"Kirkjugarðurinn" á Forna-Reyni

Forni Reyni 1982 2 b

 

Það er alltaf vonsvekkjandi að rannsaka einhverjar fornminjar, sem svo reynast vera allt annað en það sem maður hélt að þær væru, eða jafnvel akkúrat ekki neitt.

Árið 1982 ákvað ég og Inga Lára Baldvinsdóttir, sem lært hafði fornleifafræði á Írlandi, að biðja um leyfi þjóðminjavarðar til rannsóknar á fyrirbæri sem allir héldu, og gengu út frá því vísu, að væri forn kirkjugarður við Reyni í Reynishverfi. Hinn mikli fræðaþulur og safnstjóri Þórður Tómasson í Skógum hafði eina kvöldstund farið með okkur, nokkur ungmennin, sem unnum við fornleifarannsóknina á Stóruborg undir Eyjafjöllum. Í töfrafullri birtu sumarsólarinnar síðla kvölds (sjá ljósmynd) sáum við hinn veglega hring í túninu að Forna Reyni, og það kveikti hjá okkur þá ákvörðun að grafa í þessa rúst og búa okkur til verkefni við að rannsaka forna kirkjurúst og kirkjugarð, sem við trúðum auðveldlega að væri þarna. Þess ber þó að geta að Þórður var manna mest í vafa um að þetta væri kirkjurúst og taldi þetta alveg eins geta hafa verið hestarétt.

Allt var sett í gang, tilskilin leyfi fengin og í september 1982 fórum við austur. Faðir Ingu Láru (og Páls ritstjóra), Baldvin heitinn Halldórsson leikari, var með í för sem verkamaður, en ég fékk í staðinn ókeypis kennslu í framburði, því Baldvini þótti ég óvenjulega illa máli farinn og þótti það alls endis óviðeigandi fyrir verðandi fornleifafræðing að tala eins og einhver fallbyssukjaftur frá Keflavík.

Ég lærði að hafa taum á tungu minni, þótt hún sé enn hvöss, en fornleifarnar voru ekki eins áhugaverðar og við Inga Lára höfðum vænst. Svart bættist ofan á grátt þegar við fréttum af andláti Kristjáns Eldjárns á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum. Við vorum harmi slegin, enda þekktum við öll Kristján meira eða minna. Baldvin hafði í áraraðir verið jólasveinn á Bessastöðum, þegar börnum diplómata vara boðið þangað til að hitta Sveinka, Eldjárn og frú Halldóru.

Forni Reyni 1982 18 b

 

Við grófum eftir öllum kúnstarinnar reglum og rannsóknin var líklegast ein sú hreinlegasta fyrr og síðar á Íslandi. Fljótleg kom í ljós að mannvistarlög væru lítilfjörleg. Þarna var hleðsla, sem mótaði hringinn, en engar grafir. Jarðlög undir sögulegum gjóskulögum voru að mestu óhreyfð niður á forsögulög gjóskulög. Einar H. Einarsson frá Skammadalshóli, sem var manna fróðastur um gjóskulög þarna eystra, og hafði hjálpað Sigurði Þórarinssyni við gjóskulagarannsóknir á svæðinu, greindi þarna tvö lög ofarlega, svarta gjósku úr Kötlu (K-1357) og blásvart, slitrótt lag úr Heklu (H-1341). Eftir mælingar og aðra skráningu ákváðum við að hætta framkvæmdum enda komið vonbrigðahljóð í alla.

Þar sem ég vildi vera 100% öruggur í minni sök, fór ég með samþykki meðverkamanna minna með rútu austur í Reynishverfi vikuna á eftir til að ganga fyllilega úr skugga um holu nokkra sem við grófum okkur niður á (sjá sniðteikningu hér fyrir neðan). Notuð var skurðgrafa til að athuga hvort grafir væri að finna í hringnum á Reyni. Svo reyndist ekki vera. Við síðari heimsókn mína í Mýrdalinn man bóndinn á Forna Reyni, Jón Sveinsson, eftir því, að þegar hann var ungur drengur á 4. áratug síðustu aldar, hafði kennari nokkur frá Laugarvatni grafið í hringinn til að leita þar fornleifa. Kennarinn hafði að sögn dáið skömmu síðar úr dularfullum sjúkdómi. Hluta af holu hans tæmdi ég og gróf hann greinilega djúpt, alveg niður fyrir 2-3000 ára gömul gjóskulög, og til að komast upp út holunni grópaði þessi dularfulli kennari oddmjó þrep í veggi holu sinnar. Ef einhver þekkir til kennara sem lék Indiana Jóns í frístundum sinum á milli 1930 og -40, væru allar upplýsingar vel þegnar? Kennarinn frá Laugarvatni hefur líklega verið álíka vonsvikinn og fornleifafræðingarnir sem síðar komu þarna og létu „rústirnar" í kvöldbirtunni lokka sig til stórra áforma. 

Forni Reynir snið

Hinn veglegi hringur í túninu á Forna Reyni er því ekki rúst hringlaga kirkjugarðs frá miðöldum. Líklegt tel ég að dældin og hringurinn sé að mestu leyti náttúrlegt fyrirbæri. Móbergslög, eða hellir þarna undir, hafa líklega hrunið og myndað dældina. Síðar hafa menn nýtt sér fyrirbærið og hlaðið torf ofan á hæstu kryppuna á hringnum. Afar líklegt er einnig að hringur þessi sé sá sami og Matthías Þórðarson þjóðminjavörður lét friða sem dómhring snemma á síðustu öld.

En fallegur er hringurinn vissulega á að líta og gæti hæglega hafa sett á stað þjóðsöguna um kirkjusmiðinn Finn á Reyni (sjá neðar), sem reyndar er fornnorrænt þjóðsagnaminni, sem þekkist í ýmsum gerðum á Norðurlöndunum og víðar.  

Ítarefni:

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1990.  Fornleifarannsókn á Forna Reyni í Mýrdal 1982. Rannsóknarskýrsla Århus 1990 (Innbundið ljósrit).

 _____

Kirkjusmiðurinn á Reyni 

Einu sinni bjó maður nokkur á Reyni í Mýrdal; átti hann að byggja þar kirkju, en varð naumt fyrir með timburaðdrætti til kirkjunnar; var komið að slætti, en engir smiðir fengnir svo hann tók að ugga að sér að kirkjunni yrði komið upp fyrir veturinn. Einn dag var hann að reika út um tún í þungu skapi. Þá kom maður til hans og bauð honum að smíða fyrir hann kirkjuna. Skyldi bóndi segja honum nafn hans áður en smíðinni væri lokið, en að öðrum kosti skyldi bóndi láta af hendi við hann einkason sinn á sjötta ári. Þessu keyptu þeir; tók aðkomumaður til verka; skipti hann sér af engu nema smíðum sínum og var fáorður mjög enda vannst smíðin undarlega fljótt og sá bóndi að henni mundi lokið nálægt sláttulokum. Tók bóndi þá að ógleðjast mjög, en gat eigi að gjört.

Um haustið þegar kirkjan var nærri fullsmíðuð ráfaði bóndi út fyrir tún; lagðist hann þar fyrir utan í hól nokkrum. Heyrði hann þá kveðið í hólnum sem móðir kvæði við barn sitt, og var það þetta:

"Senn kemur hann Finnur faðir þinn frá Reyn með þinn litla leiksvein."

Var þetta kveðið upp aftur og aftur. Bóndi hresstist nú og gekk heim og til kirkju. Var smiðurinn þá búinn að telgja hina seinustu fjöl yfir altarinu og ætlaði að festa hana. Bóndi mælti: "Senn ertu þá búinn, Finnur minn." Við þessi orð varð smiðnum svo bilt við að hann felldi fjölina niður og hvarf; hefur hann ekki sést síðan.

* * *


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Takk fyrir fróðleikinn Fornleifur.  En Jón ,,heitinn" Sveinsson á Reyni er enn í fullu fjöri og við hestaheilsu.

Þórir Kjartansson, 7.11.2011 kl. 11:56

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér fyrir Þórir. Þetta var nú mjög neyðarlegt. Ekki er gott að deyða menn að óþörfu. Ég leiðrétti þetta strax og bið að heilsa Jóni. Ég taldi mig hafa lesið minningargrein, en það hlýtur að hafa verið einhver annar Jón. Best er líklegast að vera ekki að "heita" menn.

FORNLEIFUR, 7.11.2011 kl. 12:51

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Nota ég tækifærið til að þakka Jóni aftur fyrir að vera svo vingjarnlegur að leyfa okkur að rannsaka hjá honum hringinn hér forðum.

FORNLEIFUR, 7.11.2011 kl. 12:53

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég skil alls ekki þetta tal um að þessi hringur sé kirkjugarður. Það er undarleg kenning. Hitt, að þetta sé dómhringur af einhverju tagi sýnist líklegra og gæti verið frá tíma hinna ýmsu héraðsþinga á þjóðveldisöld. Ekki þarf að búast við miklum fornleifum ef sú er raunin. En hringurinn virðist merkilegur.

Vilhjálmur Eyþórsson, 7.11.2011 kl. 17:35

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvað hefði þessi kirkjugarður átt að hafa verið gamall ef rétt hefði reynst?

Er ekki tiltölulega fátítt að finna grafreiti eldri en 10.-12 öld?

Kirkjurgarðar eru dulmagnaðir staðir fyrir mér og ég finn oft hjá mér lngun til að vita meira um líf og örlög fólks sem skráð er á máðum og fornum steinum. Ráfaði mikið um garðinn við Staðafell í dölum, sem er í algerri niðurníðslu (gamli garðurinn við kirkjuna).

Þar eru steinar með ártölum 17. og 18. öld, listilega skreyttir margir, en í slæmri hrörnun. Margir eru þar yfirgrónir, svo ekki er hægt að skoða. Þarna eru stundum margir í gröf og harmleikir miklir að baki.

Annar staður sem ég er forvitinn um er stæði kirkjunnar og prestsetursins á Ísafirði, sem er í hólnum að baki minnismerki sjómanna við sjúkrahúsið. Þar var að hluta sögusvið Píslarsögu Jóns Þumals.  Saga sem stendur mér nærri, enda fæddur þarna á Ísafirði örfáum fetum frá.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2011 kl. 22:37

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Jón Steinar, þú nefnir þarna tvo mjög áhugaverða staði, sem með tíð og tíma verða rannsakaðir betur. Mér er kunnugt um að Fornleifavernd Ríkisins hafi haft augastað á legsteinum og varðveisluáformum með þá, en ég veit ekki hvað hefur komið út úr því starfi og hef ekkert fundið á vefsíðu stofnunarinnar. Fornminjavörður Vesturlands er vafalaust búinn að skrásetja merkilega og læsilega steina í sínu umdæmi. Vonandi les hann þetta og bregst við.

Píslarsögu Jóns Þumals þekki ég ekki og man ekki eftir því að hafa lesið. Hvar hefur hún verið gefin út?

Hvað varðar grafreiti frá 11.-12. öld, er hægt að segja, að æ fleiri fornir kirkjugarðar finnist við fornleifarannsóknir, eftir að bændur og aðrir framkvæmdaaðilar hafa orðið betri til að greina frá beinafundum á jörðum sínum.

Hvað varðar aldur kirkju á Reyni, þá bjuggumst við fornleifafræðingarnir við því að þarna sem við grófum hefði kirkjan staðið á fyrri hluta miðalda, þar til hún var flutt á þann stað sem hún er nú á. Flutning á kirkjustæði hefur maður svo sem séð úr öðrum fornleifarannsóknum. Ugglaust hefur kirkjustæðið á Reyni verið þar sem það er nú, allt frá því að kirkja var fyrst reist á Reyni.

Vilhjálmur, hringlaga kirkjugarðar þekkjast á Íslandi og í fjölda annarra landa. Þeir eru þó engin afgerandi vísbending um áhrif frá Bretlandseyjum eða "keltnesk" áhrif, eins og sumir kalla það og sést hefur í röksemdafærslum ýmissa kollega minna.  

FORNLEIFUR, 8.11.2011 kl. 04:41

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Píslasagan var gefin út af AB á sínum tíma með formála Sigurðar Norðdal að mig minnir.  Þetta var málsvörn Sr. Jóns Magnússonar, sem lét brenna feðgana Jóna Jónssyni á Ísafirði, sem var að mig minnir önnur galdrabrennan á Íslandi eftir Trékyllisvík. Ég er viss um að þú kannast við ömurlega útfærslu þessarar sögu frá Hrafni Gunnlaugssyni í myndinni Myrkrarhöfðinginn, sem raunar á lítið sem ekkert skylt við raunverulega atburði.

Ég skrifaði raunar handrit upp úr þessu og sótti um styrk hjá kvikmyndasjóði mörgum árum á undan honum, en merkilegt nokk, þá var hann talinn hafa betri sögu að segja.  Þetta er stórmerkileg heimild þessi saga, en hana skrifaði Jón sem málsvörn eftir að Dóttir/systir feðganna stefndi honum fyrir ofsóknir, en hann vildi endilega fá hana brennda síðar.

Honum tókst að drepa eða svæla þetta fólk af jörð sinni Kirkjubóli og dó þar háaldraður á illa fengnu óðali, sem ég held að teljist til kirkjujarða í dag eins og annað vafasamt í eignasafni kirkjunnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 05:28

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 05:32

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er sagt í þessum hlekk að hann hafi veikst ókennilegum sjúkdómi. (geðbilun) sem mér finnst nokkuð óljóst. Hans fyrsta brauð var í Hrútafirði og þar var hann leystur frá störfum vegna sinnuleysis, sem stafaði líklega af þunglyndi, sem ekki var óalgengt. Um svipað leyti deyr presturinn á Eyri við Skutulsfjörð og var hann settur þar og pússaður saman við ekkjuna sem var miklu eldri en hann. Hún átti hinsvegar gjafvaxta dóttur sem Jón yngri var skotinn í, en Jón Eldri pabbi hans var meðhjálpari í kirkjunni.

Ég held að tilviljanir, þunglyndi og ekki sýst ástsýki Sérans út í fósturdótturina hafi hrint ósköpunum af stað. Árinu áður hafði Þorleifur Kortson forframaður í þýskalandi blásið til fyrstu galdrabrennu á landinu og það er nokkuð víst að um fátt hefur meira verið rætt á Eyri. Þessi hustería í bland við afbrýðisemi og þunglyndi velti svo boltanum af stað. Þorleifur Kurtson var þarna og því nærtækt að setja upp leikrit og móðursýki sem ekki var aftur snúið með. Ekki er heldur ólíklegt að Jón hafi haft auga á jörð þeirra feðga, því hann bjó við ömurlegan kost þarna á eyrinni. Það er allavega sjaldnast ein skyring á svona brjálæði en hverjar sem þær eru, þá eru þær ósköp mannlegar. En samanlagðar geta þær orðið til skelfilegra atburða eins og raun reyndist.

Þetta barst svo yfir á Barðaströnd skömmu síðar þar sem Sr. Páll í Selárdal brendi ekki færri en 9 fyrir móðursjúka eiginkonu sína og auðgaðist svo auðvitað af jörðum um leið.

Mér hefur alltaf fundist öll greining þessara atburða helst til yfirborðskennd og einum of auðvelt að segja að það hafi bara verið geðveiki sem olli án frekari eftirmála. Það er billeg fræðimennska.  Túlkun Hrafns er svo gersamlega út í hött og einmitt á þessum grunnu geðveikisnótum og skömm að spyrða þessa mynd ans við þennan harmleik yfirleytt.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 05:58

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Allavega vitum við hvar kirkjan stóð og prestsetrið, þar sem þessir sögulegu atburðir áttu sér stað og einnig vitum við hvar feðgarnir voru brenndir og hvar Sr. Jón endaði daga sína. Ekkert hefur verið gert til að rannsaka þessa staði né halda þessari sögu á lofti, sem er svo þarft að gera. Galdrabrennur eiga sér enn stað í dag þótt með öðru formi sé. 

Ég held að þessu tímabili og atburðum hafi lítið verið sinnt. Ástæðan er kannski ákveðin skömm og ég held að kirkjan sjálf sé ekkert alltof hrifin af að vekja upp slíka drauga úr sögunni. Nóg hafa þeir að kveða niður nú að mnnsta kosti. En þetta er sagan og það þýðir ekki að afneita henni. Það er vísasta leiðin til að hún endurtaki sig.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 06:06

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fyrirgefðu skrifræpuna, en ég gæti skrifað miklu ítarlegar um þetta enda sökkti ég mér niður í þetta á ákveðnu tímabili og las allt sem tönn á festi í tengslum við þetta.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 06:09

12 Smámynd: FORNLEIFUR

Jón Steinar, þakka þér fyrir þessar upplýsingar.

Var móðursýki virkilega líka landlæg á þessum tíma? Hefur þú lesið þér til um HPD?

Hver er annars fórnalambið nú, Jón? Hann Vilhjálmur Örn er víst með eitthvað um nútíma galdrabrennur í dag http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1203416/

FORNLEIFUR, 8.11.2011 kl. 07:19

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er ekki verið að brenna á báða bóga í þessu tilfelli Villi?  Mér sýnist kirkjan komin í smear campaig tvö í þessu máli grundað á gervivísindum FMSF, sem fleiri geistlegar stofnanir hafa nýtt sér við svipaðar aðstæður undanfarin misseri.

Ég trúi því tæplega að Ólafur hafi verið flekklaus í þessu efni. Málið er of víðtækt til þess. Ekki nema að þetta sé áratuga samsæri kokkað upp án sýnilegs markmiðs.

Ég held að Vilhjálmur yrði sammála um að þessi herferð kirkjunnar eigi margt skylt með helfararafneitun. 

Einhver móðursýki og athyglissýki má vera innanum og í bland, en það vegur ekki þungt í þessu máli held ég.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 07:47

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars eru margar kenningar til um orsakavalda í galdrafárinu. Oskynjanir af völdum myglusveppa, veirusýkingar og fleira. Það getur verið hluti af þessu en skýrir tæplega global massahysteríu, þótt hún sé smitandi. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og ef yfirvaldið gengur á undan, þá er víst að auðtrúa fjöldinn fylgi, ekki síst vegna þess að enginn vill vera á skjön við meinstrímið þegar líf manna er í húfi. 

Fólk þarf ekki annað en að hlusta á draugasögu eða horfa á draugamynd til að eiga vikulangt við svefnlausar nætur af völdum ímyndunaraflsins. Jafnvel sjá eitthvað í skuggaskotum sem ekki er þar. 

Ég held ég eigi Píslarsöguna einhverstaðar í fórum mínum. Ég gæti sent þér hana ef ég finn hana. Það væri mér bara ánægjan ein. 

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 07:55

15 Smámynd: FORNLEIFUR

Jón Steinar, hann Vilhjálmur veit ekkert í sinn haus. En mér þykir nú lítil ástæða að líkja Helförinni við það sem Ólafur biskup hefur tekið sér fyrir hendur. Vona ég að meint fórnarlömb hans álíti sig ekki hafa lent í helför. Það væri nú eins og að skjóta spørfugla með kanónum (skyde spurve med kononer), eins og frændur okkar Danir segja stundum. 

FORNLEIFUR, 8.11.2011 kl. 07:58

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég átti nú bara við mentalítetið. Annað er varla sambærilegt.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 08:21

17 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Því má ekki gleyma að margir, trúlega flestir þeirra „galdramanna“ og kvenna sem voru brenndir víða um Evrópu, aðallega á 17. öld voru í raun „sekir“. Í kjölfar siðaskiptanna kom mikið los á trúarhugmyndir margra og alls konar kukl breiddist út og var víða stofnað í skúmaskotum. Mjög margir, þó alls ekki allir þeirra sem lentu á bálinu voru því vafalaust „sekir“ í þessum skilningi. Annars minnir galdrafárið æ meira á ofstækið sem nú er sívaxandi undir formerkjum „pólitískrar rétthugsunar“, ekki síst öll steypan um „kynferðislega misnotkun“. Þar, eins og í galdrafárinu eru áreiðanlega allmargir sekir, en hinir eru áreiðanlega jafnmargir eða fleiri, sem sáralítið eða alls ekkert hafa brotið af sér.

Vilhjálmur Eyþórsson, 8.11.2011 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband