Falskir Íslendingar í Þýskalandi árið 1936

Eismennschen

Árið 1936 steig á fjöl frekar fölleitur leikflokkur í München. Leikflokkurinn kom fram á mörkuðum, kabarettum og á leikvöngum á Oktoberfest, þar sem þeir klæddust eins konar fornaldarklæðum. Íslenskur læknir, Eyþór Gunnarsson (1908-69), (afi Péturs súperbloggara Gunnarssonar), sem um þessar mundir var staddur í Þýskalandi, nánar tiltekið við nám og störf á eyrnadeild Háskólans í München, brá sér á kabarett og sá sýningu þessara listamanna. Eyþór Gunnarssyni ofbauð sýningin svo, að hann fór daginn eftir í danska konsúlatið í München og setti fram kæru vegna þessa hóps loddara sem sögðu sig vera Íslendinga.

Dr. Eyþór greindi frá því að flokkurinn kallaði sig "Eismännschen" (sem má víst útleggjast sem ísdvergar). Hann lýsti listamönnumum sem stríhærðu fólki með rauðleit augu. "Die ganze Aufmachung und die Primitivität der Darbietungen ist geeignet, bei den Zuschauern das isländische Volkstum herabzuwürdigen" var haft eftir íslenska lækninum. Ræðismaðurinn danski lét þegar rannsaka málið og skrifaði skýrslu, sem send var danska sendiráðinu í Berlín og utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn.

Rannsóknin leiddi í ljós, að um var að ræða 6 manna hóp og fékk ræðismaðurinn mynd af hópnum. Í ljós kom einnig að hópurinn kallaði sig ekki Eismännschen heldur Eismenschen (Ísfólk). Á kynningarspjaldi var sagt að hópurinn kæmi frá "Islands hohem Norden". Kynnir sýningarinnar tilkynnti hins vegar, að hér væri á ferðinni "blómaviðundur" frá Reykjavík. Það kostaði 10 pfenniga að sjá sýninguna. Ræðismaðurinn lét sig hafa það. Hópurinn kom svo fram á einföldu sviði og lék "Sunnuleiki" (Sonnenspielen), þar sem töfruð voru fram blóm svo að lokum varð úr blómahafinu Reykvískur blómagarður.

Eftir showið spurði ræðismaðurinn fyrirliða hópsins, hvort hann eða aðrir meðlimir væru í raun Íslendingar. Sagði fyrirliðinn, að foreldrar hans og forfeður hefðu verið Íslendingar, en að hann væri sjálfur Austurríkismaður. Hann bætti því við að allir í hópnum væru albínóar. Er kynnir sýningarinnar var spurður um uppruna hópsins, fór hann í fyrstu undan í flæmingi, en sagði að lokum að maður mætti ekki búast við neinni þjóðfræðilegri sýningu - það sem boðið væri upp á væru "Listir frá Norðurhöfum".

Ræðismaðurinn, sem greinilega hefur brosað út í annað munnvikið þegar hann skrifaði skýrslu sína, bætti við: "Sýning þessara albínóa gæti vel hugsast að gefa áhorfendum með litla þjóðmenningarlega þjálfun ranghugmyndir, en hins vegar verður að líta þannig á málið, að það er mjög lítill trúverðugleiki í sýningunni og að hana ber frekast að flokka undir töfrasýningu." Ræðismaðurinn lauk bréfi sínu til sendiráðsins í Kaupmannahöfn með því að skrifa: "Skylduð Þér, þrátt fyrir það sem fram er komið, óska eftir því að ég hafi samband við tilheyrandi yfirvöld hér í bæ, þætti mér vænt um að fá skeyti þar að lútandi."  H.P. Hoffmeyer í danska sendiráðinu taldi ekki neina þörf að eyða meiri tíma ræðismannsins í erindi Eyþórs Gunnarssonar, sem móðgaðist yfir blómasýningu sex albínóa í München árið 1936.

Þetta á ekki að verða lærð grein, en þess má þó geta, að albínóar þóttu gjaldgeng viðundur fyrir sýningaratriði í fjölleikahúsum fyrr á tímum. Hér að neðan er mynd af "hollenskri" albínóafjölskyldu, Lucasie, sem sagðist vera komin af negrum frá Madagaskar. Hið rétta var að herra Lucasie var frá Frakklandi, kona hans frá Ítalíu og sonurinn var fæddur í Hamborg. Hinn heimsþekkti bandaríski sirkusmaður Phineas Barnum, flutti þau með sér til Bandaríkjanna árið 1857. 

Allar frekari upplýsingar um austurrískan albínóa, son íslenskra hjóna, eru hins vegar vel þegnar.

Fam. Lucasie

Þessi færsla birtist fyrst árið 2007 á www.postdoc.blog.is

Heimildir voru sóttar á Ríkisskjalasafni Dana.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Á það sérstaklega við að fjalla um Jóhönnu Sig. á fornleifabloggi?

Kannski, já, ætti hún ekki að vera fyrir löngu komin í pólitíska úreldingu?

Jón Valur Jensson, 2.12.2011 kl. 11:14

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þetta var nú meinlaust post scriptum, en ef  þú og aðrir skilduð punktinn, þá komst pillan til skila.

Er ekki einhver dr. sem getur kvartað undan Íslandssirkusnum í ESB, líkt og dr. Eyþór rauk í Ísfólkið forðum?

FORNLEIFUR, 2.12.2011 kl. 12:12

3 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Eyþór Gunnarsson var faðir minn. Ég minnist þess raunar ekki að hann hafi talað um þetta, en hann og móðir min voru við nám í München á uppgangsárum Hitlers. Hann var þó, eins og ég afar lítið hrifinn af yfirgangi og blaðri nasista, þótt hann væri enginn vinstri maður.

Vilhjálmur Eyþórsson, 2.12.2011 kl. 12:12

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Svo eru fornleifafræðingar mjög pólitískir eins og kunnugt er, og greinin getur verið hápólitísk.

FORNLEIFUR, 2.12.2011 kl. 12:14

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, hvernig er t.d. með þessa Finkelmann og Silberstein, eða var það Silberstein og Finkelmann? Eru þeir ekki harla (and)kirkjupólitískir og gott ef ekki andgyðinglegir, Gyðingarnir þeir arna? Og var Marx nokkuð skárri?

Jón Valur Jensson, 2.12.2011 kl. 13:42

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Nafni, ég held að faðir þinn hafi verið þjóðernissinni af gamla skólanum, það kemur Hitleri ekkert við. Hann var vitleysingur.

FORNLEIFUR, 2.12.2011 kl. 13:57

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Jón Valur, ég þekki engan fornleifafræðing sem heitir Marx, en í kvöld ætla ég að borða Fienkelkraut.

FORNLEIFUR, 2.12.2011 kl. 13:59

8 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Mér sýnist raunar að þú sért hér að gefa í skyn að faðir minn hafi verið einhvers konar kjáni eða ofstækismaður. Ekkert er fjær sanni. Hins vegar vissu fæstir, víðast hvar í heiminum árið 1936, hvar Ísland var, hvað þá hverjir bjuggu þar. Þetta var fyrir tíma sjónvarps og nútíma fjölmiðlunar. Það er öruggt, að hvaða Íslendingi sem var hefði blöskrað að sjá þessa fáránlegu afbökun. Margir áhorfendur þessara viðundra hafa nefnilega örugglega farið heim í þeirri vissu, að einmitt svona litu Íslendingar út. Því eru viðbrögð hans ekki aðeins eðlileg, heldur beinlínis sjálfsögð.

Vilhjálmur Eyþórsson, 2.12.2011 kl. 23:21

9 Smámynd: FORNLEIFUR

Nafni minn, ég skrifa beint eftir því sem danska utanríkisþjónustan greinir frá málinu í sínum bréfum, og ekki er laust viða að þeir sjái það fyndna í málinu þegar þeir rannsökuðu það og sendu mann á vettvang. 

Því fer fjarri að ég sé að gefa í skyn að faðir þinn hafi verið kjáni. Það eru þín orð. Ég hefði gert það sama og hann hefði mér verið stætt að vera þarna á þessum tíma.

Ja, hér um árið kærði ég Ekstra Bladet í Danmörku til Statsadvokaten fyrir að setja alla Íslendinga undir einn hatt, þegar þeir lýstu því hvernig Íslendingar væru að taka yfir heiminn, eins og við værum kjánar og ofstækismenn. Þetta var fyrir hrun. Danska réttarkerfið vísaði kæru minni frá, þar sem talið var, eftir að haft var samband við Ekstra Bladet, að þeir meintu ekki alla Íslendinga. Skítablaðið kunni bara ekki að koma þessu nógu vel frá sér. Það mátti sem sagt fara með ósannindi um alla Íslendinga vegna afglapa nokkurra, sem gefur vitaskuld stefnuna þegar Danir fara á hausinn sjálfir, og er stutt í það.

Sjáðu svo hvað ég svara bróðursyni þínum, þegar greinin birtist fyrst. Ekki tók hann þetta svona stinnt upp.

Vissulega líta sumir Íslendingar út eins og listamennirnir í München forðum, sjáðu bara forsætisráðherrann okkar. Hún er vinsæl í ESB, þótt flestir séu búnir að fá leið á henni heima á Íslandi.

FORNLEIFUR, 3.12.2011 kl. 09:02

10 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Já, ég trúi því vel að Danirnir hafi hlegið að þessu. Þeir hafa alltaf litið niður á Íslendinga og í raun fyrirlitið þá. Þó er til fólk, sem ekki hefur mikið í höfðinu  (t.d. Vigdís), sem ímyndar sér að þeir séu einhvers konar „vinir“ okkar. Það var landhreinsun að Dönunum 1944 (þótt þeir hafi raunar á ýmsan hátt haldið áfram að mergsjúga okkur), en nú vilja landráða- kjánarnir í Samfylkingunni koma okkur aftur undir erlent, þ.á m. danskt vald.

Vilhjálmur Eyþórsson, 3.12.2011 kl. 13:00

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er ekki rétt að alhæfa svona um Dani, Vilhjálmur minn Eyþórsson.

Þeir sýndu okkur margir bræðrahug, og ekki tóku þeir allir afstöðu gegn Jóni Sigurðssyni. Íslenzkir námsmenn hefðu ekki haldið áfram að sækja til Kaupmannahafnar um aldir og einnig eftir 1918 og 1944, en þeir dönsku hefðu "alltaf litið niður á Íslendinga og í raun fyrirlitið þá".

Bræðrahugur þeirra birtist skýrt í skilum þeirra á handritunum, stórum hluta þeirra, –– ekki hafa nýlenduveldi eins og Bretar og Frakkar gert það sama í neinum sambærilegum mæli, jafnvel ekki gagnvart þjóðum eins og Ítölum, Grikkjum og Egyptum. Danir voru, að ég hygg, einna fyrsti til slíks (var það ekki um 1963?) –– vitaskuld að kröfu margra hér og í Danmörku og ekki með öllu án mótstöðu annarra þar, en þetta var niðurstaðan.

Það mætti kannski ganga lengra í því efni varðandi fornminjarnar –– ekki satt, doktor Vilhjálmur?

Jón Valur Jensson, 3.12.2011 kl. 15:34

12 Smámynd: FORNLEIFUR

Rétt er það Jón Valur, í Danmörku eru enn gripir í söfnum sem mörgum finnst að Dönum berið að skila til Íslands, en mér skilst að þegar samningurinn um handritin var gerður hafi menn afsalað sér réttinum til þess að biðja um annað í Danmörku. Spurningin er bara hvort það stenst.

Guðmundur Magnússon sagfræðingur var eitt sinn settur þjóðminjavörður en allt of stutt. Hann skrifaði eina, kannski tvær, greinar um þjóðararfinn í Þjóðminjasafni Dana, sem ég á einhvers staðar í möppu í kassa, uppi á lofti, en menn geta fundið greinina á tímarit.is

Svo minnir mig að stúdent í fornleifafræði við Háskóla Íslands hafi einnig tekið saman skrá yfir þessa gripi, út frá skrá Matthíasar Þórðarsonar og með því að fara til Kaupmannahafnar.

FORNLEIFUR, 4.12.2011 kl. 07:27

13 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi þekkingu Þjóðverja á Íslandi fyrrum þá vissu þeir mun meira um Ísland en mörg önnur fjarlæg lönd. Skipulagðar ferðir þýskra skemmtiferðaskipa hófust 1905 og stóðu yfir fram til 1939, með hléi 1914-18. Margir vísindamenn voru hér eins og fjölfræðingarnir Konrad Maurer og Andreas Heuschler sem rituðu fjölda bóka á þýsku tengdu Íslandi, jarðfræðingarnir Walter Knebel og Hans Reck fyrir rúmum 100 árum og margir fleiri. Jón Sveinsson, Nonni, var metsöluhöfundur í Þýskalandi á millistríðsárunum og sama má eiginleg segja um Gunnar Gunnarsson sem var vinsæll höfundur.

Það er því ekki rétt að Ísland hafi verið þýskum menningarlöndum með öllu ókunnug. En stjórn götustrákanna eftir 1933 afbakaði allt meira og minna, því miður.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 15.12.2011 kl. 22:52

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Í síðasta innleggi mínu átti vitaskuld að standa: "... EF þeir dönsku hefðu "alltaf litið niður á Íslendinga og í raun fyrirlitið þá".

Jón Valur Jensson, 16.12.2011 kl. 02:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband