Mansal

2153595_c.jpg

Íslenskar konur hafa heldur mikið farið kaupum og sölum á hinum síðustu og verstu tímum. Sér í lagi undirgefnar konur í þjóðbúningum í upphlut með silkisvuntu og skúfhúfu. Þannig var þeim pakkað inn áður en kvenréttindi voru viðurkennd að nafninu til. Erlendis lýsa menn ólmir eftir íslenskum konum af þessari klassísku gerð og sækjast eftir postulínshúð þeirra og brothættri sál og greiða mætavel fyrir.

1qorlj.jpg

Nýverið voru tvær slíkar boðnar upp í Danmörku og vildu augsýnilega margir eignast þær. Ég hefði hugsanlega keypt eina þeirra, sem meira var í varið, hefði ég heyrt tímanlega af uppboðinu. En hún hlaut hæsta boð einhvers dansks dóna, sem mun þukla hana og stöðum sem engan getur dreymt um nema einhverri forsetaefnisómynd í Bandaríkjunum.

Ég er sér í lagi að tala um konuna sem ber nafnnúmerið 12164 undir iljum sér, en við gætum bara kallað hana Guðríði. Hún var upphaflega framleidd í Konunglegu Postulínsverksmiðjunni í Kaupmannahöfn á fyrsta fjórðungi 20. aldar.

Hún var hluti af röð þjóðbúningastytta sem danski listamaðurinn Carl Martin-Hansen (1877-1941) hannaði fyrir Kgl. Porcelæn á árunum 1906-1925 og sem báru heitið Danske Nationaldagter. Þetta voru styttur af fólki í þjóðbúningum dansks Konungsríkisins, dönskum, færeyskum, íslenskum og grænlenskum. Bjó Carl Martin-Hansen til myndir af fullorðnu fólki jafnt sem börnum, en ekki er þó vitað til þess að íslensk börn eða karlar hafi farið kaupum og sölum.  Stytturnar af fullorðna fólkinu voru jafnan 30-34 sm háar og vel gerðar. Einn hængur var þó á listaverkum þessum, sem fólki gafst færi á að prýða stássstofu(r) sína með. Andlitin voru svo að segja öll eins. Stytta af konu frá Amákri (Amager) var með sama andlitið og konan frá Íslandi og börnin voru öll með það sem Danir kalla ostefjæs, nema grænlensku börnin sem eru iðuleg hringlaga í fasi án þess að hægt sé að tengja það sérstaklega osti.

l3gnuqh.jpg

Fölsk kerling sem seld var á 10.700 krónur árið 2014.

Ef einhver á svona styttu á Íslandi,sem er ósvikin og ekta (því heyrt hef ég að þjóðbúningastyttur Martin-Hansens sé farið að falsa í Kína), þá hafa þær farið á allt að 10.700 krónur danskar. Það gerðist árið 2015 á Lauritz.com netuppboðsfyrirtækinu danska (sjá hér), þar sem oft hefur reynst mikill misbrestur á heiðarleika í sölumennskunni og kunnáttu starfsmanna á því sem þeir reyna að selja. Styttan sem seld var af þessu undarlega fyrirtæki á þessu uppsprengda verði hafði ekki einu sinni nauðsynlega stimpla og málaramerki konunglegu Postulínsverksmiðjunnar, máluninni á styttunni var sömuleiðis ábótavant miðað við styttu sem seld var fyrr á uppboði Bruun Rasmussen fyrir miklu lægra verð en sú var með alla nauðsynlega stimpla og merkingar.

Bið ég lesendur mína að taka eftir tímasetningunum á boðunum og hvenær menn bjóða á nákvæmlega sama tíma sólahrings, og hvernig mótframboð stangast á í tíma (sjá hér).

Spurningin sem gæti vaknað í hugum gagnrýninna manna er, hvort menn sem láta framleiða eftirlíkingar í Kína afhendi styttur til sölu hjá uppboðshúsum og láti mismunandi aðila, þ.e.a.s. vitorðsmenn sína, bjóða í hana til að hækka verðið og lokki þannig ginkeypta Íslendinga sem vilja hafa styttu af ömmu æsku sinnar uppi í hillu til að kaupa hana á hlægilega uppsprengdu verði. Í Danmörku er nefnilega mikið til af fólki sem gjarna selur ömmu sína. Á Íslandi eru aftur á móti til margir sem eiga skítnóg af peningum og vita jafnvel ekki aura sinna ráð.

l2umela.jpg

Lauritz.com stundar þá iðju að halda uppboð á netinu og er fyrirtækið misfrægt fyrir. Vefssíðan Kunstnyt.dk hefur vígt starfsemi sína því að koma upp um vanþekkingu og hugsanlega sviksemi uppboðsfyrirtækisins lauritz.com. Af nógu er greinilega að taka. Hér er t.d. dæmi starfsemi þeirra og aðstoðarmenn vefsíðunnar hafa t.d. fundið málara í París sem framleitt hefur fölsuð málverk fyrir uppboðsfyrirtækið. Lögreglan í Danmörku gerir svo að segja ekkert í svikamálum fyrirtækisins, enda vinna þar fábjánar fyrir það mesta. Danska Dagblaðið Berlingske Tidende skrifar gagnrýnar greinar um Lauritz en fólk heldur áfram að láta snuða sig og aðaleigandi fyrirtækisins keypti sér nýlega stóra vínhöll í Frakklandi áður en fyrirtækið sem einnig starfar á hinum Norðurlöndunum og á Spáni var skráð á verðbréfamarkaðnum í Kaupmannahöfn.

Varið ykkur landar sem kaupið sögu ykkar í postulíni. Konan í upphlutnum eftir Carl Martin-Hansen, er ekki öll þar sem hún er séð. Kaupið þið hana á 10.700 DKK, gætuð þið alveg eins verið að kaupa kerlingu sem er gul á húð undir farðanum og postulínsbrosinu og sem eldar chop suey í stað saltkjöts og bauna. Það þarf meðal annars að líta aðeins upp undir pilsfaldinn á henni til að sjá hvers kyns hún er. Skúfurinn kemur einnig upp um þá kínversku og balderingarnar á vestinu. Eðlilegt verð fyrir ekta styttu er 2-2500 DKK. og ekki krónu meir.

Tvær efstu myndirnar eru af ófalsaðri framsóknarmadömmu Konungslegu Postulínsverksmiðjunnar í Kaupmannahöfn, en hinar eru myndir af svikinni vöru.

l3_b.jpg

Kínverjar þekkja ekki balderingarnar á upphlut þegar þeir falsa íslenskar hefðarkonur og fá þeir greinilega lélegar ljósmyndir frá þeim sem panta verkið og sjá því ekki smáatriðin.

Hér má lesa færslu Fornleifs um aðra ömmu æskunnar sem óprúttið fólk lét búa til úr stolinni "hugmynd" og var það meira að segja verðlaunað fyrir. Þá kom makalaus athugasemd frá Gústafi Níelssyni fv. súludansstaðareiganda og Gretti íslenskra stjórnmála.

AMMA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband