Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016
Íslandskvikmynd Franz Antons Nöggeraths hins yngri 1901
29.3.2016 | 09:59
Er ekki hreint bölvanlegt til þess að hugsa, að fyrsta kvikmyndin sem tekin var á Íslandi árið 1901 sé nú týnd og tröllum gefin? Kvikmyndin hefur að minnsta kosti enn ekki fundist. Lengi töldu menn að kvikmynd frá konungskomunni árið 1907 (sjá hér) væri fyrsta kvikmyndin sem tekin var á Íslandi. Síðar kom í ljós að árið áður hafði verið tekin kvikmynd sem sýndi slökkvilið Reykjavíkur við æfingar. Miklu síðar upplýsti Eggert Þór heitinn Bernharðsson okkur fyrstur um elstu kvikmyndir útlendinga á Íslandi í Lesbókargrein. Eggert skrifaði m.a.:
"Sumir útlendinganna komu jafnvel gagngert í þeim tilgangi að kvikmynda á Íslandi. Svo var t.d. árið 1901, en þá kom maður að nafni M [Leiðrétting Fornleifs: Rétt fornöfn eru Franz Anton]. Noggerath [Rétt eftirnafn er Nöggerath], útsendari breska myndasýningarfélagsins Gibbons and Co. í Lundúnum. Hlutverk hans var að taka myndir sem félagið ætlaði sér að sýna víðs vegar um heim með fyrirlestrum um einstakar myndir. Ætlunin var að ná myndum af fossaföllum, hveragosum, vinnubrögðum, íþróttum o.fl., en þó sérstaklega af hvalveiðum Norðmanna við landið. Tökumaðurinn kom hins vegar of seint til þess að geta tekið myndir af þeim veiðiskap. Einnig var hann full seint á ferð til þess að geta tekið myndir af ferðamannaflokkum. Það þótti miður því slíkar myndir voru taldar geta haft mikla þýðingu í þá átt að draga útlendinga að landinu enda voru lifandi myndir sagðar eitt öflugasta meðalið til þess að vekja athygli þeirra á Íslandi, náttúrufegurð þess, sögu og þjóðlífi. "
Í Þjóðólfi var þannig 20. september 1901 greint frá komu Nöggeraths (mynd til vinstri) á þennan hátt: Það er enginn efi á því, að væru slíkar myndasýningar frá Íslandi haldnar almennt og víðs vegar um heim, myndu þær stórum geta stuðlað að því, að ferðamannastraumurinn til landsins ykist, og gæti þá verið umtalsmál, að landsmenn sjálfir styddu að því á einhvern hátt, að myndir af þessu tagi gætu komið fram sem fjölhæfilegastar og best valdar. (Sjá hér). Og ef menn halda að ferðamannaástríðan í nútímanum sé ný af nálinni, þá skjátlast þeim illilega.
Sá sem tók Íslandskvikmyndina árið 1901 hét Franz Anton Nöggerath yngri (1880-1947). Hann var af þýskum ættum. Faðir hans og alnafni (1859-1908), sjá ljósmynd hér neðar, fæddist í Noordrijn-Westfalen í Þýskalandi, en fluttist ungur til Hollands með fjölskyldu sína og tók þar þátt í skemmtanaiðnaðinum í den Haag og síðar í Amsterdam. Nöggerath eldri átti og rak t.d. revíuleikhúsið Flora í Amstelstraat í Amsterdam, þar hófust fyrstu kvikmyndasýningarnar í Hollandi árið 1896, þar sem hin dularfulla Madame Olinka, sem ættuð var frá Póllandi, sýndi kvikmynd í október 1896.
Nöggerath eldri sá þegar hvaða möguleikar kvikmyndin gat gefið og komst í samband við Warwick Trading Company í London og gerðist árið 1897 umboðsmaður þeirra í Hollandi, Danmörku og Noregi. Hann flutti inn sýningarvélar og tæki til kvikmyndagerðar, og lét gera fyrstu kvikmyndina í Hollandi. Í september 1898 fékk hann enskan tökumann frá Warwick Trading Company i London og lók upp ásamt honum mynd af herlegheitunum kringum krýningu Wilhelmínu drottningar (sjá hér og hér). Sýning myndarinnar varð fastur liður í öllum revíusýningum á Flora til margra ára. Nöggerath tók einnig aðrar myndir fyrir aldamótin 1900 og eru sumar þeirra enn til. Leikhúsið Flora brann til kaldra kola árið 1902, en þá hóf Nöggerath eldri að sýna kvikmyndir í Bioscope-Theater í Amsterdam, sem var fyrsti salurinn sem gagngert var byggður til kvikmyndasýninga í Hollandi.
Franz Anton Nöggerath yngri var sendur til náms í kvikmyndagerð á Bretlandseyjum. Vitað er að hann tók kvikmynd sem fjallaði um 80 ára afmæli Viktoríu drottningar í Windsor árið 1899 og vann við gerð kvikmyndarinnar The Great Millionaire árið 1901, áður en hann hélt til Íslands til að gera Íslandskvikmynd sína. Anton yfirtók bíóiðnað föður síns að honum látum, og áður en yfir lauk voru kvikmyndahús fjölskyldunnar orðin mörg nokkrum borgum Hollands. Bróðir Franz Antons jr., Theodor að nafni (1882-1961), starfaði einnig lengi vel sem kvikmyndatökumaður.
Þar sem myndin með slökkviliðinu í Reykjavík fannst hér um árið, verður það að teljast fræðilegur möguleiki, sem reyndar eru ávallt litlir á Íslandi, að kvikmynd Franz Antons Nöggeraths, sem hann tók á Íslandi sumarið 1901, finnist. Það yrði örugglega saga til næsta bæjar - að minnsta kosti til Hafnarfjarðar, þar sem kvikmyndasafn Íslands er til húsa. Á vefsíðu þess safns er ekki að finna eitt einasta orð um Nöggerath. En það verður kannski að teljast eðlilegt, þar sem enginn hefur séð myndina nýlega.
Þökk sé hollenska kvikmyndasögusérfræðingnum Ivo Blom, þá þekkjum við sögu Nöggeraths og þó nokkuð um kvikmynd þá sem hann tók á Íslandi sumarið 1901. Blom hefur m.a. gefið út grein sem hann kallar The First Cameraman in Iceland; Travel Film and Travel Literature (sjá hér), þar sem hann greinir frá fjórum greinum sem Nöggerath yngri birti árið 1918, í apríl og maí, um ferð sína til Íslands sumarið 1901. Greinar Nöggeraths birtust í hollensku fagblaði um kvikmyndir, sem kallað var De Kinematograaf. Nöggerath hélt til Íslands á breskum togara, Nile frá Hull. Hann kom til landsins í september og líklega of seint til að hitta fyrir þá ferðamenn sem hann langaði að kvikmynda á Íslandi, þar sem þeir spókuðu sig á Þingvöllum og við Geysi, sem Nöggerath hafði lesið sér ítarlega til um. Nöggerath sótti heim ýmsa staði á Íslandi.
Þannig greinir Nöggerath frá Geysi í Haukadal í íslenskri þýðingu:
Við létum nærri því lífið sökum forvitni okkar. Í því að við vorum að kvikmynda gíginn og miðju hans, heyrðum við skyndilega hræðilegan skruðning, og leiðsögumaðurinn minn hrópaði, 'Fljótt, í burtu héðan'. Ég bar myndavél mína á herðunum, og við hlupum eins hratt og við gátum og björguðum okkur tímanlega. En allt í einu þaut Geysir upp aftur af fullum krafti, og gaus; við höfðum ekki horfið of fljótt af vettvangi. Þannig eru hætturnar sem verða á vegi kvikmyndatökumanna ....En ég hafði náð markmiði mínu: Hinn mikli Geysir hafði verið kvikmyndaður!
Þingvellir fengu ekki eins háa einkunn hjá Nöggerath:
Kirkjan á Þingvölum var sú aumasta af þeim kirkjum sem við höfðum heimsótt áður á Íslandi; fyrir utan kirkjuna í Krísuvík. Kirkjan er mjög lítil, mjög óhrein og gólfið illa lagt hrjúfum hraunhellum ... Þingvellir hafa hlotið frægð fyrir að vera staðurinn þar sem þing og aðrar samkomur Íslendinga fóru fram forðum daga. Fáar minjar hafa hins vegar varðveist sem sýna þann stað sem var svo mikilvægur fyrir sögu Íslands.
Hekla olli einnig Nöggerath vonbrigðum. Halda mætti að hann hafi viljað fá túristagos:
Þegar við komum til Heklu, varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Fjallið var friðsælt og hljóðlaust. Ég fékk þegar þá tilfinningu að ferð mín hefði verið til einskis. Þegar ég klifraði upp að tindi Heklu með myndavél mína, var snjór það eina sem sjá mátti í gíg fjallsins. Við tjölduðum nærri fjallinu, og næsta dag héldum við áfram ferð okkar án þess hafa séð nokkuð fréttnæmt.
Kvikmynd Nöggeraths frá Íslandi var í apríl 1902 fáanleg til sýninga hjá kvikmyndafélaginu Warwick Trading Company. Myndinni fylgdu þessar yfirskriftir:
Hauling the Nets and Landing the Catch on an Iceland Trawler; Fun on an Iceland Trawler, Landing and Cleaning of a Catch on an Iceland Trawler, C!eaning the Fish and Landing a Shark, Gathering Sheep, Women Cleaning Fish for Curing and Women Washing Clothes in Hot Wells.
Í myndinni var sena, þar sem íslenskir sjómenn spúluðu hvern annan til þess að losna við slor og hreistur. Samkvæmt minningum Nöggeraths árið 1918 höfðu áhorfendur einstaklega gaman af þeim hluta myndarinnar og að sögn hans seldist fjöldi eintaka af myndinni.
Við getum látið okkur dreyma um að þessir vatnsleikir íslenskra sjómanna séu einhvers staðar til og að þeir hafi ekki fuðrað upp.
Ítarefni:
Ivo Blom 1999. 'Chapters from the Life of a Camera-Operator: The Recollections of Anton Nbggerath-Filming News and Non-Fiction, 1897-1908'. Film History, 3 (1999), pp. 262-81. [Minningar Nöggeraths voru upphaflega birtar í Hollenska fagblaðinu De Kinematograaf. Greinar Nöggeraths um Ísland birtust í eftirfarandi tölublöðum De Kinematograaf: 9 (12 Apríl 1918); 10 (19 Apríl 1918);11(26 Apríl 1918); 12 (3 Maí 1918)].
Ivo Blom 2007. The First Cameraman In Iceland: Travel Film and Travel Literature, in: Laraine Porter/ Briony Dixon (eds.), Picture Perfect. Landscape, Place and Travel in British Cinema before 1930 (Exeter: The Exeter Press 2007), pp. 68-81.
Kvikmyndagerð á Íslandi; grein á Wikipedia ; Bók um elstu bíóin í Hollandi; Sjá einnig hér;
Grein á bloggi Ivo Bloms árið 2010; Grein um Nöggerath yngri á vef kvikmyndasafns Hollands.
Ath.
Myndin efst er gerð til gamans og skreytingar samansett úr breskri Laterna Magica skyggnu frá 9. áratug 19. aldar og kvikmyndatökumyndamanni sem leikur í einni af myndum meistara Charlie Chaplins frá 1914. Þetta er því ekki mynd af Franz Anton Nöggerath við tökur í Haukadal.
Ljósmyndirnar af Þingvallabænum, Heklu og Geysi síðar í greininni eru úr tveimur mismunandi röðum af glerskyggnum sem gefnar voru út á Englandi með ljósmyndum mismunandi ljósmyndara á 9. og 10 áratug 19. aldar. Fornleifur festi nýlega kaup á þessum og fleirum mjög sjaldgæfu skyggnum sem helstu sérfræðingar og safnarar Laterna Magica skyggna þekktu aðeins úr söluskrám fyrir skyggnurnar. Sagt verður meira af þeim von bráðar.
Franz Anton Nöggerath jr. til hægri við tökur í Þrándheimi í Noregi árið 1906 er Hákon konungur var krýndur.
Kvikmyndafornleifafræði | Breytt 18.4.2021 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýr var Denni ekki
7.3.2016 | 12:46
Sumt af því sem safnað er á Þjóðminjasafni Íslands er selt fyrir slikk á eBay. Ekki svo að skilja að Þjóðminjasafnið sé farið að selja út af Þjóðararfinum. Nei, nei svei mér þá, en safngeymslurnar líkjast æ meira skranverslun með 20. aldar gripum, meðan fjárlög fara í að gylla þjóðminjavörð með titlum. Á eBay er oft hægt að finna hluti sem kannski ættu frekar heima á Þjóðminjasafninu en pakki af Melrósate frá 1970. Maður veit þó aldrei hvað síðar meir verður þjóðmenning. Mat manna er mjög mismunandi. Sumir brenna fyrir einhverja nostalgíumenningu frá framsóknarheimili, þar sem uppskriftir húsmæðraskólanna voru a við boðorðin í Biblíunni. Fyrir aðra eru bensíndunkar stærri hluti af íslenskri menningu en koparristumyndir af íslenskum dýrum frá 18. öld sem ekki eru til á söfnum á Íslandi.
Sumar persónur verða einnig fljótt safngripir, og eiginhandaáritun þeirra fer fyrir morðfé. Söfn berjast meira að segja við að ná í jarteiknirnar eins og væri það táin af Kristi. Fólk borgar jafnvel aðgangseyri til að sjá hrafnasparkið þeirra eða borð sem brjálæðingur nokkur frá New York hefur teflt við fjandann við og talið flugur í lampanum yfir. Sá vitleysingur fékk íslenskan ríkisborgararétt að launum - eða var það gyðingahatrið sem var launað?
Ekki vissi ég fyrr en nýlega, að ótíndir íslenskir stjórnmálamenn, sem ekki komust á Bessastaði hefði látið ljósmynda sig til að senda aðdáendum um allan heim. Það var víst tilfellið. Nú er t.d. hægt að kaupa mynd af Steingrími Hermannsson Original, og eiginhandaráritun hans í kaupbæti á eBay. Þetta er til í Þúsundvatnalandinu og hægt að fá fyrir skitnar 171,73 danskar krónur sem gera tæpar 3243 freðkrónur á dagsgengi. Það er náttúrulega skítur á priki og ætti að vera sjálfsagður hlutur fyrir Framsóknar-Reichsstórsafnið við Suðurgötu að kaupa, ef Finnar vilja ekki varðveita portrettið af Denna. Ef Þjóðminjasafnið nær ekki í Denna gæti hugsast að danska sendiráðið kaupi og hengi myndina upp á gestasalerni sínu, þar sem Steingrímur lokaðist eitt sinn inni með vinveittri sendiherrafrú.
En óttalega er Denni nú billegur. Það hefur líklega kostað meira að láta prenta myndina og nota tíma í að árita hana en 3243 krónur. Þó hlýtur Denni að vera dýrari allur en 20 bréf af Melrósatei. Ég trúi ekki öðru. Ég vona að Þjóðminjasafni kaupi þennan dýrgrip, í það minnsta til að sýna framtíðinni hve uppi var typpið á sumum mönnum í landinu okkar á hjara veraldar.
Forngripir | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fjallagrasakókó og aðrar kerlingabækur
2.3.2016 | 08:09
Um miðbik 19. aldar var kynnt til sögunnar "algjör nýjung" í sölu kókós á Bretlandseyjum. Þá hóf Cadbury fyrirtækið í Birmingham að selja drykkjarkókó sem bætt hafði verið með fjallagrösum, það er Iceland Moss (Cetraria islandica) (sjá hér). Önnur fyrirtæki, eins og Fry's og Dunn og Hewett's fetuðu fljótt í fótspor Cadbury's.
Eins og stendur á Wikipediu, sem stundum er notuð sem auglýsingarfyrirtæki: "Rannsóknir á fjallagrösum (in vitro) benda til að virku efnin, fjölsykrur og fléttusýrur mýki slímhúð í hálsi og maga og auki líkamlegan styrk, andlegan og líkamlegan kraft og almenna vellíðan." Já, einmitt það! Það eru álíka áhrif og af Maltöli sem er mestmegnis sykurdrulla og litarefni.
Sölumennska er það líka þegar menn upplýsa um vöru sína að : "FJALLAGRASA ICELANDIC SCHNAPPS is a true Viking drink." Ekki tek ég nú undir það. Ekki kunnu víkingar að brenna vín og búa til 38% vínanda sem mun vera uppistaða þessa snaps. En hvað vita Kanar og aðrir einfeldningar sem kaupa þessa dýru dropa? Víst tel ég einnig að fjölsykrurnar og fléttusýrurnar í fjallagrösunum séu brotnar í spað af vínandanum og slímhúðin í hálsi og maga hafi ekki gott af honum heldur. Of mikið af snapsi getur einnig valdið vanlíðan eins og lengi hefur verið kunnugt.
Ætli fjallagrösin í kókói hafi verið nokkuð annað en sölutrikk á 19. öld? Það eru líklega miklu heilsusamari efni í kókóinu en í fjallagrösum.
Ég keypti mér rándýrar hálspastillur með fjallagrösum, síðast þegar ég fór um Leifsstöð. Þær virkuðu alveg eins .... og aðrar hálstöflur. Mentholið og sykurinn mýkir alltaf hálsinn.
En ef enginn er að búa til kókó eða súkkulaði með fjallagrösum í einhverri heildsölu út í bæ, þá er svo sannarlega kominn tími til að hefjast handa. Slímhúðir auðtrúa og kaupóðrar þjóðarinnar bíða spenntar eftir mýkingu - súkkulaðisins. Elexírframleiðendur nútímans er nefnilega bissnessnenn á stórum jeppum, en ekki einhverjar Grasa-Guddur.
Fornleifur hefur meiri trú á virkni hollra efna í kókói en í fjallagrösum, en þó ekki eins mikla og framleiðandi einn í Suður-Hollandi sem taldi inntöku súkkulaðistykkja sinna bestu leiðina til að stefna til friðar í fyrri Heimsstyrjöld.
Forndrykkir | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)