Sólin skín úr norðri

Horft til norðurs

 

Kristín Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunar Íslands auglýsir enn ruglingsleg áform sín um að reisa suðræna villu ofan á órannsakaðar rústir á Stöng í Þjórsárdal. Nú síðast í fréttum RÚV.

Greinilegt er að Kristín, sem allra mest ber ábyrgð á hinum alræmda skrípaleik kringum Þorláksbúð, er til í enn eina vitleysuna. Síðan Kristín fékk upphaflega hina æringjalegu hugdettu sína (og annarra) um að nota 700.000.000 króna í endurbætur á Stöng (sjá hér, hér og hér) hefur verið haldin hugmyndasamkeppni um skýli yfir rústina. 

Vinningstillagan fyrir nýtt skýli á Stöng er algjörlega út í hött og er miklu verri lausn en það skýli sem nú er yfir Stöng. Vinningstillagan var svo forkastanlega vitlaus, að ein tillögumynd þeirra sem unnu samkeppnina sýnir sýn að Stöng, þar sem sólin skín úr heiði eins og á póstkorti - en úr norðri.

Á engu stigi mála hefur Kristín Sigurðardóttir haft samband við mig, en ég hef rannsakað rústir á Stöng meira en nokkur annar. Þessi vinnubrögð hjá forstöðumanni Minjastofnunar eru forkastanleg og sína dómgreindarleysi og einhvern persónulegan brest, jafnvel einhvers persónulegt hatur í minn garð. Forstöðumaður Minjastofnunar, sem á að fylgja lögum um minjavernd, brýtur þau hér vegna þess grafhýsis sem hana dreymir um að reisa yfir vinnubrögð sín.

Í fréttinni á RÚV í gær upplýsir Kristín Sigurðardóttir, að rústin að Stöng sé að eyðileggjast. Hún talar um skýlið sem nú er yfir Stöng sem það eina sem byggt hefur verið. Það er eins og margt annað í máli Kristínar eintóm þvæla.

Sjáið hins vegar myndirnar með fréttinni á RÚV. Rústin hefur greinilega aldrei verið í betra ásigkomulagi. Þakka ber það viðgerðum sem gerðar voru á 10. áratug síðustu aldar, sem aldrei var lokið almennilega við m.a. vegna skussaháttar Kristínar Sigurðardóttur þegar hún var yfir Fornleifavernd Ríkisins. Nú sé ég hins vegar að búið er að klæða rústina í framhaldi af því sem gert var árin 1994-96, en ekki var það gert í samvinnu við þá sem það verk unnu.

Kristín talar um vandann af hrossum í rústinni. Þetta er ekki nýtt vandamál og var t.d. greint frá því hér, í greinargerð sem ég sendi Fornleifavernd Ríkisins um árið um fyrri viðgerðir á Stöng. Á þeirri stofnum, sem nú hefur verið lögð niður, var Kristín yfirmaður, og svaraði þegar hún stjórnaði þar aldrei athugasemdum mínum um ruglingsleg áform sín á Stöng, að mér forspurðum. Þurfti ég að fá Úrskurðarnefnd um Upplýsingamál til að hjálpa henni við að upplýsa um málið  (Sjá hér).

 Pallur hylur rústir kirkju á Stöng

Kristín Sigurðardóttir er mjög hrifin af sólarpöllum og útsýnisþökum. Undir draumasólarpalli hennar, austan skálarústarinnar yngstu, mun kirkjan og kirkjugarðurinn á Stöng hverfa og flata þakið yfir rústinni mun aldrei bera þann mikla snjóþunga sem í sumum árum getur orðið Þjórsárdal. Hvernig á að leiða vatn frá slíku þaki,  sem er á stærð við körfuboltavöll?

Kristín greindi ekki frá því í fréttunum í gær, að nýja suðræna villan og pallarnir, sem alls ekki henta sem vörn fyrir rústina vegna hins mikla, flata þaks (sem mun ekki þola snjóþungann og regn, sem arkitektarnir gera augsýnilega ekki ráð fyrir), mun koma í veg fyrir frekari rannsóknir mín á kirkjurúst, kirkjugarði og smiðjurúst. Þessar rústir hef ég haft löngun til að ljúka rannsóknum mínum á. Nú kemur Kristín Sigurðardóttir endanlega í veg fyrir það með áformum um að reisa þetta glapræði ofan á rústirnar. Kristín Sigurðardóttir hefur alltaf ætlað sér að eyðileggja rannsóknaráform mín á Stöng og hefur vísvitandi greint rangt frá rannsóknarniðurstöðum þar á alls kyns skiltum sem hún hefur komið fyrir á Stöng.

Margar tillögur að skýlum fyrir Stöng í Þjórsárdal voru betri en sú sem hreppti 1. verðlaun í samkeppninni (sjá hér). 1. verðlaunin gætu hentað vel yfir rústir í S-Evrópu. Best þótti mér tillaga Arnars Birgis Ólafsson landslagsarkitekts, sem því miður er gerð mjög slæm skil í greinargerð samkeppninnar. Lokaverkefni Arnars í námi sem landslagsarkitekt í Kaupmannahöfn var frágangur rústa á Stöng og hönnun skýlis. Hann hafði fyrir því að hafa samband við þann aðila sem rannsakað hefur á Stöng í Þjórsárdal. Það hefur greinilega verið talið honum og tillögu hans til lasts. Hinir arkitektarnir sjá vart sólina fyrir sjálfum sér í sínum tillögum, ef hún skín þá ekki beint úr norðri eins og hjá þeim sem 1. verðlaun hrepptu. Meirihluti tillagnanna er vart gerlegur líkt og vinningsverkefnið.

Ætlar fornleifaráðuneyti Sigmundar Davíðs virkilega að setja peninga í óúthugsuð verkefni, þar sem lög eru brotin með því að byggja nýbyggingu ofan á órannsakaðar rústir, og þar sem nýbyggingin hylur rústir og kemur í veg fyrir rannsóknir?  Á ekki að hlusta á þá sem best þekkja til aðstæðna á Stöng áður en lagt er út í slík verkefni?

Ég vona að Sigmundur Davíð setji frekar fjármagn í rannsóknir á Stöng, svo mér takist að ljúka þar rannsóknum áður en Kristín Kristín Sigurðardóttir eða eftirmaður hennar fær svo að byggja grafhýsi sitt ofan á friðaðar minjar. 

En í landi, þar sem sólin skín úr norðri, er víst hægt að komast upp með hvaða vitleysu sem er. Ég er vonlítill um að tekið verði tillit til fornleifanna, þegar þjónkun við ferðamennskuna er talin áhugaverðara viðfangsefni en vitneskja um fornleifarnar. Einssýnt þykir mér því að Kristín Sigurðardóttir hafi, með því að halda fornleifafræðingum með Þjórsárdal sem sérsvið fyrir utan áform um úrbætur á Stöng, sett lokapunktinn yfir rannsóknum á Stöng með hjálp RÚV. 

Nú vona ég bara að Sigmundur Davíð stöðvi loftkastala Minjastofnunar og kynni sér málið, áður en fé verður dælt í hreina vitleysu. Það er of dýrt fyrir Íslendinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Átt þú þessar rústir ?

Már Elíson, 5.8.2013 kl. 12:46

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Nei, segi ég það Már Elísson?

Enginn hefur hins vegar rannsakað staðinn eins mikið og ég, og mér þykir ekki gott að vera sniðgenginn af opinberri stofnun þar sem starfsmenn hafa takmarkað vit á því sem þeir eru að gera, og trúa því jafnvel að sólin skíni úr norðri.

FORNLEIFUR, 5.8.2013 kl. 13:06

3 Smámynd: Már Elíson

Fyrst að "Stórval" Stefán frá Möðrudal, gat látið sólina vera yfir Esjunni á málverki sem hann seldi einhverjum menningar(fá)vitanum fyrir stórfé, þá gengur þessi glampi alveg yfir rústunum þínum á Stöng.

Fyrir utan einhvern vatnshalla (sem má leysa með rennum, er það ekki?) má nú færa

margt af þessum geymdu "fyrrum-alda-fornminjum" til nútímavegar fyrir okkur hin sem erum ekki alveg í forneskjunni eins og þú, er það ekki ?

P.S. Ég trúi því samt einhvern veginn að þessi Kristín sé hætt að elska þig.

P.S./ P.S. Elíson er með einu essi, takk.

Már Elíson, 5.8.2013 kl. 14:10

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Það er ekki laust við að Stefáns Möðrudals-heilkenni séu komin í íslenska fornleifafræði. Ef menn eru ekki að segjast hafa fundið fílamenn og Grænlendinga í rannsóknum sínum, þá sjá þeir sólina í norðri.

Fornleifavarslan á að fara eftir lögum. Ef menn vilja brjóta þau lög ber það með sér forneskjulegan og snubbóttan hugsunarhátt. Virðing fyrir minjum, en ekki gleri, stáli og steypu er nútímalegur hugsunarháttur. Eyðilegging fortíðararfsins er forneskja og aumingjaháttur.  Ef þú vilt taka þátt í eyðileggingu, þá lestu önnur blogg en þetta.

Nei, satt Elíson Kristín getur ekki verið yfir sig ástfanginn af fortíðinni, eða mér, og læt ég mér það í léttu rúmi liggja.

FORNLEIFUR, 5.8.2013 kl. 15:17

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Eins og venjulega vilja arkitektar láta myndir sínar líta vel út og gefa sér listrænt frelsi í auglýsingaskini. Sólin í norðri er tilkomumikil og sólstafir gefa myndinni biblíulegt yfirbragð þannig að mannvirkið líkist helst Örkinni hans Nóa. En hvaða öflugi ljósgjafi lýsir þá upp suðurhlið skálans? Skyldu tvær sólir vera á lofti á efri myndinni?

Emil Hannes Valgeirsson, 5.8.2013 kl. 16:03

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Emil, á miðöldum sáust oft tvær sólir á lofti, börn fæddust með hala og hárdúsk úr eyrum. Kálfar fæddust með þrjú höfuð. Við erum líklega komin aftur á sams konar tíma. Tímahjólið hefur snúist einn hring og jörðin er orðin flöt, eins og þakið á skýli Minjastofnunar.

Hin myndin í verðlaunaverkefninu, sem er tekin frá austri, sýnir einnig sól á lofti í vestri, þó miklu hærra en hún sést á sumarkvöldum í Þjórsárdal. En greinilegt er að myndin er tekin að morgni þegar sólin skín úr suðaustri.

Er ekki svona sólar- og gloríueffektar í PhotoShop?

FORNLEIFUR, 5.8.2013 kl. 23:54

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Þess ber að geta, að form skálans, sem verðlaunatillagan gerir ráð fyrir, fylgir ekki landslaginu á Stangarhólnum. Ef byggingin á að líta út eins og stungið er upp á, leiðir það til mjög mikil jarðrasks.

Ljóst er að stór fornleifarannsókn verður að fara fram, áður en þessi bygging verður að veruleika.

Til upplýsingar, þá er ekki klöpp undir rústum á Stöng, heldur gljúpur jarðvegur úr vikri og mold. Enginn sandur er þarna, þótt Kristín Sig. haldi því fram. Mjög erfitt kostnaðarsamt er að reisa hús af þeirri gerð sem Minjastofnun hefur hug á.

FORNLEIFUR, 5.8.2013 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband