Brotakennd fornleifafræði í nýrri bók

Brot frá Gásum

Nýlega pantaði ég bókina Upp á yfirborðið: Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði, greinasafn sem einkafyrirtækið Fornleifastofnun Íslands gaf út fyrr á þessu ári. Höfundarnir eru margir og greinarnar í bókinni eru líka afar misjafnar. En eftir að hafa lesið bókina fær maður þá tilfinningu, að þeir sem að henni standa haldi, og trúi jafnvel, að Fornleifastofnun Íslands sé vagga fornleifafræðinnar á Íslandi í dag, hvorki meira né minna. Ég get ekki staðfest þá uppblásnu sjálfsímynd útgefenda bókarinnar, og hef þegar hnotið um margar villur og meinlokur í bókinni og nefni hér nokkrar til að byrja með.

Gasir 1Gasir 2

Framhlið og bakhlið leirkersbrotsins frá Gásum. Brotið er ekki stórt. Það er alltaf ljótt og leiðinlegt þegar sentímetrastikan verður stærri en gripurinn á ljósmyndum.

Í grein eftir prófessor í fornleifafræði við HÍ í fornleifafræði, sagnfræðinginn Orra Vésteinsson og aðra, sem kallast 'Efniviður Íslandsögunnar' (bls. 71-93) er m.a. fjallað um hinn forna verslunarstað  Gása í Eyjafirði. Því er haldið fram að þar hafi fundist brot úr svo kölluðu Albarello leirkeri frá 14 öld úr majolicu, og að brotið sé hollenskt (sjá bls. 82). Þetta vakti strax furðu mína, þar sem ég hef mikla þekkingu á leirkerum miðalda úr námi mínu, og sérstaka þekkingu á hollenskri keramik, og kannaðist ekki við neitt þessu líkt úr Niðurlöndum. Ég sá að Orri og meðhöfundar hans halda þessu fram, þó svo að þýsk samstarfskona þeirra úr rannsóknunum, Natascha Mehler, sem skrifaði um brotið í skýrslu um rannsóknina árið 2003 hafi aðeins að velta því fyrir sér sem möguleika, að brotið væri mjög snemmbúinni gerð af majolicu frá Hollandi, en hún sló engu föstu andstætt því sem prófessor Orri gerir nú. 

Ég bar í síðustu viku þessa þessa yfirlýsingu sagnfræðingsins Orra Vésteinssonar og meðhöfunda hans undir sérfræðinga í Hollandi, meðal annarra dr. Sebastiaan Ostkamp sem skrifaði þá grein sem vitnað var í í skýrslu þýska fornleifafræðingsins á Gásum, og sömuleiðis í prófessor Jerzy Gawronski í Amsterdam. Þeir og aðrir eru sammála um að brotið frá Gásum sé ekki úr hollenskri Albarello krukku frá 14. öld. og telur Ostkamp að brotið sér líkast til franskt og staðfesti það persónulega skoðun mína.

Upp á yfirborðið

Ljósmynd úr Upp á yfirborðið. Engu er líkara en að kambarnir hafi skemmst á Þjóminjasafninu síðan 1994. En "skemmdirnar" eru vegna vegna slælegrar fótósjoppunar.

Átt við ljósmyndir úr ritum annarra

Bókin er full af fallegum myndum frá starfi Fornleifastofnunar Íslands, en það er óhæfa og stuldur þegar menn taka mynd eftir einn færasta ljósmyndara landsins og breyta henni svo vömm er af. Myndin er af haugfé úr kumlinu í Vatnsdal í Patreksfirði og birtist fyrst í grein eftir mig í bókinni Gersemar og Þarfaþing (1994) sem Þjóðminjasafnið gaf út.  Ég raðaði meira að segja gripunum upp fyrir myndatökuna. Í Upp á yfirborðið hefur ljósmyndin verið "photoshoppuð", svörtum bakgrunninum skipt út, þannig að að kambarnir í haugfénu virðast hafa eyðilagst síðan myndin birtist við grein mína árið 1994. Þessi mynd er einmitt við grein eftir Orra Vésteinsson sagnfræðing. Eru slík vinnubrögð sæmandi prófessor í HÍ? Að sjálfsögðu ekki. Þetta er ekkert annað en fúsk, alveg eins og þegar menn segjast hafa fundið eitthvað frá 14. öld, sem þeir vita ekkert um.

Gersemar
Ljósmynd úr grein eftir ritstjóra Fornleifs í bókinni Gersemar og Þarfaþing (1994). Ljósm. Ívar Brynjólfsson/Þjóðminjasafn Íslands.

 

Tilvitnanafúsk og tilgátuþjófnaður

Það undrar mig dálítið að mér hafi ekki verið send bókin án þess að ég þyrfti að borga fyrir hana, þar sem ríkulega er vitnað í fræðigreinar eftir mig um Stöng í Þjórsárdal. En það er vitnað rangt í og aðeins í elstu rit mín, sem virðist vera venjan hjá Fornleifastofnun Íslands og Orra Vésteinssyni. Í yfirliti yfir aldursgreiningar í íslenskri fornleifafræði er vitnar í grein frá 2009 eftir hóp jarðfræðinga, fornvistfræðinga með sagnfræðinginn Orra Vésteinsson sér til reiðar. Í greininn stæra þeir sig af því að hafa uppgötvað að Þjórsárdalur hafi ekki farið í eyði í miklu eldgosi í Heklu árið 1104, eins og íslenskri jarðfræðingar halda enn, og jafnvel ekki fyrr en um 1300. Þessi mikla uppgötvun er reyndar ekki ný af nálinni, og var m.a. sett fram af mér árið 1983 og síðar. Hér  í kafla sem ég kalla Skítleg vinnubrögð í fornleifadeild HÍ benti ég á aðferðir Orra Vésteinssonar, sem hann endurtekur í bókinni Upp á yfirborðið.

Orri
Orri Vésteinsson

Árið 2009 voru Orri og meðhöfundar hans að greininni um endalok byggðar í Þjórsárdal í Arctic Anthropology minntir á rangtúlkun og vöntun á heimildum um rannsóknir mínar í Þjórsárdal. Dr. Susan Kaplan ritstjóri ritsins Arctic Anthropology sýndi sóma sinn í að svara kvörtun minni, en Orri og vinir hans sem vitnuðu rangt í rit mín með dylgjum hef ég enn ekki heyrt frá. Enga afsökunarbeiðni hef ég séð. Orri endurtekur nú þessa ófínu aðferðafræði sína í villuriðinni myndabók fyrirtækis sem hann stofnaði og vinnur af og til fyrir með prófessorsstöðu sinni hjá HÍ.

Mér sýnaast jafnvel að tilvitnanavinnubrögð Orra Vésteinssonar séu hreinlega vítaverð í samanburði við "glæp" Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar gegn Halldórseignafélaginu. Ætli Frau Kress myndir æsa sig við Orra, ef ég bæði hana um það?

Yfirlýsingagleði

Glannaleg yfirlýsingagleði fornleifafræðinga og nema sem vinna fyrir Fornleifastofnun Íslands eru greinilega ekki mikið öðruvísi en það sem oft hefur sést í íslenskri fornleifafræði á síðari árum, þar sem við höfum t.d. heyrt um dularfullar grænlenskar konur austur á landi, sem hurfu eins fljótt og þær komu. Við höfum haft fræðimann í heimsókn sem hefur gerst læknir og lagt Egil Skallagrímsson inn með Paget-sjúkdóminn. Svo kom fílamaðurinn við á Skriðuklaustri, en þar voru menn líka að leika sér með lásbogaörvarodd sem var holur að innan, sem er víst séríslensk nýjung. Byggð papa var hér þegar á 6. öld, en fornleifafræðingar hafa bara ekki grafið nógu djúpt segja jú sumir, en sumir kunna heldur ekki að lesa úr C-14 greiningum. Allt eru þetta auðvitað tilgátur, en þessu er slengt út sem alhæfingum í 19 fréttum Sjónvarps. Þessi lausmælgi og yfirlýsingagleði er óvirðing við fornleifafræðina. Að mínu mati tengist þetta m.a. lélegri menntun fornleifafræðinga, en sumir þessara glanna í greininni kenna reyndar fornleifafræði við Háskóla Íslands. Vona ég að nemar þeirra varist vítin.

Ítarefni:

Ostkamp, Sebastiaan 2009: Archaïsche majolica uit de veertiendeeeuwse Nederlanden. Tinglazuur plavuizen en vaatwerk, en hun verwantschap met gebrandschilderd glas.  V o r m e n  u i t  v u u r, N r . 2 0 8, bls. 20-42.

Ostkamp, Sebastiaan 2001: Veertiende-eeuws tinglazuur aardewerk uit de Nederlanden. Rotterdam Papers 11, [Commissie Van Advies Inzake Archeologisch Onderzoek Binnen het Ressort Rotterdam, onder red. von D. Kicken, A. M. Koldewej, J. T. ter Molen], bls. 282-291.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband