Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023
Stálhjálmur @ mbl.is
28.2.2023 | 19:30
Það gerðist hér um daginn, að ég setti örlitla athugasemd við myndmál á persónulega FB eins af ritstjórum Morgunblaðsins. Andrés heitir fésbókarinn, og er Magnússon.
Ritstjórinn, sem ég þekkti ekkert fyrr en ég byrjaði mitt eldra Moggablogg árið 2007, meðan að ég starfaði í nokkra mánuði sem póstburðardýr á Danmörku af illri nauðsyn, hafði skreytt höfuðmynd FB sinnar með úkraínska þjóðfánanum með vel valdri glósu við hana.
Athugasemd mín var stutt og laggóð og ég bjóst sannast sagna ekki við því að einhver myndi móðgast eða ærast. Athugasemdin við úkraínska fánann hljóðaði svo:
Dream on
Þessi tvö orð mín, sem eru ekki góð íslenska, urðu til að reita ungan blaðamann Moggans til óbeislaðrar reiði og annar kollegi hans lækaði eftirfarandi reiðikast, sem er ekkert annað en afar lúaleg ærumeiðing og skítkast í minn garð:
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson Þessi fígúra mætt á ritvöllinn - sá er kallar Selenskí forseta "gervijúða" og "lítilmenni". Tekur sér þannig stöðu með Moskvuvaldinu. Hlýtur að vera þreytandi að vera svona bitur.
Ég hef aldrei kallað Zelenskij forseta gervijúða. Orðið júði nota ég ekki, nema þegar ég vitna rétt í einhvern, og læt löngu dauðum sálmaskáldum, nýnasistum og einstaka blaðamönnum það eftir til að tönnlast á. Ég hef hins vegar skrifað tvær fræðigreinar um landlægt gyðingahatur hjá ákveðnum hluta fólks á Íslandi (sjá hér og hér), þar sem ég geri grein fyrir notkunarmuninum á orðunum júði og gyðingur á mismunandi tímum.
Með einfaldri klikkun stækkar allt.
Blaðamaðurinn mærir nasista
Nú vill svo til að blaðamaðurinn sem um ræðir hjá Mbl. ritar oft og miklar lofgreinar í hásterti um nasista og hernaðarafrek þeirra gegn heimskommúnismanum. Reyndar svo grimmt að samstarfsmenn hans út í móa hafa líka tekið eftir því og gerðu stólpagrín af karli í síðasta áramótateiti þar sem hann var settur á forsíðu aukablaðs Morgunblaðsins. Þar er vitnað í dóma Halls Hallssonar og Hauks Haussonar um hernaðarsérfræðing Moggans. Þeir Hallur og Haukur gefa Stjálhjálmi aðeins eina stjörnu.
Í framhaldi af því glensi, hélt blaðamaðurinn Johannessen því fram, að ekki væri það nasistahjálmur sem hann væri með á kollinum, heldur hjálmur úr fyrra stríði, svokallaður M17. Eins og blaðamaðurinn veit kannski, þá voru Þjóðverjar enn að senda gamlar birgðir af hjálmum (þó hvorki M35 né M17) til stríðshrjáðra þjóða árið 2022 - þangað til þeir voru þvingaðir til að fallast á einhvern skriðdrekadíl gegn Rússum.
En hér er mynd af yglubrýndum Úkraínumanni á Maidantorgi árið 2014. Boðskapurinn á hjálminum, sem er greinilega M35 eða yngri gerð, er þessi: "Pútín, hugsaðu, ellegar endarðu eins og Hitler". Þessi Stálhjálmur í Kiev hefur kannski sömu áhugamál og blaðamaður Morgunblaðsins, en nokkrar hersveitir Úkraínu hafa notað nasísk tákn, rúnir, grettar hauskúpur og annað sem styður hjal Pútíns um nasistadýrkun í herjum Zelenskijs. Volodomyr leyfir þeim einnig að dýrka gyðinga- og Pólverjamorðingjann Stepan Bandera, dyggan bandamann Þjóðverja. Slíkt verður að teljast algjör perversjón ef hann Litli Zeli er það sem Stahlhelm@mbl.is kallar "gervijúða".
M17 er bara ættargripur á Mogganum
Nú, blaðamaðurinn ungi og reiði, sem kallaði mig fígúru, er eiginlega er eins konar innanstokksmunur eða erfðagripur á Morgunblaðinu og á því erfitt með að beisla sig því hann er erfðagripur á Morgunblaðinu.
Þar var afi hans Matthías, merkt skáld, og lengi yfir öllu. Kristján H. Johannessen getur kannski ekki gert af þessu klámhöggi á mig, þar sem ég er ásakaður um að kalla menn "gervijúða".
Bitur er drengurinn kannski líka, þar sem faðir hans, fyrrverandi lögreglustjóri, sem var það sem menn verða næst því að vera hershöfðingi á Íslandi (nema að þeir séu í Hjálpræðishernum). Einn dag annó 2019 gerðist það svo að 8 majórar af 9 í smáskotaliði föður hans, lýstu frati á hershöfðingjann sinn. Sá níundi gerðist líklegast liðhlaupi.
Líkt og menn vita, hefur einn íslenskur forsætisráðherra og heimsþekkt hráæta í kaupbæti kennt gyðingum um fall sitt, sem og HRUNIÐ og allt Tortóluævintýrið í ofanálag.
Kannski megum við búast við því að næsti forsætisráðherra kenna þeim um fall sitt, þegar hún neitar að gefa upp hver gaf P8 bombuvél Bandarískra yfirvalda eldsneyti í Keflavík, áður en hún hélt aftur í loftið og létti af sér bombunum nærri Borgundarhólmi beint á gasleiðslur sem þar liggja á hafsbotni.
Og eftilvill verður gyðingum bara kennt um allt sem miður fer á Íslandi, því vinstri menn hafa vissulega einnig horn sín í síðu þeirra.
Varðandi hershöfðingjann í Kíev, Zelenskij, sem Johannessen jr. heldur fram að ég hafi kallað "gervijúða" [það er alfarið orðbragð Kristjáns nasistasérfræðings], þá má upplýsa, að Zelenskij er sonur rússneskrar konu kristinnar. Konan hans Zela í grænu sokkunum frá Íslandi er einnig kristin. Þegar hann kvæntist henni fór athöfnin fram að kristnum sið og börn þeirra eru bæði skýrð og fermd í kirkju. Kristnari en það getur maður vart orðið, nema þegar lærður maður nauðgar leikri konu í Drottins nafni og fullum skrúða uppi á Íslandi, eða þegar prestlingur nauðgar barni og stígur svo metorðastiga kirkjunnar alveg upp í turn.
Ættir Voldemorts af gefnu tilefni
Um uppruna föður Zelenskijs er hins vegar margt á huldu. Trúfélagið Chabad, sem ég held því miður að trúi frekar á grænan dalinn en Drottinn, ákvað fyrir sína parta, að kalla Zelenskij gyðing, þó að "kirkjubækur" sýni að faðir hans sé af tyrknesku bergi brotinn. Nú á Íslandi er Chabad mætt til að bjarga afvegaleiddum íslenskum gyðingnum og vinnur m.a. gott starf í að snúa afkomendum nasista yfir í hjörð Móses. Starfið er að mestu unnið fyrir dali frá frómum gyðingi sem er einhvers konar rússneskur míní-olígarki.
En einhvers staðar verða peningarnir frá að koma, og það er búið að viðurkenna gyðingdóm á Íslandi, þrátt fyrir að söfnuðurinn sé fjármagnaður af rússneskættuðum gyðingi en ekki úkraínskum þjófi í grænum sokkum frá Prjónastofu Katrínar og Þórdísar.
Þetta er að verða eins og í musterinu forðum, þegar hinn hreintrúaði yngissveinn Jesús, sem heldur er ekki að finna á neinni skrá um gyðinga, tók tryllingslegt æðiskast vegna kaupmennskunnar og kramsins sem einkenndi allt í fordyri drottins á jörðu niðri skömmu eftir Krists burð. Ekki lái ég Jesúm blessuðum æðiskastið, þó svo að hann hafi ekki verið með nafnnúmer og finnist eigi í varðveittum kirkjubókum.
Sumir skemmtilegir menn telja að faðir hans hafi kannski verið sonur rómverjans Noughtiusar Maximusar, en miðað við alla limina og kjúkurnar sem kaþólska kirkjan hefur varðveitt úr Kristi hinum eingetna, virðist Jesús hafa verið öllu kynlegri skepna en aumingja Zelenskij, og varla skapaður í Guðs mynd - Að halda slíku fram væri afar ljót móðgun við hana Gvöð almáttugu, sem nú ríkir í heiðríkjunni á himnum, og er miklu meiri hershöfðingi en forveri hennar hann Guð blessaður -
Heil Stjálhjálmi og AMEN.
Bloggar | Breytt 1.3.2023 kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Friedmanstónar
25.2.2023 | 11:11
Ég hef áður skrifað um hinn merka Friedman. Já og nú sperrir gjörvalt íhaldið eyrun.
En æi-nei. Ég ætla ekki að skrifa um navi kapitalim (Spámann kapítalsins) - hann Milton litla Friedman, sem þorri náhirðarinnar á Íslandi hefur dýrkað og dáð og jafnvel alla leið í dauðann. Ég er þaðan af síður með einhverja Friedman-töfralausn gegn óréttlátri meðferð gegn launaþrælum sem þurfa að gera uppreisn, þegar þeir krefjast mannsæmandi launa fyrir að bera uppi þjófa með furðulega gott lánstraust og nýjan aðalatvinnuveg Íslendinga sem rekinn er af einstöku mannavali.
Solomon Isaak Freudman með foreldrum sínum Salciu og Wolfgang.
Sá Friedman sem ég hef meiri áhuga á en Milton litla kapítalista, hét upprunalega Solomon Isaak Freudman. Hann fæddist, líkt og hendir flesta menn, nánar tiltekið 13. febrúar árið 1882. Hann kom í heiminn í nágrenni Krakow í Póllandi og var af tónlistafólki kominn.
Faðir hans lék í hljómsveit borgarleikhússins í Krakow. Hann stundaði nám hjá Floru Grzywinsku í heimaborg sinni, þar til hann hélt til Leipzig og stundaði nám hjá Hugo Rieman í eitt ár og síðar áfram til Vínar, þar sem kennari hans var Theodor Leschetizky.
Hann tók einnig þátt í master-class námskeiðum hjá hinum frábæra Ferruccio Busoni. Að námi lokni ferðaðist hann víða og er talið að hann hafið leikið 2800 konserta á ferli sínum. Árið 1914 settist hann að í Berlín og síðar flýði hann Evrópu og settist að í Sidney í Ástralíu. Taugagigt í hönd leiddi til þess að hann gat ekki leikið opinberlega eftir 1943. Hann andaðist að lokum eins og allir, en hann gaf upp andann mjög sjúkur í Sidney árið 1948.
Bjó um tíma í Kaupmannahöfn
Um tíma bjó Friedman í Kaupmannahöfn og kom á þeim tíma, árin 1935 og ´38 við á Íslandi og hélt tónleika í Reykjavík og á Akureyri. Vegna uppruna síns - og greinar sem Verkalýðsblaðið birti um Friedman, réðust íslenskir nasistarnir á hann í fjölmiðlum.
Það var Anna Friðriksson (1889-1960) sem hafði veg og vanda að heimsókn Friedmans til Íslands, um tíma kona verkalýðsfrömuðarins og ritstjóra Alþýðublaðsins, Ólafs Friðrikssonar, sem vildi ættleiða gyðingadrenginn Nathan Nissim Friedman (1907-1938). Útlendingahatarar Íslands ráku hann úr landi úr landi árið 1921. Anna Friðriksson stofnaði Hljóðfærahús Reykjavíkur árið 1916 og Nathan Friedman var ekkert skyldur Ignaz Friedman.
Frú Anna Friðriksson var "vaskeægte" dönsk kaupsýslukona af jóskum ættum líkt og margar góðar konur valinkunnra Íslendinga. Árið 1916 stofnaði hún Hljóðfærahús Reykjavíkur, sem var fyrsta hljóðfæraverslun landsins. Þrátt fyrir að vera atvinnurekandi, var einnig Anna örugglega líka ekta sósíalisti. Í minningargrein um Önnu segir : Henni tókst að styrkja svo verzlun sína að hún gat jafnvel hlaupið undir með blaðinu þegar til vandræða kom. Þar var átt við vikublaðið Dagsbrún, sem verkalýðsfélögin í Reykjavík gáfu út og eiginmaður hennar ritstýrði. Hún stóð fyrir komu margra erlendra tónlistarmanna til landsins til að halda hljómleika. Hún var sömuleiðis umboðsmaður ýmissa heimskunnra hljómplötufyrirtækja, s.s. Decca og Deutsche Grammophone. Þar fyrir utan gaf hún út allmargar hljómplötur með söng og hljóðfæraleik íslenskra listamanna. Verslunin var upphaflega í Templarasundi í nokkur ár í Austurstræti en síðar á Laugarvegi.
Meðan að Ignaz Friedman bjó í Kaupmannahöfn voru gerðar margar hljóðritanir á leik hans og þær hafa nú verið gefnar út veglega út á 6. hljóðdiskum. Það er hljómplötuútgáfan Danacord í Kaupmannahöfn sem gaf diskana út. Þetta er er ekki fyrsta sinn sem Danacord gefur út hljómplötur með leik Friedmans. Árið 1986 kom út safn fimm LP-hljómplatna með verkum Friedman hjá fyrirtækinu. Upptökurnar sem þá voru gefnar út hafa verið hreinsaðar eftir nýjustu tækni fyrir útgáfu disklinganna árið 2020.
Allir ekta klassíkerar þekkja verslun Danacord í Vognmagergade 9 i Kaupmannahöfn. Maður verður að varast að týna sér ekki, þegar maður er þar á meðal meistaranna. Mér skildist á afgreiðslumanni í versluninni, að útgáfan á Friedman sé fyrst og fremst að þakka tveimur eldhugum hjá Danacord, sér í lagi Jesper Buhl m.a. með hjálp bandaríska tónlistafornleifafræðingsins og tónlistarútgefandans, Allen Evans (1956-2020). Evans átti lítið en merkt músíkforlag sem hann kallaði Arbiter Records. Evans, sem stundum skilgreindi sjálfan sig sem tónlistarfornleifafræðing, gaf einnig út sögu Ignaz Friedmans á bók árið 1918. Henni get ég einnig mælt með, þó svo að mjög lítið sé komið inn á tvær heimsóknir Friedmans til Íslands.
Ágæt bók Allen Evans um Ignaz Friedman. Eins er fengur í að skoða vefsíðu með myndum úr eigu dótturdóttur Friedmans (sjá hér)
Hér er sterkur hlekkur á vefsíðu verslunar Danacord í Kaupmannahöfn, þar sem menn geta keypt sér safn upptaka með leik meistara Friedman - og þangað til það gerist notið stubba með leik mannsins, sem íslensk lítilmenni réðust á í ljótum lítilleika sínum vegna uppruna hans og trúar.
Leikur Ignaz Friedmans hefur verið rómaður af ýmsum meisturum, t.d. Sergej Rachmaninov. Leikur Friedmans er nefnilega með rússneskum blæ og kröftum og minnir mig á leik föður Vladimirs Davidovitch Ashkenazis, þegar David lék í sjónvarpssal eitt sinn er hann heimsótti son sinn á Íslandi. Allt fór í bylgjum hjá Ashkenazi eldri, eins og lífið væri einn stór Vínarvals um borð á Gullfossi í ólgusjó. Tónlistin kom beint frá hjartanu þótt fingurnir væru ekki alltaf með á nótunum.
En eins og þeir sem dýrka Milton Friedman ættu vita, þá lifa menn ekki á stubbum einum saman og enn síður af þeirri mylsnu sem fellur af borðum ríka mannsins niður til Lazaruss.
Ég mæli eindregið með disklingunum 6 með Friedman frá Danacord, um leið og ég vona að einhverjir aðrir en Miltonspiltar í Valhöll hafi ráð á menningu sem er hluti af tónlistarsögu Íslands - og jafnvel þótt Ignaz Friedman hafi aðeins verið í nokkrar vikur á Íslandi og orðið fyrir hatri sumra þeirra, sem síðar urðu einir dyggustu flokksmenn Sjálfstæðisflokksins - en það er önnur saga með ljótum undirtónum.
Friedman árið 1935. Myndin er þó ekki tekin á Íslandi.
Bloggar | Breytt 26.2.2023 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ættfræðiraus á sunnudegi
19.2.2023 | 12:24
Myndin hér er að ofan er af móður minni, Erlu (fyrir miðju). Hún er nú á 94. aldursári. Myndin var tekin í Gladsaxe, er mamma heimsótti móðursystur sína í Kaupmannahöfn sumarið 1946. Mamma, 17 vetra, stendur þarna á milli Sigríðar hálfsystur afa (föður mömmu) og manns hennar Andreas Jensen, sem um tíma fyrir 1910 hafði verið kyndari á skipum við Ísland. Hann var töluvert eldri en Sigríður frænka mín. Andreas var húsvörður í Gladsaxe-skóla, þar sem þau voru með íbúð í kjallaranum. Skólinn var reistur árið 1921 og rifinn réttu árhundraði síðar, eða 2021. Mikil eftirsjá er af byggingunni, þar sem allt sem í dag er byggt á þessum slóðum er ljótara en fordyri andskotans.
Árið 1889, eignaðist Pálína Margrét Pálmadóttir, langaamma mín Sigríði Sigurjónsdóttur í lausaleik. Slíkt þótti alltaf mikil skömm. Árið 1908 eignaðist Sigríður síðan sjálf elsta son sinn í lausaleik með þekktum og stórglæsilegum raðflagara af Fjeldstedættinni.
Á myndinni af móður minni, sést að hún tók afar vel við lit, þegar sólin fór að skína. Sólbrúnkan kom úr ætt eiginmanns Pálínu langömmu, en sá hét Kristinn Egilsson. Var því venjulega haldið fram að litarhaftið hefði erfst úr genamengi kaupmanns, Dana af framandi ættum, sem kom við á Örfirisey þar sem langalangalangamma mín bjó. Sagan innan fjölskyldunnar hermir, (en hefur þó ekki verið staðfest með vissu), að formóðir mín hafi misstigið sig - sem skýrir dökka hörundslitinn hjá sumum afkomendunum, sem sagan segir að sé ættaður allt sunnan úr landinu helga eftir langa og erfiða göngu.
Þess má einnig geta, og eigi til gamans, að í þessari för móður minnar eftir stríð, taldi einn afkomandi Fjelsdstedsflagarans, að móðir mín hafi farið til að eignast barn, sem svo hefði verið alið upp hjá hálffrænda mömmu (syni Sigríðar Jensen) og konu hans.
Grillu þessa leiddist blóðmóður konunnar (sem best var þekkt sem ein af þessum Stellum, þó hún héti í raun og veru Jórunn), vitanlega mjög og náttúrulega móður minni líka. Ekki lái ég konunni að vilja vera dóttir móður minnar, því móðir mín er einstaklega góð kona. En það var Stella móðir frænku minnar líka. En 17. júlí 1949, þegar konan fæddist, var móðir mín nýorðin stúdent frá MR og ekki er að sjá að hún væri kasólétt í útskriftinni samkvæmt stúdentsmyndum.
Þess ber að geta að Fjeldstedbarnabarnið, sem svo innilega vildi vera dóttir móður minnar, var móðir konu sem á okkar tímum berst við flugfreyjur og er hent út úr flugvélum, þegar hún er ekki dæmd fyrir að vera með fúkyrði um aðra uppstökka konu úti í bæ, sem er af tyrknesku bergi brotin. Mikið skap konunnar, sem flugfreyjur óttast, er hvorki komið úr minni ætt, né frá Fjeldsted-flagaranum. Skapstóra konan er, líkt og ég, komin af formóðurinni Pálínu Pálmadóttir frá Eiði á Seltjarnarnesi, sem að allra mati var hin mesta hæglætiskona.
Æsta konan, sem rekin er úr flugvélum, er dóttir manns, Friðriks að nafni, sem eitt sinn rak fræga ísbúð í Reykjavík ásamt frænku minni. Íssalinn þótti hafa svo stirðt lundarfar, að það eitt sér var sérstaklega nefnt í minningargrein um hann er hann lést.
Þá höfum við það á hreinu. Margrét Friðriksdóttir (valkyrjan Magga Frikka) er EKKI systurdóttir mín, þó að sú fiskisaga sé sífellt að reka á fjörur mínar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gamli golfvöllurinn við Minni Öskjuhlíð og Mjóumýri ... og Hvassaleiti
15.2.2023 | 07:40
Nýlega rakst ég á þessa frábæru mynd hér fyrir ofna á vefsíðunni Golfmyndir.is. Hún var á meðal mynda úr safni feðganna Ingólfs og Hans Isebarn.
Kylfingur, (sem mér finnst afar ljótt orð), er að fara að munda kylfuna í pútt á þeim hluta vallarins sem var enn fyrir framan nýbyggð raðhús í Hvassaleiti. Myndin sýnist mér að sé tekin kringum 1962, en þá voru foreldrar mínir (og ég og systur mínar) enn ekki flutt í eitt af húsunum þarna að baki kylfingsins. Foreldrarnir keyptu húsið fokhelt af föðurbróður Björgvins Halldórssonar, sem ekki réð við kostnaðinn. Björgvin mun hafa búið þarna hjá föðurbróður sínum í einhverja mánuði. Sá hét Ásgeir og móðir mín kallaði því ávallt eitt herbergja hússins Ásgeirsherbergi, og þar mun alþýðudrengurinn Bjöggi "Bó Hall" hafa sofið. Síðar var þetta herbergi mitt í um 14 ár, eða þar til ég flutti utan til náms árið 1980. Enn mun vera reimt þarna í herberginu. Annað hvort syngur Bó Hall, eða ég leik á langspil - eða við tökum lagið saman.
Til er minjaskráningarskýrsla, þar sem fjallað er um gamla golfskálann, sem var nærri Háuhlíð, þar sem grá bygging Veðurstofunnar var reist margt síðar. Skýrslan fjallar einnig um aðrar minjar í Minni Öskjuhlíð. Golfskáli Golfklúbbs Íslands, sem var vígður af Ingrid prinsessu og Friðriki erfðaprinsi 1. ágúst árið 1938, er nú löngu horfinn, en ég man vel eftir húsinu.
Ingrid prinsessa kemur til vígslu skála Golfklúbbs Íslands árið 1938. Ljósmyndirnar tvær hér ofar eru úr félagsblaðinu Kylfingi 1938.
Minjaskráningarskýrslan inniheldur ýmsar leiðar villur. T.d. er því haldið fram að Borgarleikhúsið hafi verið þar sem golfvöllurinn var. Svo var ekki. Bæði Kringlan og Borgarleikhúsið risu úti í mýrinni eða efnisnámu sem þar hafði orðið til. Þar sem leikhúsið er var ágæt mýrarmoldarnáma. Líkast til er verslunarskólinn þar sem hægt var að ná sér í góða mýrarmold.
Merkur höldur einn danskur, Søren M. Bøgeskov að nafni, sem var enn með smábýli vel fram á 7. áratuginn þar sem Rauðakross-húsið er nú og lítið eitt austan við það og sunnan, nýtti sér þessa mold, sem og faðir minn sem sótti þar mold í garðinn okkar, þegar hann varð til um 1966-67. Fékk hann m.a. hjálp til þess af Frits (Frederik) Haverkamp garðyrkjumanni í Hveragerði, sem var heitttrúaðasti gyðingur Íslands á þeim árum.
Leifar golfvallarins voru enn nýttar af mönnum sem púttuðu fram á 8. áratuginn og í lok þess 7. æfði frægur kringlukastari þar köst sín. Eitt sinn týndi hann einni kringlunni sinni og var hún í vörslu minni sumarlangt þangað til móðir mín skilaði henni til réttra aðila. Kúlukastari, hreinn sveinn, æfði þarna köst síðar á 8 áratugnum, þegar hann var ekki að aka strætisvagni. Ég er alveg viss um að ég hafi séð hann kasta yfir 20 m. og jafnvel að setja heimsmet þarna á síðustu holum gamla golfvallarins.
Við krakkarnir í Hvassaleitinu, sem bjuggum í borgaralegum raðhúsum, með útsýni yfir "grín" Golfklúbbs Íslands, notuðum þetta svæði mikið til leikja. Synir smáborgaranna sem áttu golfútbúnað léku þarna golf þegar grasið hafði verið slegið. Við sem áttum feður sem ekki hugnaðist slík letingjaíþrótt, fengum stundum allranáðugast að prufa nokkur högg og pútt. Þar með lauk þeirri dellu og hafði ég aldrei síðan hina minnstu löngun til að "leika" golf. Fyrr hefði ég þegið nám í sekkjapíku, en boð um að stunda golf með heildsölum og smásálum.
Síðar í lok 8. áratugarins arkaði maður yfir mýrina og yfir tvíspora Kringlumýrarbrautina í alls kyns veðrum og færð til að komast í MH. Stundum var fært á hjóli. Vetur voru ekki eins snjóléttir þá og á 9. áratugnum og reið ég þá í menntaskólann með latínustílana handa Teiti Ben á Apachehjólinu mínu (sjá hér).
Þess ber að geta, að minningarfærsla þessi varð til þökk sé Eflingu og lögmanni samtakanna. Hann er Isebarn að ætt. Þegar ég ætlaði að grafast fyrir um ættir hans (sem að hluta til koma frá Noregi), þá rakst ég á golfmyndina efst, þar sem ættingi hans er að pútta snemma á 7. áratugnum.
Einhvern tímann munu Eflingarliðar hugsanlega hafa efni á að leika golf, en ekki fyrr en þeim verða greidd mannsæmandi laun. Má ég frekar mæla með kringlukasti. Þess ber að geta að verslunarmiðstöðin Kringlan ber ekki nafn eftir fyrrnefndri kringlu kringlukastarans, sem átti gamlan táfýlu-Skoda, heldur hét mýrin að hluta til Kringlumýri, og brautin þar vestan við varð náttúrulega að Kringlumýrarbraut.
Þar sem Morgunblaðið var um tíma til húsa í Kringlumýrinni, áður en flutt var allt austur í Hádegismóa, var oftast nær stærsta áramótabrenna borgarinnar. Sagt er að menn hafi oft fundið reykjarlykt neðan úr neðsta kjallara á Moggahúsinu við götuna Kringlu. Eitthvað var að minnsta kosti að brenna við. Önnur merkari brenna var einnig á gamla golfvellinum, rétt norðan við þann stað, þar sem Listabraut og Efstaleiti skerast í dag, ekki nema langt pútt suðaustur af þeim stað sem Isebarn á myndinni efst er við það að slá kúluna.
Eitt sinn reiknaði ég út, hvert Mogginn væri kominn árið 2121 ef alltaf skyldi horfið til austurs með sama hraða og gerðist á 20. og snemma á 21. öld. Mér reiknaðist svo til, að blaðið hefði þá herstöðvar sínar undir Eyjafjöllum eða í Þórsmörk. Það verður ekki dónaleg að birta smásálarlegar árásir á vinnandi fólk á þrælakaupi undan Eyjafjöllum.
Áfram Efling, þar var fallegt að sjá lögmanninn Isebarn fara holu í höggi fyrir Eflingu. Kallast það ekki fara á pari yfir fálka?
Benedikt Bjarklind og Robert Waara í Skagafirði 1944. Myndin er fengin að láni á Golfmyndir.is
Það er athyglisvert að skoða blaðið Kylfing á fyrstu árum þess og sjá alla smákaupmennina og heildsalana með "handycap" og ættarnöfn sem stunduðu þessa íþrótt í árdaga hennar á Íslandi. Þarna voru Kjaran, Bernhöft, Kvaran, Fjeldsted og Bjarklind.
Bandaríkjamaður, sem kom með hernum, finnskur gyðingur að uppruna frá Michigan, Robert Otto Waara (að nafni, rak á fjörur félagsins og hann kenndi mönnum eitt og annað nytsamlegt. Waara var skrifstofublók í hernum og hafði augljóslega tíma aflögu til að kenna Íslendingum eitt og annað í þessari merku íþrótt sem Skotar halda fram að sé fundinn upp af þeim, þó svo að elstu golfkylfurnar hafi nefnilega fundist í Hollandi. Waara tók meðal annar þátt í gólfmóti í Skagafirði árið 1944. Það var þó ekki hans vegna að í kjallaranum í golfskálanum í Minni Öskjuhlíð var útbúið finnskt sauna. Ýmsar "safaríkar" sögur fóru af finnsku baði golfklúbbsins, allt þangað til að sú baðmenning komst víðar í notið á Íslandi. En áhugi á félaginu og golfíþróttinni var að sögn fróðra manna óneitanlega þessu baðhúsi félagsins að þakka.
Waara kvæntist íslenskri konu Ólafíu Sigurveigu Sigurbjörnsdóttur (1916-2004). Saman ráku þau golfvöll og svokallaðan country-club í Falmouth. Afkomendur þeirra búa vítt og breitt um Bandaríkin.
Ola (Ólafía) Waara
Waara með tveimur börnum sínum
Braggabyggingar Breta og Bandaríkjamanna, í og við golfvöllinn í Reykjavík, var Golfklúbbi Íslands greinilega mikið áhyggjuefni árið 1944 eins og sjá má í þessu bréfi. Sumir þessara bragga, og rústir annarra, voru enn uppistandandi í minni æsku á svæðum kringum golfvöllinn. Bøgeskov bóndi hafði nýtt sér einn þeirra eða endurbyggt, en flestir stóðu þeir úti í móa eins og við strákarnir í Hvassaleitinu kölluðum það svæði sem þeir voru á sunnan við hitaveitustokkinn. Þar hefði þurft að rækta upp land til að hafa þar golfvöll. Ég man að einum bragganna var bílaverkstæði.
Hér var ekki farin hola í höggi eins og í finnsku baðstofunni forðum, enda frá mörgu að segja.
Rannsóknir mínar á golfkúlum um 1971
Mig langar þó að ljúka þessu golfhjali mínu með skýrslu um rannsóknir mínar á golfkúlum sem ég fann á víðavangi á Gamla golfvellinum í Reykjavík. Mig langaði að vita, hvernig þessar kúlur voru búnar til. Ég skar nokkrar þeirra upp eins og fornleifafræðinga er siður. Sumar sprungu hálfgert með einhverju púðri sem var innan í þeim, en aðra þeyttu af sér lögum af gúmmíteygjum með mikilli ákefð, þegar ytri skelin var farinn af og þrýstingur leystist úr læðingi. Undust þá tægjurnar af með frethljóði og eftir var að lokum ómerkilegur, lítill gúmmíbolti innst í kúlunni. Ég er ekki viss um að allir kylfingar viti þetta, en því má bæta við að kúlurnar eru gerðar á annan hátt í dag.
Farið nú ekki að skera kúlurnar ykkar nema að þið hafið forgjöf eða að þið hafið rekist á lítinn birdie úti í móa.
Hér sést gamli golfvöllurinn árið 1962 og raðhúsin í Hvassaleiti sjást í bakgrunninum. Kylfingar eru sagðir vera á fyrsta teig en Fornleifur telur að hann hafi verið nokkru vestar. Mynd úr safni Arnkels Bergmanns Guðmundssonar á Golfmyndir.is
Bloggar | Breytt 13.9.2023 kl. 04:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Valtýr á fimmkall
5.2.2023 | 12:57
Í gær var fallegt veður í Kaupmannahöfn. Sólskin en kalt. Fór með frúnni í bæinn, þar sem hún þurfti að býtta einhverri tískuflík, en ég að kaupa sérhannaðar möppur fyrir möppudýrið í mér.
Við lölluðum á móts við sólina niður Købmagergade og sá ég þá að Vanggaards Antikvariat (sem annars er til húsa í Fiolstræde) var með bókamarkað. Allar bækur og hljómplötur voru seldar á 5 krónur. Þarna voru vitaskuld staddir margir slefandi biblíufílar með ranann niður í gömlum skruddum; en einnig fólk sem keypti bækur í metramáli.
Ég kastaði mér yfir smáritakassana og fann þar sjö góða bita fyrir fimm krónur stykkið, t.d. óinnbundið eintak af Bjarnar sögu Hítdælakappa frá 1847 í útgáfu Halldórs Friðrikssonar (sem var ritstjóri Fjölnis 1947-48) en einnig lítil ritgerð eftir Valtý Guðmundsson: Nordboernes Skibe i Vikinge- og Sagatiden. Þetta er sérrit sem var gefið út af félagsskap sem kallaður var Udvalget for Folkeoplysningens Fremme. Ritið kom út árið 1900 og var selt hjá G.E.C. Gad.
Ég átti fyrir bók Valtýs Privatboligen på Islandi Saga-Tiden.
Privatbolig Valtýs sá ég um daginn á hvorki meira né minna en 23.000 ÍSK hjá gírugum íslenskum fornbókasala sem berst í bökkum. Privatboligen hækkar greinilega eins og fasteignir Bjarkar. Mér þótti því mikill happafengur að ná í víkingaskipabók Valtýs fyrir fimmkall - sem eru 103 sleipar ískrónur og rétt rúmir 50 aurar að auki. Hver segir svo, að ekki sé hægt að verða forríkur á fornbókmenntum eða söguklámi?
Engan furðar að Valtýr brosi.
Ég keypti sömuleiðis eintak af pólitíska skemmtiritinu MuldVarpen frá 1947, þar sem neðanstæð teikning Bo Bojesens (1923-2006) birtist. Hún kallast Síðasti Kokkteillinn. 5 krónur -/ kostaði atómkokkteill sá. Það er líklega rík ástæða fyrir því að borgin við sundin heitir Kaupmannahöfn og að svikahrappar og kúlulánafurstar eru enn á þingi á Íslandi. Ég sel Moldvörpuna á 50.000 kall næst þegar ég er á Íslandi, því þar eru allir orðnir svo stríðsóðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Circus Zelenskyj is coming to Town
3.2.2023 | 10:27
CIRCUS ZELENSKYJ
and its pack of CLOWNS in REYKJAVIK
The 2023 GRAND-ICELAND Tour
SOON in a Circus Tent near you in Reykjavík
The Preliminary Program:
VLOD the Grand CLOWN of KüiyjiÏv: and his Famous "Now-I-am-a-Jew-Now-I am-not-Act". A Traditional Ukrainian Puppet show in four acts (Sponsored by LEGO).
Artist TÓTA BROWNIE SMOKEFJORD walks on a thin line with her Icelandic blondes while knitting a sweater for Vlod. No security lines, no facemask, no Tampax nor sanitary towels, no Brain - Nothing. Best illusion since H.C. Andersen´s The King´s new Cloths
KATE JAKOBS shows her NATO Ticks and Tacks (Noir act, might be canselled).
J. STOLTENBERG aka the fomous Nerwegian Wohr-clauwn Bellegrino, whom noboddy understaends, prissents to sentences in perfekt Engelish. Once in a lifetime act.
SLOPPY JOE BIDEN: US #1 Clown finds his own incriminating CIA-documents in the audience. An Incredible Act.
CAPTAIN CANNON, aka Donnie Trumpetti, grabs a pussy in thin air (sponsored by ICELANDAIR).
INTERMISSION:
German prima-Clown Olaf Scholz hands out the Hanswursts (Icelandic SS-sausages only, sponsored by Bill Clinton and his Blue and white stained Dress Circus).
EMMANUELLE DI MACCARONI, The Nice-Balladin of France, at least tries to make a pissaprocess during the break.
JOHN GUNN: A never-before-seen Act. Johnny Gunn, the famous Icelandic optical illusionist and main benefactor of the visit of Circus Zelenskijs Iceland-visit, makes an Icelandic coastguard plane vanish in thin air. Now it´s here, now it´s not. This act is sponsored by the Icelandic Coast-guard and the lost security of the Icelandic People).
VLAD PUTIN: Clown in Chief of the Bolshoi Circus in Moscow dies on stage, is revived, and dies again; Is then revived again - dies and is finally revived as a homosexual. A classic act.
ZIMMI Simmsalabim TORTOLA: World famous Icelandic laundryman makes your old Icelandic króna disappear into thin air and blames it all on the Jews. Then he eats raw minced meat on a traditional Icelandic hammock. Incredible act, never seen before.
CAPTAIN Independent-BEN and his crew and their ICELANDIC SPACE-SHOW us: How Icelandic tax-income vanishes into thin Space, Time and the Ukraine, while the famous Icelandic welfare state is a total goner.
Boris Johnson (BOJO the TORY CLOWN) and his Act of Exit. A tragicomic act in three stages.
Funfair-LOTTERY: Buy a lot.
Winner gets: The West-Fjords of Iceland. Only for the foreign guests. All income goes to Warfare in foreign lands.
ONLY IN ICELAND - WHERE ELSE?
The Land of Burning-hot Babes, Strong Idiots and Clean Water.
What do YOU think about Iceland? Do you think at all? Participate in the query.
Menning og listir | Breytt 9.2.2023 kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)