Mörg ljón verða á vegi íslensks prófessors

rosenborg.jpg

Prófessor einn við Háskóla Íslands hefur leitað að afdrifum íslenskra klausturgripa úr góðmálmi í þrjú ár. Á ferð í Kaupmannahöfn á kostnað þess sem styður rannsóknir hennar, "dettur" hún svo loks niður á heimild sem svarar öllum spurningum hennar. Hún viðurkennir reyndar að hún sé ekki fyrst manna til að uppgötva sannleikann, því sagnfræðingar hafa meira að segja nefnt heimildina fyrir 70-80 árum. Eins og Steinunn Kristjánsdóttir segir sjálf við Morgunblaðið með mikilli andargift:

„Ég trúi ekki að ég hafi fundið þessi skjöl og að þetta hafi verið svona. En þetta stend­ur þarna svart á hvítu. Og við skoðun eldri heim­ilda og verka fyrstu sagn­fræðing­ana hér á landi, upp úr 1900, þá má sjá að til dæm­is Páll Eggert Ólason not­ar þessi skjöl og seg­ir þetta - að á Íslandi hafi allt gjör­sam­lega verið hreinsað í burtu. En síðan virðast fræðimenn hætta að nota þau og vitna ekk­ert í þau. Ég var að minnsta kosti ekki fyrst til að finna þetta.“

Ljón á vegi klaustursérfræðingsins

Steinunn er svo sannarlega ekki fyrst til að oftúlka þessar heimildir í þjóðernisrembingslegu offorsi. Hún lýsir því svo, hvernig hún rauk út á Rósenborgarsafn eftir að hafa uppgötvað hinn mikla sannleika, svartan á hvítu. Svo greinir prófessorinn og klausturfræðingurinn, sem enga menntun hefur í miðaldafornleifafræði, frá því að ljón hafi orðið a vegi hennar í höllinni. Nei, látum hana sjálfa segja frá því. Þessu lýsir hún best sjálf:

"Ég rauk svo út í Ró­sen­borg­ar­höll, sem Dana­kon­ung­ur byggði upp úr 1600, því þar er minja­safn dönsku krún­unn­ar. Þar er nátt­úru­lega bara allt silfrið, þar á meðal þrjú ljón í fullri stærð, sem sögð eru hafa verið steypt úr inn­fluttu silfri í kring­um 1600".

Við Morgunblaðið heldur Steinunn því fram að þar sé allt silfrið frá Íslandi niður komið, meðal annars ljónin í fullri stærð, sem prófessorinn heldur fram að hafi verið steypt úr innfluttu silfri í kringum 1600. 

Ég bið lesendur mína afsökunar á því að þetta er farið að hljóma dálítið ad hominem, en það er það alls ekki. Þið getið lesið margar greinar hér á Fornleifi um skissur og mistök Steinunnar, sem sýna að hún hefur stundum ekkert vit á því sem hún skrifar um. Það er ekki bara ég sem er á þeirri skoðun. Menn geta lesið ritdóm Guðrúnar Ásu Grímsdóttur á bók Steinunnar um Skriðuklausturrannsóknir sem birtist í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 2012. Ég er sjálfur farinn að hafa áhyggjur. Steinunn Kristjánsdóttir heldur því fram við einn aðal fjölmiðilinn á Íslandi (Morgunblaðið) þann 3. apríl 2015 (tveimur dögum eftir 1. apríl) að ljón Danakonunga í Rósenborgarhöll séu úr innfluttu silfri kringum 1600 og gefur í skyn að silfrið sé m.a. komið frá Íslandi (sjá hér).

209551.jpg

Alvarlegur þekkingarbrestur prófessors á sögu landsins

Ljónin þrjú í Rósenborgarhöll voru gerð af þýskættaða listamanninum Ferdinand Kübich í Kaupmannahöfn á árunum 1665-1670, nær 7 áratugum síðar en Steinunn heldur fram. Ekki 1 gramm af silfri í ljónunum eru ættað ofan af Íslandi, enda allur málmur úr íslenskum klaustrum, sem alls ekki urðu eins illa út úr klausturhreinsunum og klaustur í Danmörku og Noregi, löngu farinn í kostnað við hallir og hernað, kúlur og krúdt. Nákvæmar heimildir og rentubókafærslur eru til fyrir gerð ljónanna. Legg ég til að prófessorinn yfirlýsingaglaði kynni sér þær áður en hún gerir sig frekar að athlægi í fjölmiðlum.

Kann prófessorinn frá Íslandi ekki að lesa heimildir sér til gagns? Ég efa stórlega að ljón Friðriks þriðja frá 1665-70 séu nokkur staðar eignuð Kristjáni 4., nema af Steinunni Kristjánsdóttur. Þessi furðulega endurritun sögunnar, sem Steinunn er á kafi í, er einstök í sinni röð. Fræðilegt er það ekki, en það hljómar óneitanlega vel í fjölmiðlum og æsir einn og annan eins og athugasemd Jóns Vals Jenssonar við greinina um fund Steinunnar ber ágætt vitni um.

Hér má lesa aðra grein um fræðistörf prófessorsins.


mbl.is Dýrgripir Íslands bræddir í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll, dr. Vilhjálmur.

Hér segirðu "íslensk klaust[ur] ... alls ekki [hafa orðið] eins illa út úr klausturhreinsunum og klaustur í Danmörku og Noregi", og þá spyr ég: Veiztu til þess, að einhverjir dýrgripir íslenzkra klaustra hafi varðveitzt hér á Íslandi (og þá hvar), sérstaklega listmunir úr silfri og gulli? Það væri fróðlegt að fá svar við því -- og eins á hverju þú byggir þennan samanburð þinn á Íslandi, Danmörku og Noregi.

Jón Valur Jensson, 4.4.2016 kl. 09:27

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Haltu þig vinsamlegast frá orðhengilshætti, Jón. Veit ég vel, Sveinki, að klaustur voru "rænd". Í landinu urðu siðaskipti, ýmsir nýttu sér það ekki ósvipað því hvernig kaþólska kirkjan komst oft á tíðum yfir eignir gengum valdastéttaklíkur í landinu. Kirkjan viðhélt valdinu á fáum höndum. Tökum Viðey sem dæmi. Í Viðey var öllu ruplað og rænt árið 1539 og áður á 14. öld hafði klaustrið brunnið. Gersemarnar höfðu ekki varðveist eins vel og þú heldur. Margir brunar urðu í íslenskum klaustrum. Þeir máldagar sem varðveittir eru frá Íslenskum klaustrum sýna ekki beinlínis tonnin af gulli og silfri. Hluti af siðbótarferlinu var fjarlæging pápísku og þeirra auðæfa sem kirkjan hafði safnað að sér andstætt því sem Jesús hafði boðað er hann braut allt og bramlaði í Musterinu forðum. Ertu búinn að gleyma?

Kjarninn í ádeilu minni á Steinunni, í þetta sinn,  var rugl hennar um að ljónin í Rósenborgarhöll hefðu verið smíðuð úr bræddum málmi frá Íslandi um 1600. Slíkar yfirlýsingar eru svo langt út fyrir heilbrigða skynsemi, að þvi verður að andmæla HARÐLEGA!

Ég hef ekki legið sérstaklega í gögnum í Kaupmannahöfn, enda ekki á launum hjá Háskóla Íslands við það. En ég geri mér hins vegar ljóst að Steinunn, út frá þeim rökum sem hún notar um ljónin, er ekki rétt manneskja til að túlka 16. aldar skjöl og þaðan að síður gögn frá 17. öld.

FORNLEIFUR, 4.4.2016 kl. 09:54

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Mig langar svo að minna þig sérstaklega á, að fjölmörg klaustur og dómkirkjur Evrópu voru byggð með lánum frá gyðingum. Sjaldnast fengu gyðingar sem einir gátu stundað lánastarfsemi þar sem þeim voru aðrar bjargir bannaðar, greitt til baka, og oft gerðist það að kirkjan æsti upp til skipulagðra ofsókna gegn gyðingum og morða á þeim, til þess eins að skuldir kirkna og klaustra þyrfti ekki að borga. Þetta gerðist t.d. á Englandi á þeim tíma sem sumir Íslendingar voru þar í námi á miðöldum. Á endanum var gyðingum bolað úr landi á Bretlandseyjum og þeir ofsóttir og brenndir lifandi. Auður kaþólsku kirkjunnar var nú nokkuð oft illa fenginn og þetta hlýtur þú að vita, nema að þú lifir í algjörri afneitun og blindri trú á ágæti kaþólismans sem heimsstefnu.

FORNLEIFUR, 4.4.2016 kl. 10:06

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þð er merkilegt hvað vondur andi hleypur í þig, Vilhjálmur, við þessa saklausu, tvíþættu spurningu mína, sem var ekki illa meint og ágætt væri að fá fullt svar við. Ég var ekki með neinn "orðhengilshátt" hér, en þrátt fyrir allar þínar orðalengingar í svörum þínum hefurðu engu svarað spurningunni um það, á hverju þú byggir þennan samanburð þinn á Íslandi, Danmörku og Noregi.

Svo drepurðu hér umræðunni á dreif. Við erum að ræða klaustra- og kirknaeignir á Íslandi (og til samanburðar annars staðar í dansk-norska konungsveldinu), ekki eitthvað um lánastarfsemi Gyðinga í öðrum löndum eins og í Englandi.

Ennfremur ferðu út í gamalkunna aðferð vinstri manna að smyrja ljótu á kaþólsku kirkjuna vegna þeirra listgripa og annarra auðæfa sem hún eignaðist og voru í þágu bæði Guðsdýrkunar fólksins og til samfélagslegrar þjónustu (m.a. útleigu jarðnæðis á betri kjörum til leiguliða heldur en jarðir sem einstakir eignamenn leigðu út).

Jón Valur Jensson, 4.4.2016 kl. 10:43

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Ég er eins og er í Svíþjóð, og hef engin gögn við höndina um eignir klaustra annars staðar í Danaveldi. Klaustur í Noregi og Danmörku voru flest ríkari en þau sem á Íslandi voru. Góðmálmar og skurðgoð sem þaðan hurfu eða voru eyðilögð voru miklu meira virðis en það sem á Íslandi var tekið við siðsskipti/bót.

Ef við spyrðum Jesús, líkt og og sumir spyrja hvað Jón Sigurðsson hefði hugsað og haldið, þá held ég persónulega, að gyðingnum Jesús hafi ekki þótt mikið til skurðgoðsdýrkunar og gullkálfadans kaþólsku kirkjunnar koma, en tek fram að það er mín skoðun, enda tel ég að gyðingurinn Jesús sé uppfinning, álíka og fingurkjúkurnar 100.000 sem til eru í monströnsum um heim allan, eru það líka.

FORNLEIFUR, 4.4.2016 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband