Tímasetningar "biblíuumslags" og "biblíubréfs"
12.5.2021 | 19:12
Þjóðskjalasafnið gaf í dag frá sér þessa yfirlýsingu, því safnið hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að verðmætt og margumtalað umslag, sem jafnan er kallað Biblíubréf, sé ríkiseign. Eiginlega er Biblíubréfið umslag, en Þjóðskjalasafnið telur sig hafa bréfið sem í því var undir höndum. Safnið hefur komist að þeirri niðurstöðu að umslagið hafi hugsanlega verið tekið ófrjálsri hendi.
Þessi skýrsla Þjóðskjalasafnsins stendur aðeins í hálsinum á mér og sendi ég því eftirfarandi fyrirspurn til Þjóðskjalasafni, nánar tiltekið þeirra starfsmanna sem manni var bent á að hafa samband við í tilkynningu safnsins.
Sæl verið þið Hrefna og Njörður
Ég var að hlusta á fréttir í dag í Útvarpinu og heyrði frétt um yfirlýsingu Þjóðskjalasafns varðandi Biblíubréf svokallaða, í framhaldi af þætti sem nýlega var sýndur á RÚV - sem ég hef því miður ekki séð, þar sem ekki er hægt að horfa á hann erlendis.
Ég las aftur á móti mjög vel það sem Þjóðskjalasafnið hafði til málanna að leggja. Mig langar þess vegna að spyrja, hvernig stendur á því að bréfið sem þið teljið hafa verið inni í Biblíuumslaginu er dags. 30. september 1874, en bréfið sem þið viljið tengja því er er póststimplað þann 22. október 1874.
Ef þið skoðið Alþingisbréfið (sjá hjálög mynd) er ljóst að frímerkið var stimplað 22. október 1874. Bréfið sem sérfræðingar Þjóðskjalasafns telja að hafi verið í því umslagi er dagsettu 30. september 1874.
Getið þið skýrt þessa seinkun á sendingu bréfsins sem er undirritað 30.9. 1874. Beið Landsfógeti með að senda 2. sendingu í 22 daga eða voru stimplar pósthússins í ólagi? Ja, kannski var Óli Peter Finsen póstmeistari á fylleríi.
Með góðri kveðju,
Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Ritstjóri á Fornleifi https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/
Ég lofa að skýra fyrir lesendum Fornleifs, það sem Þjóðskjalasafnið skýrir út fyrir mig, um umslag sem er stimplað 22. október 1874, meðan að bréfið sem Þjóðskjalasafnið telur að hafi verið í umslaginu er frá 30. september 1874.
Kannski hafa lesendur Fornleifs góðar skýringar? Kannski er önnur Pfizer sprautan eitthvað að rugla mig í ríminu? Fjandakornið nei, það er meira hálfur mánuður síðan að ég fékk hana og ég hef ekkert fundið fyrir heilatöppum.
Viðbót 14.5. 2021
Þjóðskjalasafnið hefur vinsamlegast svarað erindi mínu:
Heill og sæll Vilhjálmur
Til að svara fyrirspurn þinni. Samkvæmt bréfadagbók sýslumannsins í Árnessýslu barst bréfið frá landfógeta dags. 30. september 1874 til sýslumannsins 30. október sama ár. Samkvæmt bréfadagbókinni virðast 28 bréf hafa borist þennan dag til sýslumanns og eru þau dagsett frá 14. september til 27. október 1874. Þessi bréf eru skráð á þrjár blaðsíður í bréfadagbók sýslumanns. Ég læt fylgja með ljósmynd af síðunni sem bréfið frá 30. september 1874 er skráð á (nr. 526) og aðra mynd þar sem betur má lesa færsluna fyrir bréfið frá 30. september 1874. Þú sérð að í dálki lengst til vinstri er móttökudagsetning bréfanna en í dálki lengst til hægri er dagsetning bréfanna. [Sjá myndir hér og hér]
Rétt er að benda á að samkvæmt athugun Þjóðskjalasafns er hið svokallaða Biblíubréf ekki umslag heldur er það hluti af bréfi til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 30. september 1874 frá landfógeta. Sá hluti sem hefur verið nefndur Biblíubréfið hefur verið klipptur eða skorinn af bréfi landfógeta. Venjan var að bréf voru skrifuð á sambrotnar arkir þar sem innihald bréfsins var skrifað á fremra blað arkarinnar og utanáskrift bréfsins, þ.e. nafn móttakanda, aftan á síðari hluta arkarinnar. Síðan var bréfið brotið saman á tiltekinn hátt, það innsiglað með lakki og þrykkt á það skjaldarmerki embættisins sem sendi bréfið og frímerki síðan límt á þá hlið eftir atvikum. Á bréfi landfógeta til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 30. september 1874 má enn sjá brot í bréfinu og hvernig það hefur verið brotið saman. Til samanburðar birti Þjóðskjalasafn mynd af sambærilegu bréfi frá landfógeta til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 24. október 1874 þar sem sést vel hvernig sambrot voru á þessum tíma.
Með kveðju,
Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri skjala- og upplýsingasviðs
Þjóðskjalasafn Íslands
Laugavegur 162, 105 Reykjavík
Sími 590 3300 / 590 3322
Athugasemdir
Þó ég hafi ekki séð nýlega kvikmynd um sögu og sölu Biblíubréfsins, þá tel ég, út frá því sem mér hefur verið sagt af nokkrum sagnfræðingu, að afar þunn rök hafi veið sett fram í sjónvarpsþættinum.
Í raun er búið að þjófkenna mann, og ekkert virðist hafa verið rannsakað, hvort tilgátan um aðild hans að hvarfi umslags gæti staðist. Orðrómur settur fram af einum manni, eru ekki nægileg rök. Gefið var í skyn að Skúli Magnússon gæti ekki hafa eignast íbúð án þess að hafa selt umslag sem menn geta sér til að hann hafi haft undir höndum vegna þess að hann stal því.
Hvernig væri að menn rannsökuðu íbúðarkaup Skúla? Skúli lifði einn, og eyddi engu, hann fékk einnig bætur eftir slys sem hann lenti í. Nú getur hann ekki varið sig þegar fólk trúir því sem það heyrir í Sjónvarpinu. En er sjónvarpsþáttur dómstóll? Á endalaust að dæma fólk, sem ekki getur varið sig, í fjölmiðlum.
Einnig er þörf á því að rannsaka aðild lögmanns þess sem kom að sölu umslagið. Lögmaðurinn mun enn vera á lífi.
Það er forkastanlegt að sjá, að Þjóðskjalasafnið fellur fyrir niðurstöðu þáttar sem er fullur af dylgjum. Safnið hefði t.d. frekar átt að rannsaka, hvort eitthvað sé furðulegt við íbúðarkaup fátæks manns í Reykjavík, sem þjófkenndur hefur verið á RÚV á mjög klunnalegan hátt. Þjóðskjalasafnið tekur þátt í ófræðilegri múgæsingu.
Í raun er ekkert sem tengir Skúla Magnússon "stuldi" á Biblíuumslaginu. Aðeins vangaveltur manns sem ekki hefur sett fram neinar sannanir. Trúverðugleiki þess manns (vitnis) var alls ekki til umræðu í sjónvarpsþættinum. þáttargerðamaður Björn Björnsson var tengdasonur "vitnisins" Haraldar Sæmundssonar, sem var falið að selja bréfið af lögfræðingi þess sem bréfið hafði undir höndum.
Nú væri gott ef lögfræðingurinn sýndi okkur kvittanir. Góður lögfræðingur hefur örugglega varðveitt kvittanir frá eins mikilvægri sölu og hann tók þátt í.
FORNLEIFUR, 13.5.2021 kl. 04:52
Fróðir menn mættu einnig upplýsa, af hverju fyrri sending myntar (10, 5, 2, og 1 aura myntir) til sýslumannsins í Árnessýslu var merkt með 23 "þjónustumerkjum" (Biblíuumslagið), meðan að síðara sendingin þann 24. október 1874 var send með fylgibréfi sem var allt örðuvísi en fylgibréfið dags. 30. sept. sem fyrst var póststimplað 22. október. Síðari sendingin til sýslumanns Árnessýslu, sem innihélt 25 aura, fylgdi bréf sem aðeins var frankerað með einu frímerki, sem ber stimpil sem sýnir að einnig var tími á milli þess að bréfið var ritað (24.10) og þar til það var stimplað (að því er virðist 14.11). Þessu verður að svara. Póstmeistarinn í Reykjavík hélt skrár yfir sendingar, og þar geta menn séð verðmætasendingar frá Landsfógetaembættinu til sýslumanna, og hvort þær töfðust t.d. eins lengi og fylgibréfið til sýslumannsins í Árnessýslu frá 30. september 1874.
En meginspurningin er af hverju það var aðeins eitt merki fylgibréfi með sendingunni dags. 22. október, meðan að 23 merki voru sett á bréfið dags. 30. september, sem fyrst var sent 22. október???
FORNLEIFUR, 13.5.2021 kl. 05:35
Eftir skjót svör Þjóðskjalasafns 14.5. 2021, sem ég þakka innilega fyrri, er svarað öllum spurningum mínum, nema hvernig stendur á þeim mikla mun í fjölda frímerkja á bréfinu frá 30. september annars vegar, og hins vegar á bréfinu þ. 22. október. Sú spurning kom reyndar fyrst fram hér á athugasemdunum, eftir að ég hafði sent erindi mitt til Þjóðskjalasafns.
FORNLEIFUR, 14.5.2021 kl. 11:50
Veltur fullyrðingin semsagt á því að bréfið sé stolið? Ekki keypt, ekki gefið eða erft.
Ég fæ ekki séð að það sé nein haldbær staðfesting á opinberu eignarhaldi. Þvert á móti eru mörg mótrök fyrir því, sem þú hefur rakið.
Ef þeir ætla að krefjast einhvers, verða þeir að leggja fram eitthvað annað en haldlitlar ályktanir.
Verði þeim að góðu að eyða andvirði bréfsins í málarekstur gegn sænskum auðkýfingi og sennilega tapa þeim slag.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.5.2021 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.