Merkir fundir í Surtshelli

1173898_502988443123130_327174489_n

Kevin Smith, bandarískur fornleifafræðingur, sem einu sinni lenti í afar ógeðfelldri ófrægingarherferð vegna áhuga síns á Íslandi, er sem betur fer enn að vinna við fornleifarannsóknir á landi okkar. Herferð þeirri, sem ég skýri betur frá síðar, var stýrt af Thomas H. McGovern prófessor í New York sem skrifaði bréf út um allar jarðir til að koma í veg fyrir að Smith græfi á Íslandi og til að gera lítið úr menntun og getu Smiths sem fræðimanns. Kevin Smith varð því um tíma eins og útilegumaður meðal allra þeirra útlendinga sem stundað hafa fornleifafræði á Íslandi.

Því er gott að sjá að Kevin, sem ég hef kynnst lítillega, er á réttum stað, í Surtshelli, sem er örugglega staður þar sem útlagar og útilegufólk hafa alið manninn. Í sumar hefur Kevin Smith ásamt fríðu fylgdarliði gamalla karla fundið nokkra merka grip í mjög þunnu gólflagi í hellinum, m.a. krosslaga hlut.

644331_502078283214146_1160871092_n
"Krossinn" in situ

Velta menn því nú mjög fyrir sér á kjaftaklöpp verkefnisins hver kyns sé. Í fjölmiðlum hefur Guðmundur Ólafsson starfsmaður Þjóðminjasafnsins velt vöngum yfir því, hvort útilegumenn eða hellisbúar hafi verið kristnir eða ekki. Ég býst nú við því að Guðmundur sé þar að velta því fyrir sér, hvort "dótið", sem hann svo gjarnan kallar fornminjar, sé frá því eftir að Kristni var lögleidd á Íslandi eða fyrir þann tíma, þ.e.a .s. fyrir 1000, eða þar um bil.

Ég leyfi mér að hafa skoðun á þessu. Krossinn sem fundist hefur í hellinum er að mínu mati met (lóð) úr blýi til að setja á reislu (vog). Slíkir blýkrossar hafa fundist í leifum eftir norræna menn á Bretlandseyjum og að sjálfsögðu í Skandinavíu.

Kross úr blýi með innlagðri koparþynnu, sem er úr blýi, hefur t.d. fundist í heiðnu kumli í Vatnsdal í Patreksfirði sem ég hef skrifað um (sjá hér).

Krossinn í Surtshelli og hinir gripirnir, sem líklega eru líka lóð frá "víkingaöld". AMS-geislakolsgreiningar sem gerðar hafa verið á dýrabeinum úr hellinum sýna dvöl manna í hellinum um 900 e.Kr. Varast ber þó að taka AMS-aldursgreiningar bókstaflega, þar sem AMS-aldursgreiningar og hefðbundnar C-14 geislakolsaldurgreiningar gerðar á sömu fornleifunum (sýnunum) geta oft gefið mjög mismunandi niðurstöður, þótt að sýnin séu úr sama trénu, dýrabeininu eða mannabeini (Sjá hér).

1044553_481369718618336_1202190482_n

Mér þykir þó líklegt að þeir gripir sem fundist hafa í hellinum séu frá 10. öld og að þarna hafi Þorvaldur Þórðarson Holbarki, bróðir formóður minnar Herdísar Þórðardóttur (þau vöru tvö nítján barna Friðgerðar sem var barnabarn Kjarvals Írakonungs og Höfða-Þórðar Bjarnasonar og líklega tvíburar), týnt metum sínum. Þorvaldur fæddist samkvæmt mér langtum fróðari mönnum árið 915, eða eins og segir í Landnámu (Sturlubók):

Þorvaldur holbarki var hinn fjórði [son]; hann kom um haust eitt á Þorvarðsstaði til Smiðkels og dvaldist þar um hríð. Þá fór hann upp til hellisins Surts og færði þar drápu þá, er hann hafði ort um jötuninn í hellinum. Síðan fékk hann dóttur Smiðkels, og þeirra dóttir var Jórunn, móðir Þorbrands í Skarfsnesi.

Fornleifafræðingarnir í Surtshelli kalla Þorvald af ókunnum ástæðum Þorkel og segja hann líka "hólbarka". En segjum nú (í gamni) að þetta séu met Þorvaldar ættingja míns. Þá hefur hann verið þarna um 935-40, á bestu árum sínum í sönglistinni og drápuflutningi, enda annálaður hálfírskur tenór. Hvaðan haldið þið að söngást Skagfirðinga sé annars ættuð? 

Þetta er spennandi rannsókn hjá Kevin og Co., en þekking manna á því menningarlega umhverfi sem þeir eru að rannsaka mætti oft vera aðeins meiri en raun ber vitni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Minnir mig á söguna af Seifi og Pan og tónlistarkeppni þeirra á millum, sem Krösus var látinn dæma illu heilli (han dæmdi Pan í vil og uppskar að launum asnaeyru frá Seifi).

Skyldi Þorvaldur hafa viljað meta drápuna til fjár? Voru mælingarmenn í för með honum, sem lögðu lóðið á vogarskálarnar á meðan Þorvaldur flutti drápuna? Eflaust hefur hljómburður þessa mikla hellis freistað hans! Og kannski hefur honum þótt lóðið full þungt í samanburði og fleigt því að mælingum loknum.

Brynjólfur Þorvarðsson, 23.8.2013 kl. 12:04

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þú ert gersemi Brynjólfur og áhugaverð þykir mér samlíkingin við Seif og Pan. Þótt Landnámabók segi Þorvald Hobarka hafa kvænst, var altalað í fjölskyldunni að hann væri ragur eða argur. Var Pan það ekki líka?

FORNLEIFUR, 23.8.2013 kl. 12:16

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Pan

Svona var Pan nú líka, en ekki veit ég til þess að Þorvaldur Holbarki hafi stundað þessa leiðu iðju.

FORNLEIFUR, 23.8.2013 kl. 12:22

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þú segir "mjög þunnu gólflagi". Hvernig ákvarða menn gólflög í helli þar sem menn og fé hafa haft bólfestu um aldir? Ég á við ólíkt þvi þar sem öskulög t.d. afmarka tímasetninguna.

Ragnhildur Kolka, 23.8.2013 kl. 15:32

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Já Ragnheiður, þunnt gólf segja þeir hellisbúar sem húkt hafa yfir minjunum í skútanum. Þetta er mjög góð spurning. Ég ætlaði í "fyndni" að spyrja þá hvort þeir fyndu einhver gjóskulög, en hætti við það. Þeir eru náttúrulega blessunarlega lausir við þau. Aldur hraunsins er líka vel þekktur, sem útlokar allt raus í fólki sem vill hafa kelta og Papa út um alt og helst í hellum.

Nú virðist sem búseta hafi verið þarna í öndverðu og ekki aftur fyrr en á 17. og 18. öld. Mér sýnist af ljósmyndunum að sótlagið líkist flestum gólflögum sem ég hef séð í rústum á Íslandi. Það hlýtur að hafa dregið úr lífslíkum fólks. Ef það hefði ekki andað að sér reyk og sóti hefðu forfeður okkar líklega vel geta orðið 110 ára.

Eina leiðin sem þeir hafa án t.d. Landnámslagsins er að treysta AMS-geislakolsaldursgreiningum. Þær líta ljómandi vel út miðað við þá forngripi sem fundist hafa, þótt gripina sé ekki hægt að aldursgreina með vissu. Frásaga Landnámabókar smellpassar, fyrir utan jötuninn, sem er fyrst og fremst trúaratriði. En miðað við þær hamfarir sem þarna hafa átt sér stað er ekki að undra að trú Íslendinga á tröll, jötna og vætti hafi fengið byr undir báða vængi.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 24.8.2013 kl. 04:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband