Altaristaflan í Miklaholti
12.11.2014 | 07:15
Flestir Íslendingar kannast við Vor Frelsers Kirke, Kirkju Frelsara Vors á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn. Sumir hafa jafnvel gengið upp í turnspíruna á henni, eins og ég gerði með föður mínu sumarið 1971. Maður gengur upp tröppur utan á turnspírunni. Síðan þá hef ég þjáðst af mikilli og ólæknandi lofthræðslu og dreymir stundum enn um það þegar ég þurfti að setjast niður á koparþrepin þegar einhverjir plássfrekir þýskir túristar og sænskar fyllibyttur gengu framhjá okkur utan á helv... spírunni.
Kirkja Frelsara Vors var reist á árunum 1682-1696 eftir teikningum norsks byggingarmeistara af hollenskum ættum. Hann hét Lamberts van Haven. Kirkjan var ekki upphaflega hugsuð með þann turn og turnspíru sem við þekkjum í dag. Spíran var fyrst vígð árið 1752 og var gerð eftir teikningum danska arkitektsins Lauritz de Thurah.
Vor Frelsers Kirke á 18. öld.
Kirkjan í lok 19. aldar.
Þegar skrifað var um kirkjuna í stórverkinu Danmarks Kirker í byrjun 7. áratugar síðustu aldar, kannaðist listfræðingurinn Jan Steensberg (1901-1971), sem um kirkjuna fjallaði, vitaskuld ekki við altaristöfluna í Miklaholtskirkju i Fáskrúðabakkasókn á Snæfellsnesi. Hefði hann gert það, hefði löng greinargerð hans um kirkjuna orðið öðruvísi en sú sem má lesa (sjá hér). Nú vitum við, hvernig turn kirkjunnar var, áður en hann var hækkaður til muna um 1740 og áður en spíran sem nú er kirkjunni var loks reist. Þetta var dæmigerð hollensk kirkja, líkust Nýju kirkju (Nieuwe Kerk) í den Haag í Hollandi, enda byggð af hinum hollenskættaða Norðmanni van Haven.
Lambert van Haven, byggingarmeistarinn.
Prestur gefur ljósmynd
Af einhverjum ástæðum mér ókunnugum kom séra Jónas Gíslason (1926-1998) með ljósmynd af altaristöflunni á Þjóðminjasafns Dana árið 1967 og gaf safninu. Jónas var þá prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn, en síðar var hann útnefndur prófessor í trúarbragðasögu við guðfræðideild Háskóla Íslands, og enn síðar vígslubiskup í Skálholti. Engar upplýsingar hafa Danir um þessa ljósmynd sem þeir fengu. Myndin varð hins vegar til þess að ég hóf dauðaleit af töflunni. Leitin stóð yfir í um það bil sólarhring. Ég fullvissaði mig um að taflan, sem ekki er nefnd í Kirkjum Íslands, væri heldur ekki á Þjóðminjasafni Íslands. Loks kom í ljós að hún hafði lengst af verið í kirkjunni eftir að hún fékk andlitslyftingu hjá Frank heitnum Ponzi listfræðingi fyrir mörgum árum síðan.
Mönnum þótti kirkjan í Miklaholti orðin mjög hrörleg á seinni hluta 20. aldar og var ákveðið að endurbyggja hana og enn var bætt við árið 1961. Fáskrúðabakkakirkja var sömuleiðis gerð að sóknarkirkju í stað Miklaholtskirkju. Það var gert þegar árið 1936. Ýmir gripir í gömlu kirkjunni fóru í aðrar kirkjur t.d. í nýju sóknarkirkjuna. Fáskrúðarbakkakirkju. En ekkert hefur farið á Þjóðminjasafn Íslands. Kurt Zier, Þjóðverji sem hafði verið í útlegð á Íslandi á stríðsárunum, og sem síðar hafði snúið aftur frá Þýskalandi til Íslands árið 1961 til að stýra Myndlista- og Handíðaskólanum Reykjavík, var fenginn til að mála nýja altaristöflu fyrir Miklaholtskirkju.
Gamla altaristaflan var hins vegar send til viðgerðar hjá Frank Ponzi og kostaði Guðríður heitin Magnúsdóttir, dóttir Magnúsar Sigurðssonar í Miklaholti það, en Magnús bjó í Miklaholti fram til 1939. Við jörðinni tók Valgeir Elíasson og kona hans Guðlaug Jónsdóttir. Núverandi ábúandi í Miklaholti, Gyða Valgeirsdóttir, sem séra Páll Ágúst Ólafsson benti mér á að hafa samband við, sagði mér hvar altaristaflan væri niður komin. Taflan kom aftur úr viðgerðinni og hefur síðan þá hangið yfir kirkjudyrum, þar sem fáir veita henni athygli, því aðeins er messað í kirkjunni einu sinnu á ári, á Nýársdag.
Afkáraleg altaritafla?
Myndin á altaristöflunni úr Miklaholti er líklega gerð árið 1728 líkt og fram kemur á töflunni, Hún er kannski ekki mikið listaverk, en í einfaldleika sínum er hún að mínu viti bæði falleg og einlæg.
Í kirknaskrá sinni skrifaði Matthías Þórðarson þetta árið 1911 er hann heimsótti kirkjuna: 7.VII.1911. Kirkjan orðin gamalleg og fúin, fremur lítilfjörlegt hús. Altaristafla afkáraleg, ofantekin, stendur frammi í horni. Umgjörðin með allmiklu verki, máluð með ýmsum litum. Myndin sjálf sýnir kirkju, fyrir framan er Kristur með flokk postula, Jóhannes skírari og ýmislegt fólk, sem flest baðar höndunum út í loptið. Fyrir ofan er letrað: „Johannes og Johannis Babtistæ Kirkia epter honum so køllud.“ Fyrir neðan myndina stendur á sjerstökum fleti: Hr. Peder Einersen: M.[:] Christin Siverdsda[a]tter. Ao 1728. "
Altaristöfluna gömlu í Miklaholti gaf séra Pétur Einarsson (1694-1778) sem alla tíð var prestur í Miklaholti. Hann fór utan eftir nám í Hólaskóla 1720. Árið eftir fékk hann brauð í Miklaholti og hefur líklega pantað þessa þessa töflu af Vor Frelsers Kirke og beðið um að nafn sitt og konu sinnar yrði sett á hana. Myndin er þó þess leg að ekki verður útilokað að íslenskur maður hafi gert hana, einhver nákvæmur naívisti, en þar verða þó aðeins vangaveltur.
Þegar efst á myndina er ritað að kirkjan fái nafn sitt eftir Jóhannesi og Jóhannesi skýrara er vitanlega átt við kirkjuna í Miklaholti sem taflan var gefin. Þar var kirkja allt frá því á miðöldum helguð Jóhannesi skírara.
Matthías Þórðarson greinir myndmál myndarinnar rangt. Þarna er margt að gerast. Skegglausi engillinn með geislabauginn er enginn annar en Gabríel, og fólk baðar út höndum því Biblían greinir frá því að allir menn, t.d. María mey og Zakarías hræddust Gabríel er þau sáu hann. Jesús og lærisveinarnir horfa á. Gabríel var boðunarengill þegar í Gyðingdómi. Einnig má greina á málverkinu mann með hjálm, sem snýr baki í okkur, en það er hundraðshöfðinginn Kornelíus. Honum birtist engillinn Gabríel líka.
Ef einhver fróður maður getur skýrt út fyrir mér, hvernig stóð á því að séra Jónas Gíslason fór með ljósmynd af altaristöflu frá Íslandi á Þjóðminjasafn Dana, væri mér mikil akkur í að fá upplýsingar um það. Ég held að hann hafi kannski leitað upplýsinga fyrir Frank Ponzi og að Frank hafi tekið myndina. Hef ég því haft samband við Tómas, son Franks Ponzi, sem var nokkurn veginn samtíma mér í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Taflan sem hafði staðið í friði og spekt yfir altari í Miklaholti síðan um 1728, var reyndar orðin hornkerling árið 1911. Hún er þó sannarlega þess virði að minnst sé á hana því hún leysir ráðgátu um byggingasögu einnar merkilegustu kirkju Kaupmannahafnar, borgar sem í eina tíð var höfuðborg Íslands. Í Vor Frelsers Kirke hangir til dæmis ljósahjálmur sem Íslandskaupmaðurinn Jacob Nielsen gaf árið 1695.
Ritið Fornleifi á fornleifur@mailme.dk ef þið hafið frekari upplýsingar um altaristöfluna í Miklaholtskirkju.
Meginflokkur: Forngripir | Aukaflokkar: Kirkjugripir, Málverk, Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:14 | Facebook
Athugasemdir
Þess ber að geta að listamaðurinn, Jørgen Drost, sem nefndur er á korti Þjóðminjasafns Dana með myndinni sem Jónas Gíslason færði safninu árið 1967, getur ekki hafa málað þessa töflu.
FORNLEIFUR, 12.11.2014 kl. 08:15
Smá leiðrétting. Vegna annars frábærraar umfjöllunar um gömlu altaristöfluna í Miklaholtskirkju vil ég leiðrétta nafnabrengl. Það var Guðríður Magnúsdóttir frá Miklaholti sem kostaði viðgerð altaristöflunar en ekki Guðrún. Guðríður var gift Róbert Abraham Ottósyni tónlistarfrömuði.
Katrín Eymundsdóttir (IP-tala skráð) 12.11.2014 kl. 11:46
Ekki væri óhuxandi að frændi minn, sr. Gísli Jónasson, kynni söguna af þessu. Alltént mætti reyna að hafa samband við hann en hann er viðræðugóður og fróður um ýmislegt og bjó þá ásamt foreldrum sínum í Kaupinhafn. Vel mætti vera að hann hafi orðið föður sínum samferða á safnið enda orðinn 15 ára þegar þetta var og frá þeim tíma muna ungir menn margt.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 12.11.2014 kl. 19:24
Þakka þér fyrir Katrín. Mér kann að hafa misheyrst það sem Gyða Valgeirsdóttir sagði mér. Ég man vel eftir Guðríði. Faðir minn seldi henni og manni hennar hunang, sem hann flutti inn. Ég kom á heimili þeirra sem barn. Ég leiðrétti þetta.
FORNLEIFUR, 12.11.2014 kl. 20:08
Þorvaldur S, ég var búinn að tala við Gísla prófast, hann man ekkert eftir þessu.
FORNLEIFUR, 12.11.2014 kl. 20:09
Sæll. Hér er altaristaflan í lit.
http://www.kirkjan.net/mynd/kirkjur/snaefprof/stadastadar/miklholts/miklholts4.jpg
Kv. Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 12.11.2014 kl. 22:42
Rauða Ljónið, 12.11.2014 kl. 22:43
Þakka þér Sigurjón, ég kannaðist við myndina en á Kirkjunetin eru svo stranga copyright reglur og óguðlegar, að ég þorði ekki að birta hana í færslunni. Myndin er eftir einn að aðstandendum Kirkjunetsins Þorstein H. Ingibergsson.
FORNLEIFUR, 13.11.2014 kl. 04:43
En falleg er hún og mér sýnist að vinna Frank Ponzi hafi skilað sér vel. Mig vantar nú bara betri litmynd af altaristöflunni.
FORNLEIFUR, 13.11.2014 kl. 04:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.