Með hvítan fíl um hálsinn
30.4.2022 | 08:15
Þrír núlifandi Íslendingar njóta þess þunga heiðurs að geta kallað sig handhafa hinnar konunglegu dönsku fílaorðu, Elefantordenen.
Þeirri einstöku æru fylgir steindur skjöldur sem með tíð og tíma verður hengdur upp í riddarakapellunni á Friðriksborgarhöll á Sjálandi, svo hinir ódauðlegu sem ekki drattast með hvítan fíl um hálsinn geti dáðst að þessum mikla heiðri. Um daginn fór ég með góðan vin frá Íslandi í höllina og sýndi honum m.a. skildi íslenskra fílaorðuþega. Mikið var um dýrðir.
Nú vill svo til að danska krúnan var sparsöm á fílana fram á embættistíð Margrétar 2. sem tók að hengja fílinn um háls annarra en konunglegra gesta sem komu við í Dannevang.
Mynd efst: Elefantur sem Napóleón keisari fékk árið 1809. Það var uppi á honum typpið. Ljósmynd Emanuelle Macron.
Þannig vill það til, að Sveinn Björnsson fékk aldregi fíl, þó það gæti hafa verið vegna óvildar Friðriks 9. í garð Íslendinga.
Friðrik sagði við framkvæmdastjóra danska utanríkisráðuneytisins, sem um tíma var sendiráðsritari á Íslandi og síðar sendiherra, að Sveinn Björnsson væri ekki velkominn hjá sér í höllinni. Diplómatinn reyndi að megni að eyða fordómum konungs í garð Íslendinga. Kannski var þetta vegna þess að Sveinn var þekktur sem "ham med Nazi-sønnen".
Fyrrnefndur diplómat ók vítt og breytt um Kaupmannahöfn er Kristján 10. lést til að biðja Kaupmannahafnarblöðin um að minnast ekki á nasistasoninn er Sveinn Björnsson kæmi í útför Kristjáns konungs.
Ef Danir hefðu fyrr gleymt nasistum, eins vel og sumir þeirra hafa því miður gert í dag og oft vegna þess að forfeður þeirra dönsuðu fjálglega við Þjóðverja fyrir um 80 árum síðan, hefði kannski verið við hæfi að hengja hvítan fíl á Svein þó einkunnarorðin á skildi hans yrðu ekki eins ósvífin og:
Vir Honestus cum Filio inconuenienti
Sem betur fór var ekki hlaupin verðbólga í danska fílinn á þeim árum og dönsku blöðin sögðu ekkert ljótt um Svein.
Ásgeir Ásgeirsson var kosinn forseti áður en danska skrautið varð ódýrt, en hann fékk þó fíl frá Friðrik 9. þann 5. apríl árið 1954. Eigi fann ég skjöld Aske Askesens (eins og hann var kallaður er Margrét 2. gekk í hjónaband). Ég leiðaði annars vel í höllinni um daginn. Einkunnarorð fyrir ímyndaðan skjöld hans hef ég hér með í bakljósum minninganna:
Cum Deo in Piscina sine Trunco
Uppáhaldsforseta mínum, Kristjáni Eldjárn, var strax íþyngt með hvítum fíl. Það vantar því miður einkunnarorð á skjöldinn og gætu þau vel hafa verið:
Ferrum in Officio Fortis in Antiquitate.
Kristján hefði skilið það, en hann var sparsamur maður. En svo urðu hvítir fílar ekki eins sjaldséðir og áður. Glingur gerðist hræódýrt.
Vigdís Finnbogadóttir fékk hvíta fílinn þann 25. febrúar árið 1981. Ekki fundum við ferðalangar skjöld hennar í Riddarakapelluna í Friðriksborgarhöll um daginn, kannski vegna þess að hún er kona og við erum bara karlar.
Vigdís hefur þó örugglega fengið skjöld í Svíþjóð, sem mér þykir mjög smekklegur. Ekki veit ég hvort Svíar setji einfaldlega engin einkunnarorð á skildi til að standa við hið margfræga hlutleysishlutverk sitt, en ef slík orð vantar fyrir peningablómið á skildi Vigdísar, sem örugglega táknar endalausar gróðursetningar hennar, þá má notast við:
Una Arbor in Agro sterili mox Silva fiet
Og þýðið nú.
Ólafur Ragnar Grímsson fékk líka hvítan fíl með glans. Það gerðist 18. nóvember 1996. Skjaldamerki hans er að mati Fornleifs forljótt og afa illa málað. Einkunnarorðin á skildi Ólafs í Höllinni eru
Vires Islandiae
Sem kannské má útleggjast sem Kraftar Íslands.
Það finnst mér heldur betur tekið upp í sig, þó svo að Ólafur væri á stundum á við túrbínu, bullandi kver eða jafnvel Geysi gamla. Hefði þarna frekar mátt standa Vir Islandiae (Íslandsmaður eða eyjaskeggi). Nei, það má víst líka misskilja, og heldur illilega ef maður er á þeim skónum.
Skjöldur Ólafs Ragnars Grímssonar í Friðriksborgarhöll er lítil prýði.
Þá er komið niður í sokk, eða rosinen i pølseenden líkt og Danir orða það.
Þann 24. janúar 2017 var hengdur hvítur, danskur elefantur á Guðna Th. Jóhannesson og hefur það sligað hann æ síðan. Um svipað leyti, eða nokkrum mánuðum áður, drukkum við elefant (og ég kók) á penu öldurhúsi nærri Jónshúsi ásamt öðrum heiðursmönnum.
Engan sá ég skjöld fyrir Guðna í höllinni á Sjálandi, en kannski er enn verið að hann´ann. Hugsast getur að skjöldurinn væri þegar kominn, ef ekki stæði að forsetafrúin héti Reid á sumum Wikipedium, en Klein á öðrum (sjá danska Wikipediugrein um Guðna).
Hér er núverandi forsetafrú af einhverjum ástæðum nefnd til sögunnar sem Eliza Klein. Fyrir nokkrum árum ærðist sjálfútnefndur verndari Ísraelsríkis á Íslandi við mig á FB, ragnaði og hótaði mér öllu illu vegna þess að ég sagði honum að upplýsingar sem hann dreifði á alþjóðavettvangi um að Aliza Reid væri gyðingur líkt og Dorrit okkar allra væru staðlausir stafir. Kannski vita menn ekki að ættarnafnið Klein er ekki aðeins notað af gyðingum.
Ef ekki er búið að mála skjöldinn fyrir Guðna, legg ég til að einkunnarorðin hans verði:
Pluralis in Socculo - Assens in Populo
En til vara geta þau orðið: Uxor Parva et Irata est - Sicut Natio, sem útleggja má: Eiginkonan er lítil og reið eins og þjóðin. Og nú held ég að Guðni sé nokkuð sammála mér.
Mikið er nú gott að Tommi borgari hafi aldrei orðið forseti. Þá hefði eftirfarandi þurft að standa á skjöldum snobbliðsins: In Officio dormit, in Meretricibus evigilat. Þú þýðið þetta bara sjálf, þú litla dónaþjóð. En það kemur sem betur fer engum við hvað Tommi gerir í frítíma sínum austur í Asíu, ef hann brýtur ekki nein lög eða alþjóðasáttmála. Látum hann bara sofa og dreyma um allt yfir lögaldri. En Fýlsorður eru líklegast framtíðin.
Athugasemdir
Hver er ástæðan fyrir hvítum fíl í danskri orðu ?
Kristján Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.4.2022 kl. 14:08
Kristján þessu er ekki alveg auðsvarað en ég fékk ég þetta út úr Fornleifi, þrátt fyrir lítillæti hans og skírlifnað.
Venjulega er talað um að orða þessi hafi verið stofnuð árið 1693. Sagan er hins vega miklu lengri. Sagan nær allt aftur til 1460 er nafni þinn inn fyrsti fékk leyfi Páfans í Rómi til að stofna "Félag Guðs Móður". Mark þessarar reglu var medalía þar sem jómfrú María með Jesúsbarnið var í turninum á baki fílsins. Hvað er sjaldséðara en hvítur fíll með turni þar sem í situr María hin hreina mey og eingetinn sonur hennar. Segðu mér það Kristján?
En svo kom siðbótin og þá var þessi orða lögð niður árið 1535, eða fram til 1580 að Friðrik 2 tók hana upp úr skúffu, en þá var engin María höfð í turninum.
Því miður vita menn ekki í Danaveldi, af hverju fíllinn var notaður. Sumir skjaldamerkjafræðingar í öðrum löndum en í Danmörku benda þó réttilega á að fíllinn hafi táknað lítillæti og skírlífi á miðöldum. Elsti fíllinn sem þekktur er í evrópskri skjaldamerkjafræði er frá ca. 1340 og var notaður í skildi Greifans von Helfenstein í Sviss og engin tengsl eru á milli hans og konunga í Danaveldi.
FORNLEIFUR, 30.4.2022 kl. 15:46
Hver er þessi kona; Emmanuelle Macron? Er hún systir Frakklandsforseta?
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 30.4.2022 kl. 17:35
Kærar þakkir fyrir goyy svar
Kristján Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.4.2022 kl. 19:44
Ingibjörg Ingadóttir: Je ne la connais pas personnellement, mais elle a cette touche photo exceptionnelle.
Kristján Sigurðsson, takk sömuleiðis fyrir krefjandi spurningu.
FORNLEIFUR, 1.5.2022 kl. 04:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.