Viðburður eða fyrirskipun?
14.10.2020 | 08:10
Viðburður: Menningarlandslag hinnar ímyndunarveiku íslensku þjóðhverfu verður undirritað í dag - án vitsmunalegrar umræðu. Svo virðist sem farið sé að virða lýðræði og eðlilega akademíska umræðu að vettugi í skugga COVID-19 á Íslandi.
Í dag, 14. október 2020, verður undirrituð hvorki meira né minna en Friðlýsing Menningarlandslagsins Þjórsárdals. Í gær fékk ég "boð á viðburð" eins og það er kallað. Mér var fyrst tilkynntur þessi "viðburður" í gær, þó ég hafi manna mest rannsakað menningu Þjórsárdals fyrr á öldum.
Menningarlandslag fornra tíma er vandséð í Þjórsárdal. Byggð var þar mikil á mismunandi tímum en staðfræði rústa þar er að mestu komin til vegna tilgátusmíða eins ágæts fornaldarhyggjumanns á 19. öld sem var maður síns tíma. Greinilega á hann skoðanabræður á okkar tímum. En eins og menn vita margir vel, þá eiga tilgátur mjög auðvelt með að verða að heilögum sannleika á Íslandi. Þess vegna eru menn t.d. í sjóræningjaleik að leita að gersemum í skipi frá 17. öld sem er löngu farið í spað í Svörtum söndum landsins.
Hin hátíðlega undirritun í dag (viðburðurinn) kemur mér fyrir sjónir sem eitt af mörgum póstmódernístísku draumaverkefnum sem nú eru í tísku meðal margra fræðimanna á Íslandi. Það eru fleiri í sjóræningjaleik en fullorðnir ævintýramenn með lausa skrúfu.
Undirritunarathöfnin í dag er víst ekkert annað en aðför að veruleika og sannleika. Það fer þó vissulega allt eftir því hvaða menningarlandslag á að samþykkja fyrir Þjórsárdal. Dalurinn, endilangur, hefur árlega og í mörg ár verið teppabombaður af sáningar- og áburðarflugvélum Landgræðslu Ríkisins. Því er mikið af þeim gróðri sem í dalnum hefur dafnað á síðustu 30-50 árum nútímamenningarlandslag og óskhyggja um útlit á landi, sem í aldaraðir var örfoka vegna ofbeitar og uppblásturs, en einkum þó vegna virkni Heklu gömlu, eins virkasta eldfjalls í Evrópu.
Kristján Eldjárn þakkar gömlum manni sem kunni hið forna menningarverk að þekja söguna sneypudúk úr plasti. Myndin er tekin við byggingu Þjóðveldisbæjarins svokallaða í Þjórsárdal. Sagt er að Þjóðveldisbærinn falli vel að menningarlandslagi í Þjórsárdal, sem er mestmegnis steypa, gler og plast.
Undirritunin sem festir hátíðlega "menningarlandslag Þjórsárdals" var tilkynnt af Kristínu Sigurðardóttur undir mynd af svæðinu við Stöng í Þjórsárdal, þar sem uppgræðsluátak síðustu áratuga sést á rústasvæði Stangar. Síðan rannsóknir fóru fram þar fyrst fram árið 1939, en sér í lagi á síðustu 30 árum, hafa heimamenn með dyggum stuðningi frá Landsvirkjun staðið í stórvirkri trjárækt við Stöng og annars staðar í Þjórsárdal. Sú rækt hefur ekkert tillit tekið til menningarminja eða menningarlandlags, nema þess sem menn sjá fyrir sér í einhverri þjóðhverfri draumsýn þjóðernishyggju eyjarþjóðar með minnimáttarkennd.
Plöntun trjáa við og í rústir á Stöng er brot á lögum og embætti Kristínar Sigurðardóttur hefur ekkert aðhafst til að koma þeim í burtu. Ég leyfi mér að halda því fram að forstöðukonan viti einfaldlega ekki hvað menningarlandslag er.
Tökum sem dæmi. Lítill Túngarður/gerði neðan við Stöng, sem enn sást, en að litlu leyti, á 9. áratug 20. aldar, þegar ég hóf rannsóknir á Stöng, er nú á kafi í gróðursettum trjám. Í gegnum tíðina hafa ferðamenn ekið yfir túngarðinn beint upp í hlað við yfirbyggðu rústina.
Það menningarlandslag sem einhvern tíma í fyrndinni hefur myndast við 2-300 ára byggð í dalnum, er lítt sjáanleg í dag. Þess vegna er hálfhjákátlegt að sjá "undirritun á friðlýsingu á Menningarlandslagi" sem ekki er lengur til og sem menn hafa lagt sig í líma við að eyðileggja.
Nú er yfirlýsingagleði Kristínar Sigurdóttur varðandi Þjórsárdal ekki ný á nálinni. Eins og má lesa hér ætlaði hún sér að gera við rústir fyrir 700.000.000 króna. Sjá hér og hér. Fyrirhrunagóðærið ærði þennan embættismann eins og sjá má á þeirri lítillátu tölu sem varð til í heila hennar - sem lýsir Framsóknarmennsku hennar best. Síðar vildi hún láta reisa heila villu ofan á rústum (sjá hér), sem ekki hafa verið fyllilega rannsakaðar.
Meðan Sigmundur Davíð var eins konar fornminjaráðherra í hjáverkum, og enn kammerat í gamla þjóðernissinnaflokkunum Framsókn, var honum mikið hugað um menningarlandslag, og gerði sér að því er ég held fulla grein fyrir því hvað það er - fyrir utan draumsýn um endurbyggð fornrar frægðar í endurgerðum húsa í þjóðerniskenndarhverfi í stóru þorpi á Suðurlandi, þar sem hann vildi reisa forna frægð í blöndu af Dresden og Disneylandi. En ef núverandi ráðherra Framsóknar leggur sama skilning í orðið og fyrrverandi flokksfélagi hennar gerði áður hann féll á svellinu á Tortólu, þá verður að rífa mest allan trjágróðu við Stöng í Þjórsárdal upp með rótum, því hann hefur komið til af manna völdu síðan 1939.
En ef það er hins vegar menningarlandslag eftir 1939 það sem friðlýsa á, þá er auðvitað líka hægt að friðlýsa spor eftir bifreiðar utan vegslóða og önnur glæsileg stórverk mannanna á 20 og 21 öld í Þjórsárdal.
Efri myndin var tekin á Stöng sumarið 1939 er fornleifarannsóknir voru nýhafnar. Ekki ber mikið á birkinu árið 1939, en loðvíðir óx á Stöng eins og í dag. Neðri myndin var framleidd þegar forstöðumaður Minjastofnunar vildi reisa þar villu þegar hún var búin að gera sér ljóst að 700.000.000 áætlunin sem gerjaði í höfði hennar væri út í hött. Þá skein sól úr norðri. Nú er því allt kafloðið af manna völdum. Það er auðvitað menningarlandslag ef eitthvað er það - menningarlandslag þjóðhverfu og eyjaþjóða-minnimáttarkenndar. Hvítþvo átti ofbeitarsyndir aldanna og eyðileggingu máttarvaldanna - og nú á að selja ferðamönnum hið "nýja Ísland" í rómantísku ljósi.
Með árlegum teppasprengingum með áburði úr flugvélum hefur tekist að skapa aðra mynd af Þjórsárdal, sem sögulaust fólk ímyndar sér að sé menningarlandslag. Allt grær vel, eins og sést á þessari mynd sem tekin var nýlega úr dóna-rellu yfir Þjóðveldisbænum við Búrfell, sem er draumsýn óeðlilegrar þjóðhverfu (etnócentrisma), reist inn í menningarlandslag 20. aldar með steinsteypu og plastmottum (sjá í greininni Plastöldin í Þjórsárdal). Síðar var reist var kirkja við Þjóðhverfubæinn, og er þar dyggilega logið að ferðamönnum að sú bygging byggi á niðurstöðum fornleifarannsókna. Þær voru reyndar virtar að vettugi og hringlaga kirkjugarður settur þarna líka, þó svo að enginn slíkur hafi fundist við fornleifarannsóknir á Stöng, sem endurgerðin er sögð byggja á. Meira um kirkjuna við Þjóðveldisbæinn hér.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir undirritar í dag og innsiglar algjörlegt tilgangsleysi embættis Kristínar Sigurðardóttur sem líklega/vonandi er komið á lokapunkt vegna aldurs hennar. Hún er orðin álíka gömul og elsta menningarlandslag í Þjórsárdal.
Er ekki hægt að finna sér eitthvað hentugra og viturlegra fyrir ráðherra til að fegra sig með fyrir komandi kosningar, en friðun á ómenningarlandslagi, sem er rutt í gegn með pennastriki á hænupriki án vitrænnar umræðu og sérfræðiþekkingar? Cóvið, veirusýkingin sem nú herjar á öll byggð ból, er greinilega notað á Íslandi, líkt og í sumum öðrum "lýðræðisríkjum", til ryðja málum í framkvæmd án umsagnar og hugsunar í skugga sjúkdómshamfara. Ljótt er það, en satt.
Viðburðurinn í dag fær aðeins brot úr grímu Forngríms; þann hluta sem sýnir fyrirlitningalegt glott Gríms ins forna. Brosið er heldur stíft Framsóknarbros en hefur verið litað til vara í tilefni dagsins, þegar hópur kvenna stundar ólýðræðislega hyllingu á sjálfum sér í starfslok og fyrir kosningar.
Meginflokkur: Þjóðmenningin | Aukaflokkar: "Menningararfurinn", Minjavernd | Breytt 15.10.2020 kl. 01:30 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir frábært erindi.
Guðjón E. Hreinberg, 15.10.2020 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.