Fornleifur í fjarðaleit

39_fornleifur_1282073.jpg

P.s. Leitinni er lokið - Myndin er tekin í Trékyllisvík:

Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, sem er manna fróðastur um Strandir, áleit til að byrja með  að myndin væri tekin á Ingólfsfirði (sjá hér). Hann hafði þó samband við Guðmund Jónsson fyrrv. hreppstjóra í Munaðarnesi, sem þekkir einnig vel til á þessum slóðum, sérstaklega frá sjó, þó hann sé nú fluttur á Grundarfjörð. Guðmundur, taldi víst að myndin væri tekin í Trékyllisvík og tekur Haukur Jóhannesson heils hugar undir það. Haukur ritaði mér eftir að þessi grein hafði birst: "Ég er búinn að bera myndina undir Guðmund á Munaðarnesi. Hann segir að myndin sé tekin á Trékyllisvík og það er rétt þegar betur er að gáð. Skipið hefur verið undir bökkunum innan við Krossnes og það sést yfir Melavíkina og upp á Eyrarháls. Haugsfjall er á sínum stað og Eyrarfjall en hægra megin sést í Urðanesið undan Urðartindi milli Melavíkur og Norðurfjarðar.    Þetta er alveg örugg greining."

Fornleifur tekur einnig undir þetta og þakkar hér með Hauki og Guðmundi fyrir alla hjálpina í leit að hinu sanna um myndina af Camoens.

Sannast sagna hefur Fornleifur ekki minnstu hugmynd um hvar þessi mynd (sem er skuggamynd/glerskyggna) er tekin. Fornleifur verður nú að viðurkenna vanmátt sinn og biðja um hjálp lesenda sinna.

Um 1885-87, þegar þessari mynd, einni af elstu myndaskyggnum frá Íslandi, er lýst í sölulista fyrir skuggamyndasyrpu sem kölluð var England to Iceland, hét skipið Camoens. Skrifað stendur að skipið sé við Akureyri. Myndin er ugglaust tekin af tveimur Bretum, Burnett og Trevelyan, sem ferðuðust saman til Íslands til að stunda stangaveiðar og til að ljósmynda land og þjóð.

Ég kannast þó ekki við þessi fjöll úr sjóndeildarhring Akureyrar. Ég hef haft samband við frótt fólk á Seyðisfirði sem ekki telur myndina tekna þar. Ágæt hjón, sjómaður og bókavörður á Seyðisfirði, telja myndina ekki vera tekna á Austfjörðum. Þau létu sér detta Ólafsfjörð í hug. Þúsundþjalasmiður á Siglufirði telur myndina ekki vera frá Siglufirði og heldur ekki frá Ísafirði, þó svo að hann telji meira en mögulegt að hún geti verið frá Austfjörðum eða Patreksfirði. Ég hef ekki siglt nóg í fjörðum landsins til að þekkja fjöll. Mér finnst fjöllin í fjörðum alltaf breytast, eftir því hvað klukkan er og líka eftir árstímum. Þessi mynd er þó líklegast tekin í byrjun sumars.

Myndirnar í syrpunni England to Iceland, af þekktum stöðum snúa rétt þegar miðinn með titlinum England to Iceland og númerið snýr að manni. Hugsanlegt er þó, að þessari mynd hafi verið snúið rangt miðað við miðana. Ég set hana hér einnig fyrir neðan á röngunni ef vera skyldi að það sé réttan.

Vænt þætti mér ef fjarðafræðingar, sjómenn, bændur, prestar, Ómar Ragnarsson, ómagar og jafnvel þingmenn segðu mér, hvar þeir telji að myndin sé tekin. Allir sem þykjast vita meira en Fornleifur mega skrifa á athugasemdasvæði hans í dag.

93_rufielnorf.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Vilhjálmur og takk fyrir allan skemmtilega fróðleikinn sem þú ert svo duglegur að miðla til okkar.

Ekki geri ég mér grein fyrir hvar þessi mynd er tekin, en ef þetta er skipið Camoens og myndin tekin 1885 - 87, eru möguleikarnir margir.

Á þeim tíma, a.m.k. árið 1887,sigldi þetta skip með Íslendinga vestur um haf, til Kanada. Það ár sigldu tvö af systkinum langafa konu minnar með Cameons þangað vestur og settust fyrst að í Norður-Dakota en fluttu sig síðan vestur til Alberta í Kanada.

Ef þetta er sama skip og ef myndin hefur verið tekin vorið eða sumarið 1887, er líklegt að viðkomustaðir þess hafi verið margir, allt frá Vestfjörðum norður um land til Austfjarða. Langafasystkini konu minnar fóru um borð í skipið á Borðeyri við Hrútafjörð.

Þessi mynd er þó varla tekin þar, nema um veralega brenglun vegna aðdráttarlinsu sé að ræða,en varla hafa slíkar linsur verið komnar á markað á þeim tíma!

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 22.5.2016 kl. 15:04

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Gunnar, myndin var tekin fyrr, eða 1882-83. Og rétt er að Camoens var lengi í siglingum með Vesturfara til Skotlands, sem svo sigldu þaðan með stærri skipum til Ameríku.

Frank Ponzi skrifaði um þetta skip í bók sinni Ísland fyrir aldamót, sem út kom árið 1995. Ponzi hafði fundið margar myndir Burnetts og Trevelyans (þ.e. pappírsmyndir) og dagbókarbrot í ljósriti. Þess vegna veit ég að þetta er líklega mynd þeirra, því þeir fóru eitthvað með skipinu um landið. Út frá dagbókarbrotum þeirra hefur Ponzi tekið til staði sem skipið kom við á árið 1887, en þá var Burnett einn á ferð, því Trevelyan lést þegar árið 1883. 

Árið 1887 kom Camoens við í Stykkishólmi, Ísafirði, Borðeyri, Sauðárkróki, Oddeyri, Húsavík, Vopnafirði, Eskifirði, Djúpavogi, Vestmannaeyjum, Reykjavík, skv. Burnett, en hann hefur ef til vill ekki nefnt alla áfangastaðina. Skipinu gæti einnig hafa verið siglt inn á fjörð í vari undan stormi og svo hefur mynd var tekin, án þess að nokkur búseta væri á staðnum. Þess vegna var ég nokkuð veikur fyrir Siglufirði.

Burnett tók myndir á Húnaflóa, sem ekki eru með í bók Ponzis, frekar en skuggamyndin hér fyrir ofan. Hins vegar eru aðrar myndir í syrpunni sem sýna að Burnett hafi útvegað myndir í þessa syrpu, England to Iceland, sem einnig var kölluð From England to Iceland eða síðar Visit to Iceland.

En ólíklegt þykir mér að þetta sé Borðeyri, enda aðdráttarlinsur ekki til á þessum tíma eins og þú ályktar einnig réttilega.

FORNLEIFUR, 22.5.2016 kl. 15:31

3 identicon

Heill og sæll,

Mér sýnist myndin vera tekin fyrir utan kjaftinn á Ingólfsfirði á Ströndum. Fjallið til hægri er Haugsfjall með söðli í. Eyrarfjall í miðið með miklum snjó og lengst til hægri er Seljanesmúli og undir honum er bærinn Seljanes.

Það er hafís í kring en eitt árið skemmdist Camoens í hafís á Trékyllisvík og var siglt upp undir Krossnes á fast til að gera við skipið og er til ljósmynd af því þar - tekin ofan af bökkunum innan við Krossnes.

kv.

Haukur Jóhannesson

Haukur Jóhannesson (IP-tala skráð) 22.5.2016 kl. 16:38

4 identicon

Heill og sæll,

Mér sýnist myndin vera tekin fyrir utan kjaftinn á Ingólfsfirði á Ströndum. Fjallið til hægri er Haugsfjall með söðli í. Eyrarfjall í miðið með miklum snjó og lengst til hægri er Seljanesmúli og undir honum er bærinn Seljanes.

Það er hafís í kring en eitt árið skemmdist Camoens í hafís á Trékyllisvík og var siglt upp undir Krossnes á fast til að gera við skipið og er til ljósmynd af því þar - tekin ofan af bökkunum innan við Krossnes.

Klettarnir næst eru svonefndir Garðstöðvarklettar neðan við bæinn á Munaðarnesi.

Skipið getur hafa verið að bíða eftir lagi til að fara vestur um vegna hafíss og farið grunnleiðina sem svo er nefnd. Hún var oft farin þegar mikill hafís var. Þá þurfti góðan leiðsögumann og sá besti var Jón Valgeir Hermannsson bóndi í Skjaldabjarnarvík (1879-1883) og eru til skrifaðar frásagnir af því.

kv.

Haukur

Haukur Jóhannesson (IP-tala skráð) 22.5.2016 kl. 17:48

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Þar mælir manna kunnugastur á þessum slóðum. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, I presume.

Ef ég þekki einhvern stað á Ströndum, þá er það þetta svæði, og eitt sinn hef ég farið með einum af bræðrunum í Munaðarnesi út í Bjarnarfjörð og að Dröngum og víðar. En ég er fyrir löngu búinn að gleyma fjöllunum. Ég tók einhverjar myndir í túrnum.

Nú verð ég að skoða málið.

FORNLEIFUR, 22.5.2016 kl. 18:21

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Ófeigsfjörð vildi ég sagt hafa í stað Bjarnarfjarðar.

FORNLEIFUR, 22.5.2016 kl. 18:23

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Jón Steinar Ragnarsson, minn maður á Sigló skrifar rétt í þessu:

Ég held að Haukur hafi lög að mæla. Ingólfsfjörður kom upp í huga mér og því nefndi ég austanverðar Strandir. Vissi bara ekki að menn hafi verið að þvælast þarna á þessum tíma og setti Djúpuvík og Ingólfsfjörð í samhengi við síldarvinnsluna, sem kom miklu síðar. Landslagið stemmir vel. Þarna eru frekar lágreist fjöll.

Kær kveðja.

Jón Steinar.

Betra að hafa rétt eftir Jóni. Hann skrifaði vissulega Strandir í gær.

FORNLEIFUR, 22.5.2016 kl. 18:26

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér innilega fyrir Haukur, hér er myndin sem þú nefndir

5780ea1645851307319ce06b40e0b308.jpg

FORNLEIFUR, 22.5.2016 kl. 19:36

9 Smámynd: FORNLEIFUR

Veit einhver hvar Guðmundur Jónsson hreppstjóri í Munaðarnesi býr í dag? Hann hlýtur að þekkja þessa fjöru og fjallasýn manna best.

FORNLEIFUR, 22.5.2016 kl. 20:11

10 identicon

Heill og sæll,

Guðmundur G. Jónsson síðasti bóndinn á Munaðarnesi býr nú í Grundarfirði.

kv.

Haukur

Haukur Jóhannesson (IP-tala skráð) 22.5.2016 kl. 20:51

11 Smámynd: FORNLEIFUR

 Bestu þakkir Haukur. Ég efast ekki um álit þitt, en maður getur ekki séð þetta svo vel á Google. Fjöllin umbreytast svo þegar maður réttir úr fluginu niður við flæðarmál. Þess vegna ætla ég líka að reyna að hafa samband við Guðmund og athuga hvort hann geti staðfest staðsetningu myndarinnar. Sérstaklega gaman var að fá upplýsingar um lóðsinn Jón Valgeir Hermannsson. Veistu ef til vill hvar maður getur lesið meira um hann?

FORNLEIFUR, 22.5.2016 kl. 21:07

12 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hér er slatti af loftmyndum af svæðin frá Djúpuvík að Reykjaneshyrnu og þaðan yfir í Ingólfsfjörð http://www.photo.is/08/07/4/index_22.html

Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.5.2016 kl. 21:41

13 identicon

Mer synist myndin tekin fra Kljastrønd i Eyjafirdi. 

Oskar Frimannsson (IP-tala skráð) 22.5.2016 kl. 22:22

14 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Óskar, ef það er rétt - verður það að vera satt! Nú hafa mér fróðari menn talað um Ingólfsfjörð og Trékyllisvík. Ég er næsta sannfærður um Trékyllisvík. En ég skal líta á Kljáströndina.

FORNLEIFUR, 24.5.2016 kl. 09:18

15 Smámynd: FORNLEIFUR

Ég sé hvert þú ert að fara Óskar. Ef þetta er fyrir utan (sunnan við) Grenivík og litið til austurs, þá eru fjöllin nokkuð lík! En þá væri ekki fjara og klettar nær ljósmyndaranum en skipið. Þá væri þetta tekið úr vesturhluta fjarðarins frá Hauganesi, eða sunnar. En það kemur ekki til mála, því þaðan er fjallasýnin yfir Grenivík allt önnur og myndin var ekki tekin með aðdráttarlinsu, sem engar voru til á þessum tíma.

Hefur þú betri rök til að fullvissa mig með? Þangað til hefur Trékyllisvík vinninginn í þessari skemmtilegu "keppni" um fjörðinn á myndinni.

FORNLEIFUR, 24.5.2016 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband