi og rangfærslur eru í skilti Minjastofnunar við rústir á Stöng. Ljósm. Hulda Björk Guðmundsdóttir fornleifafræðingur og drónaflugkappi (2018).
Ljósi punkturinn
Það ánægjulegasta fyrir þessa nýju viðleitni Minjastofnunar fyrir Stöng, nú þegar ferðamannaiðnaðurinn er dáinn af Kórónaveiru, er að stofnunin hefur greinilega slakað á draumsýnum sínum. Árið voru menn í taumlausu fyrirhrunsæði og ætluðu að reisa Snobbhillvillu ofan á rústunum. Það var stórkostuleg skemmtisaga sem lesa má um hér og hér Efnt var til samkeppni og kostnaðurinn var áætlaður - haldið ykkur reipfast: 700.000.000 krónur. Ef þjóðin hefði verið rukkuð fyrir þá arfavitleysu, átti að standa sjöhundruðmilljónkróna á ávísuninni frá íslenskum skattgreiðendum, sjá hér. Mér var sagt að það ætti ekki að vera ferðamannaiðnaðurinn sem borgaði fyrir þær framkvæmdir. Sá iðnaður verður væntanlega heldur ekki aflögufær við bætur á Stöng nú, þó þangað sé beitt tugþúsundum ferðamanna, í rútu eftir rútu eftir rútu eftir rútu...
Vonandi kemst framkvæmdaráætlunin nú fyrir á stærri pappír en þá tvo pappírsmiða sem áætlunin fyrir 700.000.000 króna framkvæmdinni var skrifuð á. Og vonandi get ég fengið að sjá nýju áætlunina svo ekki verði úr því ný upplýsingamálskæra eins og síðast þegar mér var synjað um aðgang að framkvæmdaráætlun (sjá hér og hér)
Sólin skein úr norðri á ákveðnu tímabili á Íslandi. Hér sést vinningstillagan að viðgerðum á Stöng. Hvergi er minnst á hana lengur, en fyrir verðlaunin hefði reyndar verið hægt að gera ýmislegt fyrir rústir á Stöng.
Að lokum tvær spurningar sem mig langar að fá svör við:
Hvað mikið borgar hinn blómlegi ferðamanniðnaður fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir á Stöng nú? Fer ekki mest af arði í þeim iðnaði í eigin vasa sem líklega tæmast ört nú? Jú, kæru landar - hvorki Ísland né Íslendingar taka breytingum frekar blessuð sauðkindin. Minjastofnun jarmar eins og aðrar stofnanir á beit og hugsar ekki langt fram í tímann.
![]() |
Endurbyggja á Stangarskálann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fornleifavernd | Breytt 8.5.2020 kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að varðveita eða ekki að varðveita
27.7.2015 | 06:08
Eitthvað virðast boðskiptin milli verktakafyrirtækisins með mikil- mennskubrjálaða nafnið "Fornleifastofnun Íslands" og hins duglitla ríkisbákns Minjastofnunar vera slök. Það vita þó allir í fornleifageir- anum, að dr. Adolf Friðriksson hjá FÍ og Kristín Sigurðardóttir hjá MÍ hafa lengi eldað grátt silfur, öllum í stéttinni og ráðuneytunum til ama og leiðinda. Þetta er líklega bara ný senna í gamalli og leiðinlegri sögu sem þau hjúin hafa mest sett mark sitt á.
Finnst Fornleifi einnig skondið, að umsjónamaður rannsóknarinnar í upphafi, Lísabet Guðmundsdóttir, sé hvergi nefnd á nafn í fréttum síðustu vikna. Má hún ekki tjá sig við fjölmiðla lengur?
En eins og fornleifafræðingum er enn ljóst, þá er ekkert öruggt með aldur skálans sem nú er fundinn. Skrítið finnst mér, að talað sé um landnámsrúst, þegar ekki liggja fyrir nákvæmar aldursgreiningar. Að aldursgreina út frá bogadregnum veggjum er ekki góð aðferð og ekki nákvæm, því bogadregnir veggir eru notaðir í svo langan tíma. Enn síðri til tímasetninga eru snældusnúðar (eins og fyrr var rakið).
Það er um að gera að flytja gamla Iðnskólann upp á Árbæ. Undir honum og gengt honum á bílastæðinu eru ugglaust frábærar minjar sem ég tek að mér að rannsaka ef menn vilja. Þar stóð miklu síðar hús sem brann árið 1967 meðan að Flosi Ólafsson bjó í húsinu. Ekki svo að skilja að það hafi verið Flosi sem stóð fyrir brennunni. Hann var í Þjóðleikhúsinu. Svo verður hægt að hafa kaffistofu, ráðstefnusal og sýningu í forna Iðnaðarbankanum, sem hvað byggingarlist varðar er eitt besta dæmi um hreinræktaðan kúbisma sem við höfum á Íslandi. Arkitektinn hafði sykurmola á Hressingarskálanum sem fyrirmynd.
Svo er ugglaust komin upp erfið staða fyrir Kristínu Sigurðardóttir hjá Minjastofnun, þótt hún hafi alltaf verið þjónkunargjörn undir fólk sem á kapítalið og sem stjórnar ferðamannaiðnaðinum. Kapítalið er nefnilega einnig farið að tala um gríðarstóra landnámssýningu á einhverju sem kannski er frá landnámsöld og kannski síðar. Við verðum bara að hafa í huga, að ferðamenn sem skoða Landnámssýninguna + Lækjargötuskálana munu stefna íslenskum yfirvöldum fyrir formalínseitrun eftir dvöl á íslandi. Ég hef heyrt um fólk sem fær ofnæmiseinkenni á húð eftir að hafa heimsótt Landnámssýninguna.
Það er vandasamt verk að varðveita skálarústir. Það kostar allt að 700.000.000 krónum á rúst, ef ekki meira. Það verðlag var ákveðið af sjálfri Kristínu Sigurðardóttir hér um árið og hefur örugglega hækkað. Sel það ekki dýrara en ég keypti það í grein sem kallast 700.000.000 króna rúst sem og í þessari grein.
Minni ég hér með Kristínu Sigurðardóttur á, hve dýr eru Drottins verk, ekki síður en mannanna.
![]() |
Ákvörðun um minjar ekki verið tekin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fornleifavernd | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sómi yrði af garðinum
9.7.2015 | 06:12
Það er engum vafa undirorpið að þetta mannverki eru meðal heillegustu fornleifa sem varðveist hafa í Reykjavík. Hann yrði mikil bæjarprýði og ugglaust áhugaverður staður að skoða fyrir ferðamenn sem og bankastjóra Seðlabankans, frekar en hallir úr gleri, járni og steypu.
Mikil skömm og synd væri að varðveita garðinn aðeins að hluta til. Þessi garður sem forfeður sumra Reykvíkinga tóku þátt í að byggja er meðal mestu mannvirkja 20. aldarinnar á Íslandi.
Vonandi er, að græðgiskallar eyðileggi ekki þessar minjar með bílakjöllurum og Babelsturnum.
Nú verður Minjastofnun líka að standa sig, ekki síst Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður. Hún má ekki gefa eftir pólitískum þvingunum eins og hún hefur gert svo oft áður. Hér um árið þegar 1-2 einstaklingar áttu að sjá um minjavörslu þá sem 15-20 sjá um nú, þurfti Össur Skarphéðinsson ekki annað en að hringja sem ráðherra í settan Þjóðminjavörð og þusa, til að fara í kringum þjóðminjalögin. Kristín var fengin til að skrifa annað álit en ég hafði skrifað á staðsetningu sumarbústaðs apótekara, samflokksmanns Össurar og fuglaskoðara. Sumarhúsið var reist of nærri fornleifum og jafnvel ofan a þeim, sem og í trássi við náttúruverndarlög, og á einum fegursta stað landsins (sjá frekar hér).
Þó að faðir Stínu, Siggi Halldórs í ÁTVR, og frændur hafi aðeins leikið sér að bolta fyrir framan námuna þar sem mulið var grjót í hafnargerðina, verðum við að vona að hún valdi og afkasti einni almennilegri verndum fornminja í stöðu þeirri sem hún gegnir sem forstöðumaður Minjastofnunar Íslands.
Fyrir tíma garðs. Ljósmynd tekin á 19. öld.
![]() |
Hafnargarðurinn verði varðveittur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fornleifavernd | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Samráðsfundur með fornleifafræðingum
3.4.2014 | 05:07
Þar sem fleiri lesa Fornleif en heimasíðu Minjastofnunar Íslands (sem upphaflega var á pólsku), leyfi ég mér að minna á mikilvægan fund, sem er á morgun í Þjóðminjasafninu, en sem fyrst var auglýstur á vefsíðu Minjastofnunar Íslands í gær, 2. apríl. Tveggja daga fyrirvari, íslensk stjórnsýsla lætur ekki að sér hæðast. Líklega hefur skrifstofustjóri Menningararfsskrifstofu forsætisráðherrans fyrirskipað mönnum að gleyma ekki þessum fundi, nú þegar skorið verður við nögl í fornleifamálum.
Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafn Íslands boða til samráðsfundar með fornleifafræðingum. Fundurinn verður haldinn þann 4. apríl kl. 10-12 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Meðal þess sem fjallað verður um er: Reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna, leiðbeiningar um umhirðu gripa á vettvangi, og reglur Þjóðminjasafns Íslands um afhendingu gagna og gripa. Gagnlegt er að efna til samtals um þessi mál til að tryggja sem bestan árangur og varðveislu þeirrar þekkingar sem fornleifarannsóknir skapa. Við hvetjum alla hagsmunaaðila til að taka þátt.
Ég ætla að vona að þessi mál séu komin í lag. Þjóðminjasafnið eyðilagði eitt sinn forngripi frá Stöng í Þjórsárdal, svo ég ber ekki allt of mikið traust til safnsins (sjá hér). Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, sem átti sem starfsmaður Þjóðminjasafnsins að sjá um forvörslu gripanna frá Stöng, vill nú ólm byggja stórhýsi fyrir 700.000.000 króna yfir rústirnar á Stöng, þó slíkt stangist á við lög. Fornleifarannsóknum er nefnilega ekki lokið á Stöng, þó svo að þeir sem eigi að verja menningararfinn dreymi um nærri milljarða króna framkvæmdir.
Hér er önnur saga af forvörslu á Þjóðminjasafninu.

Nýir tímar, breyttir siðir
28.1.2013 | 19:59
Nýverið bárust mér drög að Leiðbeiningum um umhirðu forngripa. Skjal þetta er upprunnið á Þjóðminjasafni Íslands. Það lýsir óskum safnsins, á 150 ára afmæli sínu, um hvað gera skal við jarðfundna forngripi úr fornleifarannsóknum, sem allir eiga að varðveitast á Þjóðminjasafni Íslands, nema ef annað sé tilgreint og ákveðið.
Ég fékk þessa umsögn frá félagi sem ég er meðlimur í, Forleifafræðingafélagi Íslands, sem er eitt af tveimur félögum fornleifafræðinga á Íslandi. Ég fékk skjalið harla seint, finnst mér, því það á að ræða um það á morgun (29.1.2013), og félagið á að skila áliti til Þjóðminjasafns þann 1. febrúar nk.
Í fljótu bragði sýnast mér drögin vera ágæt, þótt vanda mætti íslenskuna og varast endurtekningar. Nú á 21. öld verðum við að lúta fremstu kröfum um frágang á fornleifum og syndir forfeðranna má ekki endurtaka.
Mér er óneitanlega hugsað til frágangsins á ýmsu því sem ég sá koma til Þjóðminjasafnsins þegar ég vann þar frá 1993 til 1996. Ég uppfyllti langt frá þær reglur sem nú er ætlunin að setja, þegar ég afhenti fornleifar úr rannsóknum sem ég stýrði, en ég gerði það eftir bestu getu og vitund. Það gerði líka Mjöll Snæsdóttir, er hún afhenti þjóðminjasafni Íslands merka forngripi sem fundist höfðu við fornleifarannsóknir á Stóru-Borg sem fóru fram í fjölda ára undir hennar stjórn og á vegum Þjóðminjafans Íslands. Því miður hefur mikið magn forngripa þaðan eyðilagst á Þjóðminjasafninu, eftir að þeir voru afhentir þangað. Þar var um tíma enginn forvörður og þegar þeir hófu loks störf var skaðinn skeður. Það var menningarsögulegt stórslys.
Ég afhenti kassa af járngripum til forvörslu á Þjóðminjasafni íslands árið 1984, í þar til gerðum fundakössum sem ég hafði fengið afhenta af forvörðum Þjóðminjasafns Íslands, þar sem mér hafði verið lofuð forvarsla á gripunum. Þegar ég hóf þar störf árið 1993, kom í ljós að járngripirnir sem fundust á Stöng árið 1984 lágu allir undir skemmdum. Ekkert hafði verið gert síðan 1984. Árið 1984 var einn forvarða Þjóðminjasafnsins Kristín Sigurðardóttir, nýútnefndur forstöðumaður Minjaverndar Ríkisins.
Gripir sem finnast sýningarhæfir
Stundum er maður bara svo heppinn, að forngripir finnast svo að segja forvarðir. Það gerðist t.d. á Miðhúsum árið 1980. Silfrið, sem fannst þar, var óáfallið og forverðir þurftu aðeins að bursta óhreinindi af gripunum. Kristján Eldjárn var mjög undrandi yfir þessari ótrúlegu varðveislu og spurðu finnendur í þaula út í það. Þór Magnússon Þjóðminjavörður hefði örugglega fallið á prófinu ef hann hefði afhent silfursjóðinn á Þjóðminjasafnið í dag, ef hann hefði gert það eins og hann gerði þá. Samkvæmt ströngustu reglu Þjóðminjasafnsins nú, hefði hann alls ekki mátt setja sjóðinn í plastpoka ofan í stresstösku sína eins og hann gerði samkvæmt því sem hann upplýsti. En hvað á maður að halda þegar maður finnur óáfallið silfur. Hvað á maður yfirleitt að gera þegar maður finnur óáfallið silfur í jörðu á Íslandi? Hingað til hefur það þótt við hæfi að stinga höfðinu í sandinn í stað þess að spyrja spurninga.
Skýringar á því hvað gjöra skal ef maður finnur ááfallið silfur í jörðu vantar tilfinnanlega í nýjar leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands. Er ekki ósköp eðlilegt að hafa allan varann á, ef það sem gerðist árið 1980 á Miðhúsum gerðist aftur. Ég hef því beðið félag mitt að beina þeim breytingartillögum til Þjóðminjasafns, að upplýst verði hvað gera skuli finni maður óáfallið silfur í jörðu.
Eyðublöð fyrir afhenta gripi og sýni
Hvað varðar eyðublað yfir afhenta gripi og sýni sem Þjóðminjaafnið sendi einnig fagfélögum fornleifafræðinga í nóvember sl., þykir mér það vera til sóma. En ég hafði samt búist við einhverju öðru en einfaldri Excellskrá. Í því sambandi leyfi ég mér vinsamlegast að benda á, að jarðvegssýni sem þjóðminjasafnið lét taka af jarðvegi á Miðhúsum árið 1994 eru nú týnd - ekki til - og ekki skráð inn í safnið. Excell var reyndar til á þeim tíma er sýnin voru tekin og er því engin afsökun fyrir því að sýni sem Þjóðminjasafnið lét taka séu horfin. Týndu jarðvegssýnin, sem voru frá Miðhúsum í Eiðaþinghá, höfðu aldrei verið rannsökuð. Grunur leikur á því, að það hafi verið notað sem pottamold á Þjóðminjasafni Íslands, en ekkert finnst heldur um það á skrá eða skjölum. Einn fremsti sérfræðingur safnsins um silfur, þjóðfræðingurinn Lilja Árnadóttir vill þó ekki enn tjá sig um málið.
Vitandi af slíku hvarfi, getum við fornleifafræðingar nokkuð fullvissað okkur um, að Þjóðminjasafnið varðveiti það sem afhent er til safnsins? Getur safnið yfirleitt kastað því á glæ sem það safnar, án þess að stafkrókur sé til um það á safninu? Samkvæmt nýjustu yfirlýsingum þjóðminjavarðar á 150 ára afmæli safnsins er það hægt, án nokkurra frekari skýringa.
Safn verður aldrei betra en það fólk sem vinnur þar.
Dæmi um nýlega og nokkuð athyglisverða forvörslu
Á síðasta ári greindi ég frá fundi silfurbaugs í svonefndum Alþingisreit í Reykjavík. Á vefsíðu Þjóðminjasafns er einnig greint frá þessum fundi . Í myndasögu Þjóðminjasafni er fyrst sýnd mynd af því er ungur fornleifafræðingur er að grafa fram gripinn í felti.
Tekin hefur verið ákvörðun um að halda áfram uppgreftri á forvörsluverkstæði Þjóðminjasafns Íslands, og þess vegna hefur gripurinn verið tekinn upp með undirliggjandi mold, svo hægt væri að halda áfram nákvæmri rannsókn á honum. Svo sýnir Þjóðminjasafnið tvær myndir af moldarkögglinum sem starfsmenn safnsins tóku með sér í hús og bætir við þessari upplýsingu:
"Myndir sem sýna annars vegar moldarkökkinn og svo hins vegar þegar búið er að hreinsa lausa mold ofan af honum, áður en armbaugurinn var losaður úr honum. (Ljósm: Sandra Sif Einarsdóttir)."
Takið hins vegar eftir því hvernig gripurinn leit út áður en hann var tekinn upp sem "preparat". Var mikill jarðvegur ofan á honum þá? Nei, ekki samkvæmt þeim ljósmyndum sem hafa birst í fjölmiðlum.
Einnig má glögglega sjá á báðum myndunum, að köggullinn hefur brotnað eftir að hann var tekinn upp og færður á Þjóðminjasafnið, og er það greinilega vegna þess að preparatið hefur ekki verið styrkt með gifsi, eins og tíðkast t.d. hér í Danmörku og á flestum öðrum stöðum í heiminum - nema á Þjóðminjasafni Íslands.
Röntgenmynd af kögglinum sýnir að gripurinn hefur greinileg brotnað þar sem köggullinn hefur brotnað.
Fornleifavernd | Breytt 29.1.2013 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Steinsteypustöng með járni, gleri og tilheyrandi pyntingum
5.11.2012 | 11:26
Á Stöng í Þjórsárdal vilja menn nú reisa steinsteypu- og glerhöll, þó svo að jarðfræði staðarins leyfi ekkert slíkt rask.
Mörgum er örugglega í fersku minni er yfirmaður Fornleifarverndar Ríkisins, stofnunar sem verður lögð niður um áramótin, fékk alvarlegt fyrir-2008-æði árið 2009 og lýsti því yfir að endurbætur á rústunum við Stöng í Þjórsárdal myndu kosta 700.000.000 króna. Þið lesið rétt ágæta fólk. Kristín Huld Sigurðardóttir, sem komst að þessu á litlu minnisblaði, sem þurfti að knýja út úr henni með hjálp ráðuneyta, taldi að betrumbætur á Stöng myndu kosta 700 milljónir króna (lesið um málið hér á vinstri vængnum undir nálhúsinu frá Stöng).
Þessi sama Kristín, sem í raun ber mesta ábyrgð á því að kofaskrípi, sem kennt er við Þorláksbúð, var reist í Skálholti, á sér nú þann draum heitastan að reisa virki úr steypu, járni og gleri. Það vill hún gera ofan á rústum á hól í Þjórsárdal, sem ekki ber neinn þunga vegna jarðfræðilegra þátta, sem hún hefur ekki einu sinni gert sé far um að rannsaka og upplýsa um í útboðsgögnum vegna samkeppni sem efnt var til lausnar á varðveislu fornminja á Stöng í Þjórsárdal.
Verðlaunasamkeppnin
Kristín Sigurðardóttir efndi til samkeppninnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og Skeiða- og Gnúpverjahreppa. Tilkynning um samkeppnina var fyrir neðan allar hellur og sýnir að forstöðumaðurinn á Fornleifavernd Ríkisins getur ekki útbúið sómasamlegt pdf-skjal (sjá hér). Upplýsingar í samkeppnisgögnum voru ekki mikið betri: Léleg loftmynd og lélegar upplýsingar voru sendar þátttakendum. Vitnað var rangt í fornleifafræðinginn sem unnið hefur á Stöng í Þjórsárdal, sem er samt framför því áður hefur alls ekkert verið vitnað í skrif hans, þegar Fornleifastofnun Íslands vann með Stöng í Þjórsárdal.
Kristín bíður í partý
Um daginn bauð Kristín Sigurðardóttir svo 300 manns í seremóníu á Háskólatorgi kl. á morgun, þriðjudaginn 6. nóvember kl. 16.00, þar sem þrjár hlutskörpustu tillögurnar í samkeppninni um Stöng verða kynntar.
Kristín Sigurðardóttir, sem aldrei hefur verið neitt ljón á nýja tækni, sendi öllum gestum boð með tölvupósti, þar sem hægt var að sjá alla boðsgesti í tölvupósti hennar og þar með einnig arkitekta og landslagsarkitekta sem boðið var til hátíðarinnar. Eiginlega var líka vel hægt að sjá einn sigurveraranna, þar sem öllum á stofunni http://www.basalt.is/ er boðið í partý Kristínar.
Með smáþekkingu á fyrri verkum" fyrirtækisins Basalts hf. getur maður óttast að menn fýsi að klína steinsteypugímaldi yfir rústirnar að Stöng, sem eru langt frá því að vera fullrannsakaðar. Útboðshaldarar gleymdu því einnig hóllinn á Stöng er náttúrulegur hóll sem aðallega samanstendur að aðfokslögum, mannvistarlögum, mold og gjósku niður á minnsta kosti 7 metra dýpi.
Eðli jarðlaga á Stöng í Þjórsárdal
Einn af þeim sem Kristín Sigurðardóttir bauð í veisluna er ég, þótt hún hafi ekkert samband haft við mig vegna þessa draumóraverkefnis síns. Ef hún hefði gert það, hefði ég getað sagt henni og öllum sem vildu vita sannleikann að Stangarbær og steinsteypa eiga ekki samleið. Á Stöng er ekki hægt að byggja stór og þungt mannvirki ofan á órannsakaðar rústirnar á Stöng í Þjórsárdal án þess að hakka niður viðkvæman hól sem samanstendur af mjög mjúkum jarðvegsefnum, þó aðallega af gjóskulögum, föllnum og aðfoknum. Undir allt að 3.5 metri að aðfokslögum (frá 1250-2012 e.Kr.) og mannvistarlögum, sem spanna tímabilið frá ca 900 til ca. 1250, eru moldar- og gjóskulög um 20-100 sm, þar undir er Heklugjóska (H3) 1-1,5 metrar að þykkt, þá taka við moldarlög og gjóskulög á víxl, og þar undir er H5 gjóskan, sem einnig er gífurlega þykkt gjóskulag. Stangarhóll er ekki klöpp eða hraunhóll, heldur hóll sem byggst hefur upp af gljúpum jarðlögum.
Þeir tveir aðilar, arkitekt í Frakklandi og landslagsarkitekt á Akureyri sem leituðu til mín, þar sem þeir kynntu sér að ég hef rannsakað fornleifar á Stöng, fengu þessa upplýsingu, en þeir unnu þó ekki til verðlauna með tillögur sína að léttum skýlum yfir rústirnar, því Krístínu Huld Sigurðardóttir dreymir um steypu, gler og járn, sem hún vill í draumum sínum hella ofan á órannsakaðar rústir í Þjórsárdal. Það er lögbrot og vandalismi, en lýsir hins vegar best hinum sanna íslenska draumi. Ást Íslendinga á steinssteypuhöllum er svo mikil, að þeir reisa þær hvar sem er, hvar sem er og hvað sem það kostar af eyðileggingu og jafnvel án þess að til séu peningar til að byggja hallirnar. Það er ein birtingarmynd kreppunnar á Íslandi.
Dr. Bjarni Einarsson fornleifafræðingur undirbýr teikningu á Stöng í Þjórsárdal árið 1993. Neðstu leifarnar á myndinni er á ca 3. mettra dýpi. Á 3,5 - 4 metra dýpt finnst óhreift H3 gjóskulag, en það má þó einnig sjá aðfokið ofan á rústum í formi gula lagsins, þar sem gjóskan úr þessu forsögulega gosi er blönduð mold sem bindur það.
Á Íslandi vilja menn pynta þá sem vara við eyðileggingu fornleifa
Ég hef í mörg ár reynt að halda áfram rannsóknum á Stöng, en ekki tekist að fá fjármagn til þess. Þessu greindi ég þeim sem boðið var til að skála á Háskólatorgi næstkomandi þriðjudag og notaði mér, eins mikill dóni og ég er, boðslista Kristínar til þess. Meðkenndin var auðvitað mikil yfir áhyggjum mínum um steinsteypuhöll á Stöng.
Einn móttakanda, sem mig grunar að hafi einhvern tíma verið nemi í fornleifafræði, en sem ég þekki þó ekkert, skrifaði um hæl:
"Ég hef ENGANN HELVÍTIS ÁHUGA á að lesa stakt orð sem frá þér kemur!!! Reyndu að hætta að lifa í endalausri biturð og ömurleika og dreifa þessu á aðra sem gæti ekki verið meira sama!! Ef ég fæ annan tölupóst frá þér þá SVER ÉG að ég á eftir að leita þig uppi og PYNTA!!"
Þannig eru nú hatrið, heiftin og viðbrögð sums fólks sem starfar við fornleifavörsluna. Það vill fyrir alla muni fá gler, járn og steypu ofna á hól sem ekki getur borið slík efni, eða skrípi eins Þorláksbúð. Hvað er eiginlega kennt í fornleifafræði í HÍ og á hvaða efnum eru nemarnir, þegar þeir segjast ætla að leita andmælendur draumóraverkefna uppi og pynta þá fyrir að segja skoðun sína af þekkingu?
Vilja menn láta reisa steinsteypuhallir ofan á einum af þekktustu rústum þjóðarinnar, sem ekki er lokið við að rannsaka, og sem ekki þola slíkar byggingar, eða vilja þeir fornleifavernd í landinu.
Viðgerðum á Stöng var hætt árið 1996
Árangursríkum viðgerðum og úrbótum var skyndilega hætt á Stöng árið 1996, en þar sem þeim var ekki lokið hélt áfram að leka inn í rústina sem til sýnis er á Stöng. Ódýrasta og hagkvæmasta lausnin er að ljúka því verki. Sjá hér.
Menning er dýr, en óþarfi er að gera hana dýrari en nauðsyn krefur með því að klessa steinsteypu ofan á hana.
Er samkeppnin um Stöng liður í baráttu um nýja stöðu?
Kristín Huld Sigurðardóttir er að mínu mati aðeins að þessu upphlaupi í dauðateygjum sínum sem framkvæmdastjóri Fornleifaverndar og vonar hún að Katrín Jakobsdóttir geri sig að yfirmanni á nýju apparati, Minjastofnun Íslands, sem á að stofna í stað Fornleifaverndar og Húsaverndar Ríkisins. Forstjóri Húsaverndar var með smá upphlaup um daginn, þar sem hann birti loks árskýrslu fyrir störf lítillar stofnunar sinnar 2011. Þar er hann með stóru orðin um Þorláksbúð, kannski aðeins og seint. En skaðinn í Skálholti var skeður með leyfi Fornleifaverndar fyrir Þorláksbúð, sem var ekkert annað en brot á þeim lögum sem Kristín Sigurðardótti átti að framfylgja
Mikið vona ég að hin annars málefnalega Katrín Jakobsdóttir í Menntmálaráðuneytinu, láti nú ekki femínókratíuna úr pólitíkinni ráða því hvern hún ræður í stöðu forstöðumanns nýrrar Minjastofnunar Íslands. Fólk sem leyfir byggingu sögufalsanna á rústum (Þorláksbúð) og vill láta reisa steinsteypuhallir ofan á fornleifum er einfaldlega ekki hæft til að stjórna slíkri stofnun, sama hvort að sá aðili sé kona eða maður.
Ég sé að félagsráðgjafi sækir um stöðu forstöðumanns Minjastofnunar Íslands. Kannski væri það ekki vondur kostur miðað við allar illdeilurnar og skálmöldina sem hefur ríkt milli sumra fornleifafræðinga á Íslandi, sér í lagi forstöðumanns Fornleifaverndar Ríkisins og fyrirtækisins Fornleifastofnunar Íslands. Fornleifastofnun Íslands, sem var, eins og menn sjá af mikilmennskubrjáluðu nafni fyrirtækisins, stofnað, þegar hægt var að gera hvað sem var í íslensku þjóðfélagi.
Kannski er það enn hægt?
Fornleifavernd | Breytt 6.11.2012 kl. 06:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Slysin eru mörg
19.6.2012 | 12:47
Orri Vésteinsson er í dag (19. júní 2012) í Morgunblaðinu með heilmikla orrahríð í garð Menntamálaráðuneytisins vegna nýrra þjóðminjalaga, Laga um menningarminjar, sem hafa verið til umræðu á Alþingi. Kallar Orri grein sína Menningarslys.
En slysin eru að mati Fornleifs ærið mörg, ekki aðeins í gerð skriffinna á lögum til að þjónka við önuga og deilukennda stétt, þar sem siðferðið hefur ekki alltaf verið upp á marga fiska.
Kannski mætti Orri hafa stílað ádeiluna á fleiri en hið illa mannaða ráðuneyti, sem og aðra þætti sem valda því hægt er að deila á þessi nýju lög. Miðað við breytingartilögur á breytingartillögur allsherjar- og menntamálanefndar sjálfrar og umræðuna, sem hægt er að hlusta á á vef Alþingis, eru lögin illa unnin og gerð í litlu samráði við þá sem vinna eiga eftir þeim og af greinilegu áhugaleysi stjórnmálamanna, sem flestir hafa litla burði og getu til að vinna með þennan málaflokk.
Áhyggjur prófessors Orra, sem reyndar er sérfræðingur í sagnfræði, (sem er nú líka gamalt slys móðgun við stétt fornleifafræðinga), eru skiljanlegar. Deild sú við HÍ, sem hann stýrir, hefur pungað út fjölda fornleifafræðinga sem lítið eða ekkert fá að gera ef skráninga fornleifa falla nú að mestu á sveitarfélögin, misjafnlega illa efnuð. Sjá hér
Getur verið of mikil gróska í grein?
Vegna þeirra óhemjumiklu og í raun óeðlilegu grósku í íslenskri fornleifafræði, sem er meiri en annars staðar miðað við íbúafjölda landsins, þá munu stúdentarnir hans Orra ekki fá vinnu við skráningu í eins miklum mæli og hingað til. Víða er þegar búið að skrá fornleifar í ríkari sveitarfélögum landsins. Annars staðar er ekki til stök króna til slíkra verka.
Þannig verða fyrirtæki, sem lifað hafa af fornleifaskráningu, af fjármagni, t.d. það fyrirtæki sem Orri tengdist og tengist á vissan hátt enn, Fornleifastofnun Íslands. Sú stofnun", sem er reyndar bara sjálfsbjargarviðleitnisfyrirtæki úti í bæ, notar nafn eins og væru um opinbert apparat að ræða. Fyrirtæki þetta hefur notið mest allra góðs af því góðæri sem hefur ríkt í stuðningi til íslenskrar fornleifafræði og af framkvæmdagleðinni fyrir 2008-hrunið. Fornleifastofnun Íslands hefur notið ríkulegs stuðnings frá ríkinu, sem undrar miðað við stapp sem þetta fyrirtæki hefur átt í við ráðuneytið, Fornleifavernd Ríkisins og svo keppinauta sína. Fornleifavernd Ríkisins er einnig afar umdeild "stofnun", eins og málin með Þorláksbúð sýna best. Fornleifavernd á nú að setja undir einn og sama hatt með Húsafriðunarnefnd og er skálmöldin og slagurinn um stöður við þá stofnun þegar hafin að mér skilst. Það mun ekki verða friðsamlegt ferli.
Það er þó ekki eins og fornleifarnar séu allar að hverfa vegna skráningarleysis ef ríkið borgar ekki skilyrðislaust fyrir endalausar fornleifaskráningar. Þær munu hvort sem er verða skráðar og rannsakaðar ef til framkvæmda kemur á ákveðnum svæðum og svæðið fer í umhverfismat eins og vera ber.
Það sem nýju lögin hefðu átt að innihalda voru miklu frekar greinar um skipulega skráningu fornleifa í hættu vegna landbrots og skógræktar, svo eitthverrjar af hættunum séu nefndar. Það gætu flest sveitarfélög kostað og ríkið jafnvel líka, þótt það eyði frekar fé í ESB-ferlið. Í ESB hafa fornleifafræðingar það alls ekki eins gott og hin litla klíka sem hrifsað hefur til sín öll verkefni á Íslandi, jafnvel með aðstoð risavaxins prófessors úti í heimi, sem reyndi að neyða íslenskan stúdent úr doktorsnámi hér um árið til að hjálpa samstarfsaðilum sínum hjá Fornleifastofnun Íslands að komast yfir arðbær" verkefni á fornleifamarkaðnum. Sami prófessor lofaði mér að koma í veg fyrir að ég fengi nokkurn tíma vinnu í íslenskri fornleifafræði og að fjármagni frá BNA sem hingað til hafði runnið til fornleifaævintýra hans á Íslandi yrði beint "to the Soviets" eins og hann orðaði það.
Fyrst og fremst verktakar, svo fornleifafræðingar
Verktakaæðið í íslenskri fornleifafræði, þar sem margir voru undir pilsfaldi eða til reiðar við stóra prófessorinn í New York, er líklega að líða undir lok. Fornleifafræðin er vonandi að verða að fræðigrein, þar sem menn básúna sig aðeins minna í fjölmiðlum á sumrin en þeir hafa gert hingað til, um grænlenska sjúklinga, fílamenn, verstöð fyrir landnám og aðrar innihaldslausar sensasjónir og rugl.
Kennsla í fornleifafræði á Íslandi er kannski ekki eins nauðsynleg og halda mætti. Nám við erlenda háskóla í þeim löndum sem Ísland hafði menningartengsl við, er mun farsælli leið til að læra um fyrri aldir á Íslandi, en heimalningsfornleifafræði sú sem mér sýnist hafa verið kennd við HÍ. Í HÍ hafa skoðanir ákveðinna manna voru kenndar meðan aðrir fengu ekki rit eftir sig á lestralista deildarinnar.
Ef maður skoðar sumar ritgerðir í fornleifafræði við HÍ, sem hægt er að sjá á netinu er furðulegt hve lítil þekking er á menningarleifum og forngripafræði Norðurlandanna og annarra nærliggjandi landa. Það hlýtur að endurspegla kennsluna og leiðsögnina. Menn eru t.d. að skrifa um ákveðna gerð gripa en vantar helstu heimildir frá öðrum löndum. Menn geta ekki látið sér nægja nám við HÍ í fornleifafræði og ættu að leita út fyrir landsálana.
Fornleifafræðin á Íslandi gæti með tímanum orðið eins og Íslenskudeildin, þar sem menn voru fram eftir öllu að spá í hluti sem litlu máli skiptu, svo sem hver hefði skrifað Íslendingarsögurnar. Á meðan voru fræðimenn erlendis að nýta sér íslenskar miðaldabókmenntirnar á allt annan og frjósamari hátt. Einnig má nefna blessaða jarðfræðideildina (skorina), þar sem orð ákveðinna manna voru boðorð og trúarbrögð, og menn voru lagðir í einelti ef þeir dirfðust að andmæla.
Það þurfti t.d. jarðfræðing frá skoskum háskóla til að skilja og sjá að tilgátur mínar um að gosið í Heklu árið 1104 hefði ekki lagt byggð í Þjórsárdal í eyði. Fram að því höfðu flestir íslenskir jarðfræðingar og fornleifafræðingar með þeim ekki tekið það í mál. Þeir höfnuðu því án rannsóknar, að leirkersbrot frá 13. öld sem fundist hefur á Stöng í Þjórsárdal væri frá þeim tíma, eða aðrir gripir sem greinileg gátu ekki verið frá því fyrir gosið 1104. Menn þögnuð svo þegar kolefnisaldursgreiningarnar komu og kirkjan á Stöng og kirkjugarðurinn, sem ekki átti að vera það. Þegar 1104-gjóskan fannst undir mannvistarlögum fóru að renna á mennt tvær grímur. En þegar kom í ljós við rannsóknir annarra, að ég hafði á réttu að standa um endalok byggðar í Þjórsárdal, tók maðurinn sem hrópar nú á síðu 17 í Mogganum um Menningarslys, það að sér í vísindagreingrein sem hann léði nafn sitt líkt og stóri prófessorinn í New York, sem lofaði mér útilokun frá íslenskri fornleifafræði, að reyna að hylma yfir það sem ég hafði skrifað um endalok Þjórsárdal. Ein aðferðin var að vitna aðeins í elstu greinarnar eftir mig, sjá hér.
Prófessorar í fornleifafræði geta því einnig, að mati Fornleifs, hæglega valdið menningarslysum á Íslandi og ekki tel ég víst að þeir séu að hugsa um hag greinarinnar þegar þeir deila á ný lög. Hagur fyrirtækis vinanna á Fornleifastofnun Íslands liggur að mínu mati miklu nær hjarta Orra Vésteinssonar.
![]() |
Orri Vésteinsson: Menningarslys |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fornleifavernd | Breytt 14.7.2012 kl. 03:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tóm steypa
5.5.2012 | 17:14
Í frétt Sjónvarpsins í fyrrakvöld var greint frá því að Húsafriðunarnefnd freistaðist þess nú friðalýsa hús og mannvirki í Skálholti undan viðundrinu sem menn byggðu á liðnum vetri við norðurhlið Skálholtskirkju. Ég vona að Húsafriðunarnefnd verði kápan úr því klæðinu.
Með núverandi menntamálaráðherra, sem neitað hefur að taka afstöðu til ólöglöglegar leyfisveitingar Fornleifaverndar Ríkisins, sem gaf út leyfið til að óskapnaðurinn í Skálholti yrði reistur, er það borin von að sú ósk Húsaafriðunarnefndar rætist. Fornleifavernd Ríkisins neitar einnig að tjá sig um málið, svo líklegast verður að fara með þá beiðni fyrir einhverja nefnd sem getur rakið garnirnar úr Fornleifavernd Ríkisins og kennt ráðherra stjórnsýslu.
Færi ég einnig fréttamanni sjónvarpsins bestu þakkir fyrir að sýna alþjóð aðeins betur hvers konar ævintýrakarlar og leiktjaldasmiðir hafa verið að verki í Skálholti. Tilgátuhús sem á að sýna byggingalist fyrri alda á einum helgasta stað landsins, inniheldur plast, tjörupappa og gerviefni og greinilega líka hraðsteypu eins og sýnt var í sjónvarpsfréttinni.
Svo er því borið við, að Þorláksbúð með plastdúk og steypu sé byggt með húsagerð á Stöng í Þjórsárdal sem fyrirmynd. Svo er ekki, og get ég sagt það með ró í huga, þar sem ég hef manna mest rannsakað minjar að Stöng í Þjórsárdal. Skúrinn í Skálholti, og Þjóðveldisbærinn við Búrfell í Þjórsárdal kemur byggingum á Stöng í Þjórsárdal ekkert við. Þó að yfirsmiðurinn að Þorláksbúð með steypuslettunum, hafi smíðað innviði fyrir hugmyndakirkju arkitekts sem teiknaði eftirmynd kirkjunnar á Stöng", þá er ekki þar með sagt að sú kirkja eigi nokkuð sameiginlegt með þeim byggingum sem á miðöldum stóðu á Stöng í Þjórsárdal. Ég stjórnaði rannsóknum á kirkjurústinni á Stöng í Þjórsárdal, og ég vil meina að kirkjulíkanið sem var reist við Þjóðveldisbæinn eigi ekkert skylt vil kirkju þá sem stóð á Stöng í Þjórsárdal. Sjá hér. Hér má hins vegar lesa grein um rannsóknirnar á kirkjunni Þjórsárdal og einnig hér og hér.
Bið ég aðstandendur byggingarinnar sem klambrað hefur verið saman norðaustan við dómkirkjuna í Skálholti vinsamlegast um að hætta að ljúga opinberlega til um hvar þeir hafa sótt sér hugmyndir að byggingu sinni. Hugmynd þeirra er kannski sótt í teikningar arkitektsins Hjörleifs Stefánssonar, en Hjörleifur hefur hins vegar hina mestu ímugust á því fyrirbæri sem reist hefur verið í Skálholti á síðastliðnum vetri. Hann sagði sig úr stöðu formanns í Húsafriðunarnefnd vegna þess að þessu furðubygging varð að veruleika í trássi við ráðleggingar Húsafriðunarnefndar.
Menn, eins og Gunnar Bjarnason smiður, ættu að sjá sóma sinn í því að taka þessa hræðilegu byggingu sína niður og reisa hana annars staðar, þar sem hún veldur ekki spjöllum. Ég legg til að hann biðji Fornleifavernd og Menntamálaráðyneytið um fjárhagslega hjálp til þeirrar framkvæmdar.
Fornleifavernd | Breytt 6.5.2012 kl. 04:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Skálholtsskúrinn
12.2.2012 | 06:18
Eiður Guðnason brá sér um daginn í Skálholt til að skoða Skálholtsskúrinn og skrifar hann um það á bloggi sínu.
Eðlilega hefur verið skrifað nokkuð um skúrinn hér á þessu fornleifabloggi. Í desember sl. sendi ég fyrirspurn um málið til Menntamálaráðuneytis og fékk svar frá Katrínu Jakobsdóttur um að svör myndu berast. Katrín skrifaði þann 20.12. 2011: Sæll, erindið er móttekið og svar ætti að berast innan tíðar. K.kv., Katrín. Sjá erindi mitt hér.
Svörin eru því miður enn ekki komin, svo einhver tregða virðist vera á því að fá svör frá þeim sem bera ábyrgð á slysinu í Skálholti. Tregðuna er líklega að finna hjá yfirmanni Fornleifaverndar Ríkisins, sem ég get mér til að hafi verið beðin um að koma með skýringar. Ég bíð áfram eftir svörum.
Ég tek mér það bessaleyfi að birta myndir Eiðs. Mikil hörmung er að sjá þetta. Skemmdaverkið í Skálholti kallar Eiður bloggfærslu sína, og er erfitt að vera ósammála því. Þetta er eins og léleg leikmynd, einhvers konar knallkofi fyrir lélega Víkingakvikmynd.
Lesið fyrri færslur Fornleifs um Skálholtskúrinn hér, hér og hér.
Fornleifavernd | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þorláksbúð stendur ekki á lagalegum grunni
16.12.2011 | 07:30
Fornleifur hefur látið rannsaka, hvernig staðið var að leyfisveitingu, þegar endanlega var leyft að reisa "tilgátuhús" með þakpappa og steinull á tóftum Þorláksbúðar í Skálholti. Ég hafði samband við yfirmann Fornleifaverndar Ríkisins, Kristínu Sigurðardóttur, og hún sendi mér þetta leyfisbréf frá fornminjaverði Suðurlands, Ugga Ævarssyni.
Það sem maður heggur eftir í þessu makalausa bréfi, sem er í andstöðu við allt er reynt var að efla vægi þjóðminjalaga á 10. áratug síðustu aldar, er þessi setning:
"Að öllu jöfnu leyfir FVR ekki að byggt sé ofan í tóftir en eins og málum er háttað í Skálholti hefur verið gefið leyfi til að byggja ofan í tóft Þorláksbúðar. Sú ákvörðun stendur á gömlum grunni, hefur sinn aðdraganda sem ekki verður tíundaður hér."
Þegar ég grennslaðist fyrir um, hver hafði "gefið leyfi áður en að leyfi var gefið" og á hvaða "gamla grunni" sú ákvörðun stóð, sem "hafði sinn aðdraganda sem ekki varð tíundaður" í leyfisveitingunni, fékk ég þetta svar frá Ugga Ævarssyni, sem nú þvær greinilega hendur sínar af þessu einstæða leyfi með því að fullyrða að: Ég sá aldrei formlegt leyfi til þess arna en á 10. áratugnum var rætt við Þjóðminjasafnið um slíka framkvæmd og þar á bæ voru framkvæmdirnar ekki blásnar af þó svo að skriflegt leyfi hafi ekki endilega verið veitt. Eins og gengur þá eru slíkar ákvarðanir ekki alltaf rekjanlegar í kerfinu og satt best að segja veit ég ekki í smáatriðum hvernig á málum var haldið áður en málið kom inn á borð til mín 2009."
Þetta er með endemum og ungur embættismaður hefur hér greinilega lent í miklum vandræðum og verið undir mikilli pressu frá aðilum sem sitja honum hærra í kerfinu. Þeir bera ábyrgð á vandalismanum, ekki hann.
Mér er ekki kunnugt um að ákvörðun eins og sú sem ýjað er að í leyfisveitingunni hafi verið tekin á Þjóðminjasafni Íslands, í fornleifanefnd eða Þjóðminjaráði á tímabilinu 1992-1996. Þetta var ekki stefna safnsins og fornleifavörslunnar, þegar ég vann þar. Þjóðminjasafnið eða þjóðminjavörður hefur heldur ekkert með að ákveða svona framkvæmdir. Ákvarðanir á skjön við lög í kerfinu er satt best að segja vel hægt að rekja til upphafsins. Legg ég því til að Menntamálaráðherra geri það nú þegar, og láti fjarlægja Þorláksbúð við fyrsta tækifæri, því bygging hennar er greinilega lögbrot og afleiðingar vamms í starfi þeirra sem eiga að vernda fornleifar í landinu.
Einnig er ljóst, að gefið var leyfi til að reisa tilgátuhús sem byggði á gamalli hefð. Þakpappi og steinull voru ekki í húsum á 16. öld. Leyfið hefur því verið misnotað.
Greinilega má lesa bréf fornminjavarðar Suðurlands þannig, að Þjóðminjasafn Íslands beri ábyrgð á því hvernig leyfisveiting hans var úr garði gerð árið 2010. Hvernig sem því líður, þá verður hið rétta að koma fram í máli þessu, og Þorláksbúð þarf að finna annan stað, þannig að geðþóttaákvarðanir ráði ekki ríkjum og lögbrot séu ekki framin.
Fornleifavernd | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)