Besti díll Íslendinga fyrr og síðar

Lehmann & Thors c Fornleifur copyright

Árið 2007 kom út öndvegisverkið Silfur Hafsins - Gull Íslands í þremur stórum bindum og meðal margra höfunda þess var enginn annar en núverandi forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson.

Verkið var m.a. kynnt og selt með þessum orðum: „Síldin hefur snert líf nær allra Íslendinga á liðnum öldum, með einum eða öðrum hætti, þess vegna kemur saga síldarinnar okkur öllum við“.

Þetta er vitaskuld hverju orði sannara, og auðurinn sem fylgdi síldinni var hlutfallslega mestur miðað við önnur auðæfi sem staldrað hafa við á Íslandi, eða úr öðru arðbæru framtaki en  fiskveiðum og útgerð. Síldin var það sem menn auðguðust mest á í þau nær 1150 ár sem þeir hafa þraukað á þessari merkilegu eyju okkar. 

Hitt er svo annað mál að fæstir Íslendingar eru miklir síldarunnendur og matreiða hana helst með því að drekkja henni í sykurleðju og ediki.

Thor Thors seldi alla íslensku síldina árið 1944 - 250.000 dalir urðu að 962.500 dölum

Besta síldarsala Íslendinga fyrr eða síðar er þó nokkuð frábrugðinn hefðbundnu síldasöluferli eins og við þekkjum það best frá síldarárunum fyrir stríð, eða síðar þegar síldin kom aftur eftir 1955 eftir stutta, ca. 10 ára fjarvist.

Sú sala kom til þökk sé viðskiptakunnáttu og útsjónarsemi eins merkasta sonar Thors Jensens athafnamanns. Eftir að Ísland lýsti yfir sjálfstæði sínu árið 1944 var Thor Thors ræðismaður í New York útnefndur sendiherra Íslands í Washington. Síldarsalan hófst í raun, þegar hann sem sendiherra greiddi 250.000 Bandaríkjadali til UNRRA sem var hjálparstofnun Sameinuðu Þjóðanna sem var ætlað að aðstoða stríðshrjáða eftir síðari heimsstyrjöld.

Aðkomu Thor Thors að þessari frábæru síldarsölu er því miður ekki að finna stakt orð um í bókinni Silfur Hafsins og sætir það furðu í ljósi þess að íslensk dagblöð greindu þó nokkuð frá sölunni (sjá heimildir neðst).

Í stórverkinu Silfur Hafsins segir svo á bls. 22 í 2. bindi frá síldarsölunni árið 1944: 

„Árið 1944 flutti Síldarútvegsnefnd enga síld út en samlag saltenda sem hafði ráðið 84% síldarinnar fékk löggildingu til útflutnings og síðar fékk Samvinnufélag Ísfirðinga einnig slíka löggildingu. Aðeins voru saltaðar rúmlega 33 þúsund tunnur norðanlands og 1800 tunnur syðra. Öll síldin var seld Hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna sem tók til starfa 1943 þótt samtökin sjálf væru ekki stofnuð fyrr en tveim árum síðar.“

Einnig er í 2. bindi Silfurs Hafsins, í kafla eftir Hrein Ragnarsson og Hjört Gíslason, rekið hvernig síldarsöltun dróst saman á meðan á síðari heimsstyrjöld stóð, sökum þess að ekki var unnt að koma síldinni á framfæri í helstu markaðslöndum vegna ófriðarins. Varð t.d. allnokkuð af saltsíld sem átti að fara á markað í Svíþjóð innlyksa á Íslandi og var hún að endingu notuð í skepnufóður. 

Af þeim sökum má telja það mjög frækið afrek Thor Thors að selja síld sem var veidd við Ísland árið 1944 og 1945. Góðmennska Thors við heiminn hjálpaði þar mjög til.

Frásögn af þessari sölu síldar til UNRRA er einnig heldur endasleppt í hinu mikla þriggja binda verki um Íslandssíldina. Um leið og Thor Thors greiddi 250.000 dali í tveimur áföngum til UNRRA, fyrst 50.000 og síðar, eða þann 13. október 1944, ekki meira né minna en 200.000 dali, gerði hann kaup við yfirmann UNRRA í New York Herbert H. Lehman. UNRRA bauðst til að kaupa síld af Íslendingum og var það að einhverju leyti vegna þess að hið litla land í Norðri sýndi svo góðan lit og greiddi fyrst allra gjöld sín til UNRRA. Til gamans má geta þess að Kanada greiddi 77.000.000 dala til hjálparstarfs UNRRA árið 1944, en greiddu þá upphæða í smábitum.

Sannleikann um það sem gerðist í þessu síldarsölumáli er kannski nærtækast að finna í Morgunblaðinu í grein eftir Óskar Halldórsson útgerðarmann á Siglufirði, sem var fyrirmynd Laxness að Íslands-Bersa. Í stuttu máli skýrði Ólafur sölumálin árið 1944 þannig: 

Margir síldarverkendur voru óánægðir með störf ríkisrekinnar Síldarútvegsnefndar, sem þeim þótti ekki standa sig í stykkinu við að finna og tryggja markaði erlendis - í miðju stríðinu. Stofnuðu þessir óánægðu framleiðundur, sem réðu 86 prósentum af síldarmagninu sem var landað, félag vorið 1944, sem bar heitið Sölusamlag síldarframleiðenda. Settu þeir Síldarútvegsnefnd nærri því út á þekju. Félagið nýja, sem átti lögheimili á Siglufirði, opnaði skrifstofu og hugðist ganga í stórræði, sem ríkisbáknið og skrifstofublækur þess gátu ekki leyst. Ætlaði félagið að senda mann til Ameríku til að freista þess að selja íslenska síld en varð of seint fyrir og bað því umboðsmenn Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) í Bandaríkjunum um að sjá um sölu síldarinnar í Ameríku fyrir sig. Það reyndist hins vegar harla erfitt og greindu menn þá fljótt að þeir gátu lítið betur gert en Síldarútvegsnefndin.

Áður en reyndi alvarlega á sölumennsku SÍS á síld í Bandaríkjunum árið 1944, tókst Thor Thors, mestmegnis að eigin frumkvæði, en að nafninu til í umboði samningarnefndar utanríkisviðskipta, að koma allri saltsíld veiddri árið 1944 í verð.

Það er vitaskuld athyglisvert, að athafnamenn á Íslandi hugsuðu um peninga meðan fólk í Evrópu hugsaði líkast til allflest um að halda lífi. En það var nú einu sinni heppni Íslendinga að vera nægilega langt frá darraðardansinum og verða þess aðnjótandi að Bretar sóttu okkur heim árið 1940 í stað Þjóðverjam og vera leystir af hólmi af Bandaríkjamönnum.

Þá launaði sig greiðavirknin við greiðslu gjalda til UNRRA og UNRRA keypti íslensku síldina á sama verði og hún hafði verið seld hæstbjóðanda árið 1943.

Venjul. saltsíld  US $    22.50 tunnan

Cutsíld..........   —     25.00  —

Sykursíld........   —     27.50 —

Matjessíld  .......   —   27.50 —

Kryddsíld ........    —   31.00 —

UNRRA sendi út fréttatilkynningu í október 1944 um greiðslu Íslendinga til UNRRA, en ekki fylgdi þó sögunni að síldarkaup UNRRA hefðu fylgt í kjölfarið.

Það fréttu Íslendingar aftur á móti frá Thor Thors. Þær fréttir birtust síðar á árinu er Morgunblaðið og Þjóðviljinn greindu frá því, meðan að blöð eins og Verkamaðurinn og Mjölnir á Siglufirði skýrðu kaup UNRRA á nokkuð furðulegan hátt og vildu eigna sósíalistum og kommúnistum hugmyndina uað kaupum UNRRA á íslenskri síld. Það var algjör fjarstæða enda Verkamaðurinn og Mjölnir ekki víðlesnir bleðlar í New York og fréttir af fyrirspurnartímum á Alþingi ekki aðgengilegir í BNA. Menn voru ósköp einfaldlega spældir yfir því að Thorsari bjargaði þjóðarbúinu árið 1947. Hann hafði þó hauk í horni í bandarísku utanríkisþjónustunni.

Ef það er rétt, sem haldið er fram í Silfri Hafsins árið 2007, að seldar hafi verið um það bil 35.000 tunnur af saltsíld til UNRRA og að meðalverð hinna mismunandi tegunda, 27,50 dollarar fyrir tunnuna, sé notað sem samnefnari, tókst Thors að selja nær óseljanlega íslenska síld fyrir 962.500 dali til UNRRA fyrir að vera svo skilvirkur við greiðslur til UNRRA. Skilvirkni og áhugi borgar sig nefnilega ávallt.

Thor sá sér leik á borði fyrir Ísland að þéna á hjálparstarfi til nauðstaddra. Það er ekkert nýtt og er þekkt úr ótal samhengjum síðan. Um langt skeið hafa Danir vart sýnt góðmennsku að neinu tagi, nema ef þeir hafa af því verulegan ágóða. Verra var það í síðara stríði þegar Danir höfðu nána samvinnu við Þjóðverja og öll stríðsárin voru eitt stórt sölupartý hjá frændum okkar. Danskar matvörur voru iðulega á borðum morðingjanna sem myrtu 6 milljónir gyðinga í stríðinu. Tak Danmark!

En íslenskur fiskur, fullur af D-vítamíni og hollri fitu, sem og corned beef (nautakjötskæfa) frá Suðurameríku, var aftur á móti það sem margir fangar og fórnarlömb nasista fengu að borða þegar þeir höfðu náð sér eftir frelsunina árið 1945. Margir gyðingar sem lifðu af útrýmingarbúðir og fangabúðir nasista hugsuðu oft með lotningu til íslensku síldarinnar og nautaspaðsins sem þeir fengu með frelsinu. Maður einn í Ísrael sagði mér eitt sinn frá þessu fæði sínu um tíma af mikilli ánægju.

Buchenwald_Children_90250

Ungur gyðingadrengur sem bjargað var af bandamönnum. Sá litli naut vafalaust góðs af íslenskri síld og argentínskri nautakæfu þegar hann losnaði út úr Buchenwald-búðunum.

Áður óþekkt ljósmynd kemur í leitirnar

Myndin efst sýnir þá stund er lýðveldið Ísland færði sína fyrstu "fórn" til alþjóðasamfélagsins í nauð. Myndin, sem er blaðaljósmynd, en virðist samkvæmt Newspapers.com aldrei hafa birst í nokkru blaði í Bandaríkjunum.

Fornleifur keypti nýlega frummyndina í Bandaríkjunum. Hún er tekin þann 13. október 1944 er Thor Thors sendiherra Íslands í Washington færði framkvæmdastjóra UNRRA ávísun upp á 200.000 Bandaríkjadali til starfsemi UNRRA. Meðfylgjandi texti fylgdi myndinni:

W 739870........................  NEW YORK BUREAU

NEW REPUBLIC FIRST TO PAY UNRRA EXPENSES WASHINGTON, D.C. -- THE MINISTER FORM ICELAND´S FIRST REPUBLIC, MR: THOR THORS (RIGHT), PRESENTS A CHECK FOR $200,000  TO DIRECTOR GENERAL HERBERT H. LEHMAN COMPLETING ICELAND´S OPERATING CONTRIBUTION TO UNRRA. THIS NEW REPUBLIC WAS THE FIRST MEMBER COUNTRY OF THE UNITED NATIONS TO MAKE A PAYMENT TO UNRRA. ON JANUARY 14, THE GOVENMENT OF ICELAND PRESENTED UNRRA WITH A CHECK OF $50,000 TOWARDS OPERATING EXPENCES AND SUBSEQUENTLY MADE PAYMENT IN FULL FOR ITS SHARE OF ADMINISTRATIVE EXPENSES.

BU MGS LON CAN

CREDIT LINE. (ACME.)             10/13/44               (RM)

Back Lehman & Thors b

Eftir-þankar um síld handa hrjáðum þjóðum

Sú saga sem hér hefur verið sögð af sölu síldar til neyðarhjálparstarfs árið 1943 er nokkuð frábrugðin því hjálparstarfi sem fram fer sums staðar í heiminum í dag, þótt enn græði margir á eymd annarra.

UNRRA var skammlíft framtak og þar sligaði spilling , einkum í þeirri deild sem sá um starfið í Asíu, sem og stjórnleysi líkt og hjá mörgum stofnunum SÞ, enda greinilega ekki eins mikill áhugi á að hjálpa gyðingum og öðrum flóttamönnum í Evrópu á sama hátt og sú hjálp sem nú hefur verið veitt Palestínuaröbum í tæpa 7 áratugi gegnum UNRWA, en það er allt önnur saga og fjallar hún ekki um að auðgast á eymd annarra, heldur hvernig hjálparstarf getur orðið að iðnaði með spillingu og hryðjuverkamennsku í ofanálag.

Ef markaðir á Gaza, sem eru stútfullir af vörum keyptum fyrir styrktar- og gjafafé, eru rannsakaðir, finnur maður óendanleg mikinn mat, en ef til vill vekur það ekki furðu þegar haft er í huga að að Plestínumenn eru helsta gæluverkefni SÞ. Á blómlegum mörkuðum Gasa finnur maður þó ekki saltsíld frá Íslandi eða corned beef, og 80 % allra sem þar búa eru með sykursýki á alvarlegu stigi. Hjálp til nauðstaddra getur því miður farið úr böndunum þegar ákveðinn hópur er umbunaður á kostnað allra annarra sem kryddað er með hatri í garð annars ríkis. UNRWA hefur nú starfað í 68 ár án þess að nokkur helför hafi átt sér stað. UNRRA starfaði hins vegar aðeins í nokkur ár og átti að hjálpa öllum hrjáðum, hmt gyðingum, en var formlega lokað árið 1949. Erum við að horfa á misjafnar áherslur, eða er hatur margra "sameinaðra þjóða" í garð gyðinga einfaldlega endalaust?

Á Íslandi er það hatur mjög rammt hjá mörgum, en helst á meðal barna og barnabarna íslenskra nasista og vel efnaðra sveitamanna sem heilluðust að þýskri menningu. Kannski erfist þetta einkennilega hatur? Hóflausar greiðslur til UNRWA, eða t.d. hið glæpsamlega milljarðaflæði til SÞ sem m.a. endaði í vösum hryðjuverkasamtaka þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var að reyna að koma Íslandi í Öryggisráð SÞ til þess eins að taka þátt í einhljóma haturskórnum gagnvart Ísrael. Slík fjárlát leiða ekki til viðskiptabitlinga fyrir Ísland, heldur aðeins til fljótari aðstoðar við hryðjuverkasamtök og skálmöld í heiminum.

Ekki er ég að mæla með því að hjálparstarf sé háð viðskiptahagsmunum sem skapast geta er styrjöldum lýkur. En er eðlilegt að lítil þjóð sem vart hefur aðra auðlind en fiskinn umhverfis landið þeirra, og hefur ekki ráð á almennilegu heilbrigðiskerfi og þjónustu við aldraða sé að greiða stórfé til Palestínuaraba, sem virðast auðgast langum meira en Íslendingar á því að heyja stríð? Menn geta svarað því fyrir sjálfa sig. Fornleifur óskar sannast sagna ekki eftir því að fá heimsóknir öfgakenndra barna og barnabarna íslenskra nasista, og þaðan af síður ruglaðra sósíalista sem telja stuðning við árásir á vestræn þjóðfélög og lýðræði vera sniðuga lausn á vanda heimsins. 

Gyðingar í Austur-Evrópu og víðar hafa ávallt lifað á saltsíld, sem var ódýr matur fyrir fátæklinga Evrópu. Enn kaupa gyðingar síld frá Íslandi, kannski með það í huga að íslensk síld bjargaði mörgum þeirra sem lifðu af helförina.

Myndin hér neðst er úr verkinu Silfur Hafsins - Gull Íslands frá 2007 og sýnir heittrúaðan gyðing frá Bandaríkjunum að blessa síld í plasttunnum á Neskaupsstað. Kona hans horfir á. Ég get mælt með blessaðri síld frá Íslandi, sem ég hef borða mikið af í Ísrael og eitt sinn var með boðið í dýrindis, íslenska þorskhnakka í mötuneyti Bar Ilan háskólans utan við Tel Aviv. Þegar ég spurði kokkana hvaðan fiskurinn væri upprunninn sýndu þeir mér pakkningarnar. Þar var kominn íslenskur fiskur í umbúðum fyrir Bandaríkjamarkað.

Blessaða síldin í Ísrael er ekki eyðilögð af sykri eins og pækilsíldin og gaffalbitarnir sem seldir eru á Íslandi. Hér um árið var framleiðslan á íslenskum gaffalbitunum til Rússa svo léleg, að síldin gerjaðist í of miklum sykri og leystist hreinlega upp í lélegri olíu sem notuð var til að hella á dósirnar. Rússarnir fundu lítið annað en lýsi og hreistur í dósunum og kvörtuðu sáran. Síldin þeirra var vitaskuld ekki blessuð í bak og fyrir.

Kannski væri ráð fyrir Íslendinga að minnka sykurmagnið í krydd- og lauksíld sinni og blessa hana til reynslu. Þegar meiri sykur er í kryddsíld en í gosdrykkjum er vitaskuld eitthvað mikið að þeim sem borða slíka sykursíld og allir kostir síldarinnar foknir út í veður og vind í allri sykureðjunni.

Síld002

           Ljósm. Ágúst Blöndal Björnsson.

Ýmsar áhugaverðar heimildir um síldarsöluna til UNRRA:

Morgunblaðið laugardaginn 4.11. 1944

Þjóðviljinn þriðjudaginn 7. 11. 1944

Mjölnir á Siglufirði miðvikudaginn 11.11.1944

Verkamaðurinn laugardaginn 18.11.1944

Morgunblaðið sunnudaginn 31.12.1944


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðleg grein um síldarsöluna og Thor Thors.  

- Hvernig gerist ég áskrifandi að vefsíðu ykkar?

kv. HKÁ

Hans Kristján Árnason (IP-tala skráð) 9.12.2017 kl. 14:01

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll Hans Kristján,

Það er nú bara Fornleifur og undirritaður sem heilaþvegið hefir karlinn og er bókstaflega með höndina inni í görninni á honum sem skrifum þetta fróðlega blogg. 

Ef þér er í mun að gerast áskrifandi sendi ég þér vitaskuld reikningsnúmer fyrir bankareikninga mína í Zürich og Dubai. En miklu ódýrara er að geyma síðuna eða fara á blog.is til að sjá hvort eitthvað nýtt sé komið frá "okkur".

Bestu kveðjur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.12.2017 kl. 19:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband