"Miklu betri en Silvo"
16.12.2012 | 14:00
Sagði eitt vinur minn, þegar ég greindi honum frá því að hinn merki silfursjóður sem fannst á Miðhúsum við Egilsstaði árið 1980, hefði fundist óáfallinn og skínandi fagur í jörðu. Hann átti þar við gæði jarðvegsins, sem hlaut að valda þessum frábæru varðveisluskilyrðum. Þessi færsla fjallar um jarðvegssýni sem tekin voru á Miðhúsum, en sem voru aldrei rannsökuð.
Það er reyndar með einsdæmum að silfur finnist varðveitt á þann hátt sem silfrið á Miðhúsum gerði. Dr. Kristján Eldjárn velti varðveislunni mikið fyrir sér í viðtali sem hann átti við finnanda árið 1980 og tók upp á segulband. Hann spyr finnendur margoft um varðveislu silfursins. Þór Magnússon minntist einnig á þann mikla gljáa sem sjóðurinn hafði, í vettvangsskýrslu sinni frá 1980 (sjá hér) og síðar. Þeir ákváðu þó ekki að athuga það neitt nánar.
Snemma árs 1994 hafði ég fyrir hönd Þjóðminjasafnsins samband við hjónin á Miðhúsum og bað þau um að senda mér jarðvegssýni frá fundarstaðnum. Þau fékk ég aldrei. Hins vegar sendu þau dýrabein sem þau fundu einnig árið 1980, en sem þau höfðu ekki látið Eldjárn eða Þór Magnússon vita um. Í meðfylgjandi bréfi létu þau í té alls kyns upplýsingar, en fæstar af þeim hafði ég beðið um.
Ritari Þjóðminjaráðs greindi rangt frá
Ég bað margsinnis um að jarðvegssýni yrðu tekin í tengslum við fyrirskipaða rannsókn menntamálaráðuneytis á sjóðnum 199-95. Síðast í bréfi til þjóðminjaráðs dagsettu 14. apríl 1995. En í kjölfar þess var mér tjáð að ráðið ætlaði að fresta umfjöllun um það efni þangað til niðurstöður höfðu borist úr efnagreiningu á silfrinu í Kaupmannahöfn. Lilja Árnadóttir ritari nefndarinnar undirritaði bréfið sem ég fékk frá nefndinni.
Þessi upplýsing frá Þjóðminjaráði var reyndar haugalygi. Annað hvort vissu ráðsmeðlimir betur, eða Lilja hefur ekki greint þeim réttilega frá því sem gerst hafði.
Lilja Árnadóttir hafði nefnilega þegar þann 15.11. 1994 beðið Guðrúnu Kristinsdóttur safvörð á Egilsstöðum, um að taka sýni af jarðvegi. Safnvörðurinn gerði það í tveggja stiga frosti sama dag. Guðrún Kristinsdóttir á Safnastofnun Austurlands tók jarðvegssýni og sendi þau og skýrslu dags. 15. nóvember 1994 til Reykjavíkur (sjá hér) til Helga Þorlákssonar sagnfræðings og Lilju Árnadóttur starfsmanns Þjóðminjasafns og Þjóðminjaráðs sem sjá áttu um að rannsaka silfursjóðinn.
Afar furðulegt rannsóknarferli
Þótt fyrirskipað hefði verið að allir þættir varðandi fund silfursjóðsins yrðu rannsakaðir og birtir, er nú ljóst að aðeins var það birt sem henta þurfti.
Farið hafði fram taka jarðvegssýna á Miðhúsum þann 15. nóvember 1994, þótt ekki mætti greina mér frá því í apríl 1995. Sú jarðvegstaka var fyrirskipuð af Helga Þorlákssyni og Lilju Árnadóttur, sem í hlutverki ritara Þjóðminjaráðs laug því að mér, að ráðið hefði ekki tekið afstöðu til slíkrar rannsóknar.
Þau tvö ákváðu að jarðvegssýnin skyldu tekin og rituðu það á minnisblaði merkt Trúnaðarmál dags. 18. nóvember 1994. Lilja hafði kannski ekki sagt Þjóðminjaráði frá þeirri "rannsókn" sem hún fékk gerða 15. nóvember, og að hún og prófessor Helgi Þorláksson fyrirskipuðu að slíka sýnatöku ætti að framkvæma, í skjali sem er dagsett þremur dögum eftir að sýnatakan átti sér í raun stað. Stórfurðulegt!
Í lokaskýrslu Helga og Lilju dagsettri í júní 1994, er hins vegar greint frá því að Lilja Árnadóttir hafi farið með jarðvegssýni frá Miðhúsum til Kaupmannahafnar og því haldið fram, að Lars Jørgensen fornleifafræðingur, sem hélt um rannsóknir í Kaupmannahöfn, hafi ekki talið ástæðu til að láta rannsaka jarðveginn. Sú staðhæfing er í meira lagi athyglisvert í ljósi þess, að ekkert er minnst á þessi jarðvegssýni í skýrslu danska Þjóðminjasafnsins eða í gögnum um sendingu gripa til Kaupmannahafnar. Þegar ég hef spurt Lars Jørgensen um málið man hann ekki eftir þeim jarðvegssýnum sem Lilja segist hafa tekið með sér til Kaupmannahafnar.
Lilja upplýstir síðar (1995), þá sem ritari Þjóðminjaráðs, að ekki væri búið að taka ákvörðun um sýnatöku á jarðvegi, sem eru náttúrulega enn meiri ósannindi ef hún hefur farið með þau til Kaupmannahafnar. Enn síðar upplýsti hún og Helgi Þorláksson að jarðvegssýni hafi verið boðin Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn. Það kemur ekkert fram um jarðvegssýni í bréfi Lilja og Helga til Olaf Olsens fyrrverandi prófessors m.m. dags. 17. október. Heldur ekki í svari Lars Jørgensens dags. 10. nóvember 1994, né í bréfi hans frá 17.11. 1994; heldur ekki í fréttatilkynningu frá Þjóðminjasafni dags. 28. nóvember 1994, né í fylgibréfi Þórs Magnússonar með sérstöku innsigli Þjóðminjasafnsins dags. 1. desember 1994 (sjá þessi bréf hér). Ekkert kemur fram í yfirlýsingu Lars Jørgensens frá 17.11. 1994, um að hann hyggi á jarðvegsrannsóknir, enda höfðu þær ekki verið nefndar í bréfum til hans eða Þjóðminjasafns Íslands.
Hvernig má þetta vera? Svona er reyndar allt ferlið við rannsóknina á silfursjóðnum hjá þeim sem ekki sættu sig við niðurstöðu breska sérfræðings James Graham-Campbells, sem dró uppruna sjóðsins í vafa.
Vart er neinum steinum um það að velta að Lilja Árnadóttir var algerlega óhæf til að sinna þessum rannsóknum. Mörg þau skjöl sem hér birtast í fyrsta sinna, sýna það svo ekki er um neitt að villast.
Helgi og Lilja
Hvað kom Hriflungum eiginlega sýnatakan við?
Þann 15. nóvember 1994 hringdi Lilja í GK [Guðrúnu Kristinsdóttur] v/sýnatöku + Sigurð St. 1Kg. Sama dag átti hún samtal /v Eddu húsfreyju á Miðhúsum og skrifar Lilja gott á eftir upplýsingu um það í minnispunktum sínum sem ég hef undir höndum (sjá hér). Minnispunktar þessir hafa ekki verið birtir þótt slíkt gæti talist eðlilegt miðað við yfirlýsingar þess ráðs sem Lilja var ritari hjá.
Sigurður St. mun vera enginn annar en Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur, barnabarn Jónasar frá Hriflu.
Ekki er mér ljóst, af hverju Sigurður Steinþórsson er nefndur í sambandi við 1 kg. af jarðvegi frá Miðhúsum, og ekki er vitað hvort hann hafi greint þann jarðveg. Aðkoma hans að sýnatökunni er því algjörlega á huldu og út í hött, því Þjóðminjaráð bað ekki um hana. Ekkert kemur heldur fram í opinberum skýrslum um þátt hans í rannsóknum á jarðvegi frá Miðhúsum. En greinilega fékk hann 1 kg. af þessu undraefni eða var sérlegur ráðgjafi Lilju Árnadóttur.
Sama Lilja og skrifaði minnispunkta sína 15.11. 1994 og ákvað með Helga Þorlákssyni þann 18. nóvember 1994, að sýni skyldu tekin (í framtíð), vildi ekki tjá sig um jarðvegssýnin sem ritari þjóðminjaráðs, þegar ég spurði hvort hægt væri að fá þau tekin í fyrirspurn í apríl 1995. Verður það að sæta furðu. Hvaða tiltæki var það hjá Lilju, og ef til vill þjóðminjaráði, að ljúga að mér. Kannski getur heiðursmaðurinn Sturla Böðvarsson kastað ljósi á það, en hann var formaður Þjóðminjaráðs.
Ef það hefði ekki verið vegna þess að starfsmaður Þjóðminjasafnsins hefði skilið gögn um töku sýna á jarðvegi á Miðhúsum eftir á glámbekk, þá hefðum við líklega aldrei fengið að vita, að þann 18.11. 1994 hafi Lilja Árnadóttir á fundi með Helga Þorlákssyni á Neshaganum talið honum trú um að eitthvað ætti að gera, sem þegar hafði verið gert.
Ljóst er að Helgi Þorláksson og sér í lagi Lilja Árnadóttir sátu á gögnum og upplýsingum um rannsóknir sínar á silfursjóðnum. Þau fóru ekki að óskum Menntamálaráðuneytis og Þjóðminjaráðs.
Nú er minnsta mál að efnagreina jarðveginn og aldrei meiri ástæða
Þjóðminjasafni ber nú at taka fram sýnin sem tekin voru af jarðvegi á Miðhúsum til að ganga úr skugga um hvort eitthvað sé í þessum jarðvegi sem getur skilað silfri skínandi hreinu og glansandi í hendur finnanda og fornleifafræðinga 1000 árum eftir að það hefur verið grafið í jörðu. Það gleymdist árið 1994-95.
Ég er búinn að hafa samband við Þjóðminjasafnið til að fá upplýst hvernig sýnin eru varðveitt og hvernig þau eru skráð. Enn hafa ekki borist svör. Ef veigrað verður við svörum verður málið sent il Menntamálaráðuneytis. Sigurður Steinsþórsson er hugsanlega einnig með sýni, sem hann getur vonandi gert grein fyrir hið fyrsta. Eða kannski var hann bara hulduráðgjafi.
Einnig væri vit í því að fá gerða kolefnisaldursgreiningu á þeim beinum sem Miðhúsahjónin sendu allt í einu á Þjóðminjasafnið árið 1994 í stað þess að láta Kristján Eldjárn og Þór Magnússon hafa þau árið 1980. Þau fundust í sömu lögum og silfrið.
Miðhúsajarðveg og bein verður að rannsaka. Annað væri siðlaust, sérstaklega í ljósi þess að fremsti sérfræðingur Breta í efnagreiningu á fornu silfri hefur látið í ljós vafaum skýrslu Þjóðminjasafns Dana, en einnig vegna þess að umsjónamaður dönsku rannsóknarinnar lét í ljósi þá fyrifrakgefnu skoðun, að: Iøvrigt mener vi, at projektet er spændende - selvom årsagen er yderst beklagelig og Det vil som sagt være yderst beklageligt for skandinavisk arkæologi, hvis Prof. Graham-Campbel antagelser er korrekte"; En kemst að lokum að þeirri niðurstöðu, að einn gripanna hafi verið frá því eftir iðnbyltingu og skrifaði þá: Dette sidste forhold bevirker desværre, at der sandsynligvis er indblandet en tidsmæssigt yngre håndværksteknologi i skattefundet. Det må anses for sandsynligt at den nuvaerende sammensætning af skattefundet ikke er den oprindelige, svo notuð séu orð Lars Jørgensens, sem greinilega þótti allt þetta mál mjög miður fyrir Þjóðminjasafn Íslands.
Jú, þessi síðustu orð danska "sérfræðingsins" gefa jafnvel ástæðu til að silfrið hafi verið baðað í SILVO-fægilegi - eða kannski var það Goddard? Hvernig skýra menn annars gljáann og varðveisluna - nema þá með efnagreiningu á jarðveginum?
Ég hef áður greint frá því hvernig Helgi og Lilja greindu rangt frá rannsóknarferlinu í skýrslu sinni sem var gerð opinber í júni 1995 (sjá hér).
Meira um Silfurmálið síðar, því er ekki lokið.
Meginflokkur: Forngripir | Aukaflokkur: Fornminjar | Breytt 18.7.2020 kl. 10:53 | Facebook
Athugasemdir
Athyglisvert. Fyrir lélega dönskukunnáttu mína væri gaman að fá þýðingu með þessu.
Er hægt að aldursgreina silfur með sama hætti og t.d. lífrænar leifar?
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.12.2012 kl. 15:14
Þetta hlýtur að kalla á svör t.d. frá Sigurði Steinþórssyni. Hefur þú haft samband við hann?
Sigurður Þórðarson, 21.12.2012 kl. 11:43
Þetta væri nú skemmtilegt efni í heimildarmynd. Eitthvað svo lýsandimfyrir samtryggingu meðalmennskunnar í íslensku embættismannakerfi og algert ábyrgðarleysi þess.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2013 kl. 17:58
Ein spurning plagar mig . Ef þetta er eitthvað svondl og svínarí, hvaðan kom þá silfrið?
Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2013 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.