RÚV - MENNING og svo kallaðar Fornmynjar?

Steinka

RÚV hefur nýlega tekið upp á þeim menningarauka að lita "menningarfréttir" með fjólubláum lit og prenta menninguna á gular síður. Að minnsta kosti á netinu. 

Í dag er á vef Ríkisútvarpsins frétt með fyrirsögnina Segir siðbótina hafa verið afturför. Greint er frá nýrri bók Steinunnar Kristjánsdóttur um klaustur á Íslandi, þar sem hún eignar sér og fornleifafræðinni niðurstöður sem löngu hafa verið þekktar. Greinin byggir væntanlega á viðtali við Egils Helgasonar á Kiljunni þann 18.10. 2017.

Án þess að hafa lesið bók Steinunnar, hefur mér sýnst innlegg hennar í klausturfræðin afar þunn, og hef ég ekki skafið utan af skoðun minni á því. Steinunn hefur enga menntun, nema sjálfsmenntun, í fornleifafræði miðalda, og kemur það greinilega niður á rannsóknarstörfum hennar.

Hér, hér, hér, hérhér, hér, hér og hér má lesa gagnrýnar greinar fræðimennsku Steinunnar, sem á oft á tíðum er vægast sagt furðuleg. Ekki býst ég við því að hún svari gagnrýninni í nýrri bók sinni. Hún hefur ekki séð sér það fært hingað til. Þögn fáviskunnar er stundum eina vopnið.

Ég er enginn verndari siðbótar og Lútersku fram yfir kaþólsku. Ég hef hins vegar numið kirkju- og klaustur(fornleifa)fræði og veit hvað ég tala um.

FORNMYNJAR??

Fjólublái litur RÚV á menningarfrétt hefur lítið bætt, eða ætti ég að skrifa "lýtið". Undir mynd af einum af uppgröftum Steinunnar stendur: Bók Steinunnar er afrakstur marga ára rannsóknarvinnu á "fornmynjum."

FORNMyNJAR nýttOrðið "fornmynjar" er vafalaust ættað frá menningarblaðamanni RÚV. Hafa íslenskir fornleifafræðingar ekki enn lært að krefjast þess að lesa það yfir sem íslenskir blaðamenn blaðra um.

Ekki einu sinni orðið fornminjar er rétt með farið þegar kemur að frásögn af fornleifafræðum Steinunnar Kristjánsdóttur.

Í lok fréttarinnar sem ekki boðar gott fyrir lestur bókar Steinunnar kemur þetta rugl fram:

Klaustrin söfnuðu vissulega að sér auð og eitthvað var um spillingu innan þeirra, en Steinunn telur þó að vegna mikilvægs hlutverks þeirra sé ekki rétt að tala um siðaskiptin sem umbætur. Það sem gerist síðan er að Danakonungur tekur yfir eignir klaustranna og umboðsmenn hans setjast á staðina. „Þjóðkirkjan í dag er náttúrulega rekin fyrir þessar jarðir, sem voru teknar yfir við siðaskiptin."

Ef Steinunn hefði lesið sér eitthvað smáræði til, hefði hún komist að annarri niðurstöðu. Í frásögn af Fundi nefnda ríkis og kirkju um kirkjujarðir í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 10. janúar 1997, sem m.a. byggði á lærðu áliti Kirkjujarðanefndar 1984, kemur greinilega fram, að Steinunn veður í villu. Kirkja og ríki komust að niðurstöðu, sem sagnfræðingar og aðrir fróðir einstaklingar hafa veitt þeim. Árið 1997 kom eftirfarandi fram í Frásögn af fundi nefnda ríkis og kirkju um kirkjujarðir í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 10. janúar 1997, þar sem íslenska ríkið og þjóðkirkjan gerðu með sér samkomulag um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Í 4. grein a í þessu samkomulagi stendur orðrétt:  

Klausturjarðir: Fram kemur í álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1984 að ekki verði séð að íslenska kirkjan eigi nú neina lagalega kröfu til klausturjarðanna. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið klausturjarðir.

En Steinunn Kristjánsdóttir veit auðvitað betur. Hún lifir í þjóðfélagi þar sem skoðanir sumra kvenna teljast orðin eins konar lög - jafnvel þó þær séu dómadags rugl og jafnvel lygar. Það kemst hún ekki lengur upp með og verður því að skýra fyrir okkur hvað hún á við þegar hún heldur því fram að þjóðkirkjan sé í dag náttúrulega rekin fyrir þessar jarðir. Það eru löngu liðnir tímar að laun presta voru greidd fyrir afrakstur af klausturjörðum. Hvernig er hægt að vera svona þunnur og yfirborðskenndur í fræðunum, Steinunn?

Mýtugerð Steinunnar Kristjánsdóttur

Steinunn Kristjánsdóttir heldur því fram að kaþólska kirkjan, eða ætti ég ekki heldur að skrifa "kyrkjan", hafi ekki haldið uppi líkamlegum refsingum. Þetta er ekki rétt. Ekkert getur verið fjarri sannleikanum. Hvað hefur Steinunn fyrir sér í þessari vanþekkingu? Á ég að sýna henni öll morðin sem kirkja framdi á miðöldum - allar aftökurnar - alla illskuna í garð kvenna, gyðinga etc.?

Steinunn virðist gleyma því hvernig klaustur og biskupsstólar á Íslandi hýstu rumpulýð af erlendum skipum, sem fóru ruplandi og nauðgandi um landið og voru þess á milli undir verndarvæng kaþólsku kirkjunnar.

Hún hélt því fram í Kiljunni í gær að Skriðuklaustur hafi verið stofnað árið 1449. Hlustið! Það er einnig alrangt. Klaustrið var stofnað árið 1493. Hvað er að gerast. Svo mörg mismæli geta vitaskuld bent til alvarlegra minnisglapa.

Fyrir utan gangrýnar greina mínar um "fræði" Steinunnar, sem má lesa hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér, hvet menn til að lesa grein Guðrúnar Ásu Grímsdóttur um Skriðuklaustur í Árbók hins íslenska fornleifafélags. Greinin er því miður ekki enn komin á Timarit.is. En Fornleifur karlinn deyr sjaldan ráðalaus og á marga aðstoðarmenn og náttúrulega skanna. Hér er því hægt að lesa grein Ásu.

Greinar mínar Mörg ljón verða á vegi íslensks prófessors og Dellufornleifafræði í tímaritinu Sögu má lesa hér og hér. Báðar greinarnar fjalla á fræðilegan hátt um fjarstæðukennda aðferðafræði Steinunnar Kristjánsdóttur.

Steinunn Kristjánsdóttir verður að bera meiri virðingu fyrir sagnfræði. En því miður hefur hún með endalausum kerlingabókum sínum, sem spanna frá rugli um ínúítasjúklinga á Skriðuklaustri  til þvættings um kirkjuklukku á Helgafelli, einnig farið ósköp illa með fornleifafræðina. Grein Steinunnar um klukkuna kom út í Sögu LV-1 2017.

Hvenær losnum við við furðufornleifafræðina á Íslandi? Þar sem menn halda einhverju fram og byrja svo að trúa því og einhver hópur auðtrúa manna með þeim. Vonandi gerist það þegar Sögufélagið hættir að gefa út bækur og ársrit sem ekki standast sagnfræðilegar lágmarkskröfur. Félaginu hefur farið mjög aftur á síðari árum.

Rugl og óundirbyggðar hugdettur eru ekki sagnfræði, og þaðan af síður fornleifafræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband