Framlengda gúrkan
11.10.2017 | 08:00
Fornleifagúrkan hefur nú fengið veglega framlengingu og það langt fram á haust. Að venju er gúrkan óæt, og full af rugli og vitleysu. Þó er ekki verið að rugla um stærsta klaustur í heimi nú, stuð fyrir landnám í Stöðvarfirði, eskimóakonur í klaustri, eða ólögulegan stein úr setlögum sem einhver hefur fengið að vita úr ævintýraheimi að sé forn kross.
Nei, nú ríður gúrkunni inn meinti kumlverji í Víkurgarði, sem fornleifafræðingar bera ábyrgð á, en hafa enn ekki svipt hulunni af. Kumlverjinn er greinilega orðinn að leynigesti sumarsins og Svavar Gestsson stjórnar ekki einu sinni gamninu.
Nú eru andans menn einnig farnir að leika fornleifafræðinga í ellinni, því ekki næst í Völu Flintstone Garðarsdóttur sem fann haugverjann.
Í Fréttablaðinu í dag fer Séra Þórir Stephensen í andaglas og er greinilega í beinu sambandi við Ingólf Arnarson. Lesið á bls. 8 í Fréttablaðinu. Þórir hefur þar eftir aflóga þjóðminjaverði að "kuml" í Víkurgarði geti ekki tilheyrt bæjarrústum sem fundist áður við Aðalstræti og Ingólfstorg. Ef rétt er haft eftir Þór Magnússyni, er fjarlægðin frá skálanum sem fannst í fyrra við Lækjargötu heppilegri fyrir kumlbúann í Víkurgarði. En síðan hvenær varð Þór Magnússon sérfræðingur í kumlum? Engin lög, og sjáanleg regla er til eða þekkt fyrir fjarlægð kumla frá bæ. Á maður sem ekki gat stjórnað fjármálum Þjóðminjasafns nú að vera dómari um slíkt?
Hvernig væri nú að dómbærir fornleifafræðingar, sem unnið hafa við rannsóknir á haugfé eða endurútgáfu á Kuml og Haugfé Eldjárns, en ekki prestar og lögleg gamalmenni, fái að sjá hvers kyns var í kumlinu. Kuml eru oftast miklu lengra frá bæjum en meint kuml í Víkurgarði er frá skálunum sem fundist hafa í Víkinni
Síra Þórir særir upp Ingólf Víking í baráttu sinni við hótelin. Rökleysa hans gæti í versta falli orðið vatn á myllu lögfræðinga hótelspekúlantanna. Það eru svo sem fordæmi fyrir því að dómstólar hafi gerst sérfræðingar í fornleifamálum. Ljósmynd úr Fréttablaðinu 11.10.2017. bls. 8.
Ef gripir hafa fundist í gröf í Víkurgarði, þarf það ekki nauðsynlega að þýða að sá sem greftraður hefur verið kristinn maður. Gripir, hnífar, skartgripir, talnabönd, krossar eða myntir hafa hafa fundist í kristnum gröfum við fornar kirkjur á Norðlöndum og öðrum svæðum. Stundum gleymdist að taka veraldlegar eigur af fólki þegar það var lagst til eilífrar hvílu fram að dómsdegi.
Sömuleiðis er hugsanlegt að menn hafi haldið lengur í hefðir og viljað hafa eitthvað af hinum gamla sið með og ekki fylgt boðum kirkjunnar um greftrun að í einu og öllu. Það sýnir aðeins vanþekkingu fornleifafræðinga, ef þeir álíta að persónulegir gripir fólks geti ekki á stundum endað með því í kristnum gröfum þegar kristinn siður hefur nýlega verið tekinn upp. Hafi hins vegar fundist fallegur þórshamar sem örugglega er hægt að segja að hafi verið lagður í gröf en ekki endað þar úr öðrum lögum, þá stöndum við frammi fyrir kumli og einstaklingi sem var "heiðinn". En hættum vangaveltunum.
Fornleifafræðingarnir í Víkurgarði verða að láta rök fylgja orðum sínum svo mark sé á takandi. Annars er alið á vitleysum í fjölmiðlum hjá auðtrúa og veikgeðja fólki.
Greinilegt er að goðsögnin um Ingólf er fjári seig, en megum við þessi heiðnu vera laus við vangaveltur kristmanns eða krossmanns í þessum efnum.
Vandamálin með hóflausar hótelbyggingar og siðleysi auðmanna á Íslandi er eitt. Landnámið í Reykjavík er allt annað. Þessi vandamál eru algjörlega óskyld, þó svo að Sigmundur Davíð hafi flutt Þjóðmenninguna með sér í forsætisráðuneytið og ætlað að gera Þjóðminjavörð að prófessor.
Bendi ég svo á grein mína um Víkurgarð hér á blogginu í gær.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Gervimenning, Gúrkufornleifar | Facebook
Athugasemdir
Ég sem leikmaður hjó eftir einu og öðru í þessari frétt. Fyrst var það vissa manna um tilvist Ingólfs Arnarssonar. Það er svona í ætt við alla staði steina og laugar um land allt, sem kenndar eru við homerskviður islands. Grettissögu m.a.
Þetta er svipuð aðferðafræði og Biblísk fonleifafræði, þar sem menn eru með skófluna í annarri hendi og biblíuna í hinni og álykta villt um tengsl grjóthnullunga við "sögulegar" persónur.
Ég ætla sjálfur að leyfa mér að álykta og taka undir með þer að það hljóti að vera common sense að grafir hafi verið hafðar fjær en nær íbúðarhúsum. Greftrunarsiðir um víðan völl styrkja það. T.d. Hjá Gyðingum, sem vilja helst hafa þær eins langt í burtu og mögulegt er.
Hér a landi virðist lítil regla vera á þessu í seinni tíð, þótt nýir kirkjugarðar séu nú oftast settir í útjaðra byggða.
Hinn gamli kirkjugarður á Staðarfelli í Dölum er t.d. Alveg ofan í bæjarstæðinu. Á Ólafsfirði er hann smakk í miðri byggð, svo menn geta nánast akutlað kistunni út um bæjardyrnar í gröfina.
Þar bíða þeir svo þar til menn akveða að berjast aftur með grjótum og prikum við Meggídó.:) (armageddon)
Jón Steinar Ragnarsson, 11.10.2017 kl. 09:45
Þakka fyrir heimsóknina Jón Steinar og upplýsingarnar. Svara þér eftir næstu helgi. Er upptekinn á Íslandi í augnablikinu. Er hérna svo stutt. Get vart þverfótað fyrir túrhestum.
FORNLEIFUR, 13.10.2017 kl. 09:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.