Bloggfærslur mánaðarins, október 2015
Sonur forsetans dæmdi mann til dauða
25.10.2015 | 16:43
Ég sit þessa dagana og næstu mánuðina ásamt öflugum dönskum sagnfræðingi og leita uppi Dani sem gengu í SS-Frikorps Danmark 1942-43, og sem síðar voru þjálfaðir voru í illræmdum fangabúðum og vinnubúðum SS, Waldlager nærri Bobrusik í Hvítarússlandi. Þar voru gyðingar myrtir í þúsundatali og voru morð á gyðingum liður í þjálfun SS-manna frá Danmörku og annars staðar frá. Við vonumst til að finna á lífi einhverja þeirra 800 - 900 Dana sem fengu þjálfun í Bobruisk.
Fjöldi þessarar Freikorpssveitarmanna féll á Austurvígstöðvunum, Króatíu og víðar í þjónustu Þýskalands, en margir komust líka aftur heim. Þeir sem aftur sneru fengu 2-6 ára dóma, þá þyngstu fyrir skítlegt eðli sem þeir sýndu í Danmörku en alls ekki fyrir "störf" sín í Bobruisk. Framferði Danskra Frikorps-manna við gyðingadráp höfðu dönsk yfirvöld engan áhuga á. Flestir danskra Frikorpsmanna sem voru í Bobruisk voru sloppnir aftur út í þjóðfélagið eftir 1-2 ára vist í fangelsi. Tveir þessara manna voru þegar fundnir á lífi áður en rannsókn okkar Larsens fyrir Simon Wiesenthal Center i Jerúsalem hófst, og gengur annar þeirra, Helmuth Leif Rasmussen, frjáls ferða sinna um götur Kaupmannahafnar og hefur aldrei verið sóttur til saka fyrir þátttöku sína í gyðingamorðum í búðunum í Hvíta-Rússlandi. Hann hlær af fórnarlömbunum, m.a. þegar hann heldur því fram að hann hafi mestar áhyggjur af því að "vinir hans sem séu gyðingar snúi við sér bakinu" vegna upplýsinga um veru hans í búðunum í Hvítarússlandi.
Þegar íslenskur nasistaveiðimaður veiðir dönsk illfygli í dönskum skjalasöfnum er alltaf einhver aukaafli, fyrir utan kvótann. Ég hef þegar rekist á upplýsingar um íslenska nasista, þó ekki menn sem tóku þátt í gyðingamorðum í Waldlager við Bobruisk
Sonur forsetans
Þekktastur allra íslenskra nasista er líklega sonur fyrsta forseta lýðveldisins, sonur Sveins Björnssonar, Björn Sv. Björnsson. Um hann hefur verið rituð mikil ógrynni af efni í bókinni Berlínarblús, sem og í æviminningum Björns sem Nanna Rögnvaldsdóttir ritaði og sem út kom árið 1989. Nýlega birtist einnig grein á vefsíðunni Lemúrnum, þar sem birt voru áhugaverð gögn um Björn Sv. Björnsson sem ekki höfðu áður sést. Mesta furðu mína við lestur athugasemda við þá grein vakti það hve rómaður Björn Sv. Björnsson var meðal sumra samferðamanna sinna og nemenda.
Björn sýndi ófína takta á Stöng í Þjórsárdal árið 1986
Ég hef sjálfur mætt þessum manni tvisvar á ævinni. Fyrst sá ég hann ungur að árum þegar hann lék á fiðlu í uppsetningu óperettu í skóla á Seltjarnarnesi, þar sem annar hver söngvara söng rammfalskt. Afi mín og amma drógu mig og systur mínar með á þessa hörmung. Annað skiptið sem ég rakst á Björn var þegar hann kom sem fararstjóri með hóp þýskra ferðamanna að Stöng í Þjórsárdal, þar sem ég stýrði fornleifarannsóknum. Þetta var sumarið 1986.
Ég og 2-3 samstarfsmenn mínir voru önnum kafin við teikningar og ljósmyndun áður en rigning gerði vinnu okkar ófæra. Þegar Björn Sv. Björnsson, sem gekk með staf vegna bæklunar, hefur kjagað upp að Stöng, heimtaði hann með frekju og yfirgangi að ég héldi ræðu um rannsóknirnar fyrir þýsku ferðamennina. Ég segi honum fyrst mjög kurteislega að ég hafi ekki tíma til þess. Þá reiddist Björn, sem greinilega var vanur að fá það sem hann vildi þegar hann skipaði mönnum fyrir. Hafði hann í hótunum við mig um að hafa samband við Þjóðminjasafnið og Þjóðminjavörð og kæra mig. Ég sagði honum þá eftir stundarþögn, því fokið var í mig, að það væri honum velkomið að gera þar sem þessi rannsókn væri alls ekki á vegum Þjóðminjasafnsins, en ég gæti vitaskuld einnig sagt samferðafólki hans öll deili á honum og það á þýsku, sem og að ég teldi hann ekki vera Íslending. Við það lyppaðist karlinn niður og sagði ekki aukatekið orð, vappaði síðan um eins og særður fugl og haltraði niður hólinn. Rútubílstjórinn hans, sem varð vitni að ófyrirleitinni framkomu Björns í minn garð sem og erlendra samstarfsmanna minna, og blöskraði það, tjáði mér frá uppákomum á ferðum sínum með honum og sagði mér sögu af því hvernig Björn Sv. Björnsson hafði fengið hóp af þýskum gamlingjum til að syngja gamla nasistasöngva þegar hópurinn var staddur á Edduhótelinu í Skógum undir Eyjafjöllum.
Framkoma Björns Sv. Björnssonar á Stöng sýndi mér eðli þeirra manna sem heilluðust af nasismanum.
Faðir Björns Sv. Björnssonar, Sveinn Björnsson forseti, ræðir við Franklin D. Roosevelt í Hvíta Húsinu árið 1945.
Sonur forsetans dæmdi mann til dauða
Við vinnu mína í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn, hef ég þegar rekist á nafn Björns í fjórum mismunandi dómsmálum. Í tveimur málum kemur hann við sögu sem settur útvarpsstjóri SS í danska Ríkisútvarpinu, þar sem hann hafnar vinnuumsókn eins manns. Í öðru máli gegn dönskum SS-manni kemur nafn hans fyrir á lista danska nasistaflokksins yfir Danska SS-liða, sem gengið höfðu i SS í Þýskalandi fyrir árslok 1943.
Það sem vakti þó mesta undran mína, m.a. vegna þess að það hefur ekki komið fram í ævisögu Björns eða öðrum bókum, er að að Björn Sv. Björnsson var skipaður í dómarasæti þann 30. apríl 1945 og dæmdi ásamt 2 öðrum SS-mönnum fyrrverandi danskan SS-mann til dauða fyrir liðhlaup og þjófnað:
"In der Strafsache gegen den dänischen Staatsangehörigen
SS-Rottenführer N.N.
Geb. 31.1.1915 in B...
SS-PZ. Gren. A.u.E. Batl. 11, Graz,
wegen Fahnenflucht u.a.,
hat das am 30. April 1945 in Kopenhagen zusammengetretene Feldgericht, an dem teilgenommen haben
als Richter:
SS-Hauptsturmführer und SS-Richter Dr. Espig, als Vorsitzer,
SS-Untersturmführer Björnson
SS Standarte "Kurt Eggers",
SS-Sturmann Dahlmann
SS-Standarte "Kurt Eggers", ...
...
für Recht erkannt:
Der Angeklagte N.N. wird wegen Kriegsverrats, Fahnenflucht im Felde, Preisgabe von Dienstgegenständen in 2 Fällen, Einbruchdiebstahls in 2 Fällen und wegen einfachen Diebstahls
zum Tode
Verurteilt, aus der SS ausgestossen und für wehrunwürdig erklärt."
Björn Sv. Björnsson, dauðadómari og síðar fararstjóri
Dómurinn yfir liðhlauparanum frá Fjóni var staðfestur þann 3. maí 1945, deginum fyrir uppgjöf Þjóðverja, og var dómnum að öllum líkindum þess vegna ekki framfylgt.
Í Berlín var árið 1944 skrifað á eftirfarandi hátt um íslenska SS-manninn Björn Sv. Björnsson:
"Sem yfirmaður Kaupmannahafnardeildar herdeildarinnar [Standarte Kurt Eggers] hefur Björnsson liðsforingi unnið framúrskarandi starf í nýliðun Waffen-SS-sveitanna og aukið ítök í dönskum fjölmiðlum. Reyndist einnig vel í bardaga sem hermaður við innrásina í Sovétríkin. Er sonur núverandi forseta Íslands, sem ber að hafa sérstaklega í huga við mat á frammistöðu og verkum hans".
Nú vitum við, að hinn ólánssami sonur forseta Íslands var einnig reiðubúinn að dæma aðra ólánssama menn til dauða, og fóru létt með það. Það sýnir okkur að seint ber mönnum að treysta sjálfsævisögum og metsölubókum um nasista sem gefnar eru auðtrúa fólki sem jólagjafir.
Besættelsestiden | Breytt 16.2.2021 kl. 07:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Pabba kné er klárinn minn, en Hitler hann er foringinn
24.10.2015 | 18:53
Aldamótaárið 1900 sat fimm ára, prúðbúinn drengur í matrósafötum og á sauðskinnskóm á hné föður síns, Þórðar Guðjohnsens (1844-1926) verslunarstjóra á Húsavík. Drengurinn hét Halldór Jóhannes Guðjohnsen.
Þórður gamli, Halldór sonur hans og tvær systur hans sátu fyrir er Frederick W.W.Howell kom við á einum af ferðum sínum um landið sem hann eilífaði í frábærum ljósmyndum, sem maður þreytist seint á að rýna í. Kannski var tilefni myndatökunnar að Þórður var að hætta kaupmennsku á Húsavík aldamótaárið 1900, og fluttist hann skömmu síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann vann lítillega við verslun. Þar óx Halldór sonur hans úr grasi ásamt sumum systkina sinna og lærði samkvæmt íslenskum heimildum (hinni óskeikulu Íslendingabók) búfræði og varð síðar á ævinni titlaður framkvæmdastjóri.
Ljósmynd Howells af Þórði og börnum hans þykir mér meðal bestu mynda Howells frá Íslandi. Þær eru nú varðveittar í Fiske-safninu í bókasafni Cornell háskólans. Ég hafði svo sannarlega ekki búist við að finna neinar frekari tengingar við þessa ágætu ljósmynd, en stundum rekst maður á menn á myndum í mismunandi samhengi.
Síðustu vikurnar og næstu mánuðina sit ég á Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn og stunda "nasistaveiðar" fyrir Simon Wiesenthal Stofnunina í Jerúsalem, sem Íslendingar bölsótuðust út í þegar stofnunin vildi lögsækja eistneskan morðingja sem hafði verið friðaður af íslenskum stjórnmálamönnum og eistneskum kollegum þeirra.
Þegar íslenskur örn veiðir dönsk illfygli fyrir alþjóðlega stofnun er alltaf einhver aukaafli, fyrir utan kvótann af vondum Dönum sem eru undir smásjánni. Ég hef þegar rekist á upplýsingar um löngu liðna íslenska nasista, sem ekki hafa birst í ritum um íslenska nasista, þ.e. í hinum annars ágætu ritum Berlínarblús eftir Ágúst Guðmundsson eða Íslenskum Nasistum eftir tómstundanasistaveiðarana Hrafn og Illuga Jökulssyni.
Íslenskur liðsmaður HIPO-sveitanna
Halldór Jóhannes Gudjohnsen (1895-1966) var einn af þeim sem heillaðist af nasismanum. Hann fékk 5 ára fangelsisdóm í borgarétti Kaupmannhafnar í lok janúar 1946 fyrir störf sín fyrir HIPO-korpset (Hilfspolizei), ET ("Efterretningstjenesten") sem var deild í HIPO-korpset, sem og fyrir deild C9 sem einnig var var kölluð Lorenzengruppen, og sem var botnlangi löðurmenna í HIPO-sveitunum. HIPO var sveit fúlmenna og lítilmenna sem unnu fyrir Þjóðverja við að herja á og myrða meðlimi dönsku andspyrnuhreyfingarinnar og til að brjóta niður hvaða mótþróa við Þriðja ríkið sem var. Sveitirnar muna menn mest eftir vegna óvenjumikils hrottaskaps þeirra, þegar þeir unnu skítverk fyrir setulið Þjóðverja í Danmörku.
Konan njósnaði í sporvögnum
Strax skal tekið fram, að Halldór Jóhannes Gudjohnsen var ekki í framvarðarliði HIPO-sveitarinnar sem barði á fólki. Málin þróuðust þannig að hann fékk vinnu hjá HIPO árið 1944 gegnum tengsl sem kona hans hafði, en hún var dæmd fyrir að vera Sporvognsstikker. Hún var með öðrum orðum launuð kjaftakerling, sem ók um í sporvögnum Kaupmannahafnar og hlustaði á allt það sem farþegar kynnu að segja ljótt um Þjóðverja og kom upplýsingum um það til Gestapo, HIPO eða annarra óþokka.
Halldór var hins vegar ráðinn til að kenna liðsmönnum Hipo leikfimi og Jiu-Jitsu sjálfsvarnarlist. Engar sögur fara af því hvar hann lærði þá list, en vart hefur það verið á Húsavík.
Liðsmenn Hipo-sveitarinnar voru hins vegar þekktar fyrir mest annað en sjálfvarnir. Barsmíðar á saklausu fólki og fólskulegar árásir þeirra voru þeirra sérgrein. Eitthvað hefur kennsla íslenskættaða Jiu-Jitsu meistarans hjá HIPO farið fyrir ofan garð og neðan.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu eftir stríð, þegar Halldór hafði verið handsamaður, bar hann því við að hann hefði aldrei gert annað en að kenna leikfimi og Jiu-Jitsu. Þegar kom í ljós að mjög fáir sóttu þessa tíma Halldórs, nema skrifstofublækur HIPO, ákvað einn yfirmanna HIPO að Halldór skyldi sinna vaktskyldum á götum Kaupmannahafnar í einkennisbúning E.T., leyniþjónustu HIPO. Halldór þvertók fyrir að hafa gert það og sagðist hafa neitað að gera það með óbeinum líflátshótunum frá yfirmanni sínum fyrir vikið. Nokkur vitna í máli Halldórs höfðu hins vegar með vissu séð hann við þá iðju og í einkennisbúningi E.T. Halldór sagðist hins vegar hafa fengið það hlutverk ásamt rauðhærðum liðsmanni HIPO að svara símum fautanna á skrifstofum þeirra á aðallögreglustöðinni í Kaupmannahöfn. Þar sagðist hann einnig hafa tekið að sér, þegar símarnir voru ekki rauðglóandi af klögumálum nasista, að hreinsa og smyrja byssur Jørgens Lorenzens sem eftir stríð var dæmdur til dauða og síðar til ævilangrar fangelsisvistar. Vitni upplýstu hins vegar að Halldór hefði einnig kennt vopnaburð og meðferð skotvopna hjá HIPO. Önnur vitni töldu einnig öruggt, að Halldór hefði tekið það að sér rétt fyrir stríðslok að brenna og eyða gögnum um HIPO sveitirnar.
Danskir HIPO-liðar. Margir þeirra voru dæmdir til dauða.
Ekkert verra sannaðist upp á Halldór Jóhannes Guðjohnsen - fyrir utan að andspyrnumaður einn í úthverfi Kaupmannahafnar, þar sem Halldór bjó ásamt konu sinni og tveimur börnum, upplýsti yfirvöld um að nágrannar Halldórs hefðu sagt sögur af honum og seðlabúntum með 100 krónu seðlum, sem Halldór var sagður veifa framan í fólk til að sýna því hve vel maður gat þénað í þjónustu sinni fyrir nasismann og Þýskaland, sem hann studdi heils hugar samkvæmt yfirheyrsluskýrslum dönsku lögreglunnar. Vel launaður var hann vissulega í þessu óheppilega starfi sínu. Þegar lögreglan ætlaði að hafa hendur í hári mannsins sem stærði sig af seðlum sínum, kom í ljós að hann sat þegar inni, og kona hans einnig. Þegar lögreglan hringdi í heimasíma Gudjohnsens fjölskyldunnar í Rødovre, svaraði dóttir þeirra hjóna og upplýsti að báðir foreldrarnir sætu í steininum.
Líkt og margir minniháttar nasistar í Danmörku var Halldór sýknaður ári eftir að hann var dæmdur til 4-5 ára fangelsisvistar. Fyrir landráðið sat Halldór því ekki meira en rétt rúm 2 ár.
Lýk ég þessum pistli um áður óþekktan, íslenskan nasista með ljósmynd af einum af liðsmönnum HIPO sem er að sparka mann til óbóta. Ólíklegt þykir mér að óþokkinn sá hafi lært brögð af Jiu-Jitsu meistara HIPO, Halldóri Jóhannesi Guðjohnsen. En hvað þykir ykkur góðu landar, kunnið þið Jiu-Jitsu?
Besættelsestiden | Breytt 7.9.2019 kl. 05:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)