Það sem mörgum Íslendingum er kært?

Arnae Islandus

Er þjóðin enn í hlekkjum hugarfarsins?

Ég er á því að margir Íslendingar séu það enn og hafi taugar til yfirgangs sveitaaðalsins og hagi sér í samræmi við það, þó svo að þeir kalli sig sósíalista, kommúnista eða frjálshyggjumenn. Þið hafið örugglega ykkar skoðun á því alveg eins og ég. Ykkur er velkomið að hafa hana og ég æsi mig ekki upp ykkar vegna.

Einhverjir muna örugglega eftir ágætri þáttaröð, Þjóð í hlekkjum hugarfarsins. Þetta voru fjórir þættir eftir Baldur Hermannson eðlisfræðing, sem settu sannast sagna allt á annan endann vorið 1993. Margir urðu vondir og voru það lengi. Svipuð viðbrögð höfðu vart sést síðan Þórbergur móðgaði vini Hitlers eða kvikmyndin Ágirnd var sýnd, en hún lýsti presti sem rændi hálsnisti af kvenlíki. Sýning kvikmyndarinnar móðgaði svo margar prestsmaddömur að það leiddi til lögregluaðgerða og sýningarbanns. Síðar kom i ljós að brestir klerkastéttarinnar voru jafnvel stærri en skartgripastuldur af líkum.

Textinn og þættirnir fóru fyrir brjóstið á mönnum. Það er kannski besti mælikvarðinn á ágæti þáttanna. Baldur Hermannsson bjó, eins og fyrr segir, til þættina, en dr. Gísli Gunnarsson, sem andaðist á sl. ári, var fræðilegur ráðgjafi. Baldur byggði einnig á fræðilegu góssi frá Ólafi Ásgeirssyni og dr. Kirsten Hastrup.

Heiftin var enn mikil árið 1997

Árið 1997 leyfði ungur mannfræðingur, Sigurjón Baldur Hafsteinsson sér, hálfgrænn á bak við eyrun að rita grein í Lesbók Morgunblaðsins. Sigurjón er í dag prófessor við HÍ, svo ekki hefur upphlaupið skaðað hann. Sigurjón Baldur kallaði grein sína Goðsögur sem réttlæting og hægt er að lesa hana hér (bið ég menn að lesa allar greinarnar sem vísað er hér í texta mínum, áður en þeir taka þátt í hugsanlegri umræð hér að neðan - sem vonandi verður engin, því ég held hreinlega að allir séu sammála mér.

Árni Björnsson vildi halda fast í sína glansmynd

Grein Sigurjóns, sem birtist 1. mars árið 1997, fékk Árna Björnssonar þjóðháttafræðing á Þjóðminjasafni Íslands til að grípa í beittan penna sinn. Hann reit grein sem hann kallaði Goðsögn um glansmynd (sjá hér) og sendi inn til Moggans. Þar kom svo augljóslega fram, hvernig yfirlýstir menn á margbrotna íslenska vinstri vængnum eru fullir af erfðagóssi úr framsóknarfílósófíunni. Sigurjón kom með andsvar í grein sem hann kallað Goðsögur sem réttlæting (sjá hér og lesið nú).

Ég leyfði mér einnig að taka þátt í umræðunni og Mogginn birti eftir mig grein sem ég kallaði "Pirringur dansks blaðamanns" (sjá hér).  Ég kom þar inn á skrif dansk blaðamanns sem farið  höfðu fyrir brjóstið á Árna Björnssyni og einhverjum öðrum.

Þó ég nefndi það ekki í grein minni árið 1997, bar ég smá ábyrgð á því sem blaðamaðurinn Ulrik Høy skrifaði. Vinur minn einn, sem einnig var blaðamaður á Weekendavisen, sigaði Ulrik á mig. Mig minnir þó að Ulrik hefði verið búinn að mynda sér nokkuð líkar skoðanir og ég hafði um sjálfsmynd Íslendinga, og sem svipaði til þeirra sem lýst var í Þjóð í hlekkjum hugarfarsins. Því var grein danska blaðamannsins og bókmenntafræðingsins Høy eins og hún var og krydduð þeim öfgum og alhæfingum sem Høy lét oft vaða með sig í gönur, þangað til að hann var sem betur fer settur af af ritstjóranum Martin Krasnik, sem þótti Høy fara yfir strikið í endalausum árásum á minnihlutahópa í kjallaragreinum sínum. 

Høy var sjálfur á Íslandi og oplevelsi hans þar og viðmælendur sumir, staðfestu aðeins þá gagnrýnu skoðun sem ég hafði gaukað að honum í símma - og sem margir aðrir af minni kynslóð höfðu af sjálfsmynd Íslendinga um þessar mundir. En í augum sumra af kynslóð Árna Björnssonar var skoðun okkar ekkert minna en guðlast og árás gegn því sem helgast var á Íslandi. 

Síðar svaraði Árni mér, Sigurjóni og Baldri Hermannssyni á einu bretti (sjá hér) , sem einnig hafði tekið þátt í að gleðja meistara Árna með svörum sem voru heldur hvöss og persónuleg að mínu mati (sjá hér), og svo held ég barasta að umræðan hafi lognast út af eins skyndilega og hún byrjaði eins og æsingur gerir oft á Íslandi.

Ómaklegt svar Árna Björnssonar

Stutt svar Árna til mín (sjá hér) þótti mér miður smekklegt og færði Árni engin rök fyrir því sem hann skrifaði. Þannig hljóðaði það í durtslega þjóðlegum stíl mannsins sem taldi dagana langa á fullum launum hjá Þjóðminjasafni Íslands.

Hinn 9. apríl sendi Baldur [Hermannsson] mér nokkur hjartnæm blessunarorð sem engu er við að bæta. En söguskýringar hans fá sömu einkunn og áður. Daginn eftir birti svo Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson greinina Pirringur dansks blaðamanns þar sem hann tekur undir ýmislegt í greinum Sigurjóns, auk þess sem hann ítrekar gamalkunna og rótgróna andúð sína á ýmsu því sem mörgum Íslendingum er kært.

»Já, það er bara þannig«, hugsaði ég, er ég las þetta á sínum tíma. Hvað ætli ég hafi skrifað eða sagt til að Árni Björnsson teldi mig hafa gamalkunna og rótgróna andúð sína á ýmsu því sem mörgum Íslendingum er kært? Mig langar enn að vita það, og tel að Árni hafi aðeins verið uppfullur af palladómum um mig. Eins var gaman að sjá að Árni svaraði ekki grein Baldurs Hermannsonar eðlisfræðings, sem var að mínu mati ca. 100 sinnum hvassari í garð persónu Árna Björnssonar og sams konar Íslendinga en ég var í minni grein.

Ég veit með vissu að sitthvað af pirringnum í Árna var til komið vegna þess að Árni taldi mig vera rótgróinn Sjálfstæðismann. Þá villu hafði hann fengið i kollinn vegna þess að ég fékk stöðu við Þjóðminjasafnið (1993), vinnustað Árna, á tíma Guðmundar Magnússonar þjóðminjavarðar (sem íhaldið hefur aldrei treyst fyllilega). Árni gerði ráð fyrir því að allar starfsveitingar væru pólitískar, flokkapot eða klíkuskapur.

Ég hef reynda aldrei verið í nánd við Sjálfstæðisflokkinn og aldrei í Valhöll komið, enda hvorki kominn af bændaaðli og ættarmafíum. Ég fékk stöðuna á Þjóðminjasafninu út á menntun mína og reynslu en heill hópur í þjóðfélaginu, með Hriflunga í fararbroddi, vildi fá einhverja konu úti í bæ í stöðuna, sem hafði um langan tíma kallað sig fornleifafræðing án þess að vera það eða að hafa lágmarks fullnaðarpróf í fornleifafræði eins og annars var beðið um í starfsauglýsingu Þjóðminjasafnsins.

Venjan á Íslandi þá (1993) var að veita stöður með skyldleikapoti og klíkuskap, en ekki vegna verðleika manna. Framsóknarmenn eru enn að eins og við vitum, og aðrir líka, sem hugsa eins og frekjur aftan úr fornöld, sem fyrir alla muni vildu halda völdum sínum og sérréttindum til alls andskotans annars en eðlilegt má þykja.

Þessi setning Árna um mig var nú alveg eins og tekin úr Pravda í miðjum Stalínismanum eða fyrr í málgögnum nasista, þegar menn með andóf, sama hve lítið það var, voru ásakaðir fyrir að hafa andúð á því sem þjóðinni þótti kært - eins og t.d. að furða sig yfir silfri sem fannst óáfallið í jörðu austur á landi. Á vantaði aðeins, að ég hefði sett glerbrot í smjör alþýðunnar og notað blóð lítilla íslenskra sveitapilta í hin ósýrðu brauð.

Nei, annars, ég tek hann Árna ekki allt of alvarlega og gerði heldur ekki á þessum uppgangstímum þjóðernisrembings fyrir aldamót. Það á maður alls ekki að gera. Fólk frá frjálsu landi  sem ótilneytt hafði hafði haft sinn daglega gang í DDR, er að mínu mati ekki hægt að taka harla alvarlega.

Íslandssýn

Eru Íslendingar lausir úr hlekkjunum?

En losnuðu Íslendingar svo úr þessum meintu hlekkjum, sem Árni Björnsson sá ekki og vildi ekki vita af?

Ekkert bendir til annars en að þeir hafi enn verið pikkfastir um ökkla og úlnliði Íslendinga vel fram yfir aldamótin og af og til finnst mér ég heyra og sjá þessi heilkenni á mörgum Íslendingum enn.

Efnahagshrunið er vissulega ekkert annað en óbein afleiðing þess hugarfars og glansmyndar sem Árni afneitaði að væri til. Fyrir hrun höfðu menn gríðarlegt "hlutverk á meðal þjóðanna" og stjórnmálamenn voru stoltir af körlum sem síðar sýndu okkur að þeir voru aðeins krimmar sem ætluðu sér að verða verulega loðnir um lófann vegna þess hver landar þeirra voru auðtrúa um eigið ágæti.

Þessum kúkalöbbum, sem allir voru aldir upp á fjallkonumýtunni um ofboðslegt ágæti þjóðar sinnar og öllu því sem henni er kært, tungunni - vatninu - fallegu konunum og og tungunni, hafði með aðferðum sem kenndar voru í háskólum tekist að selja einhverjum útlendingum trú um að vextir í alíslenskum bönkum þeirra  yrðu himinháir á sparnað almúgans og miklu betri en hjá fyrrverandi kamelhirðingjum sem flutu ofan á olíulindum heimsins suður í Arabíu.  Allir vita hvernig fór með sjóferð þá.

Annar Íslendingur sem líkt og Árni hafði alið manninn í DDR, var fenginn til að gera upp reikningana og við vitum líka hvernig það endaði. Þá loks áttuðu menn sig á því að skyssur framdar af fáeinum pörupiltum undir fána alls þess sem Íslendingum er kært, voru vegna þess að þeir hugsuðu aðeins um sjálfa sig. Því var réttast að þeir borguðu skuldir sínar. En Fjallkonuriðlar áttu heldur ekki innistæðu fyrir syndum sínum, svo almúginn og allt það Íslendingum er kært tapaði mestu í lokin. 

Fyrirtæki eins eins og Íslensk Erfðagreining var einnig byggð upp á glansmyndum sem ættaðar var af fjóshaugum fortíðarhyggju margra Íslendinga og á óbilaðri trú á eigið ágæti og hreinleika erfðarefnis síns.

Það síðasta er nú einu sinni hálfgerð veila sem á annarri öld eða t.d. í sjálfstæðisbaráttunni hefur bjargað þjóðinni. En þessi sjálfsmynd er ekki lengur til mikilla heilla fyrir Ísland og tvær helstu þjóðirnar sem byggja Ísland, Íslendinga og Pólverja. Tímarnir breytast og mennirnir með.

Þessi stórfína mynda efst er af Árna Björnssyni að auglýsa íslensk gæðaúr - jæja, kannski ættum við frekar að segja: úr sem smellt var saman úr erlendum einingum af íslenskum úrsmið með gott viðskiptavit. Trúin á Fjallkonuna veldur því líka að föndur úr erlendu hráefni er hægt að kalla íslenska framleiðslu og selja svo dótið eins vel og fjallkonan hefur alltaf selt sjálfa sig, síðan hún varð til varð að samnefnara fyrir ímyndunarveiki heillar þjóðar. Úr þessi - fyrir Íslendinga - eru nefnilega frá alveg sérstæðu landi, þar sem býr alveg sérstök þjóð, sem furðuauðvelt er að elska, þótt hún sé óþekk, sjálfselsk, ófyrirleitin og ímyndunarveik og á endalausri undanþágu undan öllum reglum og lögum sem hún segist fylgja, þó svo að hún geri það í raun og veru alls ekki. Þjóðin hefur  nefnilega verið of einstök fyrir fína takta og nákvæm klukkuverk. Hennar helsta vandamál er að hún lifir of mikið á fornri frægð og glímir við bullandi minnimáttarkennd, sem af og til brýst út sem sturlað mikilmennskubrjálæði þar sem gert er út á afrek einstakra dugnaðarforka eða einhverra sem skara fram úr. En jafnoft fyrir verk svikara og loddara sem gera út á einkennin í þjóðarsálinni. Og vitaskuld hata menn eins og ég þjóð sína og allt sem henni er kært, þegar þeir láta hlutina flakka. Minni getur glæpur boðberans ekki orðið í landi endalausrar sjálfróunar og ímyndaðs ágætis. 

Horfið aftur

Horfið aftur á þætti Baldurs Hermannssonar, Í hlekkjum hugarfarsins IIIIII og IV  sem byggja á hugsun margra á undan honum, en sem fjórum árum eftir sýningu setti enn í gang harðorða orðasennu á síðum íslensks dagblaðs.

Ég býst við að fáir séu enn eins æstir og þá eftir að hafa horft á þættina.

Enn sér maður þó einstaka nasista skrifa á bloggum svo skínandi fortíðarhyggja leiftrar, og framsóknarráðherrar eru enn að gera það sem venjan segir þeim að þeir getir einir. Þeir halda sig enn hafna yfir samþykkt landslög. Miðflokkurinn klónaðist nýlega úr móðurflokki fortíðarhyggjunnar og varða að heimili fólks með allt veganestið úr sveitinni í einni sýrutunnu með hreppstjóra sem vildi láta reisa gerviðþorp úr fortíðinni þegar hann var enn FORSÆTISRÁÐHERRA! Hann vildi fá fornþorp og platfortíð, sem hann hafði t.d. séð í Dresden, sem fyrst og fremst höfðar til þorpara. Um leið sagði hann almenningi að éta það sem úti frýs, meðan að hann faldi ættarauð undan skatti í sandi á Pálmaeyju við miðbaug. 

Meðan menn eins og Árni Björnsson trúðu fortíðarruglinu sem væri það hans óbilaða barnatrú, þá kom fram ný kynslóð sem fór að gera út á ruglið. Báðar gerðirnar nýtast Íslendingum af mismunandi uppruna, frumbyggjum og Pólverjum ásamt öðrum, harla lítið á okkar tímum.

Hræddur

Mest er ég hræddur við að ný gerð af íslenskum nasisma láti kræla á sér í kjölfarið á Covid 19, nokkrum eldgosum og hruni fiskistofna. Þegar margar mótbárur skella á þjóðarskútunni er  erfðasilfrið oft pússað, kuskið plokkað út úr sveitanöflunum, og fjallkonan er aftur blásin upp.

En aftur á móti hef sem betur fer tröllatrúa á ungu kynslóðinni, sem þrátt fyrir að hafa lesið eintómar erlendar myndabækur í stað Íslendingasagna (eins og Árni vildi að þau gerðu), er ekki haldið eins mörgum fordómum og þær kynslóðir sem lifðu í ímyndaðri baðstofu og tiplaði um sem sveitaómagar á sauðskinnskóm og hlakkaði til lesturs upp úr alls kyns friðþægingarritum og jafnvel Das Kapital meðan baðstofa þeirra hafði til húsa í DDR. Heldur var nú lesturinn á Marx og félögum gloppóttur, því fæstir komust að því að hann og félagi Engels taldi einnig Íslendinga í hlekkjum Hugarfarsins.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, mest hataði prófessorinn á Íslandi, þó hann sé einnig hlekkjaður í fortíðarhyggju sveitaaðals Íslendinga, sagði eitt sinn frá því í Mogganum, hvernig Marx og Engels höfðu árið 1848 sneitt að Íslendingum í ómerktri grein Engels í Neue Rheinische Zeitung, en á því blaði var Marx ritstjóri um skeið. - Og nú með orðum þeirra kammeratanna HHG, Engels og Marx beint upp úr Morgunblaðinu, og ég vona að ég megi vitna rétt í þá, þótt textinn sé í neðanmálstærð:

„Norðurlandahugsjónin er ekkert annað en hrifning á hinni ruddalegu, óþrifnu, fornnorrænu sjóræningjaþjóð,“ skrifaði Prússavinurinn Engels um vopnahlé Dana og Prússa, en rætt hafði verið um það, að aðrar Norðurlandaþjóðir kæmu Dönum til hjálpar gegn ofureflinu. „Íslendingar töldu allar þjóðirnar þrjár úrkynjaðar, enda er sú þjóð auðvitað mesta Norðurlandaþjóðin, sem er frumstæðust og líkust hinni fornnorrænu í öllum siðum og háttum.“ Árni Bergmann svaraði því til í Þjóðviljanum , að Halldór Laxness lýsti Íslendingum svipað í Gerplu .

Óskar Bjarnason gróf síðan upp nokkur ummæli Marx og Engels um Íslendinga, sem ekki höfðu birst á prenti að þeim lifandi. Í lok fyrsta kafla Þýsku hugmyndafræðinnar skrifuðu þeir kumpánar veturinn 1845-1846 um ýmsa nýja siði, sem landnemar flytji með sér, áður en þeir hafi rutt eldri siðum úr vegi. „Þetta gerist í öllum nýlendum, nema þær séu einvörðungu bækistöðvar hers eða verslunar. Dæmi um þetta eru Karþagó, grísku nýlendurnar og Ísland á 11. og 12. öld.“ Hér minntust þeir fremur vinsamlega á Ísland. En í desember 1846 skrifaði Engels einum vini sínum frá París, að ekki væri hann hrifinn af Norðurlandaþjóðum. „Svíar lítilsvirða Dani sem þýsk-mengaða, úrkynjaða, rausgjarna og veikgeðja. Norðmenn fyrirlíta fransk-mengaða Svía með sinn aðal og gleðjast yfir því að í Norge sé einmitt þetta sama fávísa bændaþjóðfélag og á tímum Knúts ríka. Þeir eru aftur á móti svívirtir af Íslendingum, sem enn tala alveg sömu tungu og þessir subbulegu víkingar frá anno 900, súpa lýsi, búa í jarðhýsum og þrífast ekki nema loftið lykti af úldnum fiski. Ég hef oftsinnis freistast til þess að vera stoltur af því að vera þó ekki Dani, hvað þá Íslendingur, heldur bara Þjóðverji.“ Þessa skoðun endurtók Engels síðan í blaðagreininni, sem ég rifjaði upp 1979.

Loks er þess að geta, að Bruno nokkur Bauer heimsótti Marx í Lundúnum 12. desember 1855. Þegar Bauer sagði, að enska hefði spillst af frönsku, svaraði Marx, eins og hann skrifaði síðar Engels: „Ég tjáði honum þá til huggunar, að Hollendingar og Danir segðu það sama um þýskuna og að „Íslendingar“ væru hinir einu sönnu ómenguðu piltungar.“ Og þá vitum við það. (Sjá minningar Hannes hér)

Já, er nema von að menn hati prófessor HHG, þegar hann dregur sannleikann fram á jafn ruddalegan hátt um það sem mönnum er kærast - og jafnvel honum sjálfum líka?

En mér þykir þó líklegt, að hvorugur þeirra Marx og Engels hafi haft alltof mikið vit á því sem þeir voru að skrifa um, líkt og stundum vill henda bestu menn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Takk fyrir mig. Góð lesning.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 17.3.2021 kl. 02:43

2 Smámynd: Upprétti Apinn

Ég les greinarnar þínar mjög reglulega og hef gaman af sýn þinni á heiminn og söguna. Ég verð þó að viðurkenna að ég verða að vera sammála Árna hérna. Ekki það að Íslendingar séu eitthvað sérstakir. Þeir eru ekkert betri eða verri en aðrar þjóðir. Heldur það að ég hef ekki lesið annað en fyrirlitningu hjá þér á þessus fólki. Maður myndi jafnvel kalla það hroka.

Eitt annað til að hafa það rétt "Íslensk Erfðagreining var einnig byggð upp á glansmyndum sem ... trú á eigið ágæti og hreinleika erfðarefnis síns". Þetta er fyndið en ekki rétt. Ástæðan var hlutfallslegt magn ættræðiupplýsingar Íslendinga sem hægt var að bera saman við genaupplýsingarnar. Þetta hefur ekkert með "hreynleika" að gera.

Upprétti Apinn, 17.3.2021 kl. 09:34

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Ósköp hlýtur nú að vera erfitt að vera uppréttur api, þegar maður er svona hársár. Kannski fórstu úr hárum hér um árið þegar allt hið Stóríslenska sem þú mærðir fór á  hausinn í Lonogdon og víðar. Heimsborgarar íslenskir reyndust vera eintómir þorparar, minna en degi eftir að þeir voru snillingar.

Ef þú hefðir gefið þér örlítinn tíma áður en þú dæmdir, sæir þú að það sem Árni skrifar um mig árið 1997 er löngu fyrir tilurð blogga minna sem fara svo mikið fyrir loðin en hangandi brjóstin á þér. Þú skrifar: Ekki það að Íslendingar séu eitthvað sérstakir. Þeir eru ekkert betri eða verri en aðrar þjóðir. Heldur það að ég hef ekki lesið annað en fyrirlitningu hjá þér á þessus fólki.  Árna spurði ég hvað hann meinti árið 1997, áður en þú eða hann hafðir lesið hina miklu fyrirlitningu úr orðum mínum.

Skoðun þín er jafnfyrirleitleg og þú ert sjálfur, svo ég dæmi þig og þú sjáir það sjálfur. Ég held þó að ég hafi aldrei lesið neitt eftir þig að viti og jafnvel ekki viss um að þú hafir skrifar nokkuð. En ég leyfi mér samt að hafa skoðun eins og skríllinn.

Hvað varðar Íslendinga, þá eru þeir bara meðal, líkt og þú segir - og ég held barasta að við séum á sömu skoðun um það.

En ljóst er nú einnig að api er þitt réttnefni og ekki dulnefni meira vitrænnar apategundar, þó þú sért að Vestan. En þú átt greinilega eftir sjálfsgagnrýnina. En ertu ekki örlítið hokinn í herðum og of linur til að vera erectus?

FORNLEIFUR, 17.3.2021 kl. 16:38

4 Smámynd: Björn S Stefánsson

Það er ástæða til að bæta við þá lesningu, sem mælt er með, greinasafni mínu, sem heitir Vistarband og kom út 2013.

Björn S. Stefánsson

Björn S Stefánsson, 17.3.2021 kl. 19:42

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Fornleifur.

Er ekki dálítið seint um rassinn gripinn að taka krók á Árna, núna löngu dáinn.

Beittur var hann vissulega, en varla svona beittur?

Baldur var vissulega ágætur, en þættir hans samt úr sama ranni og sagnfræði Dave Allens, nema Allen var skemmtilegri, sem hann í raun er ekki, en diffinn liggur að Allen hélt aldrei að hann væri að sketsa sagnfræði.

Held reyndar að Baldur hafi vitað það, en svona fyrir lúkið vildi hann ekki hafa hátt um það.

En hann veit reyndar það sem ég held.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.3.2021 kl. 22:42

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Öndum með nefinu.....

Halldór Egill Guðnason, 18.3.2021 kl. 04:30

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Ómar Geirsson, Árni er á lífi og myndi seint þakka þér fyrir að telja daga hans talda.

FORNLEIFUR, 18.3.2021 kl. 06:20

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Björn S. Stefánsson, þakka þér fyrir að minna á bók þína. Eins hef ég gluggað í bók eftir mann sem ber hið mikla nafn Vilhelm Vilhelmsson, sem er sagnfræðingur (f. 1980). Mér sýndist bókin vera áhugaverð, þótt titillinn væri ekki frumlegur (Sjálfstætt fólk) - en þá var ég þegar búinn að kaupa 20 kg. af bókum, sem kostar töluvert að flytja út. Bókin fær að bíða enda verður ekki allt bókvitið í askana látið.

FORNLEIFUR, 18.3.2021 kl. 06:42

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Ja, það er þá ekki í fyrsta skiptið sem ég jarða einhvern fyrir fram, verst er svo þegar maður mætir viðkomandi sprelllifandi skömmu seinna.

Eins og maður sé skyggn eða eitthvað.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.3.2021 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband