Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019
Gísla Gunnarssyni svarað
25.3.2019 | 16:03
Gísli Gunnarsson sagnfræðiprófessor (emeritus) er, þrátt fyrir latínubótina sem stagað er í afturendann á síðasta fasta starfstitli hans, alls ekki dauður úr öllum æðum. Í bókstaflegri meiningu þýddi emeritus aflóga, þegar Rómverjar notuðu þetta lýsingarorð einna mest um vinnuhesta og akuxa. Gísli hefur alltaf verið mikill vinnuhestur og engin gapuxi. Fylking sú sem fylgir Gísla á FB tilheyrir þó oft síðarnefndu tegundinni.
Til að halda sínum góðu, gráu sellum í sambandi og liðugum stundar Gísli mikla leikfimisæfingar á FB, og það mest um hásvartnættið; stundum svo mjög að óhollt má þykja. Þessar æfingar hans eru mun herskárri en t.d. Müllers-teygjur eða almennilega daglegur göngutúr sem Jóni Árnasyni þjóðsagnaþul var ráðlagt að stunda af sérfróðum Skota, þegar Skotinn sá hve visinn og aumur Jón var fyrir neðan mitti af endalausri setu yfir lygasögum.
Á FB sinni stundar Gísli þá æfingu heilsu sinni til bóta, að verja rétt Palestínumanna með því að vera plötusnúður og útsendingastjóri fyrir málstað Hamas og Fatah.
Gísli sendir í gríð og erg út greinar sem hann finnur á veraldarvefnum, og upp á síðkastið margar greinar um litla hópa gyðinglegra þverhausa sem eru á móti Ísraelsríki og hafa aðrar skoðanir á vanda Miðausturlanda en stór meirihluti gyðinga heimsins, bæði þeirra sem búa í Ísrael eða utan.
Það er í sjálfu sér ekki syndsamlegt að nota heilasellur sínar til þess að styðja baráttu sárhrjáðra manna sem Gísli vill að eignist vel vopnað ríki. Vandamálið hefst þegar hin hrjáða þjóð sýnir umheiminum, að hún kann ekki með þessi vopna að fara nema til þess að uppfylla heit sín um að útrýma nágranna sínum. Eins og margir Íslendingar, hefur Gísli valið sér Palestínumenn til að styðja sérstaklega, og reyndar fram yfir aðra hrjáða menn sem hafa þurft að þola miklu verri örlög en Palestínuarabar.
Gísli Gunnarsson bað mig á FB sinni í nótt, þegar ég svaf svefni hinna saklausu, um að skýra fyrir sér hvernig gangrýni á Ísraelsríki geti stundum talist til hreinræktaðs gyðingahaturs.
Þegar hann og heilasellurnar vakna í kvöld og hann hefur enn á ný leit að þriggja manna "samtökum "gyðinga sem hata Ísraelsríki - eða að grein eftir einhvern sem finnst bresku stjórnmálamennirnir Jeremy Corbyn og Ken Livingstone einstök gæðablóð, þá verður þetta svar tilbúið til lestrar fyrir hann. Þið lofið að vekja Gísla ekki af værum svefni fyrr en kl. 19 eða 20 að staðartíma út af þessu svari. Þær gráu í fólki sem er komið yfir fimmtugt þurfa nefnilega á nægri hvíld að halda, sérstaklega áður en haldið skal á Vesturbakkann eða til Gaza í huganum, meðan aðrir eru í Jerúsalem í draumum sínum.
Hvenær verður gagnrýni á Ísrael gyðingahatur?
Gagnrýni á Ísraelsríki á vitaskuld rétt á sér, en stundum væri málefnalegra að dreifa gangrýni sinni á ríki þar sem ástandið er miklu en í Ísrael og á friðsemdareyjunni Íslandi norður í Ballarhafi.
Gagnrýni á Ísraelsríki, Ísraelshatur og það sem sumir kalla antisíonismi, getur hins vegar auðveldlega snúist yfir í hreint gyðingahatur ef menn varast ekki orðaval sitt. En nú er orðaval einu sinni oftast nær birtingarmynd skoðana og tilfinninga manna. Hér skulu nefnd nokkur dæmi sem varða Gísla sjálfan í von um að það bæti skilning hans á því hvenær gagnrýni á Ísrael er orðin að gyðingahatri.
1) Gísli hefur um árabil bent á að núlifandi gyðingar séu flestir komnir af Khazörum, þjóð sem að hluta tók gyðingdóm um tíma. Þessa kenningu hefur Gísli tekið miklu ástfóstri við líkt og margir stuðningsmenn Palestínumanna - Hún sýnir þeim að nútímagyðingar séu ekki gyðingar í raun og veru og séu að mestu óskyldir þeim sem uppi voru á tímum Jesús frelsara sumar Íslendinga. Þrátt fyrir að allar nýjar DNA-rannsóknir sýni að það sé engin fótur fyrir þessari kenning (sem reyndar var upphaflega sett fram af gyðingi) og sem notuðu var grimmt af nasistum áður en stuðningsmenn Palestínuaraba fóru að nota hana. Þeir sem enn vitna í Kahzarakenninguna eru gyðingahatarar. Þeir reyna að útrýma tilvist gyðinga með því að segja að þeir séu ekki "ekta gyðingar". Eins lítilmótleg og ömurleg sem þessi óvísindalega samlíking er, þá er hún enn notuð á meðal þeirra sem safnast að Fjasbók Gísla sem flugur á mykjuskán, þegar hann skrifar um Palestínu. Gísli hefur þó sem betur fer nýlega gefið þessa dogmu um sagnaþjóðina Khazara upp á bátinn.
2) Margur maðurinn sem sækir í FB Gísla líkir Ísraelsríki í sífellu við Þýskalands nasismans og Ísraelsmenn og gyðinga við nasista, sem og Gaza við gettó. Þetta fólk, sem ég held stundum persónulega að sé léttkexruglað þegar að þegar að áhugamálið þeirra kemur, telur það málstað Palestínumanna til stuðnings að tala í sífellu um þjóðarmorð í Palestínu. Ef það er ekki kúlan í kanónunni, það eru gyðingar vændir um að stunda þjóðernishreinsanir. Þetta síðasta kemur einfaldlega til af því að fólk í Palestínuiðnaðinum hefur greinilega ekki andlega burði til að kynna sér skilgreiningu SÞ og annarra alþjóðlegra stofnanna á þjóðarmorði. Samlíkingar gyðinga/Gyðinga/Ísraelsmanna við böðla gyðinga í Evrópu er gyðingahatur. Það hefur fyrir löngu verið skilgreint og niðurneglt af sérfræðingum, bæði gyðingum og þeim sem ekki eru gyðingatrúar. Alþjóðlega samtök ganga einnig út frá því að þegar Ísraelsmönnum og gyðingum er líkt við nasista, þá sé það í raun svæsnasta gerð af gyðingahatri - þ.e. þegar fórnarlambinu er líkt við böðul sinn. Þetta gera margir á FB Gísla emirítus, sem gerðist sjálfskipaður gyðingafræðingur á Íslandi í ellinni.
Lækjartorg 2009. Táknin eru greinileg. Ekkert slys, aðeins hatur.
3) Ég get vel skilið að menn í hita átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs æstist í hvert sinn sem átök hefjast aftur á Gaza, en samlíkingar þeirra, sem maður sér Palestínumenn einnig nota, sem og afneitun á Helför Gyðingar og engum ósóma, er engum til gagns og síst af öllu Palestínumönnum. Herferð Gísla er í hæsta lagi æsingur aldraðs manns í cyberspace og ekkert annað. Hann hjálpar engum og fær ekki einu sinni verðlaunapening frá Hamas eins og Sveinn Rúnar hefur fengið. Gísli hefur ekki heldur ort: "Israel, Israel über alles" líkt og Sveinn Rúnar Hauksson gerði hér um árið. Með því að sætta sig við fólk komi við á FB sinni með gyðingahatri er Gísli meðsekur í gyðingahatrinu.
4) Gísli Gunnarsson hefur einnig gert sig sekan um aðra gerð af svæsnu gyðingahatri. Árið 2003 skrifaði undir undirskriftasöfnum í HÍ, (með fólki eins og Helgu Kress og Þorbirni Broddasyni, https://notendur.hi.is/~peturk/ISRAEL/askorun.htm ) þar sem hann hélt sig vera að styðja áskorun frá 187 ísraelskum prófessorum sem að sögn vöruðu við þjóðahreinsunum Ísraelsmanna á Palestínumönnum í skjóli Íraksstríðsins. Gísli og aðrir lærðir menn hoppuðu umsvifalaust á þetta gabb, sem ættað var frá einum af mörgum áróðursmiðstöðvum Palestínumanna. Enginn prófessor í Ísrael hafði sett nafn sitt undir slíka undirskrifasöfnun eða beðið kollega á Íslandi að vera með. Gísli og líkt þenkjandi fólk gleymdi í andrá öfganna, að það eru Palestínumenn sem sífellt tala um að ryðja Ísraelsríki í sjó fram og "myrða gyðinga hvar sem þá er að finna", en ekki öfugt. Það var hreinræktað gyðingahatur sem Gísli Gunnarsson skrifaði undir og hvatti til, er hann taldi öruggt að Ísraelsmenn myndu stunda þjóðarhreinsanir í skjóli Íraksstríðsins.
Læt ég þessar skýringar nægja hinum aldna og virðulega prófessor sem stundar leikfimisæfingar með gráu sellurnar sínum til stuðnings hinna hrjáðu Palestínuaraba, sem reyndar hírast í best vopnaða "gettói" sem sögur fara af. Svokölluð gangrýni í garð Ísraels getur mjög auðveldlega tekið á sig mynd hreinræktaðs gyðingahaturs og gerir það oft hjá lesendum Gísla á Facebók hans. Sjón er sögu ríkari. Svo er líka bíó fyrir Gísla. Þetta er líklegast "áróðursmynd" samkvæmt Gísla.
Where anti-Zionism crosses into anti-Semitism should also be obvious: dehumanizing or demonizing Jews and propagating the myth of their sinister omnipotence; accusing Jews of double loyalties as a means to suggest their national belonging is of lesser worth; denying the Jewish peoples right to self-determination; blaming through conflation all Jews for the policies of the Israeli government; pursuing the systematic Nazification of Israel; turning Zionism into a synonym of racism. Roger Cohen
Vísindavefsskandallinn
Gísli Gunnarsson komst heldur betur í sviðsljósið nýlega, þegar Merrill Kaplan ungur aðjúnkt í Iowa í Bandaríkjunum, sem dvalið hafði á Íslandi við vinnu á doktorsritgerð sinni benti á villur og meinlokur í skýringargrein Gísla á gyðingahatri á Vísindavefnum. Gísli gerði talsverða umbætur, enda jaðraði það sem hans skrifaði við gyðingahatur. Gísla vini mínum, og sjálfskipuðum verndara til 30 ára, má segja það til hróss að hann er ekki einn um ruglið og þekkingarleysið á því sem hann hefur verið spurður um á Vísindavefnum.
Eitt sinn var Guðrún Kvaran beðin um að skýra uppruna orðanna gyðings og júða en einnig skýra hvers vegna orðið júði er niðrandi? Í dönsku og þýsku eru notuð nauðalík orð um gyðinga sem ekki eru niðrandi. Guðrún Kvaran svaraði og sýndi þar með ljóslega fordóma sína og þar með algjöra vankunnáttu á því sem hún var spurð um:
"Neikvæða merkingin í júði á líklegast rætur að rekja til þess að gyðingar sem stunduðu viðskipti víða um heim á síðari öldum, þóttu erfiðir viðfangs, nískir okurkarlar og efnuðust oft vel. Þetta litu aðrir hornauga og farið var að nota jew, jøde, júði í neikvæðum tón um kaupsýslumenn af gyðingaættum. Hin neikvæða merking sem Jude fékk í Þýskalandi á árunum milli stríða og í síðari heimsstyrjöldinni er af öðrum toga og var tímabundin. Hún náði yfir allt fólk af gyðingaættum, ekki aðeins kaupsýslumenn".
Þarna blandar fræðimaður að hluta til orsökum og afleiðingum saman og sýnir algjört þekkingarleysi á því sem hún hún skrifar um. Rómverjar og kristin kirkja ólu á hatri gagnvart gyðingum og hvaða nafn sem þeir og aðrir notuðu, þá var það tengt neikvæðni í garð gyðinga og trúarbragða þeirra. Ástæðan fyrir því að gyðingar stunduðu lánastarfssemi er ekki skýrð af Guðrúnu Kvaran. Kirkjan lék aðalhlutverkið í því hve litla starfsmöguleika gyðingar höfðu. Guðrún gleymir því einnig að flestir sem hafa orðið fyrir illmæli með gyðinganafnbót eru ekki gyðingar, heldur okrarar sem kallaðir eru því ljótasta sem mönnum dettur í hug. Ég hef áður bent á þekkingarleysi Guðrúnar Kvaran (sjá hér) og læt þetta nægja nú. Gísli er svo sannarlega ekki einn á þessum furðulega hatursdalli HÍ.
Gyðingahatur nútímans er mikið vandamál á Íslandi. Sem betur fer hafa gyðingar búsettir á Íslandi aðeins orðið fyrir aðkasti í litlum mæli. Bílar þeirra hafa verið rispaðir og drullu kastað í hús þeirra og túlípanar hafa verið rifnir upp í görðum þeirra.
En ef menn hugsa sig ekki um og fara með offorsi í samlíkingum og hatursræðu í hvert skipti sem öryggið losnar á sprengjukösturum hryðjuverkasamtakanna Hamas (sem sumir Íslendingar skilgreina sem eins konar hjálpasveit skáta), þá sjáum oftar hroðalegt gyðingahatur á Íslandi í meintu hatri manna á hinum "vonda síonisma" Ísraelsríkis.
Bloggar | Breytt 28.3.2019 kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Veftímaritið Herðubreið stelur ljósmynd
5.3.2019 | 07:48
Viðbót 6.3.2019 - Herðubreið hefur nú birt nafn höfundar ljósmyndarinnar
31. janúar 2019 birtist smáklausa á Tímaritinu Herðubreið sem Karl Th. Birgisson er í forsvari fyrir. Klausan ber fyrirsögnina Einn í áhöfn og er eftir Úlfar Þormóðsson. Hún fjallar um þau örlög sem kapítalisminn hefur skapað, og sem veldur því að aðeins einn Íslendingur er í áhöfn á íslensku skipi. Nærvera Íslendings varnar því greinilega ekki að skip fái á sig brotsjó.
Til að myndskreyta klausuna gripu menn í Herðubreiðarlindum til vafasams myndastulds í anda verstu kapítalista. Þeir tóku hluta af ljósmynd sem ég hef tekið í Kaupmannahöfn og hef birt á tveimur blogga minna hér og hér á Fornleifi. Herðubreiðarmenn birtu hana án þess að nefna höfund ljósmyndarinnar.
Skjámynd af vefritinu Herðubreið
Ég hafði samband við Herðubreið og fékk tvö svör, nafnlaus:
"Sæll og og forláttu síðbúið svar. Nú leggjumst við í rannsóknir. Vitum ekki hvernig myndin komst í myndabankann okkar, en takk fyrir að láta vita." Og síðar: "Sæll Vilhjálmur. Með fullri virðingu fyrir fræðistörfum þínum, þá getum við ekki fallist á að myndin sé eftir þig, þar sem hún er hluti af auglýsingu frá Eimskipafélagi Íslands, eftir því sem við komumst næst. Endilega láttu vita ef við förum vill vegar."
Þar sem ég taldi mig hafa skýrt málið út fyrir Herðubreiðarritstjóranum, eða réttara sagt þeim huldumanni sem svaraði mér, að þeir mættu nota ljósmynd mína ef þeir birtu nafn mitt og greindu frá því hvar myndin sem þeir skáru birtist skrifaði ég fyrr í dag til "Herðubreiðaröræfa":
Sæl "Herðubreið"
Ég tók ljósmyndina af auglýsingu í 80 ára dagblaði sem varðveitt er í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn. Ég birti myndina á bloggum mínu í lágri upplausn, en hún hafði ekki verið uppi á borðum Íslendinga fyrr en að ég gerði henni skil.
Þar sem engin undirritar skilaboð "Tímaritsins Herðubreiðar" til mín undir nafni, get ég ekki tekið þessi svör ykkar alvarlega. En mér er full alvara og hinn nafnlausi maður sem svarar fyrir Herðubreið er að mínu mati óvenjulega kokhraustur þegar hann ver þjófnað á myndverki mínu.
Ljósmyndin, sama hve léleg hún er, er verk mitt. Ég miðlaði þessari 80 ára auglýsingu í morgunblaðinu Politiken til Íslendinga á bloggum mínum. Áður en það gerðist var auglýsingin ekki þekkt á Íslandi og var t.d. ekki með í bók um sögu Eimskipafélagsins. Veftímaritið Herðubreið tekur svo myndina og sker hana í búta og birtir einn bútinn án þess að minnast á höfund. Höfundar myndverka hafa rétt og ég er höfundurinn.
Vinsamlegast getið höfundar ljósmyndarinnar sem þið hafið notað. Nafn hans stendur fyrir neðan þessi svör.
Virðingarfyllst,
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Viðbót 6.3.2019 kl. 01.35 HERÐUBREIÐ hefur fyrir 10 mínútum síðan vinsamlegast fallist á ósk mína og merkt mynd mína mér (reyndar sést myndin ekki lengur, en það er tæknilegt atriði sem Herðubreiðarmenn verða að leysa). Myndin mun að sögn hafa verið notuð áður á Herðubreið. Ég þakka fyrir heiðarleg viðbrögð Herðubreiðar og verð að fara að vara mig á því að "stela" myndum frá öðrum. Við verðum öll að passa okkur og athuga hvað maður er að taka. Ég var ekki á höttunum eftir greiðslu, en stundum er það víst tilgangur manna.
Bloggar | Breytt 6.3.2019 kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)