Haraldsslátta - og fyrsta íslenska verkfallið

Væringjalenín

Efni þessarar greinar er fyrsta verkfall Íslendings sem skráð er á bókfell. Greinin er í pólitískari endanum.

Verkfall var eitt sinn vopn þeirra sem voru láglaunaðir til að verja kjör sín og bæta og verjast því að á rétti þeirra væri troðið. En í dag er svo komið að hálaunamenn misnota almennan verkfallsrétt til að hækka laun sín úr öllu valdi. Það er náttúrulega ekki verkalýðsbarátta, heldur hin gamla íslenska græðgi þeirra sem þegar hafa nóg.

Ef einhver nennir að lesa verkalýðssöguna hér fyrir neðan, komist þið að því hvernig tvær fornar myntir og fornleifarannsókn tengjast fyrsta verfalli Íslendings óbeint - en á áhugaverðan hátt. 

Á hinum fyrsta, glaða og jafnvel fáránlega áratug þessarar aldar voru umsvifin mikil á Íslandi. Sumir íslendingar ímynduðu sér að þeir ættu orðið afar mikilvægu hlutverki að gegna á meðal þjóðanna. Ísland fór í gegnum hybris-tímabil, sem ein af afleiðingum eyjaþjóða-háttarlags og oft á tíðum hálfhjákátlegrar þjóðhverfu, sem einnig á um margt skylt við minnimáttarkennd.

Höfði House, norsk bygging í iðu dekkjaverkstæða og raftækjaverslana í Borgartúni í Reykjavík, hafði nokkrum árum fyrr verið lánað út undir mikilvægan lykilfund heimsstjórnmálanna. Þar með virtist tími skuttogara, dorgs og hraðfrystihúsa vera liðinn í takt við að veggur í Berlín var rifinn. Á Íslandi voru svín tekin í heilagra dýra tölu í stað sauðkindarinnar.

Íslenska þjóðfélagið hafði einnig verið tölvuvætt. Allt þetta venjulega varð vitaóarðbær, t.d. gamalt fólk, sér í laga það gagnrýna. Það var bara fyrir. Nýr aðall á Íslandi hagaði sér eins og kóngar og prinsessur - en þetta voru hrappar eins og við vitum nú öll, og þessi frásögn fjallar einmitt líka um konunglega hrappa og hvernig Íslendingar tóku þá í karphúsið.

Fornleifarannsóknir á fyrirhrunsárum

Því sem ég segi nú frá, gerðist á þeim tímum er sumir töldu peninga vaxa á trjám á Íslandi og bankaræningjar riðu sem hetjur um héruð og fóru í Víking í löndum þar sem fólk þyrsti eftir að láta pretta sig. Í þá daga var einnig þjösnast upp á hálendið til að grafa upp einhverjar fornleifar sem voru fyrir mikilvægum virkjunarframkvæmdum. Nógir peningar voru til alls. Nú átti að selja rafmagn til Evrópu gegnum óskhyggjuleiðslur eða hreinan þankaflutning. Fornleifafræðingar flógu feitan gölt á þessum uppgangstímum ímyndunarveikinnar á Íslandi. En þeir eru eins og kunnugt er afar látlaust og lítillátt fólk.

 

124699054_10158550191490967_6910451342396712910_o

Frá rannsókn FÍ á seljarústinni "Pálstóftum". Ljósm. Fornleifastofnun Íslands á FB. Þröngt hefa menn setið í seli.

Forn seljarúst uppi á heiði, sem annars hefði farið á bólakaf í uppistöðulóni Kárahnjúkavirkjunnar, var meðal þess sem tókst að rannsaka sökum beljandi uppgangs og blindrar bjartsýni í þjóðfélaginu. Seljarústin sýndi okkur vita óarðbæran rekstur fyrri alda í mæðu, móðuharðindum, riðu og ráðaleysi. En nú voru nýir tímar. Mistök fyrri alda átti að grafa úr moldu, svo þau yrðu ekki endurtekin.

Gildismatið var hins vegar ekki eins gott og vísustu menn töldu sig hafa fyrir séð. Allt fór loks í harðlífi og kút árið 2008. Sumir hafa þegar gleymt því eða troðið því neðst niður í undirmeðvitundina.

Á hinum hryllilegu árum, eftir allan uppganginn og svo hrunið, fóru sumir menn að berja á eldhúsáhöld í örvilnan sinni - en þeir sem valdið höfðu fárinu lögðu bara ný plön fyrir áframhaldandi prettum og fúski eins og erfðamengi þeirra hafði valið þeim að gera. Í ónáttúrulegu vali manngerðarinnar homo fraudationis, sem hefur komist til mikilla metorða á Íslandi, gerjast alltaf eitthvað í pottinum.

Fornleifastofnun Íslands (FÍ) heitir fyrirtæki eitt úti í bæ. Þrátt fyrir hið mikilfenglega nafn, sem leiðir hugann um veglega og gljápússaða ganga í háskólabyggingu sem ber nafn Kristjáns Eldjárns, er FÍ hvorki háskóla- né ríkisstofnun. FÍ dafnaði vel á velmektarárunum fyrir hið andlega hrun þjóðarinnar árið 2008.

Fyrirtækið vann meðal annars útboðið á rannsókn á seljarústunum sem kallaðar er Pálstóftir í hausinn á Páli Pálssyni í Aðaldal, sem upphaflega hafði fundið rústina. Rannsóknir fóru fram árið 2004 og 2005 og rústin fékk nýtt vinnuheiti ættað úr tölvufræði sem hefur haslað sér völl í fornleifafræðinni á heldur furðulegan hátt. Grafin var upp "útstöðin" Pálstóftir. Nú, á hinum miklu framgangstímum var ekki lengur hægt að tala um eins skammarlegt fyrirbæri og útnorskt eins og sel. Mörgum varð reyndar ekki um sel er það gerðist.

FÍ heldur um þessa mundir upp á 25 ára starfsafmæli sitt, með rekstri sem það getur mest megnis þakkað opinberu fjármagni. "Einkavæðing" fornleifafræðinnar var hugsanlega nauðsynleg, til að koma henni úr ládeyðu þeirri sem ríkti meðan öll fornleifasýsla í landinu fór í gegnum í hæsta lagi tvo starfsmenn fornleifadeildar Þjóðminjasafns -  og síðar líka gegnum vitstola kerfi Þjóðminjaráðs og Fornleifanefndar, sem mest stóðu í því að reyna að ryðja ládeyðunum burt af Þjóðminjasafninu. Þetta var auðvitað allt áður en eldhuginn sem nú stjórnar Þjóðminjasafninu til sögunnar og framkvæmdastjóri Minjastofnunar eldaði grátt silfur við Fornleifastofnun Íslands. Varð oft af þessu mikil skemmtun, en í raun er öll þessi saga meinasorgleg.

En ekki vil ég útiloka að það væri betra að láta lítil fyrirtæki berjast fyrir því sem gera þurfti, en aldrei gerðist, vegna þess að Þjóðminjavörður var ódugandi, ráðuneytið skilningssljótt og stjórnmálamenn eins og álfar út úr hól eða á Klausturbar.

Versta hlið einkavæðingarinnar á uppgangstímunum var náið samstarf FÍ og annarra aðila við ráðríkan prófessor í New York, sem vildi hafa Ísland sem sitt eigið konungdæmi til að grafa upp dýrabein í öskuhaugum, og oftast í leyfisleysi. Stórkaninn (sem var eins konar homo trumpensis) reyndi leynt og ljóst að bola öðrum soltnum löndum sínum frá fjármagni til Íslandsrannsókna, sem hann mjólkaði einn í BNA, meðan að leppmenn hans á Íslandi hjá einkafyrirtæki með ríkisnafn mjólkuðu íslenska ríkiskassann í boði vinalegra ráðherra.

Til að halda upp á afmælið sitt, hefur FÍ birt nokkra pistla á Fjasbók sinni, þar sem greint er frá sumum merkum rannsóknum fyrirtækisins. Nú um daginn var röðin komin af útstöðinni Pálstóftum og var fróðleiksfúsum lesendum sagt, hvar þeir gætu fengið betri upplýsingar um rannsóknina.

Haraldsslátta og Íslendingurinn Halldór Snorrason

Það kom mér mjög á óvart, að síðan ég las grein um rannsóknirnar á Pálstóftum í Árbók hins íslenska Fornleifafélags (sjá hér), hafði vitneskjan og andlegi auðurinn úr jörðinni ekkert ávaxtast. Ekki virðist hafa verið leitast eftir því að verða vísari um það sem fundist hafði.

Þrátt fyrir heldur ófjölbreytta forngripaflóru, sem er víst tilfellið í mörgum seljarústum þar sem búseta var tímabundin í skamman tíma í senn, þá hefur ekkert meira verið ritað um tvær myntir sem í norskri og íslenskri tímaritsgrein var nefnd til sögunnar sem koparmynt frá tímum Haraldar Harðráða Noregskonungs sem ríkti frá 1047 til 1066.

Haraldur ætlaði í stríð við Vilhjálm Hróbjartsson fursta frá Normandí, en mátti í óðagoti sínu láta lífið í orrustunni við Stamford Bridge. Normannarnir voru einfaldlega sterkari en frændur þeirra Norðmenn. Í grein í Norwegian Archaeological Review, sem þýdd var yfir á íslensku í Árbókinni, sást engin viðleitni til þess að skilja eða hvað þá velta því fyrir sér hverju það sætti, að tvær myntir úr myntsláttu sama Noregskonungs fundust í seljarúst á afdölum Íslands. Reyndar er minnst örlítið á myntirnar tvær frá Pálstóftum í þessari B.A. ritgerð við HÍ. Ritgerðin gefur ágætt yfirlit.

Ég er ekki að biðja um að menn skáldi eitthvað þegar þeir sigla lens í fræðunum, eins og þegar menn fóru að trúa því að þeir hefðu fundið eskimóakonur austur á landi og austurlenska Allah-perla á Stöðvarfirði eins og margfrægt er orðið. Það er skáldskapur og allt önnur grein en fornleifafræði.

En þar sem myntirnar fundust austur á landi, hlaut að vera einhver merkileg saga á bak við þá, eða í það minnsta tengd þeim. Og fornleifafræðin er oftast lyginni sterkari. Það er fræðigrein þar sem menn þurfa eigi að stunda lygafréttir til að komast af. En fornleifafræðin á Íslandi hefur nú líka frekar verið framkvæmdarsýsla en fræðimennska í nokkra áratugi. Ég sendi Fornleifastofnun reikninginn fyrir fræðilega greiningu.

124766237_10158550191300967_100622818716712415_n

Myntirnar tvær í "Pálstóftum" hafa verið boraðar tveimur götum og þræddar upp á sörvisband (perlufesti), sem sumir seljadrengirnir skörtuðu líklega við mjaltir í kvíum. Þær teljast til mynta með skreyti sem ber gríska heiti fléttunnar/hnútsins sem skreytir þá, þ.e. Triquetra (Triquetra-gerð). Triquetra táknaði um miðja 11. öld heilaga þrenningu enda konungar þeir sem notuðu það kristnir. Skreytið kemur fyrr fyrir á dönskum og Engilsaxneskum myntum. Þessar myntir eru afar sjaldgæf gerð (skreyti) og árið 1975 höfðu aðeins fundist 257. En myntina er þó hægt að kalla grunninn að fyrsta myntkerfi Noregs. Sérlega sjalfundnar eru þeir peningar með þrífléttunni sem Haraldur Harðráði lét slá og sem hafa hring sleginn í fyrsta fjórðunginn (efst til vinstri) á bakhliðinni.  Norski myntsérfræðingur Kolbjørn Skaare  kallar þá gerð 75/R89. Vegna þess að þessi slátta Haralds innihélt stundum meiri kopar en silfur var ekki mikið lagt í sláttuna og stundum var textinn sem upphaflega var á latínu og jafnvel á norsku með rúnum orðið ólæsilegt hrafl eins og tilfellið er með myntirnar sem fundust í Pálstóftum. Þetta var svo sannarlega álkróna síns tíma. Ljósm. Fornleifastofnun Íslands.

Myntir geta sagt mikla sögu, fyrir utan að gefa góða hugmynd um að búsetalög, sem þær finnast í og við, séu ekki mikið eldri en myntin (ef hún hefur ekki fallið niður um rifu í gólfi). Þessi regla á kannski ekki við um myntir sem finnast í seljarústum. Ekki held ég að myntir hafi oft fundist við seljarannsóknir eða í "sætrunum" í Noregi. Hvað áttu menn svo sem að gera við peninga í seljum. Þeir sem þar unnu voru hálfgerðir þrælar eða á neðsta þrepi í launastiganum.

Starfsmenn FÍ nýttu sér ekki myntirnar og leitaði yfirmaður rannsóknarinnar, sem nú er prófessor við HÍ, ekki til þess mynt"sérfræðings" sem oftast hefur verið leitað til, Antons Holt fyrrv. safnstjóra Seðlabankans. Nei, í rauninni var lesandanum í sjálfvald sett að velta fyrir sér myntunum alveg einir og óstuddir. Það getur vitaskuld verið varasamt, ef maður er ekki fornleifafræðingur. Fornleifafræðingurinn sem stjórnaði rannsókninni var greinilega ekki vel að sér í fornleifafræði Norðurlanda, enda aðfluttur frá Bretlandseyjum. Ef hann hefði haft lágmarkskunnáttu á myntfræði Norðurlanda (sem fornleifafræðingar á Norðurlöndum eru ekki einu sinni sjálfir), hefði hann uppgötvað ýmislegt, sem gert hefði niðurstöðurnar fyllilegri og skilað meiru frá Fornleifastofnun Íslands til þjóðarinnar sem borgaði fyrir rannsóknina - svo atvinnuvegirnir og sala á rafmagni mætti blómgast í gylltri framtíð fyrirmyndaríkisins Íslands, þar sem bankar möluðuð gull úr lofti líkt og áburðarverksmiðjur.

Myntirnar tvær sem fundust í rústum Pálstófta eru úr svo kallaðri Haraldssláttu. Haraldsslátta var, eins og fyrr segir, slátta Haralds harðráða Noregskonungs, og er sláttunnar og annmörkum hennar rækilega getið í Sögu Haralds Harðráða sem sumir telja að Snorri Sturluson hafi ritað. Elsta varðveitta handritið er í Morkinskinnu frá 1275-1300 (GKS[Gammel Kongelig Samling]-1009 fol.; Handritið er enn í Kongunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn).

Mig grunar, að Haraldur kóngur (hinn þriðji) hafi verið ættingi og jafnvel forfaðir sumra útrásarvíkinga Íslands á 21. öld. Hann var að minnsta kosti með sömu brenglaða siðferðið og þeir. Hvort veldur uppeldi eða erfðir veit ég ekki. Hann þynnti kaupsilfur sitt með kopar. Það hefur aldrei verið talið efnilegt. Hann var því  svikahrappur og þessi málmblanda hans var ekkert annað en verðbólguskapandi aðgerð, sem ekki var algeng annars staðar í Vestur-Evrópu á hans tíma. Þessi meðferð á silfrinu fór líka í skapið á íslenskum hirðmanni hans, sem var forfaðir ritstjórans á Fornleifi. Silfrið í sláttu Haralds harðráða Sigurðssonar gat farið alveg niður í 50% eða minna. Á tímum, þegar nóg var til að silfri og koparpeningar ekki talin gangmynt var þessi þynning konungs afar einkennileg aðgerð til að pretta menn, enda var myntin ekki gjaldgeng annars staðar en í Noregi.

Í Sögu Haralds Harðráða og Sona Hans (hér höfð með smávægilegum leiðréttingum eftir útgefu Finns Jónssonar: Finnur Jónsson (1932) Morkinskinna; udgivet for Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur LIII. J. Jørgensen, Kbh, greinir frá Íslendingi einum, Halldóri Snorrasyni í Hjarðarholti (f. ca 1014), sem var liðsmaður Haraldar Sigurðssonar, er þeir voru væringjar, leiguliðar í lífverði keisarans í Miklagarði. Sagan segir frá óánægju Halldórs vegna lélegs silfurs sem Haraldur borgaði mönnum sínum með:

Oc er cømur enn atti dagr iola var monnum gefinn mali. Það var callat Harallz slatta. var meiri lutr copars. Þat bezta costi at veri helmings silfr, oc er Halldorr toc malann. hefi hann i mauttuls skavti sino silfrit ok litr á. oc syniz eigi scirt mala silfrið. lystr vndir neþan annaRi heNndi. oc feR þat allt i halm niðr. Barþr melti. q[aþ] hann illa meþ fara, mon konvngr þicciaz svivirðr i. oc leitað a við hann vm malagjofna. Ecki ma nv fara at slico s[egir] H [alldor]. litlo hettir nv til. Nv er fra þvi sagt at þeir bva scip sin eptir iolin. etlar konvngr svþr fyr land. oc er konvungr var mioc sva bvuinn. þa biosc H. ecki. oc melti Barþr. hvi bystv eigi Halldorr. Eigi vil ec s[agði] hann. oc ecki etla ec at fara, se ec nv at konvngr þoccar ekki mitt mal. Barþr s[egir] Hann mon þo at visu vilia at þv farir. Fer Barðr siðan oc hittir konvung, segir honum at Halldorr bysc ecki. mattv sva etla at vandskipaðr mon þer vera stafniN i stað hans. Konvngr melti. Seg honom at ec etla at ham scyli mer fylgia. oc þetta er ecki alogat feþ sia er með ocr er vm hriþ. Barðr hittr Halldor oc letr at konvngr vili enski costar lata hans þionosto. oc það rezc or at Halldorr feR. ...

En áfram hélst óánægja Halldórs, því fyrir utan nánasahátt Noregskonungs voru einnig þjóðernisfordómar í gangi á 11. öld. Þegar konungur hafði brotið frekar á Halldóri setti drengurinn Dóri önnur skilyrði:

H[ann]. s[agþi]. Eigi scal ec þo optaR vera a konvngs scipino. oc ef hann vill hafa mitt foroneyti lengr. Þa vil ec hafa scip til stiornar oc eignz þat. B[arþr]. s[agþi]. Þat samir eigi at lendir menn lati scip sin fire þer. oc ertv of framgiarnn. H.[alldorr] quaz eigi fara myndo elligar. Barðr s[agþi] konvngi hvers beitt er af Halldors hendi, oc ef hasetar þess skips eo jafntravstir sem styrimaþr þa mon vel hlvþa. Konvngr melti. Þott þetta þicci framala melt vera. þa scal þo af nacqvat gera.

Sannarlega var Halldór þessi forfarði ritstjórans hér á Fornleifi, og er greint frá því í nútímauppflettinu Íslendingabók. Trúi hver sem trúa vill, en ég er samkvæmt hinni mjög nákvæmu ættfræðiskrá (sem einnig var afsprengi fyrirhrunsæðisins), afkvæmi Halldórs Snorrasonar í 26. lið - enda jafn helvíti þrjóskur og þver og karlinn. 

En svikahrappar halda ávallt uppi uppteknum hætti, þannig að Halldór, sem var kannski ekki launþegi í nútímamynd orðsins, efldist allur í launabaráttunni gegn Noregskonungi. Í gildi miklu í Niðarósi var Halldór meðal gesta konungs. Hann sletti þessu í kóngsa við tækifæri:

... oc se ec at drotning [innskot Fornleifs: Ellisif Elisheva/Elísabet Jaróslavsdóttir] hefir hring ahendi þvi hofi mikinn. fa mer þann. Konvngr s. Þa verþvm vit fara eptir scalvm oc vega hringiN. Ecki þarf þess s. H. tec ec hann fyr lvt minn enda montv nv ecki prettonom viþ coma at sinni. oc sel fram titt. Trotning melti. Ser þv eigi s. hon. at hann stendr ifr. þer vppi meþ vighvg. tecr siþan hringinn og fer Halldori. Hann tecr við oc þaccar þeim baþom gialldit. oc bidr þar vel lifa. oc mono ver nv scilia. gengr nv vt oc melti við foronavta sina. biþr þa hlavpa sem tþast til scipsins. þvi at ofuss em ec atcveliaz lengi ibønum. Þeir gera sva. coma a scipit. og þegar inda svmir upp seg. svmir ero at bati. svmir heimta vpp aceri. oc bergsc hveR sem ma. oc er þeir sigldo vt scorti eigi hornnblastr i bønum. oc það sa þeir siðarst at .iii. langscip voru a floti. oc logþo eptir þeim. en þo beR þa vundan oc ihaf. scilr þar meþ þeim oc byrjaþi H. vel vt til Islanz. en konvungs menn hvorfo aptr. er þeir sa er Halldor bar vndan oc i haf vt. Nocorom svmrom siþar sendi Haralldr konvngr orþ Halldori. Snorra s[agði]. at haN scylldi raþas enn til hans. oc let at eigi scylldi verit hafa hans virþing meire en þa ef hann villdi farit hafa. En HalldoR quaz ecki nv myndo fara akonvngs fvnd heþan i fra. oc mondi nv hafa hvaR sem fengit hefþi. oc se ek gorla s.[agði] hann at þar etlar hann mer galga. ef ec køm. oc kan ec scaplyndi hans. oc mvn ec ecki trva honum. Oc er aleiþ mioc efi Harallz konvngs. þa er sagt at  [hann] seNdi Halldori orþ til að hann scylldi senda honum melracka belgi. villdi ger af þeim ifir recio sina. þvi at konvngr þottiz þa þurfa hlys. oc er Halldori com sia orðsending konvngs. þa er sat at hann scyti þvi orþi viþ i fyrstto. elldisc argalin [árgalinn/haninn] nv saþi hann en sendi honum belgi.

 

Savnet fra Bergen

Armhringur þessi (úr gulli) var meðal fleiri hundruða gripa sem rænt var á forngripasafninu í Bergen fyrir nokkrum árum síðan. Mikill hluti gripanna er kominn í leitirnar, en enn hafa menn ekki haft upp á þessum hring, sem gæti hafa verið eittvað í stíl við það sem Ellisif Jaróslavsdóttir úr Kænugarði bar og forfaðir minn hrifsaði með sér til Íslands og þóttist þá kvittur við kóng.

Svona lagað er auðvitað ekki hægt að gera lengur, enda eru sumir launþegar á Íslandi farnir að leika hlutverk konungsins.

Hvort refabelgirnir hafi verið fyrir rekkju konungs eða í kápu mikla á rússneska kerlingu hans, læt ég ósagt, en gamli konungurinn hafði greinilega tak á Halldóri sem líklegast hefur ekkert fengið fyrir sinn snúð fyrir láfætlur og skaufhalana, nema að Snorri Sturluson sé að ljúga þessu öllu.  

 

Hvað sýnir sagan og myntirnar í Pálstóftum okkur?

Myntslátta svikahrappsins Haralds Harðráða, og sagan sem sögð var um sláttuna snemma á 13. öld, sýnir okkur hve nauðsynlegt það er að svara fullum hálsi illa siðuðu fyrirmönnum og yfirmönnum, sem hafa ofmetnast, þannig að þeir telja valdsvið sitt og gerðir hafin yfir alla gagnrýni. Hrappsháttur er til í öllum þjóðfélagsstigum, og manngerðin sem hana ber kemur alltaf fljótt upp um sjálfa sig.

Halldór Snorrason var hins vegar ekki hinn dæmigerði launþegi. Hann var í austurvíkingi með norskum fursta. Þegar norrænir menn rændu og rupluðu meðal framandi þjóðar, voru þeir ekki taldir til þjófa, ef þeir sem rændir voru vissu að þeir væru rændir. En fólks sem stal frá öðrum í leyni, líkt og Haraldur konungur gerði, voru ótíndir hrappar og þjófar. Víkingar og Væringjar litu hins vegar ekki á sig sem þjófa því þeir létu þá sem þeir rændu finna fyrir því að verið var að ræna þá og jafnvel með brandinum og atgeir, og síðar með krossi.

Myntir Haralds konungs svikahrapps sem fundust á Íslandi, sýna okkur að við eigum heldur ekki að láta einkafyrirtæki með ríkisnöfn, sem siðlausir ráðherrar hafa sett beint á ríkisspenann, komast upp með það að skila af sér skýrslu fyrir rannsóknir, sem kostaðar voru með fleiri milljónum króna af almannafé, ef fornleifafræðingarnir/höfundar vita ekki að myntir þær sem þeir fundu hafi komið úr Haraldssláttu.

Þessar myntir voru ekki mikils virði er þær voru komnar til Íslands, hugsanlega með öðrum mönnum en Halldóri Snorrasyni, sem einnig höfðu verið sviknir af Noregskonungi. Myntirnar voru orðnar að skrauti og greinilega bornar hvunndagslega í seljum í lok 11. aldar.

Harla svívirðilegt væri af fornleifafræðingum á Íslandi, sem nokkrum er í nöp við heimildagildi fornritanna, að afgreiða Haralds Sögu Harðráða sem skáldsögu og uppspuna Snorra Sturlusonar; ef það var þá hann sem ritaði. Við höfum myntirnar tvær undir höndum og þær staðfesta söguna og sagan þær. 

Til hamingju Fornleifastofnun Íslands

En ég óska þó hér í lokin "stofnuninni" til hamingju með fyrstu 25 árin og fyrir að henni hefur öll þessi ár tekist að telja erlendum samstarfsaðilum trú um að þetta væri stofnun, Institut.

Fornleifastofnun Íslands hefur ekki alltaf staðið sig í stykkinu þau 25 ár sem hún hefur starfað og barist með ríkisfé í asa við aðra fornleifafræðinga á "markaði" og þjóðminjayfirvöld.

Ég hef því miður sært fólk með því að upplýsa það um hið hálfhrappslega nafn fyrirtækisins. Það er örlítill Haraldssláttubragur yfir því, ef ég leyfir segja skoðun mína. Einn erlendur maður lét eftirfarandi orð falla, er ég kom honum í skilning um að Fornleifastofnun Íslands væri bara einkabissness: Well, some people just need to be institutionalized.

Ítarefni: Coins and Coinage in Viking-Age Norway: The establishment of a national coinage in Norway in the XI century, with a survey of the preceeding currency history. Universitetsforlatet, Oslo-Bergen-Tromsö. Bókin er til á norsku í Seðlabanka Íslands. Ég set pdf-skrá með mikilvægustu blaðsíðunum í bókinni varðandi Haraldssláttu.

en-historisk-mynt-khm-970

Efst: Haraldsslátta áður en hún þynntist, og fyrir neðan mynt sem nýlega var seld á uppboði í Danmörku. Hún mun vera af sjaldgæfustu gerð peninga úr Haraldssláttu en með sæmilegu silfurinnihaldi.

image00328


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tvær athugasemdir. Önnur efnisleg. "...bankaræningjar riðu sem hetjum um héruð og...". Hér er orðinu "sem" tvímælalaust ofaukið.

Hin málfarsleg. "Fornleifafræðingar fláðu feitan gölt...". Væri ekki betra: "...flógu feitan..."?

Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 29.11.2020 kl. 15:31

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Vielen Dank, Hr. Sprachpolizist!

FORNLEIFUR, 29.11.2020 kl. 15:35

3 identicon

Væl gagnist!

Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 29.11.2020 kl. 15:43

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nafn þessa fyrirtækis, Fornleifastofnun Íslands minnir á Landsbanka Ísland á nefndum "uppgangsarum" sem enduðu í niðurgangi. Það einkafyrirtæki hét hvorki meira né minna en National Bank of Iceland á erlendri grundu. Engin furða þótt þeir vildu krefja okkur larfana um Icesave. Menn trúðu því í alvöru að þetta væri ríkisbanki, líkt og menn trua því að eháeffið Fornleifastofnun Íslands sé ríkisstofnun.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.11.2020 kl. 22:55

5 identicon

Ef gúgglað er "First National bank of" má finna banka frá Ameríku til Namibíu sem ekki eru ríkisbankar.

Haraldur harðráði fór til Englands til að berjast við nafna sinn Guðinason. Bardaganum við Stafnfurðubryggjur við York var rétt lokið þegar fréttir bárust þangað um komu Vilhjálms til Hastings. Engilsaxnesisk herinn marséraði suður á 10 dögum að mig minnir.

Jón (IP-tala skráð) 30.11.2020 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband