Myndarlegir menn - töffarar fyrir sinn tíma
12.5.2018 | 16:01
Um þessa menn hef ég skrifað áður hér á blogginu og bendi fólki á að lesa það (sjá hér). Afi minn, Vilhelm [Árni Ingimar] Kristinsson, er þarna á myndinni. Hann er ungi maðurinn til hægri. Hávaxnari vinur hans og félagi til sjós hét Þorvaldur Ögmundsson. Hann tók út af skipi við austurströnd Bandaríkjanna og drukknaði fáeinum árum eftir að myndin var tekin.
Þrátt fyrir að ég hafi skrifað um myndina sem þjóðminjasafnið á og sent safninu upplýsingar um hana árið 2016, hafa menn það enn ekki fært upplýsingar mínar inn í skráningarkerfið á sarpur.is. Þar er enn lítið að finna um upplýsingar um myndina.
Ég fékk eiginlega helst á tilfinninguna að safnið tryði ekki upplýsingum mínum um að afi minn væri á myndinni; vegna þess að hún var tekin í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði ekki nám eins og ég upplýsti safnið skilmerkileg um. Hins vegar var skólameistarinn í Flensborg faðir Þorvalds vinar afa. Þorvaldur trassaði óskir föður síns, Ögmundar Sigurðssonar, um að hann færi menntaveginn. Þorvaldur fór í staðinn á sjóinn, sem var sá vegur sem hélt lífi í íslensku þjóðinni, sem ekki voru óðalsbændur.
Hann nýtti sér þann möguleika að fá teknar myndir af sér ásamt vini sínum þegar Kaldal kom og tók ljósmyndir af nemendum Flensborgarskóla, þar sem hvorugur þeirra stundaði nám. Vonandi skilur Þjóðminjasafnið þetta. Afi var eins og svo margir aðrir einfaldlega of fátækur til að geta lagt stund á nám, þó hann hefði gjarnan viljað það. Slíkt skilur sjálftökufólkið ekki í dag.
Síðastliðið haust, þegar ég leit eina kvöldstund í fjölmörg myndaalbúm móður minnar rakst ég á tvær aðrar myndir frá sömu upptökunni af Vilhelm afa og Þorvaldi í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði reyndar ekki nám, en þar sem myndin var nú samt tekin. Ég ljósmyndaði myndirnar sem móðir mín varðveitir. Myndir Þjóðminjasafnsins getið þið séð hér og hér.
Þjóðminjasafninu er því nú orðið alveg óhætt að bæta við og vitna í upplýsingar á Fornleifi á Sarpi og nefna afa minn, en ekki aðeins skrifa um skólastjórasoninn í Flensborgarskóla sem Jón Kaldal tók mynd af - með afa mínum. Afi minn var sonur verkamanns sem bar kolasekki við Reykjavíkurhöfn og varð loks undir einum slíkum sem féll niður á hann úr miklum stakki sem hrundi. Hann hálsbrotnaði. Enn er ekki finna nafn afa míns á Sarpi við þessa mynd, tveimur árum eftir að Þjóðminjasafnið fékk þær upplýsingar að hann væri á henni. Kannski hafa menn þar á bæ ekki áhuga á öðrum en heldri manna piltum? Ég tel það reyndar öruggt.
Ég geri mér vitaskuld grein fyrir því að það vinnur orðið svo fátt, sérmenntað starfsfólk á Þjóðminjasafninu. Þar vinna flestir nú orðið við einhvern krambúðarkassa, við gæslu, í fatahengi og kaffistofu (sjá hér), meðan að yfirmaðurinn gerir sér enn drauma um að verða prófessor án þess að hafa nokkuð fyrir því, annað en að vinna fyrir hið pólitíska viðundur Sigmund Davíð sem og í ígripavinnu við að reka fólk á öðrum stofnunum. Myndir segja svo margt (sjá hér), en þegar ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands er fyrirmunað að skrá upplýsingar um myndir sínar, þegar enn er til fólk sem getur sagt söguna, þá er illt í efni. Reyndar á þetta líka við um aðra muni en ljósmyndir. Þjóðminjasafnið er sannast sagna ekki orðið annað en frekar þreyttar sýningar sem engum breytingum taka og sem veita fjöldann allan af röngum upplýsingum.
Mig langar til gamans að upplýsa, að afi minn var með Þorvaldi á nokkru vertíðum á bátum og togurum frá Siglufirði. Afi þótti listakokkur og sinnti því starfi lengst af þegar hann var sjónum. Hann kom oft til Akureyrar, því honum þótti gott að fara á ball og á kaffihús. Gefinn var hann fyrir kökur, karlinn.
Meginflokkur: Ljósmyndafornleifafræði | Aukaflokkar: Gamlar myndir frá Íslandi, Gamlar myndir og fróðleikur, Menning og listir | Breytt 30.4.2020 kl. 13:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.