Fornleifafræðingar urðu Íslendingar snemma

67514689_2516013401962338_4131555592957329408_n

Nú þegar heimurinn, og aðallega Vesturheimurinn, er að sleppa sér vegna 1021 e. Kr. aldursgreiningar á spreki vestur á Nýfundnalandi, langar mig að nefna gagnrýni Kristjáns Eldjárns á Ingstad hjónunum sem þar hófu rannsóknir snemma á 7. áratug 20. aldar.

Kristjáni var boðið að vera með við rannsóknirnar. Hann gróf í rústir sem hann taldi lítið vera í ætt við vistarverur norrænna manna. Þetta særði greinilega sér í lagi frú Ingstad sem fór heim í fússi eftir að gagnrýni Kristjáns varð henni óbærileg.

67265550_2516656535231358_1567173853380083712_n

Lampi úr talgusteini sem fannst í smiðju þeirri sem Kristján Eldjárn rannsakaði. Kristján taldi rústina ekki vera norræna rúst. Tálgusteinslampi frumbyggja bendir heldur ekki beint til þess. Gísli Gestsson horfir á, bak við endurskinsplötu sem hann notar til lýsingar við myndatökuna.

Kristján tjáði mér að "smiðja" sú sem hann rannsakaði hafi alls ekki verið norræn rúst. Hann var sömuleiðis ósáttur við hvernig Ingstad-hjónin birtu niðurstöður sínar um það. Kristján leyfði sér meira að segja að draga í efa uppbruna hringprjóns úr koparblöndu sem fannst eftir að hann dvaldi þar. Kristján gaf hálfpartinn í skyn við mig, að honum gæti hafa verið komið fyrir; Svo lítil var trú hans á Ingstad-hjónunum. 

Fyrr í dag greindi ég fjölfróðum vini mínu frá þessum efasemdum Eldjárns, sem ég skil, og þá kom 6. kafli Íslendingabókar, "bing" upp úr afar þróuðum heiladingli þessa ágæta vinar. Það eina sem segir um Grænland í Íslendingabók er á þessa leið:

6. Frá Grænlands byggð.

Land þat, er kallat er Grænland, fannst ok byggðist af Íslandi.

Eiríkr inn rauði hét maðr breiðfirzkr, er fór út heðan þangat ok nam þar land, er síðan er kallaðr Eiríksfjörðr. Hann gaf nafn landinu ok kallaði Grænland ok kvað menn þat mundu fýsa þangat farar, at landit ætti nafn gott. Þeir fundu þar manna vistir bæði austr ok vestr á landi ok keiplabrot ok steinsmíði þat, er af því má skilja, at þar hafði þess konar þjóð farit, er Vínland hefir byggt ok Grænlendingar kalla Skrælingja. En þat var, er hann tók byggva landit, fjórtán vetrum eða fimmtán fyrr en kristni kæmi hér á Ísland, at því er sá talaði fyr Þorkeli Gellissyni á Grænlandi, er sjálfr fylgði Eiríki inum rauða út.

Af þessum texta, eem fornleifafræðingar á L´Anse aux Meadows hafa ekki kunnað að nýta sér, sjáum við glögglega að (afi), leiðrétting: föðurbróðir Ara fróða hafði þetta eftir manni sem hafði verið með Eiríki Þorvaldssyni á Grænlandi, hvernig minjar eftir fumbyggja Vestan hafs hafi litið út og líkst þeim sem menn fundu á Grænlandi.

Afar líklegt er að frumbyggjar hafi búið þar sem nú kallast L´Anse aux Meadows, bæði fyrir og eftir veru norrænna manna þar.

Þess vegna er það ófært að ekki sé hægt að birta sæmilega vitsmunalega tilvitnun í gamla skýrslu frá 1979 um amboð það sem notað var til að höggva viðinn sem nú hefur verið greindur til 1021 e.Kr., bara vegna þess að ritstjórnarstefna Nature bannar að vitnað sé í rit sem ekki hafa verið gefin út.

Ég  leyfi mér einnig að undrast það að enginn þeirra "útlendinga" sem ritað hafa um L´Anse aux Meadows haf notað heimildina um Grænland í Íslendingabók. Það er grundvallarupplýsing sem sýnir að Norrænir menn á Grænlandi og Vínlandi vissu, að einhver hafði verið á undan þeim í "nýbyggðunum".  Kristján taldi, að kolan sem hann gróf upp í smiðju þeirri sem féll í hans hlut að rannsaka, væri gerð af inúítum eða indíánum.

67294925_2516016871961991_4970808437572108288_n

Kristján með heimamanni, G. Decker að nafni.

Af hverju eru fornleifafræðingarnir sem rannsaka norræna búsetu í Vesturheimi svo illa að sér um ritheimildir?

Það næsta sem Birgitta Wallace, sem tók við keflinu eftir Ingstad-hjónin, hefur komið umræðum um ritheimildir er í þessari grein, sem birt var í tímaritinu Journal of the North Atlantic. Þar talar Wallace um Íslendingabók, en virðist þó ekki hafa gluggað í hana, því þá hefði hún vafalítið uppgötvað fyrrnefndan texta, sem skýrt getur af hverju Kristján Eldjárn var fúll og taldi sig vera að grafa í minjar frumbyggja, og að verið væri að túlka niðurstöður úr byggð sem menn úr mismunandi menningarheimum byggðu á stuttu tímabili og bjuggu því í húskynnum hvors annars.

Vegna þess búsetumyndurs er líklega mjög erfitt að segja til um hver hefur höggvið með meintri jarnöxi sem men telja að hafi verið notuð til að fella viðinn - sér í lagi þegar hið virta tímarit Nature leyfir ekki að sýndar séu fyrir því sannanir,  (vegna þess að heimildin hefur ekki verið gefin út).

En þegar fornleifafræðingar sem stjórnað hafa rannsóknum á L´Anse aux Meadows þekkja t.d. ekki Íslendingabók, er kannski ekki að furða að fleiri spurningar hafi vaknað en þau svör sem meint greining til 1021 er talin gefa. Ártalið 1021 fyrir byggð norrænna  manna á L´Anse aux Meadows ætti ekki að koma neinum á óvænt, þó svo að fávís heimur eftirapa valdi vart vatni um þessar mundir yfir árstalinu 1021.

67309012_2516657548564590_5736253158263357440_n

Kaþólskur prestur, síra MacCormack, yfir hausamótunum á Gísla Gestssyni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

GÓÐUR! -segi ég nú bara eins og hver annar fáviti.

Einhvern tíma lét ég mig samt hafa að horfa á heila heimildamynd um veru Ingstad-hjónanna vestur á Nýfundnalandi og verð að segja alveg eins og er að ég varð hissa á að þau hefðu náð að þreifað sig þangað fjallabaksleið með handabökunum.

Eins og þú hefur verið að benda á undanfarið þá fara texti og mynd ekki saman í þessu spreki.

Magnús Sigurðsson, 26.10.2021 kl. 18:58

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka fyrir innlitið, Magnús. Ég held að að aðalatriðið fyrir fornleifafræðinga, líka þá íslensku sem afneita íslenskum miðaldabókmenntum, sé að afneita engu fyrr en þeir eiga inni fyrir því og geti með góðri samvisku sagt að þeir hafi lesið heimildina sem þeir vilja ekki nota eða þekkja einfaldlega ekki.

FORNLEIFUR, 26.10.2021 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband