Listin að ljúga að ferðamönnum

img_0004_1267736.jpg

Fornleifar og fornleifarannsóknir á Íslandi eru á síðari árum orðið eitt aðalefnið á gúrkutíð fjölmiðlanna. Það er auðvitað gott að fræðigrein og fræðsla sé almenningi ánægja og jafnvel skemmtun, en þegar skemmtunin er orðið að hálfgerðum sirkus og fræðin eru virt að vettugi, þá verða menn að staldra við og segja skoðun sína.

Stundum rekst maður á svo mikið rugl um fornleifar á Íslandi í fjölmiðlum, að mann vantar orð til að lýsa því. Við höfum séð þetta vel sumarið 2015, þegar rúst skála sem rannsökuð hefur verið í Lækjargötu er síendurtekið sögð vera frá landnámi, þótt fornleifafræðingurinn sem rannsakar rústina segi af mikilli varúð, að hún telji hana vera "frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi". Á þessu er mikill munur, en greinilega geta blaðamenn og fréttasnápar gúrkuvertíðarinnar ekki gert greinarmun á því.

Nýlega sá ég grein eftir írskan mann, Neil McMahon, sem hefur búið á Íslandi í tæp 40 ár og m.a. starfað sem kennari, leiðsögumaður og nú sem enskufréttamaður. Hann ritar um fornleifar á Íslandi í ókeypis-blaðinu Iceland Magazine sem dreift er til útlendinga á Íslandi og er það einnig aðgengilegt á netinu. 

McMahon lýsir m.a. Þjóðveldisbæjarskömminni í Þjórsárdal á þennan hátt:

Stöng Commonwealth Farm in South Iceland
Here at Stöng is a fine reconstruction of one of over 20 houses in this once-fertile valley, destroyed in a massive eruption of the volcano Hekla in 1104. Several houses were excavated by a team of Nordic archaeologists in 1939 and the reconstruction of the best-preserved one in 1974 was part of the nation’s celebration of eleven hundred years of settlement. To commemorate Iceland’s adoption of Christianity in 1000 AD, a turf-clad stave church was erected nearby in the year 2000.(Sjá hér)

2010-08-09-07110-03_iceland_thjodveldibaer2.jpg

Ljósmynd Gernot Keller. Aldrei hefur verið hringlaga kirkjugarðsgerði kringum kirkjuna á Stöng.

Hér eru lesendur leiddir í þann vafasama sannleika, að Þjóðveldisbærinn sé á sama stað og Stöng og að eyðing Þjórsárdals hafi átt sér stað í Heklugosi árið 1104. En er það nema von, að frásagnaglaður Íri komist ekki að því sanna eftir hartnær 40 ár á Íslandi, þegar þeir sem standa að þjóðveldisbænum hella eintómum lygum út í upplýsingaefni á netinu.

Á vefsíðu Þjóðveldisbæjarins er upplýst að:

"The Commonwealth farm in Þjórsárdalur is one of Iceland's best kept secrets. The farmhouse, built on the site of one of the manor farms of the Age of Settlement, is constructed as experts thought it would have been." (Sjá hér).

Hér er ekki upplýst að Þjóðveldisbærinn sé byggður nærri þeim stað þar sem rústir Skeljastaða voru. Fólk heldur því auðveldlega að endurgerðin hafi verið reist ofan á rúst Stangar.  Þar að auki er því haldið fram að Þjóðveldisbærinn, sem aldrei verður neitt annað en hugarfóstur eins þjóðernisrómantísks myndlistakennara, Harðar heitins Ágústssonar, sé afrakstur vinnu margra sérfræðinga.

1_2_b.jpgFrá rannsókn á kirkjurúst og smiðjurúst undir henni. Myndin efst er frá rannsókn kirkjurústarinnar á Stöng. Ljósmyndir Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Af hverju allar þessar rangfærslur og veruleikafirring?

Ef nokkuð er, þá er alls ekki hlustað á sérfræðinga. Það er ekki verið að segja fólki að inni í veggjum Þjóðveldisbæjarins sé steinsteyptir veggir og að í allt of háreystri þekjunni sé nælondúkur sem var vinsæll á 8. áratugnum. Þjóðveldisbærinn er því miður ekkert annað en hugarfóstur sjúklegrar menningarminnimáttarkenndar sumra Íslendinga, sem endar í því að menn fara að byggja "fornleifar" til að eiga eitthvað "fínt" eins og "hinar þjóðirnar".

1bb.jpg

Mynd þessa tók höfundur árið 1992 þegar verið var að gera við austurgafl þjóðveldisbæjarins. Hænsnanet og gólflagningarefni höfðu menn ekki á Þjóðveldisöld. En á þennan hátt var nú leyst vandamál ævintýrasýnar Harðar Ágústssonar listmálara, sem fékk að stjórna byggingu fornhúss á 1100 ára afmæli búsetu í landinu. Á 8. áratug 20. aldar hófst auglýsingastofuþjóðernisstefna Íslendinga, og ef eitthvað er hefur hún enn aukist eftir Hrunadansinn árið 2008.

plaststong_1267732.jpg

Þór Magnússon horfir eins og Plastgaukur á "forn" vinnubrögð við gerð Þjóðveldisbæjarins.

Sumir menn sem standa í slíku braski eru að mínu mati jafnvel að reyna að reisa minnisvarða um sjálfa sig. Menn eru greinilega enn að. Reistur var hryllingur sá í Skálholti sem kallaður er Þorláksbúð og menn dreymir um miðaldadómkirkjur og leikmyndar-Selfoss. Íslendingar sakna greinilega Disneylandsins.  Þeir gleyma hins vegar að spyrja sig, hvort þetta sé það sem ferðamennirnir hafi áhuga á að sjá. Kannski eru ferðamenn einmitt að flýja heim plasts og yfirborðsmennsku í heimabyggð sinni og vonast eftir einfaldleika hreinleikans á Íslandi.

Kirkjan sem reist var við þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, á ekkert skylt við kirkjurúst þá sem ég rannsakaði ásamt samstarfsfólki mínu að Stöng. Ekkert samstarf var haft við mig, fornleifafræðinginn sem fann og rannsakaði kirkjurústina, varðandi endurreisn og gerð kirkjunnar.  Stjórn Þjóðveldisbæjarins hefur aldrei viljað leiðrétta rangfærslu þær sem þeir flytja í upplýsingaefni og það er enn verið að vega að heiðri mínum sem sérfræðings um fornleifar á  Stöng og í Þjórsárdal, með því að nefna ekki niðurstöður rannsókna minna - að þegja þær i hel.  Það er gömul íslensk aðferð, sem oft tekst, en ekki til lengdar. Svik komast upp um síðir.

Hvað varðar Stöng, þá ætti ekki að vera vandamál fyrir þá sem sjá um ferðamannaiðnaðinn í Þjóðveldisbænum að sækja sér réttar niðurstöður um fornleifarannsóknir í Þjórsárdal. Nóg er að finna hér á Fornleifi.

steinsteypan_kaera.jpgFerðamönnum í Þjóðveldisbænum er ekki sagt frá þessu.

Þessi "eftirlíking" úr plasti og steinsteypu, sem falin er undir skinni síðbúinnar þjóðernisrómantíkur og menningarminnimáttarkenndar, er rekin í samvinnu við Þjóðminjasafnið. Og er því líklegast er ekki við aumingja fólkið í ferðamannaiðnaðinum í  Skeiða- og Gnúpverjahreppi að sakast.

Þjóðminjasafnið, samstarfsaðili um rekstur Þjóðveldisbæjarins, getur heldur ekki greint rétt frá endalokum byggðar í Þjórsárdal. Rangar upplýsingar eru um eyðingu byggðar í Þjórsárdal í sýningum safnsins, sem og á Sarpi, þegar lýst er forngripum úr Þjórsárdal. Er það nema von, að einhverjir asnist til að ljúga að ferðamönnum, þegar logið er að þeim af einni helstu menningarstofnun íslenska ríkisins?

Sjá einnig: Plastöldin í Þjórsárdal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband