Si fabula vera est

Nazi Boston

Fyrir ekki allmörgum dögum flutti Vera Illugadóttir ágætan pistil um nasista og nasisma í Bandaríkjunum. Því miður gleymdi Vera í umfjöllun sinni um hinn þýskættaða lassaróna Fritz Kuhn og fylgismenn hans mjög mikilvægu atriði í málflutningi sínum. Hún Vera gleymdi Kaþólsku Kirkjunni og sannarlega einnig öðrum  kirkjudeildum í Bandaríkjunum. Gyðingahatur og nasismi grasseraði einnig meðal þeirra og þá einna helst í hinni merku borg Boston. Írsk og skoskættaðir kaþólikkar í Boston aðhylltust margir öfgafullan nasisma, sem gekk helst út á að ofsækja gyðinga og berja börn gyðinga.

Það er sama hvað þið heyrið öfgaguðfræðinginn Jón Val Jensson halda fram, þá er kristni (næstum því sama hvaða deild sem við tölum um) rót gyðingahaturs í Evrópu - sem að lokum fæddi af sér kynþáttahatur 19. aldar og nasisma og fasisma í kaþólskum löndum (og einnig öðrum) á 20. öld. Það þýðir ekkert að benda á aðra sökudólga, til að mynda múslíma eða fljúgandi furðuhluti. Kirkjan var sökudólgur og það var syndgað!

Skömmu eftir að Vera flutti langan og góðan pistil sinn, þar sem hún gleymdi hatri meintra frænda Íslendinga, Íranna (sú ættfærsla er að mínu mati tölfræðileg skekkja starfsmanna Íslenskrar Erfðagreiningar), birtist á Times of Israel grein um hinn svæsna nasisma í Boston fyrir og eftir Síðari heimsstyrjöld. Gyðingahatrið var mikið í þeirri borg og stóðu kaþólskir prestar og leikmenn, sem báru nöfn eins og Couchlin, Tobin og Moran gjarnan fremstir í flokki.

Lesið greinina í Times of Israel sem viðbót við pistil Veru Illuga, og munið að gyðingahatur hefur aldrei eingöngu verið bundið við nasisma. Verstu gyðingahatarar sem ég hef fyrir hitt voru einmitt sannkristnir, kaþólikkar, múslímar eða vinstrimenn. Ég hef vitaskuld ekki þekkt svo marga nasista.

Icelandic Nazis marching

Fahnen Hoch in Island. Íslenzkir nasistar þramma í skjóli Landakots. Finnið frændur ykkar!

En áður en menn fara á stúfana og brenna presta og nunnur í Landakoti á báli, án sönnunargagna eins og hefur nú brunnið við, langar mig að minna á að flestir íslenskir nasistar voru upphaflega litlir fermingardrengir og líklega flestir í KFUM áður en þeir fóru að þramma fyrir Hitler; T.d. Davíð Ólafsson, uppeldisafi Egils Helgasonar sem laug til um próf í hagfræði sem hann sagðist hafa fengið í Þýskalandi nasismans. Því er enn haldið fram á vef Alþingis. Nasistinn Davíð Ólafsson komst einnig á hið háá þing. Út á lygar sínar um nám hjá Hitler fékk hann embætti Seðlabankastjóra.

Í KFUM var fánahylling að hætti nasista stunduð um langt skeið eftir Síðari heimsstyrjöld. Hin stjarfa hönd í fánastandinu var skýrð með því að þetta væri rómversk kveðja. Því fer nú alls fjarri. Þetta var aðeins nasistakveðja og kristið starf á Íslandi var greinilega smitað af einstaklingum sem þrifust á gyðingahatri og álíka öfgum. Kannski er ágæt ástæða til rannsaka þetta fyrir ungan og efnilega sagnfræðing.

heil_fani.jpg

Heil eða Saluto Romano, sem er seinni alda tilbúningur og á ekkert skylt við Rómverja. Myndin er tekin í Kaldárseli og birtist í Barnablaðinu árið 1987. Hver þekkir sjálfan sig?

Einhvers staðar hef ég heyrt lítinn fugl tísta að Vera Illuga hafi verið nas... kaþólikki á einhverju stigi á unga aldri. Si fabula vera est. Kannski ættu menn að líta í eigin barm, áður en alhæft er á RÚV, sem margir kalla, og það að sönnu, Lygaveitu Ríkisins. Ég held að vandamál RÚV sé fyrst og fremst vankunnátta starfsmannanna, en stundum spila öfgar nútímans verulega inn í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Öfgaguðfræðing" kallarðu mig, doktor, en með hvaða rökum?

Ekki skal ég fara hér í umræðu um upptök Gyðingahaturs, sem er jafnmikið eitur í mínum beinum eins og þínum, og ekki dreg ég víðtæka þekkingu þína í þeim málum í efa. Hitt efast ég um, að fánahyllingar með uppréttri hendi hafi þá fyrst byrjað þegar plága nazismans tók að herja á Þýzkaland; vel má þó vera, að það sé satt. Samt tel ég séra Friðrik Friðriksson eins langt frá því að hafa verið undir nazistískum áhrifum eins og verða má; miklu fremur hafi hann verið í andlegu ætterni við Kaj Munk, andófsprestinn fræga, sem hikaði ekki við að gagnrýna nazista og galt fyrir með lífi sínu, af hendi Gestapo. Fróðlegt væri að vita um upphaf þessara fánahyllinga í Vatnaskógi, sem ég sjálfur var viðstaddur sem strákur, án þess að skaddast á sálinni, enda má alveg heiðra fána okkar og þjóðina sjálfa um leið, engin hugrenningartengsl þar við nazisma í mínum huga og eflaust margra annarra.

Langa dvöl átti ég í Boston án þess að heyra af Gyðingahatri írskættaðra kaþólikka þar, en dreg ekki þau orð þín í efa, og væri fróðlegt að vita, hversu útbreitt og djúprætt eða svæsið það var.

Jón Valur Jensson, 4.9.2017 kl. 12:04

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Jón Valur. Ég alhæfi ekki um alla kristna menn líkt og sumir alhæfa um alla múslíma eða gyðinga. Á meðal kristinna er vissulega til gott fólk, en einnig vont fólk - líkt og hjá múslímum og öðrum. Kristni er ekki betri eða verri en önnur trúarbrögð.

Ég hef farið oft til Berlínar og sá lítið til nasisma, en nú eru aðrir tímar en á 4. og 5 áratug síðustu aldar. Það sama á við um Boston. Þó þú hafir alið þar manninn, er eins víst að þú hafir ekkert séð til öfgafullra kaþólikka, enda höfðu þeir sig mest frammi á fyrrnefndum áratugum. Eftir stríð héldu þeir vitanlega kjafti, eftir að þeir sáu að ósóminn sem nærði þá hafði haft í för með sér hinar mestu hörmungar sem gyðingar hafa þurft að þola.

Ef þú lest blogg mitt getur þú fundið fróðleik um nasistakveðjuna, og uppruna hennar á 18. öld. Þetta er alls ekki rómversk kveðja, og þaðan að síður kaþólsk "kveðja". Hins vegar er ljóst að á Íslandi var þessi kjánalega æxlaæfing algeng á meðal kristinna á Íslandi, en t.d. ekki hjá KFUM í Danmörku, nema í mjög takmörkuðum mæli.

Væntanlega hefur einhver sagnfræðingur skrifað um kaþólska nasista í Boston. Ég var aðeins að benda á að Vera hans Illuga hafi farið einum of fljótt yfir sögu og lagði til að menn læsu greinina í Times of Israel. Ég veit að þú ert stuðningsmaður Ísrael, en stuðningur á Ísrael byggir ekki einvörðungu á fordómum í garð þeirra sem hata Ísrael. Þá fellur maður auvirðilega í sömu gryfju og hatursmennirnir.

Hafðu það gott.

Öfgatrúfræðingur, var nú nafnbót sem ég sett mest í gamansemi. Þú talar manna mest um öfgar annarra trúarbragða. Ég tel persónulega að afskiptasemi af fóstrum í líkömum kvenna sé alfarið þeirra eigið mál, og komi ekki einhverjum körlum með fínar tilfinningar uppi á Íslandi við. Kynhneigð fólks er einkamál og fyllilega í lagi þó að höfundar 2000 ára trúarbókstafs hafi fárast. Trú hefur aftrað margri framför í heiminum, og vissulega einnig verið völd að ýmsum framförum. Ég hef aldrei sagt að trú sé alvond. Það er mannfólkið sem getur verið vont og þeir sem láta verst nota oft trúarbrögð til að réttlæta hamaganginn - og hatrið - í sér. Og því miður, ekki er lengi síðan trúbræður þínir í Boston hvöttu til skemmdaverka og barsmíða á gyðingum. Sumir þeirra voru prestar. Ljótt en SATT.

FORNLEIFUR, 4.9.2017 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband