Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014
Fornleifafræðingurinn í Eldhúsinu
25.8.2014 | 18:51
Þið kannist líklega við Lækninn í Eldhúsinu. Þegar hann er ekki að lækna gigt í gamalmennum í Suðursvíþjóð, sýnir hann listir sínar og matarlyst. Sjaldan eldar hann lifur, nýru eða aðra kirtla, og þaðan af síður blóðpylsu. Maður tekur vitaskuld ekki vinnuna með heim.
En nú er komið að Fornleifafræðingnum í Eldhúsinu. Fornleifur er náttúrulega með gigt, en er aftur móti ekki með hendur í holdi og opum fólks áður en kokkað er. Eini kokkurinn í eldhúsinu er Fornleifur - Hann þarf enga hjálparkokka. Í kvöld eldaði karlinn zucchiniblóm fyllt með kjúkling að hætti endurreisnarmanna í Lepinifjöllum undir áhrifum frá yfirkokki Borghesi-ættarinar. Zucchini kallast kúrbítur á mörlensku, en hann bítur viðkunnanlega frá sér. Margir muna kannski eftir kúrbítnum með humarfyllingunni á Carpe Diem í Reykjavík. Góðar minningar.
Leifur inn forni hakkaði kjúklingabringur af lífrænt ræktuðum, ítölskum kjúkling. Svo fersk var pútan að það lá við að hún gaggaði "Mama mia" er ég mundaði kutann. Ég blandaði í hakkaða kjötið örlitlu af brauðmylsnu (40 gr.), jómfrúarolíu og köldu soði af kjúklingabeinagrindinni (1-2 dl.), salti, pipar og múskati (hnífsodd). Hakkið fyllti ég í zucchiniblómin og raðaði þeim í blómamynstur í leirfat, hellti við soði og örlitlu hvítvínstári. Síðast setti síðasta farsið í miðjuna í litla bollu og litaði hana og kryddaði með saffran og chili. Skreytt var og bragðbætt með þunnum sneiðum af lauk (sjá mynd).
Fornleifur eldaði kúrbítsblómaskrúðið í SMEG-ofninum, sveimérþá (Það verður ekki gaman að koma aftur heim og nota Bosch-ruslið). Með þessu bar ég fram kjúklingalærin og vængina steikta í fati í ofni, pönnusteiktar kartöflur og salat. Kverkarnar voru vættar með hvítvíni frá Latínu, Pellegrinogosi og vatni og þurrar, saltar ólífur voru vitaskuld bornar fram.
Næst þegar kúrbíturinn er í blóma á Íslandi er ekkert annað að gera en að muna þessa uppskrift og gera betur.
Áður en eldað var, fórum við upp í Rocca Massima til að kæla okkur og til að njóta útsýnisins í 730 metra hæð.
Matur og drykkur | Breytt 26.8.2014 kl. 05:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Boðunarkirkjan í Cori
24.8.2014 | 12:02
Sistínsku kapelluna í Vatíkaninu í Róm þekkja flestir. Ekki ætla ég að eyða tíma mínum í umfjöllun um slíka síðpápísku, enda var nokkurra kílómetra biðröð fyrir framan Vatíkanið í Róm í gær. Ég hef líka séð herlegheitin áður og það nægir í þessu lífi. Ég setti mér líka annað fyrir en að heimsækja Páfagarð í suðurgöngunni nú. Við létum því nægja að aka um í opnum Lundúnastrætó og komum þannig tvisvar við í Páfagarði. En ég tók þessa mynd handa Jóni Vali Jenssyni af Páfanum Rómi í sjoppu nærri aðalsamkunduhúsi gyðinga í sömu borg.
Til er önnur kirkja á Ítalíu með freskum (veggmálverkum) sem er engu síðri en sú Sistínska. Það er boðunarkirkjan (Chiesa della Santissima Annunziata) í Cori við rætur bæjarhæðarinnar í Cori í Lepinifjöllum í Latínu, suðaustur af Róm, þar sem ég hef aðsetur ásamt fjölskyldu minni meðan á Ítalíudvölinni stendur. Konan bauð mér í þetta stórfenglega ferðalag. Ég er bara bílstjóri og kokkur.
Við vorum búin að koma nokkru sinnum við hjá kirkju hinnar allraheilögustu Boðunar, en stundum hafði gamla gæslukonan verið búinn að loka áður en þörf var á og hafið síestuna fyrr en gefið var til kynna á skilti við tröppurnar upp að kirkjunni. Morguninn sem við loksins komust inn vorum við einu gestirnir. Gæslukonan tjáði mér, að því miður kæmu ekki margir ferðamenn á þennan fallega stað.
Freskurnar í Boðunarkirkjunni Cori sýna helstu biblíusögurnar í 14. aldar stíl. Hér er síðan hægt að komast inn í kirkjuna í þrívídd án þess að vera í Cori og njóta lystisemda ítalskra þjóðminja sem eru engu síðri en Sistínska kapellan í Vatíkaninu - og maður þarf ekki að bíða í fimm klukkustundir með heilagandann hangandi yfir höfðinu til að komast inn.
Biblíufornleifafræði | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað er Palestína og Palestínuþjóð?
5.8.2014 | 15:01
Nú er aftur stríð í Miðausturlöndum. Gyðingar þurfa enn að berjast fyrir tilvist sinni og ríki sínu við þjóð sem fyrst varð til á 20. öld. Íslenskir stuðningsmenn hryðjuverkasamtakanna Hamas eru mjög öfgafullir og afneita sögulegum staðreyndum, fornleifafræði og öllum eðlilegum rökum um tilvist Gyðinga. Þeir hafa látið hildarleikinn á Sýrlandi sem vind um eyrun þjóta, en skrifa ekki dögum saman á fjasbækur sínar um tilfinningar sínar þar að lútandi, þó svo að 170.000 Sýrlendingar hefi fallið í valinn. Það fólk virðist ekki hafa sömu áhrif á þessa friðarpostula.
Stuðningsmenn Hamas, t.d. fyrrverandi sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, keppast við að bera brigður á sögu og tilvist gyðinga. Haldið er fram að gyðingar sé einvörðungu trúarhópur að saga þeirra sé fölsun og þar fram eftir götunum. Ekki er nóg með að Hamas hafi dráp á gyðingum og útrýmingu Ísraelsríkis á stefnuskrá sinni, stuðningsmenn "baráttu" þeirra útrýma gyðingum í huganum og í áróðrinum og líkja Ísraelsríki við frændur Íslendinga, þýsku böðlana sem Hitler stýrði, og aröbum á Gaza við gyðinga í gettóum þeim sem nasistar settu gyðinga í. En hverju má búast við af fólki sem styður rétt þjóðar, sem aldrei hefur verið til, til að eiga sér þjóðríki á svæði þar sem margir forfeður þeirra hafa aldrei búið á? Rökin verða mjög veik og klén - og mestur hluti þeirra er gyðingahatur, antisemítismi, eða jaðrar við það. Líkt og stuðningsmenn Hamas á sófanum á Íslandi afneita staðreyndum og stunda vísvitandi helfararmeðferð á sögu gyðinga, afneita hinir guðlegu stríðmenn Hamas sögulegum staðreyndum og eyðileggja jafnvel fornminjar á Gaza til að eyða staðreyndum um tilvist gyðinga á Gaza (sjá hér). "Þjóðminjasafn" Gaza er nú í einkaeigu. Eigandi Al Mathaf lúxushótelsins á norðurhluta Gaza, auðmaðurinn Jawdat Al-Khoudary, er með safnið á hóteli sínu og á vefsíðu hótelsins er saga svæðisins sögð með allmörgum rangfærslum til að gera sem minnst úr tilvist gyðinga á Gaza fyrr á öldum (sjá hér).
Í þessar stuttu heimildarmynd hér að ofan, sem er sagnfræðilega rétt, en ekki einhver neyðarlegur áróðurssöngur eins og málflutningur menningarvitanna með sérleyfi á sannleikann, er hægt að rifja upp staðreyndirnar. Þjóð sem er til, og hefur verið það lengi, þarf að berjast fyrir tilvist sinni við nýtilorðna "þjóð" sem m.a. er stýrt af hryðjuverkasamtökum, sem voru búin til til að herja á gyðinga þegar þeir sneru aftur til þess lands sem þeir settu mest mark á í tímans rás, land það sem þeir þráðu að snúa aftur til eftir að þeir voru gerðir þaðan brottrækir.
Palestína og þjóð Palestínumanna er fyrst og fremst hugarfóstur, sem hefur þróast í eitt alvarlegasta vandamál heimsins, aðallega sökum mismunandi gerða gyðingahaturs, fávisku og hópæsingar.
Nú gerðist Fornleifur kannski frekar harðorður fyrir margan auðtrúa mörlandann en sannleikurinn getur oft verið ein og löðrungur fyrir aðra.
Vonum að þessu stríði ljúki sem fyrst. Þótt börnin á Gaza læri að þau eigi að drepa gyðinga, er dauði þeirra ekki gyðingum neitt fagnaðarefni. Gyðingar hafa misst nógu mörg börn sín gegnum aldirnar, fyrir höndum ýmissa illmenna annarra þjóða, og ekki síst sökum Kristninnar og Íslam, sem eru frekar ófriðlegar og ófullkomnar eftirgerðir af Gyðingdómi.
Árið 1917 var Gazaborg rjúkandi rústir eftir stríð Breta og Tyrkja, þar sem Tyrkir unnu mikinn sigur. Í Gazaborg bjuggu gyðingar allt fram til 1945. Engir voru þar skráðir sem "Palestínumenn". Filistear bjuggu þarna í öndverðu, en það er ekki sama fólkið og Palestínumenn, þótt þau rök sjáist öðru hverju. Samson inn Sterki braut líka niður hlið Gaza, en það er önnur saga.