Íslenski nasistinn sem ferðaðist gegnum Síberíu - í huganum
16.2.2021 | 12:54
Hér um daginn, 11. febrúar 2021, birtist áhugaverð grein, en heldur stutt, í Morgunblaðinu. Þar var endursagt viðtal við Jóns Frímann Sigvaldason fyrrv. bílasmið í Garðabæ.
Árið 1979 hitti Jón, sem fæddur er 1929, af algjörri tilviljun, íslenska nasistann og Kínakaupmanninn Gunnar Guðmundsson (1917-2010) á hóteli í Guangzhou (Kanton).
Í Morgunblaðsgreininni, sem Stefán Gunnar Sveinsson blaðamaður ritar, segir Jón frá minningu sinni af fundi sem hann átti með Gunnari á hótelherbergi í Kanton, þar sem Gunnar vildi ólmur segja Jóni sögu sína.
Saga Gunnars er mjög flókin, og ekki allt það sem ritað hefur verið um Gunnar Guðmundsson alveg nógu nákvæmt. Hér skal bætt úr skák, svo grein í Mogga verði ekki með tímanum að sannleiksheimild um íslenska nasistann Gunnar Guðmundsson.
Það var ófrávíkjanlegur siður Gunnars Guðmundssonar að segja ósatt til um nær allt í fortíð sinni í þýskri þjónustu. Þess vegna er lítið hægt að fara í saumana á þeirri sögu sem hann sagði Jóni, því það sem sagt hefur verið um Gunnar í bókum er líka meira eða minna rangt eða logið.
Sú bók sem blaðamaður Morgunblaðsins vitnar í, Berlínarblús, er því marki brennd að höfundurinn hefur haft takmarkaðan aðgang að heimildum. Í því sem skrifað hefur verið um íslenska nasista vantar mikið af upplýsingum um Gunnar Guðmundsson í Danmörku. Í Ríkisskjalasafninu (Rigsarkivet) í Kaumpannahöfn skoðaði Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur, höfundur Berlínarblús, aðeins skýrslu danska Dómsmálaráðuneytisins nr. 1111 um Íslendinga sem unnu í þjónustu Þjóðverja í stríðinu, skýrslu sem mun einnig hafa verið send til Íslands.
Ljóst er sömuleiðis, að Gunnar Guðmundsson laug grimmt að fólki. Það var nánast alltaf siður manna sem ótilneyddir gengu til liðs við ógnarríki Hitlers og frömdu þar jafnvel glæpi. Gunnar Guðmundsson var ekki einn um að ljúga.
Oft voru þeir sem gengu í Waffen-SS ekki bestu börn heimsins, þjófar og loddarar, og það er engin ástæða til að fegra eða mæra minningu þeirra, en þessir óhamingjumenn, og ekki síst það þjóðfélags sem ól þá, eiga það þó skilið að rétt sé sagt frá, og það gerði hinn vel minnugi Jón Kr. Sigvaldason er hann tók nýlega á móti blaðamanni Morgunblaðsins á heimili sínu og sagði frá því er hann hitti Gunnar Guðmundsson í Kína fyrir tilviljun.
Ég talaði einnig við Gunnar Guðmundsson
Sjálfur hringdi ég í Gunnar Guðmundsson árið 2001, þegar ég vann á Dansk Center for Holocaust og Folkedrabsstudier.
Með hásri en jafnframt djúpri rödd reykingamannsins lét gamli nasistinn móðan mása, en mest af því sem hann sagði mér var helber lygi. Meðan að ég talaði við hann, sat ég með gögn um hann fyrir framan mig, m.a. dóma frá Danmörku og skjöl frá Englandi, þar sem breska leyniþjónustan tók saman það sem þeir fengu af upplýsingum um Gunnar, frá íslenskum njósnurum sem fangaðir höfðu verið á Íslandi. Ég vissi því að vart eitt aukatekið orð af því sem Gunnar Guðmundsson sagði mér var sannleikanum samkvæmt.
Lítilfjörleg gögn um Gunnar Guðmundsson hjá Bresku leyniþjónustum MI5 og MI6 hef ég lengi haft undir höndum og virðist blaðamaður Morgunblaðsins hafa komist yfir þau skjöl, enda þau nú aðgengileg öllum. Þau eru frekar lítils virði og eru fyrst og fremst, hvað Gunnar varðar - samantekt annarra og þriðju handa upplýsinga um Gunnar sem fengnar voru hjá Íslendingum sem handteknir voru fyrir njósnir á stríðsárunum. Ekki virðast Bretar hafa náð að yfirheyra Guðmund er hann var handsamaður í Kaupmannahöfn árið 1945.
* Ljósmyndin ofar er úr vegabréfi Gunnars (sjá efsts) sem gefið var út í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn þar þann 9. júní 1944. Þá var Gunnar nýgenginn í SS.
Þegar Gunnar Guðmundsson gerðist geðveikur
Nei, það er engin ástæða að fetta fingur út í minni Jóns Fr. Sigvaldasonar, sem blaðamaður Morgunblaðsins heimsótti. En í Kanton sagði Gunnar honum auðvitað ekki allan sannleikann um sig, frekar en mér 20 árum síðar í Kaupmannahöfn.
Gunnar Guðmundsson sagði ekki Jóni Fr. Sigvaldasyni frá því að hann gerðist skyndilega geðveikur í Kaupmannahöfn árið 1944. Mjög umdeildur danskur geðlæknir, sem taldi hann í fyrstu sýna einkenni geðsjúkdóms, komst síðar að þeirri niðurstöðu að allur krankleikinn væri leikur, uppgerð og uppspuni.
Fréttir af geðveiki Gunnars kom meira að segja út í ólöglega pressu Dana. Í fjölrituðu, leynilegu dreifibréfi kommúnista, sem var forveri danska dagblaðsins Information mátti svo lesa þetta :
/4.Novmeber1944.INFORMATION Nr.325.I.NORDISK NYHEDSTJENESTE Nr.29
Fredag Eftermiddag blev SS-Mand Gunnar Gudmundson, der gjorde Tjeneste i Vestre Fængsel, pludselig sindssyg, mens han opholdt sig paa Domhuset. Han blev indlagt paa Kommunehospitalets 6. Afdeling. Om det drejer sig om en organisk Sindssygdom eller om det er hans Oplevelser i Vestre Fængsel, der har ødelagt hans Nerver, vides selvfølgelig ikke, men det sidste maa anses for sandsynligt.
Þetta var reyndar ekki alveg rétt hjá leyniþjónustu andspyrnudeildar vinstrimanna í Danmörku. Gunnar hafði tekið æðiskast í ölæði og var handsamaður Huspetakler. Hann var tekinn fastur því hann var talinn hættulegur og hafði skotvopn undir höndum. Hann var fangelsaður í Vestre Fængsel en var aldrei fangavörður þar. Síðar var hann fluttur á spítala. Rétt er hins vegar að hann var orðinn meðlimur í SS á þessu stigi.
Áður en Gunnar Guðmundsson gekk til liðs við Waffen-SS þann 6. júni 1944, hafði hann verið liðsmaður Wehrmacht (þýska hersins) í Danmörku og unnið um tíma hjá Das Wachtkorps, á Station I (Höfuðbyggingu dönsku lögreglunnar í Kaupmanna. Í SS náði hann aldrei nema lægstu "tign", Schütze.
Einnig var haldið að hann hefði starfað hluta úr árunum 1942 og 1943 á Stelle Boysen sem stundaði viðskiptanjósnir und stjórn Bruno Boysen. Boysen var þjóðverji sem alist hafði upp í Vojens í Danmörku. Wehrmachtstelle Boysen var á Friðriksbergi og dulbúið sem inn- og útflutningsfyrirtæki. Aldrei var þó hægt að sanna að Gunnar Gunnarsson væri sá "Gudmundsson" sem var að finna á lista yfir starfsmenn Stelle Boysen
Gunnar sem njósnari Þjóðverja
Njósnastarfsemi Gunnars fyrir ferðina á Esju frá Petsamó í Finnlandi til Íslands frá Finnlandi í 1940 er heldur ekki hægt að staðfesta.
Gunnar hélt utan árið 1937, var munstraður á skip, en gekk í land í Kaupmannahöfn í byrjun 1938.
Upplýsingar um meintar njósnir Gunnars eftir að hann sneri aftur til Íslands koma frá íslenskum njósnurum sem komust í kynni Max Andreas Pelving (1895-1999), fyrrverandi danskan lögreglumann. Pelving hafði hrjáð gyðinga og aðra flóttamenn, þegar hann starfaði við útlendingalögreglu (Fremmedpolitiet/Tilsynet med Uldændinge) undir Dönsku Ríkislögreglunni (Statspolitiet - síðar Rigspolitiet). Pelving þessi var árið 1939 ásamt öðrum dæmdur í fangelsi fyrir njósnir í þjónustu erlends ríkis, nánar tiltekið fyrir Gestapo, sem og fyrir að hafa útvegað þjóðverjum upplýsingar um flóttamenn undan nasismanum sem höfðu fengið dvalarleyfi í Danmörku.
Pelving var síðar strax leystur úr haldi í apríl 1940, þegar Þjóðverjar réðust inn í Danmörku. Ljóst er að Gunnar þekkti ekkert til Pelvings á tímabilin 1937 þar til Þjóðverjar réðust á Danmörku 9. apríl 1940, enda Pelving lengst af í fangelsi.
Íslenskir njósnarar nasista, sem gengu til liðs við njósnaapparat þjóðverja í Danmörku, tengdu Gunnar við Pelving. Pelving hafði samskipti við Gunnar eftir að hann kom aftur til Kaupmannahafnar árið 1941 og aðstoðaði Pelving og þýska njósnaútsendara í Kaupmannahöfn við að leita uppi Íslendinga sem ætlun Þjóðverja var að senda til Íslands til að njósna. Pelving þótti góður á Íslendingana því hann var drykkjuhrútur og það voru margir Íslendinganna sem hann fékk á njósnatjansinn. Aðrir, þýskur höfuðsmaður, sá um að heimsækja íslenska stúdenta, sem einnig fengust sumir til að njósna, jafnvel sumir hálfólmir, og einn maður vegna þrýstings þar sem kynhneigð hans var notuð gegn honum.
Samstarfsmaður Gunnars Guðmundssonar nasista, Max Pelving. Hann særðist illa þegar danska andspyrnuhreyfingin sat fyrir honum í Kaupmannahöfn árið 1943. Hann var síðan falinn á Jótlandi, þar sem hann var um tíma illræmdur fangavörður í búðum nasista þar.
Ekkert í dönskum skjölum bendir til þess að Pelving hafi starfað með Gunnari árið 1940-1941, eftir að Þjóðverjar leystu hann úr fangelsinu þar sem hann sat inni fyrir að njósna fyrir þá - eða fram fram til þess tíma að Gunnar var meðal 258 farþega á Esjunni í Petsamóförinni til Íslands í október 1940.
Hins vegar sagði einn Íslensku njósnaranna sem handteknir voru af Bretum á Íslandi að Gunnar hefði verið handgenginn dönskum njósnara sem hét "PELVIN". Engin vissa er þó fyrir því að Gunnar Guðmundsson hafi verið sá njósnari sem haldið hefur verið fram að Bretar hafi fengu pata af að væri með Esjunni sem fór frá frá Petsamo 5. október 1940. Það er aðeins óundirbyggð ályktun íslensk sagnfræðings, sem er ósönnuð.
Gunnar Guðmundsson var ekki skráður fyrir upplýsingum um íslensk málefni í njósnakerfi Þjóðverja fyrr en hann kemur til Kaupmannahafnar 23. apríl 1941 eftir sína margslungnu ferð frá Íslandi, yfir hálfan heiminn að því er hann á stundum reyndi að telja fólki trú um. Þá fór hann um Hamborg, þar sem hann upplýsti leyniþjónustu þýska hersins um fjölda hermanna á Íslandi.
Hins vegar kom Íslendingur, annar en Gunnar, sem ætlað var að njósna, til Íslands með Esjunni frá Petsamó.
Gunnar var lýst sem óreglumanni og hann dæmdur fyrir fjárdrátt
Eitt að því sem Gunnar sagði ekki þeim sem á hann vildu heyra, var að hann átti alla tíð í vandamálum með Bakkus. Bæði sálfræðingaskjöl frá 1944 og 1945 sem og vinir hans Íslenskir sem Bretar yfirheyrðu á á Íslandi lýstu honum sem drykkfelldum mjög. Einn félaga hans í Kaupmannahöfn, sem sendur var til Íslands til að njósna, lýsti honum 1941 sem mjóslegnum manni, gulleitum á húð. Þessa lýsingu gaf njósnarinn Hjalti Björnsson sem var fangi Breta:
BJORNSSON described GUDMUNDSSON as a noted sponger, often drunk and borrowing money whenever he can.
Bretar tóku svo saman eftirfarandi lýsingu á Gunnari eftir yfirheyrslur á vini hans sem handsamaður var fyrir njósnir.
Gunnar komst einnig í kast við lögin eftir að hann sneri aftur til Kaupmannahafnar. Þann 8. desember 1942 var hann var dæmdur skilorðsbundnum fjögurra mánaða dómi fyrir fjárdrátt (og átta mánuði ef skilorð var brotið). Gunnar hafði svikið Íslending, sem vann í dönsku ráðuneyti, í viðskiptum með frímerki sem hann tók í umboðssölu. Gunnar stakk undan gróða (400 kr.) þótt samið hafi verið um 100 kr. greiðslu til Gunnar fyrir að miðla sölunni.
Nú eru kannski farnar að renna tvær grímur á þá sem hlustað hafa á sögur Gunnars eða trúað jólabókum sem segja lausaralega og illa frá ævintýrum hans.
Ferðin mikla frá Íslandi árið 1941
Í minningu Jóns Fr. Sigvaldasonar er að finna eina af mörgum ævintýralegum gerðum frásagna Gunnars Guðmundssonar um ferð Gunnars frá Íslandi til Danmerkur árið 1941, hálfu ári eftir að Gunnar kom til Íslands með Esjunni frá Petsamó. Hann sagði Jóni að hann hefði farið með skipi frá Íslandi til New York og þaðan til Sikileyjar, síðan upp gegnum Evrópu og til Kaupmannahafnar.
Önnur gerð, sem Gunnar grobbaði sig af, var að hann hefði farið frá New York til San Francisco og með skipi til Japans, síðan gegnum gjörvöll Sovétríkin og þaðan komist til Kaupmannahafnar. Þangað kom hann, eins og fyrr segir í apríl 1941. Í Danmörku var Gunnar einnig tvísaga við yfirvöld er hann var yfirheyrður eftir stríð. Sagði annars vegar frá ferðinni Ísland - New York, San Francisco, Japan - Spánn - og Danmörk, og hins vegar ferð sem hljóðaði upp á Ísland - New York - Spánn - Danmörk. Hvað er réttast af þessu munum við seint vita, því vegabréf Gunnars frá þessum tíma glataðist. Þegar ég hlustaði á Gunnar fékk ég Sovétríkja-gerðina í hausinn, sem mér þykir allraólíklegust. Ég reyndi að bora í hvaða borgir hann hafði farið um í Sovétríkjunum, en kom þar að algjörlega tómum kofanum hjá karli. Honum var hins vegar mjög umhugað að segja mér hversu miklar hörmungar og illmennsku hann hefði séð í Sovétinu og að "Rússarnir hefði ekkert verið betri en nasistar".
Atvinnuveitandi Gunnars staðfesti þann 30. nóvember 1942, at Gunnar hafi sagt sér að hann hafi farið frá Bandaríkjunum beint til Hamborgar og unnið þar í 5 mánuði, áður en hann birtist í Kaupmannahöfn.
Meint ferð Gunnars frá Íslandi yfir Sovétríkin til Danmörku árið 1942, sem lýst er í bókinni Berlínarblús, var vafalaust algjör tilbúningur. Í bókinni er sú ferðatilhögun m.a. runnin undan rifjum Björns Sv. Björnssonar (forsetasonar). Gunnar hafði þó einnig sagt söguna mönnum í Kaupmannahöfn, sem síðar komust á einn og annan hátt til Íslands til að njósna fyrir Þjóðverja, því sú gerð sögunnar kemur fram í yfirheyrslulýsingum yfir íslendinga sem teknir voru fyrir njósnir af Bretum. Björn Sv. Björnsson gæti einnig hæglega hafa heyrt af þeim upplýsingum síðar.
Líklegasta ferðin er að Gunnar hafi farið til Bandaríkjanna og að þaðan hafi hann komist til Evrópu, nánar tiltekið Spánar og Hamborgar. Sú gerð er einnig höfð eftir einum af vinum hans sem Bretar yfirheyrðu. Síberíuförin var að mínu mati tilbúningur, sem Danir sáu í gegnum; og það reiknaði Jón Fr. Sigvaldason, sem hafði heyrt þá gerð, einnig hárrétt út. Upplýsist það hér með blaðamanni Morgunblaðsins, sem vafalaust er eins og margir Sjálfstæðismenn alinn upp í þeirri leiðu möntru að Rússar hafi í engu verið betri en Þjóðverjar. Hverjir frelsuðu Auschwitz?
Hjálparhella Gunnars var SS-Untersturmführer Björn Sv. Björnsson, sonur fyrsta forseta lýðveldisins Íslands
Mörg andlit "sonar forsetans". Hann laug líka grimmt.
Af lýsingum geðlæknis í réttarhöldum gegn Gunnari, kemur greinilega í ljós, að menn töldu mögulegt að hann hafi af einhverjum ástæðum verið að gera sér upp geðveikina haustið 1944. Gunnar upplýsti, meðal annars við yfirheyrslur að honum líkaði hvorki dvölin í Waffen-SS né Þjóðverjar. Hann gerðist hræddur við að verða sendur á vígstöðvarnar.
En "sonur forsetans, sem einnig var prýðis lygari, "reddaði svo málum, enda maður sem dæmdi fólk til dauða í hjáverkum og lagðist á ungar konar, sem hann hafði skaffað íbúð - Jú gögn eru líka til um það (sjá hér til vinstri á spássíunni hjá Fornleifi).
Björn Sveinsson Björnsson, sem vann á áróðurs- og njósnamiðstöðinni SS Standarte "Kurt Eggers" (Kurt-Eggers Stelle) i Kaupmannahöfn kom Gunnari á þriggja mánaða áróðursfréttaritaranámskeið hjá SS. Það var sumarið og haustið 1944. En lítið varð um fréttamannastörf á frontinum,þar sem hann veiktist í Berlín.
Það var í leyfi haustið 1943, að Gunnar Guðmundsson gerðist hálfsturlaður. Hann var eftir fangelsis og spítalavist sendur til München, en þar ágerðist sjúkdómurinn og hann var því sendur aftur til Danmerkur í mars 1945 og rúinn SS-búningi sínum við komuna til Kaupmannahafnar. Hann upplýsti sjálfur að hann hefði fengið að halda skammbyssu sér til varnar, því Þjóðverjar sáu hvert stríðslukkan stefndi. Það leyfi kom fram í herbók hans (Soldbuch)sem dönsk lögregla sá árið 1945.
Gunnar fór því aldrei á neinar vígstöðvar og var aldrei í haldi Rússa, eins og hann laug að Jóni Fr. Sigvaldasyni ásamt fleirum.
Gunnar kvæntist heldur aldrei í Kína, líkt og hann laug að Jóni Kr. Sigvaldasyni og mörgum öðrum. Gunnar átti tvo syni með danskri konu Gerdu Marie Nielsen, (f. 1927) sem starfaði lengi sem læknaritari. Synir þeirra fæddust 1956 og 1963. Þeir héldu lengi uppi uppi fyrirtæki sem bar nafn Gunnars Guðmundssonar, og er það enn skráð á fyrirtækjaskrá 10 árum eftir dauða Gunnars, þó engin sé starfsemin. Einn son átti Gunnar Guðmundsson frá fyrra hjónabandi með íslenskri konu (Jóhönnu Lauru Hafstein, sem fæddist árið 1906), sem var 10 árum eldri en Gunnar. Sá sonur fæddist árið 1948 og var læknir í Reykjavík. En þegar hann tók upp á því að verða geðveikur (að mati geðlæknis) árið 1944, upplýsti hann danska lækna að hann hefði eignast barn árið 1938 utan hjónabands á Íslandi, hann gaf hvorki upplýsingar um móður barnsins né nafn þess. Á stríðárunum var hann í tygjum við íslenska konu í Kaupmannahöfn Önnu Norðfjörð, sem var nokkrum árum eldri en hann.
Nei, Jón Fr. Sigvaldason misminnti ekkert. Gunnar Guðmundsson raðlaug að Jóni. Nasistar lugu alltaf að fólki. Þegar menn skrifa um íslenska nasista ber margs að varast, því vefur lyganna getur verið fjári flókinn hjá þeim sem þjónuðu Hitler á einn eða annan hátt.
Gunnar fékk upphaflega 12 ára fangelsisdóm í Danmörku
Það vekur mesta undran mína, af hverju einhver á Íslandi stóð í því að reyna að bjarga Gunnari Guðmundssyni úr 12 ára fangelsi sem hann var dæmdur í af borgarrétti hér í Kaupmannahöfn árið 1945. Reyndar var dómurinn í undirrétti í hærri endanum, í samanburði við dóma sem aðrir hlutu fyrir sams konar brot. Dóminum var síðan breytt í eins árs dóm í júní 1946 og Gunnari sleppt. Gunnar fór til Íslands en mátti ekki snúa aftur til Danmerkur í 5 ár.
Danski lögfræðingurinn, er var með mál Gunnars, vann starf sitt mjög vel. Þegar í undirdómi hafi einn dómaranna andmælt dómnum og taldi sá dómari, að tveggja og hálfs ára fangelsi væri betur við hæfi miðað við upplýsingar sem rétturinn hefði undir höndum. Ómenntaðir dómsmenn voru hins vegar á því að 12 ára hentaði Gunnari. Sendiráð Íslands hjálpaði Gunnari lítið með yfirlýsingu sem þeir sendu áður en hann hann var dæmdur í 12 ára fangelsi, nema síður sé. 19. júní 1945 spurði íslenska sendiráðið hverjir möguleikarnir voru á því að hægt væri að fá hann leystan úr haldi. Gögn sem endurspegla þá fyrirspurn hljóta að vera til á Þjóðskjalasafni í Reykjavík. En 1946 lögðu dómarar áherslu á á það sem sendiráðið skrifaði þann 12. desember 1945 til dómsstólsins árið 1945:
"... En anden Sag er, at den Kendsgerning, at Tiltalte som Statsborger i andet Land i hvert Fald kun har stået i et meget løsere og mere midlertidigt Tilhørsforhold til Danmark end danske Statsborgere",
Að lokum var dómurinn léttur um 11 ár - vegna þess að lögð var áhersla á að Gunnar hefði verið Íslendingur - erlendur borgari í Danmörku. Hvort það var eina ástæðan til þess að Danir sýndu vægð, verður ekki dæmt um að sinni. Verið er að rannsaka það. Íslensk yfirvöld höfðu ýmis tök á Dönum, sem notuð voru. Mér hefur verið sagt að líklega hafi íslenska ríkið borgað málskostnað árið 1946, en ég hef enn engar afgerandi sannanir fyrir því. Líklega eru upplýsingar að finna um slíkt í Þjóðskalasafninu í Reykjavík.
Gunnar Guðmundsson framdi, að því er við vitum, enga stóralvarlega glæpi fyrir utan hjálp við að finna menn til njósnaleiðangra til Íslands. Ekki er hægt að útiloka að upphaflega harkan í fyrsta dómnum hafi endurspeglað persónulegt álit dómsmanna vegna endanlegra sambandsslita Íslands og Danmörku árið 1944, en það verður þó ekki lesið út úr skjölum.
Lokaorð til varnaðar
Ég furða mig alltaf á þeirri manngerð, sem kynslóð eftir kynslóð, hefur áhuga og jafnvel aðdáun á hernaði 3. Ríkisins, en sem hins vegar virðist ekki geta fengið sjálfa sig til að lesa bækur um öll fórnarlömb nasista og helstefnu þeirra og mannfyrirlitningu. Sumir rembast viða að líkja nasisma við kommúnisma. Hinn furðulegi áhugi á 3. ríkinu, SS-mönnum, morðingjum, vitorðsmönnum og meðreiðarsveinum þeirra um alla Evrópu og enn fjær, er sjúklegt fyrirbæri.
Þegar menn svo bjarga stríðsglæpamanni frá saksókn og fangelsisvist eða dæmdum nasistum frá fangelsisvist, líkt og íslensk yfirvöld hafa gert, er það og VERÐUR svartur blettur á sögu Íslendinga. Hann verður aldrei farlægður, ekki einu sinni með besta tjörueyði.
Ég hef haft fyrir sið, jafnhliða rannsóknum mínum á fórnarlömbum nasista, sem ég vinn enn að, að kynna mér niður í kjölinn hvers konar fólk nasistar voru, sér í lagi þeir sem Ísland ól. Lesið hér á vinstri spássíu Fornleifs sumt af því sem ég hef safnað í sarpinn um íslenska nasista. Þetta er aðeins lítið brot af því sem ég hefi undir höndum. Upplýsingum um íslenska nasista hef ég fyrst og fremst safnað til að leiðrétta ýmsar villur sem um þá hefur verið ritað á síðari árum. Af nógu er að taka, án þess að ég lýsi frati á bækur sem gefnar hafa verið út og sem fjalla um þessa ógæfulegu Íslendinga. Þeim bókum er þó um margt ábótavant. Ég geri engan mannamun eins og þær. Mér er sama, hvort nasistinn var lítill karl og fátækur, ellegar stórlax sem síðar gekk í Sjálfstæðisflokkinn.
Aðrir nasistar, líkt og t.d. rithöfundarnir Gunnar Gunnarsson og Guðmundur Kamban voru ekkert betri en saklausir sveitastrákar sem heilluðust af SS. Þannig er það nú. Við skulum ekki gera mannamun. Það er léleg sagnfræði.
Hvað lengi eigum við t.d. að sætta okkur að háttvirt Alþingi hafi rangfærslur um meðlimi þingsins í æviskrám þeirra á heimasíðu þingsins. Þar á ég við kaflann sem Alþingi hefur um Davíð Ólafsson. Miðað við hvað þar vantar má örugglega búast við því að Klausturbarsmálið verði falið af afrekaskrá brotamannanna í kynningu á þeim Alþingismönnum sem hlut áttu að máli í framtíðinni.
Nýlega greindi ég t.d. frá því hér á Fornleifi (sjá hér), að sonur Sveins Björnssonar, síðar forseta Ísland, sem var trúnaðarvinur Gunnars Guðmundssonar í Kaupmannahöfn, hefði dæmt fólk til dauða við störf sín í Kaupmannahöfn. Það hefur aldrei komið fram í neinum þeim útgefnu verkum sem hingað til hafa verið um íslenska nasista. En íslensk yfirvöld þekktu söguna, en völdu að halda henni leyndri. Í sömu grein sagði ég frá kynnum mínum af syni forsetans.
Ég vona að mér endist aldur til að segja nánar frá ýmsu því sem ég hef sankað að mér af upplýsingum um íslenska nasista. Að minnsta kosti hér á Fornleifi, þó ég hafi sannast sagna almennt ekki mikinn áhuga á SS-sjálfboðaliðum,meðreiðarsveinum, þrammandi þjóðverjum eða fylgismönnum og langtímaaðdáendum þeirra íslenskum. Ég er ekki nasistaveiðari, þó ég hafi öðru hvoru starfað fyrir Simon Wiesenthal stofnunina (Simon Wiesenthal Center), aðallega deildina í Jerúsalem. Ef maður kann ekki sögu fórnarlamba nasista skilur maður ekki óeðlið sem m.a. fékk nokkra Íslendinga til að þjóna Hitler og pótintátum hans, sem eyðilögðu Evrópu og líf svo margra íbúa álfunnar.
Svo við snúum aftur af Gunnari Guðmundssyni. Hann var aðeins lítið peð í þeim hildarleik og leið kannski meira fyrir mistök fyrr á ævi sinni en menn annars staðar á þjóðfélagsstiganum sem fengu jafnvel hæstu stöður í íslensku þjóðfélagi.
Flokkur: Íslenskir nasistar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Facebook
Athugasemdir
Eins flestir vita þá hrundi veldi svokallaðra nasista eftir ósigur þýskalands.
Svo líða einhver ár, og nú er evrópa og þá sérstaklega svíðþjóð nánast í rúst vegna þess að almennilega virkir þjóðernissinnar þora ekkert lengur að gera af ótta við nasistastimpilinn ógurlega. Hvort að það sé hægt að kenna Hitler um að eyðileggja líf evrópu, veit ég ekki en ekki eru innflytjendur frá miðausturlöndum skárri en Hitler gamli.
Loncexter, 16.2.2021 kl. 18:19
Æi, innflytjendur frá Miðausturlöndum eru mismunandi eins og annað fólk, en ekki hef ég hitt neinn sem líkist Hitler hið minnsta. Sá sem heldur við Skoda-druslunni minni er t.d. Palestínumaður og hef ég aldrei hitt sanngjarnari bifvélavirkja en hann. Við erum eins og bræður.
Bandaríkjamenn eru hins vegar nýbúnir að losa sig við forsetagarm sem var þetta ekki litla ánægður með þýsku genin sín - álíka og Hitler - og taldi alla vera "bad people". Ég vona Loncexter, að þú sért ekki með svoleiðis gen. Þau gætu eyðilagt Íslendinga.
En vandi Bandaríkjamanna er að þeir gera sér ekki margir grein fyrir því að það eina sem men bjargar landi þeirra, og gera öllum kleift að fá meðferð fyrir t.d. krabbameini, er sósíalismi Miðausturlandamannsins Bernie Sanders.
Vandamál Svía er svo annars eðlis, en þeir sem eru "þjóðernissinnar" og velja Hitler í stað Palme stíga vitaskuld ekki í vitið og hefur það alltaf verið vandamál nasista.
FORNLEIFUR, 16.2.2021 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.